29.03.1977
Sameinað þing: 71. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2971 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leiðrétta það, sem fram kom hjá hæstv. viðskrh., að ég hafi ekki farið með rétt mál áðan. Allt, sem ég sagði var með fyrirvara vegna þess að ég hafði ekki aðgang að opinberum gögnum, það taldi ég upp, en það, sem ég sagði þar fyrir utan, var rétt. Ummæli, sem höfð voru eftir mér, voru slitin úr samhengi við annað sem ég sagði, en það er ekkert rangt í því sem ég sagði. Tilefni þess, að ég taldi mig ekki geta fjallað um þau atriði sem ég taldi upp, voru upplýsingar sem komu fram hjá bankaráðsmanni, hv. 3. þm. Suðurl., þegar hann talaði um stöðu bankans og hag eins og hann stendur í dag. Ég gerði fsp. um hvernig stæði á með aðrar ráðstafanir sem ég vissi ekki nákvæmlega hvort hafi verið gerðar eða ekki, til þess að vita það þyrfti ég að fá aðgang að skýrslum og þar með trúnaðarskýrslum milli Seðlabankans og bankanna almennt. Það þarf að athuga margt: Hvaða tryggingar eru bak við útlán. Því hærri sem þau eru, þeim mun nauðsynlegra er að vita það. Um þessi mál vil ég ekki fjalla nú vegna þess að ég hef ekki nógu miklar upplýsingar um þau.

Hitt er annað mál, að hæstv, ráðh. gat um að það væri ofmælt hjá mér að Útvegsbankinn væri settur í ramma. Þetta eru ummæli sem ég tók upp eftir hv. 3. þm. Suðurl. sem er bankaráðsmaður Útvegsbankans. Í upphafi þessara umr. talaði hv. þm. um, að Útvegsbankanum væri settur rammi. Það er ekki misskilningur, það skrifaði ég orðrétt og við getum hlustað á það af segulbandinu á eftir.

Það er líka rétt hjá hæstv. ráðh., að bankarnir lúna ekki annað fé út en sparifé og þess vegna geta þeir ekki gert öllum skil. Ég reikna með að hann eigi þá við fyrirtæki, sem ég gerði að umræðuefni, og einstaklinga. En þegar sparifé landsmanna er bundið að því marki sem spariféð er bundið samkv. ákvörðun Seðlabanka Íslands og rennur svo út bakdyramegin yfir í opinberar framkvæmdir í gegnum ríkissjóð, þá er fyllilega ástæða til þess að athuga hvernig stendur á þessum ráðstöfunum Seðlabankans að hefta sjálfstæði bankanna, hefta aðgang einstaklinga og fyrirtækja að því vinnufé, þeim vinnutækjum, sem sparifé landsmanna er til nota fyrir ríkissjóð í opinberum framkvæmdum. Það er ekkert ofmælt og ekkert ofsagt í þessum ummælum mínum. Það vita allir, að bundið sparifé hefur flætt til opinberra framkvæmda, það sýna reikningar ríkissjóðs um yfirdrátt í Seðlabankanum um hver áramót, og ég get ekki ímyndað mér að nokkur láti sér detta í hug að ég fari þar með rangt mál.

Hæstv. ráðh. telur að ég sé svartsýnn á fjármál þjóðarinnar. Ég er það, það er alveg rétt. Ef við höldum áfram að taka 20 milljarða kr. erlend lán á hverju ári, 1600–1700 millj. á mánuði, og ef það deilist niður í vinnustundir miðað við 8 stunda vinnudag, þá eru það milljónatugir á hverri einustu vinnustund, og ég hef áhyggjur af því. Það er ekkert ofmælt hjá hæstv. ráðh., að ég er svartsýnn á slík vinnubrögð. Það var ekki heldur rangt hjá mér þegar ég fór með töluna um yfirdráttarsektarvexti. Ég heyrði hana ekki í fyrsta sinn hjá hv. 3. þm. Suðurl. núna, ég er búinn að heyra hana margoft og víða. Yfirdráttarvextir, sem Útvegsbankinn og aðrir bankar og peningastofnanir verða að greiða, eru á milli 30 og 40%. Hv. þm. staðfesti það í sínum upphafsorðum. Ekki fer ég með rangt mál þar.

