29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3014 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

177. mál, veiting prestakalla

Ingiberg J. Hannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. að neinu ráði, en mér finnst ástæða til þess að árétta skoðun mína á þessu máli, og ég fagna því að þessi till. skuli fram komin aftur á þessu þingi, þar sem hún hlaut ekki afgreiðslu á síðasta þingi, og fór þá raunar svo sem vænta mátti, að ekki fengist á þingi afgr. mál sem þjóðkirkjuna varðar. Það er ekki í fyrsta skipti og kemur ekki lengur á óvart. En ég vil vekja athygli á því hér, að það er varla lengur við það unandi að löggjafarsamkunda þjóðarinnar skuli ár eftir ár leiða hjá sér að afgr. mál sem þjóðkirkjuna varða og hafa beðið úrlausnar árum saman, og vil ég þá nefna auk þess máls, sem hér um ræðir, t. d. fjárhagsleg málefni safnaðanna í landinu, t. d. eflingu Kirkjubyggingasjóðs og einnig sóknargjöldin sem eru nánast eini nefskatturinn sem orðinn er eftir í kerfinu og er brýn þörf á að gera að prósentugjaldi, svipað og t. d. er með kirkjugarðsgjöld sem eru 11/2% af útsvari og aðstöðugjöldum. En þetta mál var til meðferðar á síðasta þingi, en sofnaði í n. og þar við situr. En þetta var raunar útúrdúr frá því umræðuefni sem hér er til umr. í kvöld.

Það er alkunna hversu rík óánægja er orðin innan kirkjunnar með það fyrirkomulag um veitingu prestakalla sem nú hefur verið í rúm 64 ár. Prestskosningar voru stórt spor í framfaraátt á sínum tíma, en í dag eru þær oftast nær hvimleitt fyrirbæri, nánast skrípamynd af því lýðræði sem þær endurspegluðu í upphafi. Breyttir þjóðfélagshættir gera það að verkum að fyrirkomulag þetta er orðið úrelt og raunar stór heimili á alla starfsemi kirkjunnar. Það er vitað mál að margan góðan starfsmanninn missir kirkjan einungis vegna þess að menn vilja ekki gefa sig í þá mannskemmandi atlögu sem prestskosningar oftast nær eru. Auk þess hefur kirkjan með þessu fyrirkomulagi svo til og raunar enga tilfærslumöguleika á sínum starfsmönnum, sem hlýtur að vera erfitt hverri þeirri stofnun sem vill ná umtalsverðum árangri. Og svo er ekki hægt að tala um lýðræði þegar prestur er kosinn til embættis ævilangt.

Það mætti flytja langt mál um þessi efni og á síðasta þingi tjáði ég mig um það í mörgum atriðum, og ég vil því ekki lengja þessa umr. með því að teygja þann lopa. En ég vil taka það skýrt fram, sem raunar liggur í hlutarins eðli og hv. þm., sem talaði á undan mér, kom mjög greinilega að, að það er greinilegt að þessi þáltill., sem flutt er, gerir ráð fyrir því að þessi lög séu endurskoðuð og að fengin verði skipan á þessi mál sem kirkjunnar menn og þeir, sem eru óánægðir með núverandi fyrirkomulag, geti fellt sig við. Það ætti ekki að vefjast fyrir hv. þm. að í því skyni er þessi till. flutt. Og það er hægt að skoða þessi mál nánar og það er hægt að finna ýmsar leiðir, eins og raunar kom fram í máli hv. þm. Magnúsar T. Ólafssonar.

Ég vil víkja nokkrum orðum að því sem fram kom í dag í máli hv. þm. Helga Seljans. Hann byrjaði á því að nefna forsetatillöguna um þjóðaratkvæði um prestskosningar og hann nefndi hana frávísunartillögu. Ég er raunar hjartanlega sammála því og þykir raunar furðu sæta að sú till. skuli hafa komið fram og það frá forsetum þingsins. En að öðru leyti geymi ég mér að ræða hana þar til hún kemur á dagskrá.

Það kom fram í máli Helga Seljans að hann hefði, eftir að hann tók þátt í sjónvarpsþætti á s. l. vetri um þessi mál, fengið upphringingar frá mörgum klerkum sem tjáðu honum þakkir sínar fyrir frammistöðu hans í téðum þætti. Ég get raunar ímyndað mér eftir orðum þm. að dæma hverjir það hafa verið og skal auk þess fúslega játa að sá þáttur var ekki góður prófsteinn á málefnalegar umr. um þessi mál, þar sem hann fór meira og minna úr böndum og komust ekki fram þær skoðanir á báða bóga sem þar hefðu þurft að koma fram. En ég vil ekki ræða nú nánar um það.

