29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2984 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

88. mál, ellilífeyrisþegar

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Í fjarveru hv. 9. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasonar, s. l. haust tók 2. varamaður Alþfl. í Reykjavík, Eyjólfur Sigurðsson prentari, sæti hans hér á hv. Alþ. og flutti hann þá till. til þál. á þskj. 96 sem hér er til umr. Vil ég fyrir hönd flm. og Alþfl. fylgja till. þessari úr hlaði með örfáum orðum, ef til nokkurrar skýringar mætti verða.

Till., eins og ég áðan sagði, er á þskj. 96 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa n. til að kanna efnahagslega og félagslega stöðu ellilífeyrisþega í landinu öllu. Aðalverkefni n. verði:

1. Að kanna lífskjör ellilífeyrisþega.

2. Að kanna félagslega stöðu ellilífeyrisþega.

3. að kanna hver sé munur á aðstöðu ellilífeyrisþega, er dvelja á elliheimilum og öðrum slíkum stofnunum, og þeirra, sem dvelja utan þeirra.

4. Að kanna hvaða munur sé á aðstöðu ellilífeyrisþega, er búa í þéttbýli, og þeirra, er búa í dreifbýli.

5. Að kanna hvernig ástatt sé um heilbrigðisþjónustu við aldraða.

6. Að leggja fram till. til úrbóta í framhaldi af niðurstöðu könnunarinnar.“

Við núlifandi íslendingar viljum gjarnan láta telja okkur velferðarþjóðfélag. Sú hugsun er þó að mínu viti of oft byggð á óskhyggju einni. Staðreyndir í því sambandi benda á mörg dæmi þar um, því miður. Það situr síst, að öllu athuguðu, á okkur að fyllast drambi og ofmetnaði yfir því öryggi sem öllum þjóðfélagsþegnum eru í raun tryggð. Þóttafullar fyrirsagnir sjást og heyrast í fjölmiðlum okkar þegar við, þessi afkastamikla þjóð til sjós og lands, erum í erlendum blöðum og skýrslum nefnd vanþróuð þjóð í einstökum atriðum.

Það, sem hér er raunverulega um að ræða, er aðstoð okkar við öryrkja, lamaða og fatlaða og þá síðast, en ekki síst eldri kynslóðina. Sannleikurinn er sá, að yngsta kynslóðin geldur þess einnig ef við vanrækjum skyldur okkar við þá eldri, og skal vikið að því síðar.

Till. þessi er um nefndarskipun til þess að allsherjarkönnun fari fram á félagslegri stöðu þeirra elstu, þ. e. ellilífeyrisþega, lífskjörum þeirra, félagslegum og öðrum möguleikum þeirra til að lifa sem eðlilegustu lífi, án þess að vera þjakaðir af áhyggjum fyrir morgundeginum og öllu er því fylgir, og að hafa vinnu sem er við þeirra hæfi, líkamlega og andlega. Það væri hins vegar rangt að halda því fram, að ekkert hafi verið gert til úrbóta í þessum málum. Slíkar fullyrðingar væru jafnrangar og að halda hinu fram, að í þessum efnum hefðum við náð einhverju sérstaklega fullkomnu lokamarki sem ekki verði betur um bætt eða gert.

Samkv. upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins var ellilífeyrir einstaklings hinn 1. mars s. l. 23 919 kr., að viðbættri tekjutryggingu 20 992 kr. samtals 44 911 kr. á mánuði. Á ári er því um að ræða 540 þús. kr. tekjur. Einhver kann að segja í þessu sambandi: Eru þetta ekki sambærileg laun við lægstu launaflokka verkakvenna og starfsfólks í iðnaði, verslunar- og skrifstofufólks, lægstu launaflokkanna hjá ríki og sveitarfélögum? Það kann vel að vera að finna megi jafnlág laun í launatöxtum hjá fullvinnandi fólki. Nauðsynlegt er þó að hafa í huga að hinn aldni einstaklingur á engra annarra kosta völ en að láta sér umrædda aðstoð duga eingöngu til lífsframfæris. Hann hefur þrátt fyrir mikið framboð á launamarkaði enga möguleika til að drýgja tekjur sínar á neinn annan hátt. Hann eða hún getur ekki og fær enga slíka möguleika.