Ég er því miður ekki alveg sammála hæstv. ráðh. að bankaráðin eigi að vera einhvers konar pólitískir upplýsingaaðilar fyrir þingflokkana. Ég er á þeirri línu, skulum við segja, að a. m. k. ríkisstj., helst Alþ., eigi að fá öll mál Seðlabankans, sem geta verið stefnumótandi í ráðstöfunum, til umfjöllunar. Það er sjálfsagt að fjalla um þau, eins og lög gera ráð fyrir, á lokuðum fundum Alþ. ef þau eru þess eðlis. En það hefur ekki verið haldinn lokaður þingfundur síðan ég kom til þingsetu, en ég minnist þess að það kom fyrir þegar ég var hér þingsveinn. Að vísu var ekki Seðlabankinn til þá. Þá voru slík trúnaðarmál rædd hér á lokuðum fundi. En það er sárt að þurfa að horfa upp á það að ríkisstofnun, sem hefur notið og nýtur enn þá virðingar, sérstaklega hér í höfuðborginni, þar sem hún hefur aðalstöðvar, en einnig úti um land allt, skuli vera í þeirri klemmu og þeim vanda sem hún er í og það ekki af neinu öðru en mannlegum ráðstöfunum. Það er ekki neitt sem hefur dottið af himnum ofan á Útvegsbankann einan. Þetta eru mannlegar ráðstafanir og ég vil segja mannleg mistök einhvers staðar.

Ég vil að sjálfsögðu taka undir það sem réttan málflutning hjá ráðh., að það á ekki að verðlauna vanskilamenn. Hitt er annað mál, að bestu menn eru orðnir vanskilamenn og bestu fyrirtæki standa höllum fæti, og ég vil láta athuga hvernig stendur á því. Við erum ekki að tala um neina vanskilamenn þegar við erum að tala um stórfyrirtæki. Við erum að tala um fyrirtæki í vanda, og ég vil vita af hverju þessi vandi er orðinn svona útbreiddur.

Það skapast eflaust önnur tækifæri, e. t. v. með tillöguflutningi um endurskoðun á lögum um Seðlabankann, til þess að ræða þessi mál almennt, svo að ég skal ekki halda mig fast við að þessum umr. verði frestað. Hv. 3. þm. Suðurl., bankaráðsmaður Útvegsbankans, hóf umr. Ég tók þátt í þeim vegna þess að í ummæli mín var vitnað á opinberum vettvangi og varð til að hleypa þessari skriðu og umtali af stað. En ég vil segja að það er öfugþróun ef peningastofnun eða fyrirtæki kemst í vandræði og jafnvel í óleysanlegan vanda eftir því sem viðskiptavinirnir verða stærri og að maður skyldi halda traustari. Við erum að tala hér um vanda Útvegsbanka Íslands sem hefur haft því hlutverki að gegna að hafa viðskipti við undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Og ef undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar eru þannig á sig komnir að sú peningastofnun, sem þeir skipta við og þeim er gert að skipta við, þolir ekki fjárfestinguna eða þolir ekki viðskiptin við undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, þá held ég að við hljótum að vera sammála um að það er eitthvað í ólagi einhvers staðar. Og það er okkar að finna vandann og leysa hann.

Ég er ekki sammála hv. 2. þm. Austurl., að það eigi að sameina Útvegsbankann öðrum bönkum. Ég held að það sé ekki rétt. Ég held að það sé rangt. En ég er sammála honum um að það þarf að gera á einhverjum vettvangi einhverjar aðgerðir til þess að hann komist úr þessum vanda sem hann er í. Það þarf að leysa hann úr þessum vanda, hvernig sem að því er farið. En það þarf fyrst og fremst að finna hvar meinið liggur. Og meinið liggur langt í burtu frá Útvegsbanka Íslands.