29.03.1977
Sameinað þing: 71. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2973 í B-deild Alþingistíðinda. (2156)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að fara að ræða hér efnahagsmál frekar en aðrir þm. sem til máls hafa tekið. En þar sem ég var um alllangt skeið bankastjóri í Útvegsbankanum, þá finnst mér hins vegar ekki úr vegi að hér sé lögð nokkur áhersla á aðalatriði sem fram hafa komið í þessum umr. og skipta Útvegsbankann verulega miklu máli.

Þegar ég var bankastjóri í Útvegsbankanum og var á ferðalögum erlendis og í viðskiptum við erlenda banka, þá lagði ég ríka áherslu á að ég væri bankastjóri einmitt Útvegsbanka Íslands sem væri banki undirstöðuatvinnuvegar í landinu. En það vill svo til að það hljómar allt öðruvísi í útlöndum að vera Útvegsbanki Íslands heldur en það hljómar á Íslandi, og þó viðurkenna allir að sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. En það er frekar að hann fæli frá heldur en laði að Útvegsbankanum sparifjársöfnun, eins og málin hafa verið rekin að undanförnu og eins og fjallað hefur verið um þessi mál. Erlendis naut bankinn og nýtur fyllsta trausts einmitt vegna þess að hann var Útvegsbanki og er Útvegsbanki landsins.

En svo vil ég aðeins að menn athugi hvað gerst hefur síðustu árin. Það hefur verið stofnaður Iðnaðarbanki. Það hefur verið stofnaður Samvinnubanki. Það hefur verið stofnaður Alþýðubanki. Hver bankastofnunin hefur rekið aðra, og það gátu menn séð fyrir fram að hlaut að hafa einhver áhrif á sparifjársöfnunina hjá þeim bönkum sem fyrir voru. Og það er auðvitað réttilega bent á það af hæstv. bankamrh. að um spariféð slást bankarnir að vissu leyti vegna þess að þeir nota auðvitað sparifé í sinni veltu til þess að lána það út öðrum.

Það er ekki aðeins að það hafi verið stofnaðir þarna nýir bankar í landinu, heldur er það einnig svo, að á síðustu árum hefur það verið svo að Útvegsbankinn hefur varla fengið nokkurt útibú. Ég held að á s. l. 12 árum eða þar um bil hafi bankinn fengið að setja upp þrjú útibú. Á sama tíma hefur t. d. Búnaðarbankinn, sem er ríkisbanki líka, sett á stofn eitthvað 10 útibú. Hverjir ráða því hvort banki fær að setja upp útibú eða ekki? Ég held að landbrh. ráði því hvað Búnaðarbankinn setur upp af útibúum og iðnrh. hafi einnig ráðið því hvað Iðnaðarbankinn hafi sett upp af útibúum. Eftir því sem hæstv. ráðh. sagði áðan, er eitthvað verið að ráða bót á þessu núna, enda er þess auðvitað mikil þörf því að það er ekki nóg að bæði séu stofnaðir nýir bankar í landinu og einnig að útibúum sé ákaflega misskipt á milli bankanna. Auðvitað ætti það að vera hlutverk Seðlabankans að ákveða útibúin í samræmi við stöðu bankanna yfirleitt. En þessu hefur verið öðruvísi varið hjá okkur.

En það, sem mestu máli skiptir, er það, sem hefur komið fram hjá ráðh. og hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni og hv. þm. Guðlaugi Gíslasyni, að það er alveg fráleit fjarstæða að vera að tala um Útvegsbankann sem eitthvað nálægt því að vera gjaldþrota, — banka sem er eignalega mjög vel stæður, þó að hann hafi lent í einhverjum greiðsluvandræðum vegna þess hvernig atvinnuvegirnir hafa verið reknir og hvernig búið hefur verið að öðru leyti að þeim sem hafa þurft að verja mestu fé til útlána til útvegsins, sem eru Útvegsbankinn og Landsbankinn.

