29.03.1977
Sameinað þing: 71. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2982 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

181. mál, landbúnaðaráætlanir

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og réttilega var fram tekið af hálfu fyrirspyrjanda, hv. 2. þm. Norðurl. v., komu ekki fram í svari mínu neinar gyllivonir, enda ekki til þess ætlast, heldur skýrt frá staðreyndunum einum eins og þær eru. Ég vil hins vegar taka það fram í sambandi við þau vinnubrögð, sem n. hefur haft og hún hefur markað sér án afskipta rn., að hún lét gera skýrslu yfir tekjur bænda um allt land upp úr þeim gögnum sem hún fékk þar að lútandi þegar hún hóf störf sín og hefur að nokkru leyti byggt á þeim, auk þess sem fram kom hér áðan um mjólkurframleiðslu. Þetta voru tvö meginatriði sem hún hefur byggt forgangsröðun sína á: mjólkurframleiðslan annars vegar og afkoma fólks hins vegar samkv. þessu úrtaki sem hún hefur gert. Hins vegar get ég tekið undir það með hv. 2. þm. Norðurl. v., að þarna er brýn verkefnaþörf og eins og önnur verk verða þau ekki unnin nema með fjármagni og góðu skipulagi. Ég tel að hafi tekist afar vel til um framkvæmdina í Árneshreppi á Ströndum á s. l. ári, og n. mun kappkosta að reyna að ná slíkri framkvæmd á þeim svæðum öðrum sem verða tekin til þessarar meðferðar, enda er það eina vonin til þess að ná árangri um hraða í þessum málum.