29.03.1977
Sameinað þing: 71. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2975 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja nokkur orð við þessa umr., því að hér er verið að tala um mjög virðulega og góða stofnun í íslenskum sjávarútvegi og fiskiðnaði sem er Útvegsbanki Íslands. Það er rétt, sem sagt hefur verið af hinum gætnari mönnum hér í umr., að það er ekki sama hvernig talað er um bankastofnanir, fjármál þeirra og afkomu. Hér er um mjög viðkvæm mál að ræða, bæði fyrir viðkomandi stofnanir og einnig þá sem eiga viðskipti við þær stofnanir sem um er rætt. Getur það jafnvel skipt sköpum fyrir þá, sem eiga viðskipti við viðkomandi banka, og einnig bankana, hvernig um þessi mál er fjallað.

Rétt er að undirstrika, bæði vegna þess banka, sem hér er til umr., og þeirra aðila, sem eru helstu viðskiptavinir bankans, þ. e. fyrirtækja í sjávarútvegi og fiskiðnaði og einnig mikils fjölda verslunarfyrirtækja, að Útvegsbankinn á fyrst og fremst við tímabundna erfiðleika að stríða sem stafa í fyrsta lagi, eins og sagt var hér áðan, af tímabundnum ástæðum, sem eru tengdar sjávarútvegi, og staðbundnum erfiðleikum, og mun ég koma nánar að því á eftir, og svo í öðru lagi stafa erfiðleikar þessa banka af því að Útvegsbankinn varð sérstaklega illa úti vegna eldgoss í Vestmannaeyjum. Það er alþjóð kunnugt og engum kunnugra um það en hv. frummælanda þessarar umr., Guðlaugi Gíslasyni.

Mér finnst rétt að undirstrika það, að hvora tveggja þessara erfiðleika er hægt að leysa og leysa með þeim hætti að bæði bankinn og viðskiptavinir bankans geti vel við unað. Ef það er haft í huga, að Útvegsbanki Íslands hefur verið aðalbanki Vestmannaeyja um áraraðir og er enn, og einnig ef það er haft í huga, hvað eldgosið hafði mikil og neikvæð áhrif fyrir afkomu þessa banka og hvað raunverulega var lagt mikið á þessa einu stofnun meðan á gosinu stóð og síðan, þá þrengist umræðan raunverulega niður í það, hvort raunverulega hafi verið rétt að staðið í sambandi við uppgjörið í tengslum við eldgosið í Vestmannaeyjum. Var rétt metið hvernig farið var í bætur gagnvart fyrirtækjum og bæjarsjóði Vestmannaeyja? Ég vil leyfa mér að fullyrða að svo hafi ekki verið. Það er m.a. vegna þessa sem þessi stofnun á við erfiðleika að etja og einnig Vestmannaeyjabær og fyrirtækin í Vestmannaeyjum. Við, sem höfum unnið við sjávarútveg og fiskiðnað, vitum að fyrirtækin í Vestmannaeyjum fengu sínar bætur á allt öðru verðlagi heldur en þau urðu að byggja sig upp á ný, þ. e. a. s. kostnaðurinn við að byggja fyrirtækin upp aftur var mun meiri heldur en ráð var fyrir gert. Þetta hefur auðvitað komið mjög þungt niður á Útvegsbankann sem aðalfyrirgreiðslustofnun fyrirtækjanna í Vestmannaeyjum. Skuldbindingar bankans við sjávarútveg eru miklar og fyrrv. sjútvrh. Lúðvík Jósepsson sagði m. a. að það gæti verið að hlutfall Útvegsbankans vegna sjávarútvegsins væri stærra en bankinn réði við. Um það er ég ekki dómbær. Ég sit ekki í bankaráði Útvegsbankans, og allt það sem ég get sagt í þessari umr. er byggt á því, sem hér hefur fram komið, og því, sem ég þekki úr fiskiðnaðinum.

Það er vitað mál, að afkoma fyrirtækja í sjávarútvegi og fiskiðnaði á undangengnum árum hefur verið mjög misjöfn eftir því í hvaða landshluta fyrirtækin eru. Mér er ekki kunnugt um það umfram það sem ég þekki til Vestmannaeyja, hvaða fyrirtæki t. d. á Suðvesturlandssvæðinu eru einkum í viðskiptum við Útvegsbankann. En ef mikill fjöldi þeirra er í viðskiptum við þennan banka, en tiltölulega færri aftur á móti í viðskiptum við Landsbankann, geri ég ráð fyrir að þarna sé líka hluti af skýringunni á erfiðleikum Útvegsbankans, þ. e. a. s. að vegna erfiðleika fyrirtækja á Suðvesturlandssvæðinu hafi það komið hart niður á Útvegsbankanum.

En það, sem mér hefur fundist vanta í þessa umr. af hálfu allra þeirra sem hafa rætt um vandamál Útvegsbankans, er eitt atriði í sambandi við lausn á þessu vandamáli eða þessum erfiðleikum. Það hefur komið fram að til greina kæmi að sameina bankann öðrum bönkum. En Það mun skorta á nægjanlegt fylgi til þess að svo sé hægt. Það hefur verið talað um að Útvegsbankinn þyrfti að setja upp fleiri útibú. Getur það verið góðra gjalda vert ef þörf er fyrir útibú þar sem þau koma til greina. Það hefur einnig verið talað um að það yrði greitt fyrir aðgerðum sem fælu í sér flutning á hluta af viðskiptum Útvegsbankans yfir til annarra banka. Mér finnst vanta hér inn í tvö mjög veigamikil atriði sem ég held að hljóti að vega miklu þyngra heldur en allt það sem nefnt hefur verið hingað til. sem eru þau, að á meðan ekki hefur verið gengið frá lokauppgjöri vegna Vestmannaeyjagossins, bæði við Vestmannaeyjabæ og vegna þeirra fyrirtækja sem menn hafa orðið að byggja þar upp og reka áfram, þá er ekki komin viðeigandi lausn á þessum málum. Mín skoðun er sú, og ég set hana hér hiklaust fram, að það þurfi að afskrifa einhvern hluta þeirra skulda sem hvíla á lánastofnunum og Vestmannaeyjakaupstað vegna eldgossins.

Það er raunverulega og áreiðanlega stærsti hluti þess vandamáls sem snýr að Útvegsbankanum og okkur öllum hv. þm. hér um leið. Þá þarf að breyta skammtímalánum, sem þessir aðilar hafa þurft að taka á sig á því verðbólgutímabili sem hér hefur verið allt frá því að gosið hófst og til dagsins í dag, það þarf að breyta skammtímalánum, sem þessir aðilar þurftu að taka á sig, yfir í lengri tíma lán. Ég er sannfærður um það, að ef þetta væri gert og gengið þannig frá lokauppgjöri að vestmannaeyingar sitji við hreint borð og þjóðin geri þá réttstæða, þannig að þeir standi jafnvel að vígi og þeir stóðu fyrir gosið, þá er ég sannfærður um að stærsti hluti vandamáls Útvegsbankans er úr sögunni og þá mun Útvegsbankinn geta þjónað sjávarútvegi og fiskiðnaði vel, jafnvel og hann gerði fyrir eldgosið. Þær aukakvaðir, sem á þessa stofnun voru lagðar umfram það sem aðrar stofnanir þurftu að axla vegna eldgossins, verður að leysa. Það verður að létta þeim af Útvegsbankanum og einnig vestmannaeyingum og einnig þeim fyrirtækjum sem hér eiga hlut að máli.