Samkv. jafngömlum heimildum frá Tryggingastofnun ríkisins fá hjón í ellilífeyri 43 055 kr., að viðbættri tekjutryggingu 35 487 kr. samtals 78 542 kr. á mánuði. Miðað við beinharða krónutölu tapa því ellilífeyrisþegar í hjónabandi sem næst 12 þús. kr. á mánuði miðað við það að vera tveir sjálfstæðir einstaklingar, t. d. í óvígðri sambúð, eða a. m. k. 144 þús. kr. á ári í þessu tilliti. Engum kemur þó til hugar að í þessu efni verði beinhörð krónutala látin ráða úrslitum. Þar munu aðrir hlutir meiru um ráða sem betur fer þjóðfélagsins vegna. Verði hin öldnu hjón svo heppin að fá rúm á elliheimili þegar starfskraftar dvína, þá kostar það 73 þús. á mánuði sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir að viðbættum 5 þús. í vasapeninga á mánuði. Nauðsynlegt er að hafa í huga að hér er rætt um þá einstaklinga eða hjón sem engar aðrar tekjur hafa og ekki úr öðrum fjármunum að spila. Þegar frá eru talin örfá undantekningartilfelli er hér um allan meginþorra fólks í þessum aldursflokkum að ræða.

Mjög er um það deilt, hvort rétt sé að allt aldrað fólk búi á elliheimilum eða hliðstæðum stofnunum, og sýnist þar sitt hverjum, jafnvel þótt sérfræðingar séu. Hér verður enginn dómur um það felldur hver leið er þar æskilegust og mannúðarfyllst. En hér um ætti að vera alllöng og haldgóð reynsla innanlands sem hægt væri að draga góða lærdóma af um allt framtíðarskipulag þessara mála. Hér á ég við forstöðumenn elliheimilisins Grundar og Dvalarheimilis aldraðra sjómanna sem ég veit af eigin reynslu að mundu fúslega veita allar upplýsingar og taka fullan þátt í tillögugerð að breyttum starfsháttum, ef reynsla þessara aðila gefur tilefni til.

Flestir vilja lifa sem lengst og margur einstaklingurinn og hjónin greiða beint og óbeint háar fjárfúlgur og margir stóran hluta ævinnar til þess að viðhalda lífi sínu og heilsu. En þegar frá eru teknir lífeyrissjóðir og opinber aðstoð, þá virðast of fáir ætla í reynd að verða gamlir og lítt færir til vinnu. Á lífeyrissjóðina er nú orðið meira litið og af of mörgum til þeirra sem lánastofnana fremur en tryggingar fyrir lífsframfæri í ellinni. Þetta hugarfar þróast þó að staðreyndirnar um hækkandi meðalaldur fólks blasi við. Þessar þversagnir birtast svo aftur í því, að aldraða fólkið leggur allt kapp á að forða sér og reyna að vera ekki fyrir, en slitnar um leið úr tengslum við flest fólk á miðjum aldri og þar yfir og sér í lagi við yngstu árgangana, börnin — og gagnkvæmt. Fólkið, sem búið hefur okkur, sem nú teljum okkur á miðjum aldri það líf og þá aðstöðu er við búum við, fær það eitt að launum að komast í biðröð eða í biðsal geymslunnar. Þann veg launum við þeim unnið ævistarf. Heil bæjar- og borgarhverfi tæmast af börnum. Eftir situr gamla fólkið slitið úr tengslum við líf og þrótt hinna yngri. Yngstu kynslóðirnar byggja ný hverfi þar sem eldra fólkið sést vart, á sama hátt slitið úr tengslum við fortíðina og lífsreynslu hennar.