Ég vil aðeins taka það fram, að það er rétt sem sagt hefur verið, að hv. þm. Albert Guðmundsson telur að ummæli hans hafi verið eitthvað mistúlkuð. Engu að síður hafa þau komist á prent með þeim hætti að þau komast ekki aðeins á prent hér heima, heldur fara þau til útlanda og hafa áhrif á afstöðu erlendra banka til bankamálanna hér. Og það er auðvitað sorglegt að vita til þess að það skuli verið að tala um gjaldþrot hjá banka, sem er jafneignalega vel stæður og Útvegsbankinn er. Slíkt nær auðvitað ekki nokkurri átt. Það er alveg rétt, sem menn hafa bent á, að það er ekki hægt að ræða almennt um bankana í þessum umr., á þessum vettvangi.

Ég vil taka fram að Útvegsbankinn ætti í raun og veru frekar að njóta trausts til þess að vera viðskiptabanki útvegsins. En því miður er það nú þannig, að það eru ýmsir hér á landi sem eru e. t. v. feimnir við það að útvegurinn er svo og svo illa stæður, og það hefur áhrif á hvort menn vilja leggja sparifé inn þar. Meðan ég var í Útvegsbankanum hafði Útvegsbankinn mest sparifé næst Landsbankanum. Hitt er svo ósköp eðlilegt, að Búnaðarbankinn hafi aukið sparifé sitt meira en Útvegsbankinn, m. a. vegna þess að Búnaðarbankinn hefur sett upp útibú hér og þar og byggt stærðarbankahús hér og þar um landið á sama tíma sem Útvegsbankanum hefur verið meinað slíkt af Seðlabankanum, því að hann er ríkisbanki, þarf að sækja til Seðlabankans um útibú, sem hinn bankinn þarf ekki. Mér finnst að menn verði að átta sig á þessu og það sé ósköp eðlilegt að menn ræði um þá óeðlilegu vexti sem talað hefur verið um hér í umr. En menn mega engan veginn, vegna þess hver áhrif það getur haft í sambandi við viðskiptamenn bankans hérlendis og erlendis, ræða um nokkurt gjaldþrot í sambandi við banka sem er jafnvel stæður og Útvegsbankinn er eignalega, enda þótt hann hafi átt í þessum vissu erfiðleikum sem bent hefur verið réttilega á hér í umr. að eru tímabundnir og oft árstíðabundnir, vegna þess að útgerðarlánin eru lánuð á vissum tíma og greiðast svo upp á öðrum tíma ársins og þá kannske jafnast alveg út það sem lánað hefur verið til útvegsins. Svo má auðvitað ekki gleyma því, að það var auðvitað geysilegt áfall fyrir Útvegsbankann, eldgosið í Vestmannaeyjum, því að það er staðreynd að útibúið í Vestmannaeyjum var eitt af stærri og meiri háttar útibúum Útvegsbankans.

Það er ákaflega erfitt að deila um aðstöðu bankanna, bæði hér á Alþ. og einnig í hlöðum, og sérstaklega er það mjög varhugavert og ég vil sérstaklega gjalda varhug við því ef tekin eru úr sambandi orð manna um aðstöðu bankanna og þau ekki skilin á réttan hátt, hvar menn í raun og veru telja að erfiðleikarnir liggi. Ég tel nauðsynlegt að bæta úr erfiðleikum Útvegsbankans í sambandi við þau vaxtamál. sem rætt hefur verið um, og þá er það einnig eðlilegt, eins og nú er komið, þegar bankar eru fyrir alla atvinnuvegi landsins, að fleiri bankar hafi útvegsmálin og láni til útvegsins heldur en bara Útvegsbankinn og Landsbankinn. Búnaðarbankinn lánar að sjálfsögðu eitthvað til landbúnaðarins, en ég held ekki neitt til útvegsins, a. m. k. mjög lítið. Sannleikurinn er sá, og auðvitað varð ég var við það á sínum tíma eftir að þessir nýju baukar fóru á flot, að það vildi til að menn nytu aðstoðar þessara banka gegn því jafnvel að leggja inn hjá þeim sparifé sem þeir sóttu úr Útvegsbanka og fengu lán út á hjá þessum nýju bönkum. Finnst mér rétt að menn geri sér grein fyrir og athugi þær myndir sem ég nú hef bent á. Hitt er svo annað mál, að það er auðvitað á öðrum vettvangi sem skoða ber bankalöggjöfina í heild, bæði vegna viðskiptabankanna og Seðlabankans, og ég skal ekki frekar orðlengja á þessu stigi málsins um þessi mál nú.