29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3012 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

177. mál, veiting prestakalla

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Ég fæ ekki varist þeirri hugsun að naumast sé það einleikið hver ókyrrð og jafnvel slæðingur verður á hinu háa Alþ. í hvert skipti sem á góma ber prestskosningar. Það er einkum einn hv. þm., 5. þm. Vestf., sem þá bregður fyrir sig athæfi sem minnir mig nokkuð á fyrirbrigði sem stundum bar fyrir augu í æsku minni vestur á Vestfjörðum. Hv. þm. rýkur upp til handa og fóta, virðist sjá draug í hverju horni, skyrpir og púar í hvert skúmaskot með tilheyrandi orðbragði, Og þetta minnir mig mjög á einstaka gamlar konur, sem fornar voru í skapi og höfðu það fyrir sið að rjúka upp með þessu látæði í hvert skipti sem komu ókunnugir menn af tilteknum ættum eða tilteknum bæjum og þær töldu að hefðu eitthvað óhreint í fylgd með sér. Ég fæ ekki varist þeirri hugsun að hv. þm. og þeim öðrum, sem eins verður innanbrjósts þegar þeir heyra minnst á prestskosningar og að skoða það mál niður í kjölinn, þeim hafi einhvern tíma tekist slysalega með val á sálusorgara úr því að sálarró þeirra er ekki meiri en þetta. En ekki nóg með það að svona sé látið út í það að skoðuð séu prestskosningamál að undirlagi Alþingis. Ofan á það bætist, eins og heyra mátti hér á hinn háa Alþ. fimmtudaginn 17. mars, að þm. eru gerðar upp skoðanir og fullyrt æ ofan í æ að tilteknir þm. sigli í þessu máli sérstaklega undir fölsku flaggi, villi á sér heimildir, séu einræðissinnar, fastir í miðaldahugsunarhætti. Þetta eru bara örfáir af þeim orðaleppum, sem hv. 5. þm. Vestf. lét þá fjúka, og mætti æra óstöðugan ef tina ætti þá alla til. Ljótt væri ef satt væri að þm. iðki það að sigla undir fölsku flaggi, villa á sér heimildir, koma aftan að þingbræðrum sínum í máli eins og þessu. En það er fleira til ljótt. Það er líka ljótt að gera öðrum upp skoðanir að tilefnislausu, og allra ljótast er að gera það gegn betri vitund, eins og hv. 5. þm. Vestf. gerði a. m. k. hvað mig snertir. Ég er einn af flm. þáltill., sem hér er til umr., og styð það mál sem þar er fitjað upp á, athugun á núverandi fyrirkomulagi prestskosninga og athugun á því, hvort ráð þyki að gera þar einhverjar breytingar á. Slíkt hefur borið á góma fyrr, ef ég man rétt fyrir fjórum ef ekki fimm árum, þar sem við hv. 5. þm. Vestf. vorum báðir staddir. Þar gerði ég grein fyrir skoðun minni á þessu máli og hún hefur ekki breyst síðan, og mun ég nú lýsa henni í stuttu máli.

Ég álít að af ýmsum orsökum sé mjög eðlilegt og eðli málsins skv. að þetta mál sé skoðað á þann hátt sem lagt er til í þessari þáltill. okkar. Í fyrsta lagi er það vegna þess, að Alþ. er beinlínis skylt að taka það tillit sem ber til stofnunar sem það hefur sett á laggirnar, þ. e. a. s. kirkjuþings, sem hefur fengið ákveðið verksvið og valdsvið. Það er ekki samboðið virðingu Alþ. að láta það viðgangast ár eftir ár að uppi séu hafðar till. á Kirkjuþingi sem síðan sé ekki á nokkurn hátt alvarlega sinnt, séu ekki alvarlega skoðaðar af Alþingis hálfu. En í öðru lagi tel ég að þetta mál sé tímabært vegna þess, að ég tel, þvert á móti því sem 5. þm. Vestf. hélt fram, að ég og aðrir flm. vildum takmarka valfrelsi safnaðanna, svipta safnaðarfólkið kosningarrétti, gera það ómyndugt, — þvert á móti vil ég auka valfrelsi safnaðanna. Ég tel að leiðin út úr þeirri sjálfheldu, sem þetta mál er í, sé sú, að það sé skoðað niður í kjölinn, og þá held ég að sú leið, sem allir gætu á endanum kannske sætt sig við, væri að söfnuðirnir ættu ekki aðeins einn kost, eins og nú, þ. e. a. s. almenna, beina kosningu prests, heldur gætu söfnuðirnir ákveðið hvort þeir hefðu þennan hátt á eða aðra hætti sem um hefur verið rætt. Ég nefni af þeim t. a. m. kjörmannakosningu þar sem ákveðnir fulltrúar safnaðar önnuðust prestskosningu ef safnaðarfólkið sjálft óskaði þess. Ég bendi á aðra leið, sem er kvaðning prests, þ. e. a. s. söfnuður geti, ef honum sýnist svo, snúið sér til ákveðins prests og óskað eftir að hann sæki um það prestakall sem söfnuðurinn byggir. Fleiri afbrigði eru til af prestskosningum önnur en það sem hér hefur tíðkast. Það eru því í rauninni hv. 5. þm. Vestf. og skoðanabræður hans sem vilja takmarka valfrelsi safnaðanna. Það eru þeir sem vilja rígbinda söfnuðina við eitt og aðeins eitt kosningafyrirkomulag, það kosningafyrirkomulag sem þeir geta fellt sig við. Því tel ég mjög ómaklegt að saka þá sem vilja að fleiri kostir séu skoðaðir, að valfrelsið sé aukið, ekki bara um prestinn heldur einnig um aðferðina til að velja sér prest, — að bera þeim á brýn að þeir séu með einræðistilhneigingar vilji afnema allt frelsi og rétt safnaðanna og vilji koma vali sálusorgara undir einræðisvald eins manns, eins og mig minnir að fullyrt hafi verið úr þessum ræðustóli fyrir tæpum hálfum mánuði.

Ég sé ekki að það sé með nokkru móti hægt að verja það að Alþ. víki sér undan að skoða þetta mál af alvöru, meiri alvöru en gert hefur verið þegar það hefur verið borið fram í frv.-formi áður, og fullnægja þar með í rauninni þeirri skyldu sem Alþ. tók á sig þegar það samþ. 14. gr. laga um Kirkjuþing. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Kirkjuþing hefur ráðgjafaratkvæði og tillögurétt um öll þau mál er kirkjur, klerkastétt og söfnuði landsins varða og heyra undir verksvið löggjafarvaldsins eða sæta forsetaúrskurði.“ Þetta er fyrri málsgr. í þessari grein, og af henni tel ég alveg ljóst að Alþ. hefur veitt Kirkjuþingi umboð til þess að fjalla á sinn hátt um öll mál kirkjunnar sem undir löggjafarvaldið heyra. Svo er það löggjafarvaldsins að snúast á sæmilegan og sómasamlegan hátt við þeim niðurstöðum sem á Kirkjuþingi verða. Það hefur ekki verið gert enn þá. Það er markmið okkar flm. þáltill., sem hér er til umr., að koma því til leiðar að svo verði gert. Ég vísa gersamlega á bug sem tilhæfulausum öllum fullyrðingum um að hér sé siglt undir fölsku flaggi, hér sé verið að villa á sér heimildir, og neita að hér sé verið að koma aftan að nokkrum manni.