29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3017 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

177. mál, veiting prestakalla

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Mér finnst það þannig vaxið að það sé eðlilegt að sem flestir þm. tjái hug sinn um það.

Mér verður á að varpa fram þeirri aths., að þessi till. til þál. hefði þurft að koma fram fyrr á þessu þingi með tilliti til þess hve það virðist þvælast fyrir hv. Alþ. að afgreiða mál af þessu tagi, sem hafa komið hvað eftir annað inn á þing, en aldrei hlotið þinglega afgreiðslu.

Ég vil í sem stystu máli segja það sem mína skoðun, að mér finnst það meira en meðalskömm fyrir löggjafarsamkomu þjóðarinnar að geta ekki tekið afstöðu í máli sem þessu, og mér finnst það harla lítil virðing og kurteisi við íslensku þjóðkirkjuna að hundsa æ ofan í æ sanngjarnar málaleitanir hennar um að athuga skipan þessara mála. Till. fer ekki fram á annað og mér finnst það alveg óþarfi af mönnum að belgja hér út brjóstið og gefa sér fyrir fram hvað vaki fyrir tillögumönnum og Kirkjuþingi sem margsinnis hefur farið fram á að Alþ. samþ. slíka endurskoðun.

Ég hef raunar alltaf átt dálítið bágt með að fella mig við og trúa því að prestskosningar séu slíkt forað sem hv. þm. séra Ingiberg Hannesson gaf í skyn og maður hefur heyrt úr öllum áttum, ekki hvað síst frá prestum sem reynt hafa hvað prestskosningar eru. En ég hygg að það sé hárrétt hjá hv. þm., séra Ingiberg, að það eru alls ekki prestarnir sem ráða þar ferðinni, illu heilli. Það eru menn, sem hafa gaman af að standa í kosningahasar og oftast þeir, eins og hann sagði, sem kannske láta sig allra minnst varða um málefni kirkjunnar og kristni í landinu. Og það er illa farið þegar slíkir menn ráða kannske einna helst ferðinni þegar fólk á að velja sér prest.

Ég get fallist á það, að þjóðaratkvgr. væri eðlileg, en hvað sem henni líður þarf þessi till. að sjálfsögðu að fá þá meðferð á Alþ. sem henni hæfir. Þjóðaratkvgr. er vissulega lýðræðisleg aðferð, og ég er alls ekki komin til með að segja um hver yrðu úrslit þjóðaratkvgr. Ég veit það hreint ekki, en þannig kæmi alla vega almennur þjóðarvilji fram. En ég get vel ímyndað mér að það komi á kjósanda nokkurt hik þegar hann á að greiða atkv. um það hvort afnema eigi prestskosningar, ef hann veit ekki, hefur enga hugmynd um hvað eigi að koma í staðinn. Þetta liggur því ekki heldur alveg beint við.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta. Það er búið að segja margt með þessu og móti. Ég get lýst því yfir, að því meir sem ég hugsa þetta mál, því hlynntari verð ég hugmyndinni um að afnema prestskosningar í þeirri mynd sem þær eru nú. En mér er eins farið og ég gat mér til um kjósandann sem stendur frammi fyrir þjóðaratkvgr., að ég vil helst vita hvað ég á að fá í staðinn, og ég er ekki alveg sannfærð um að það sé rétta leiðin að setja þetta vald í hendur fámenns hóps innan hvers safnaðar. En koma dagar og koma ráð, og mér finnst að það geti ekki orðið neinum til skaða að þessi endurskoðun, sem lýst er í síðustu málsgr. grg., verði látin fara fram, og ég hlýt að skora á alþm. að reyna hver fyrir sitt leyti að ljá þessari till. stuðning sinn þannig að hana dagi ekki einu sinni enn uppi á þessu þingi.