Eldri kynslóðin er ekki hávær eða kröfuhörð og lætur sér oft lítið verða nægjanlegt, og að baki henni standa engir þrýstihópar. En höfum við og niðjar okkar efni á því að klippt sé svo snöggt sem raun ber vitni á hinn mikilvæga þráð á milli kynslóðanna? Fara ekki of margir of mikils á mis við þessi snöggu þáttaskil og þá án tillits til aldurs?

Hér kemur fleira til en kynslóðaskiptin ein: Mikil verðmæti í byggingum, gatnagerð, vatns- og holræsagerð, ásamt hvers konar almenningsþjónustu sem nýst hefur á einum stað, en skortir sárlega í hinum nýju hverfum stækkandi byggðar. Auk hinna kröppu kjara eldra fólksins, sem ég hef hér áður minnst á, kemur öryggisleysið, takmörkuð heilsugæsla, — gæsla sem aldrei hefur verið meiri þörf á en einmitt nú þegar árin færast yfir. Aldnir geta legið sjúkir og jafnvel umhirðulausir dögum saman án þess að þeirra sé vitjað langtímum saman. Á efri árum eiga ekki allir vini og ættingja sem vitja þeirra og hlúa að þeim. Það eiga svo margir nóg með sig. Erlendis eru okkur sagðar sögur af því að látnir menn liggi dögum saman í herbergi án þess að nokkur láti sig þá varða eða skipti sér af þeim.

Í hinni hörðu og miskunnarlausu lífsbaráttu nútímans, sem kallar báða foreldra út á vinnumarkaðinn, vaxa eðlilega kröfurnar um aukningu dagvistunarheimila fyrir börn, og skal hér síst úr nauðsyn þeirra dregið. Án fjölgunar dagvistunarheimila gætu núverandi þjóðfélagshættir ekki þrifist. En rétt eins og við framleiðum ekki nauðsynlega endurnýjun þjóðarinnar með vélum, þá getum við ekki heldur vélvætt uppeldi yngstu kynslóðarinnar. Hver óskar eftir heilum aldursflokkum sem þekkja ekki heimilislíf eða heimili nema sem svefn- eða náttstað? Er maðurinn þá ekki í raun og veru að óska þess að gamla baðstofulífið endurtaki sig á ný, þar sem allir sváfu í sama herbergi, mamma prjónaði og pabbi las úr einu bókinni sem á heimilinu var, Vídalínspostillu, og takmörkuð aðstaða var til þrifnaðar? Þannig gæti e. t. v. einhver spurt. Ekki er það nú ætlan mín eða flm. þessarar tillögu.

Tilgangurinn með flutningi till. þessarar er fyrst og fremst sá, að fá fram athugun á félagslegri og fjárhagslegri afkomu eldra fólksins í landinu, í öðru lagi að tryggja að sú lífsreynsla, sem eldra fólkið óhjákvæmilega býr yfir, þurfi ekki að fara með því yfir landamæri lífs og dauða, heldur komist sú reynsla til yngri kynslóðarinnar og hún hafi tækifæri til að vega hana og meta til nútímalífs. Kynslóðirnar fái m. ö. o. svo lengi sem nokkur kostur er að lifa í návist hver annarrar, að forðað verði frá þeim dökku blettum sem hinar fjölmennari milljónaþjóðir berjast nú gegn: fáförnum fátækrahverfum er njóta ekki umönnunar nútímatækni og vísinda, en hins vegar ný hverfi full af iðandi lífi og lífsþrótti sem engin tengsl hefur við liðna tíð.

Allt okkar tal um velferðarríki hefur ekki efni á því að láta ástand þessara mála óathugað, svo mikið er að veði. Til að ná fram umræddum athugunum er þessi þáltill. flutt.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. um till. verði till. vísað til hv. allshn.