29.03.1977
Sameinað þing: 71. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2977 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

Umræður utan dagskrár

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. eða leiðrétting. Það kom fram hjá hv. 12. þm. Reykv., að hann hafði skilið orð mín svo að ég hefði haldið fram að Útvegsbankanum hefði verið settur einhver annar rammi af Seðlabankanum heldur en öðrum í bankakerfinu. Þetta er annaðhvort misheyrn eða misskilningur. Það, sem ég sagði um þetta, var á þessa leið: Sú skylda er lögð á herðar bæði Landsbankanum og einnig Útvegsbankanum að veita bátaflotanum hin svokölluðu útgerðarlán sem á hverjum tíma eru innan ramma sem settur er í samráði við Seðlabankann. Ég minntist aðeins á þetta eina atriði, að útgerðarlánin til bátanna eru sett innan ramma sem bankarnir koma sér saman um að höfðu samráði við Seðlabankann. Þegar ég tala um ramma, þá á ég við það, að þar væri um að ræða mishá lán vegna stærðar skipanna. Það var þetta sem ég talaði um, en ekki að Útvegsbankanum hafi verið settur annar rammi af Seðlabankanum heldur en er almennt í bankakerfinu.