29.03.1977
Sameinað þing: 71. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2977 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

181. mál, landbúnaðaráætlanir

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :

Herra forseti. Á þskj. 365 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. um landbúnaðaráætlanir. Fsp. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað líður undirbúningi landbúnaðaráætlana fyrir Vatnsnes og Skaga?“

Tilefni þessarar fsp. er í sem skemmstu máli að hinn 29. okt. 1974 var haldinn fundur á Hvammstanga til þess að ræða þörf fyrir landbúnaðaráætlun í Kirkjuhvamms- og Þverárhreppum. Þennan fund sóttu bændur úr þessum tveimur hreppum, það sóttu hann einnig fulltrúar frá Búnaðarsambandi Vestur-Húnavatnssýslu, og Hvammstangahreppi. Þangað kom sýslumaður Húnavatnssýslu, landnámsstjóri, fulltrúar Fjórðungssambands norðlendinga og fulltrúi frá Framkvæmdastofnun ríkisins. Á þessum fundi var samþykkt að fara þess á leit við Fjórðungssamband norðlendinga að það beitti sér fyrir að gerð yrði landbúnaðaráætlun fyrir Vatnsnessvæðið, og í framhaldi af því hóf Landnám ríkisins söfnun á frumgögnum varðandi ástand búnaðarmála í þessum tveimur hreppum. Þegar sú gagnasöfnun var nokkuð á veg komin var skipuð af hæstv. landbrh. svokölluð landbúnaðaráætlananefnd, og hefur sú n. haft með höndum framkvæmd landbúnaðaráætlana síðan.

Með sama hætti og hér er um rætt var hinn 18. okt. 1975 haldinn að Blönduósi fundur um landbúnaðaráætlun fyrir Skagasvæðið og fyrst og fremst fyrir Skagahrepp og Skefilsstaðahrepp og hluta Vindhælishrepps. Á þessum fundi mættu sveitarstjórnir og bændur af þessu svæði og fulltrúar samtaka með sama hætti og á Hvammstangafundinum og auk þess fulltrúi frá landbúnaðaráætlananefnd. Einnig þar var þess farið á leit að gerð yrði sérstök landbúnaðaráætlun fyrir þetta tiltekna svæði. Eftir að þessar samþykktir hafa verið gerðar hefur harla lítið heyrst um framvindu þessara mála og ekki vitað hvort eitthvað er að þeim hugað. En þess má geta í leiðinni, að úr mínu kjördæmi hafa einnig komið fram óskir um landbúnaðaráætlun fyrir austurbyggðir Skagafjarðar, en þeirri málaleitan má telja að hafi verið hafnað að sinni af landbúnaðaráætlananefnd. Þess vegna hef ég ekki spurst fyrir um framkvæmdir á því svæði einnig hér.

Í framhaldi af þessum orðum er rétt að láta þess getið, að það er alls ekki að ófyrirsynju að þess er óskað að sérstakar landbúnaðaráætlanir verði gerðar fyrir þessi tvö byggðarlög sem þarna eiga hlut að máli. Þau byggðarlög eru að búsetu til fremur veik. Byggð er strjál og hefur verið að gisna á undanförnum árum. Það er mikið fámenni á einstökum jörðum og mikil hætta á því að byggð grisjist þar meir en orðið er ef ekki verður brugðið við með sérstakar ráðstafanir. Það er einnig þegar farið að bera á því að nokkuð mikilla vonbrigða gæti hjá fólki á þessum svæðum vegna þess hversu lítið hefur áunnist í því að vinna að framkvæmd þessara áætlana sem hér er spurst fyrir um.

Nú skal ég ekki hér fara út í að rekja stöðu þessara svæða að neinu marki og geyma mér það þá til seinni tíma. En við setningu Búnaðarþings í vetur minntist hæstv. landbrh. á landbúnaðaráætlanir. Hann gat þess að samþykkt hefði verið að hefja áætlun um uppbyggingu í Árneshreppi á Ströndum samkv. tillögum landbúnaðaráætlananefndar í framhaldi af því sem unnið hefur verið að við Inn-Djúpsáætlun og Hólsfjallaáætlun. Í framhaldi af þessum orðum hæstv. ráðh. sagði hann að til athugunar væru nú svæði á Vesturlandi: Mýrum, Snæfellsnesi, í Dölum, og á Norðausturlandi með tilliti til áætlanagerðar og hefði rn. fyrir sitt leyti samþykkt að í það verði ráðist.

Mér þótti ástæða til vegna þessara ummæla og einnig vegna þess, hve dregist hefur að unnið væri að undirbúningi og gerð áætlana fyrir Vatnsnessvæðið og Skagasvæðið, að spyrjast fyrir um það, hvernig þessum málum væri háttað. Í framhaldi af því má bæta því við, hvort á að skilja orð hæstv. ráðh. við setningu Búnaðarþings á þá lund, að önnur svæði hafi þarna verið tekin fram yfir eða e. t. v. þau svæði sem hæstv. ráðh. nefndi þar sérstaklega.

Þessar skýringar ætla ég að láta nægja með þeirri fsp. sem hér er beint til hæstv. ráðh.