Sami þm. vék að innri málefnum kirkjunnar og fjallaði um kenninguna og þröngsýni í skoðunum, einkum hinna yngri presta, eins og hann orðaði það. Á það vil ég engan dóm leggja nú og það er allt annað mál. Menn mega gæta sín á því að rugla ekki saman skoðunum sínum og guðfræðilegum skilningi og svo hinu ytra fyrirkomulagi í skipulagi kirkjunnar. Þar er um tvennt ólíkt að ræða, enda þótt hvort tveggja tilheyri sömu stofnunum.

Það er rétt að vissu marki, sem kom fram hjá sama hv. þm., að með engu móti mætti svipta kirkjuna því lífi sem um hana skapaðist í því andrúmslofti sem ríkti við prestskosningar. Ég gat þess í ræðu hér á hv. Alþ. í fyrra, að nánast það eina jákvæða, sem ég sæi við prestskosningar, væri sú kynning og þau tengsl sem mynduðust þegar unnið er að undirbúningi prestskosninga. En ef ekki er hægt að koma lífi í kirkjuna með neinu öðru móti en prestskosningum, þá verðskuldar hún ekki að lifa og er þá ekki lengur lífvænleg. En við kristnir menn vitum raunar hvaðan lífið kemur. Það kemur ekki frá æsingamönnum prestskosninganna eða fagurgala þeirra, sem halda fram þessum og þessum frambjóðanda. Nei, lífið kemur frá Kristi, stofnanda kirkjunnar og höfundi og fullkomnara trúarinnar, og það er ekkert á móti því að hv. alþm. viti þetta og íhugi.

Að öðru leyti tek ég undir orð hv. þm. sem hér töluðu áðan, Friðjóns Þórðarsonar og Magnúsar Torfa Ólafssonar, og vek athygli á því og ítreka það, að þessi till., sem við erum hér að tala fyrir, gerir einungis ráð fyrir því að þessi mál séu endurskoðuð og fundin í þeim sú leið eða þær leiðir sem menn geta unað við. Það hefur sem sé verið margt um þetta mál rætt hér á hv. Alþ. og skoðanir verið skiptar, svo sem vænta mátti. Þeim mun furðulegra er það, að hv. þm. skuli ekki sjá sóma sinn í því að leiða þetta mál til lykta á einhvern hátt til þess þó a. m. k. að losna við að fjalla um þetta mál þing eftir þing og þannig að vilji þingsins komi skýrt fram. Mér er ljóst og það hefur komið fram í umr., að mörgum finnst sem verið sé að taka rétt af söfnuðunum með því að afnema prestskosningar ef sú leið yrði valin, og þá á ég við almennar prestskosningar. En hvers virði er þessi réttur þorra fólks sem e. t. v. fyrir utan prestskosninguna lætur sig málefni kirkjunnar litlu sem engu varða? Jú, það er spennandi að standa í kosningahríð, og ég hef heyrt um menn, sérstaklega hér á Reykjavíkursvæðinu, sem hafa sérhæft sig í prestskosningum og bíða spenntir eftir því að fá að ota næsta presti á foraðið og hafa lúmskt gaman af.

Það er alltaf hægt að vekja upp spenning og atorkusemi í sambandi við slíka kosningu — og hvað gera menn ekki líka fyrir kunningja sína og vini þegar þarf að koma þeim í betra embætti? Og við þurfum ekki að fara langt aftur í tímann, aðeins nokkra daga, til að sjá hvernig menn notfæra sér kosningar sem þessar til þess að draga fram í dagsljósið staðreyndir, sem e. t. v. eru til þess fallnar að varpa skugga á frambjóðendur og draga þá niður í svaðið. Það voru kosningar í Hafnarfirði fyrir örfáum dögum og það hafa birst af þeim fréttir í blöðum. Ég þarf ekki að útlista það nánar. Mönnum virðist nefnilega ekki vera neitt heilagt í prestskosningum. Þar helgar tilgangurinn tíðum meðalið og sjálfir umsækjendurnir, prestarnir, ráða oft engu um þá stefnu sem málin taka í hita baráttunnar. Þar duga öll meðul einungis ef hægt er að ná settu marki. Og svo eiga þessir menn að leiða söfnuðinn á eftir í guðsótta og góðum siðum og verða oft að byrja á því að sætta stríðandi fylkingar, eða það sem er algengara, að þegar kosningunum lýkur hverfa menn yfirleitt af vettvangi og láta ekki sjá sig í sambandi við kirkjulegt starf fyrr en hillir undir næstu orrahríð.

Ég fjölyrði ekki frekar um þetta mál að sinni, en ég vænti þess að það hljóti afgreiðslu á þessu þingi og með því móti gæti þingið tjáð sig og vilja sinn í því efni að reyna að finna leið í þessu máli sem þorri fólks og kirkjunnar menn geta sætt sig við.