29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3024 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

177. mál, veiting prestakalla

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Þá þykir mér Bleik brugðið þegar hv. 5. þm. Vestf. kveinkar sér undan að honum skuli svarað fullum hálsi. (KP; Síður en svo.) Máske stafar það af því, að hann hefur hér í ræðustól tvívegis í þessari umr. iðkað um of athæfi sem ég hygg að engum sé hollt, að berja höfðinu við steininn. Hann vill ekki láta sér skiljast að það að taka tillit, taka lögskipað tillit til þess, að Kirkjuþing hefur óskað breytinga á fyrirkomulagi prestskosninga, geti falið í sér nokkurn skapaðan hlut annan en þann að samþ. alfarið þær till. sem kunna að hafa komið frá einhverju Kirkjuþingi. Það, sem ég og aðrir flm. þessarar till. hafa verið að reyna að koma hv. þm. í skilning um, er að þessu er ekki svo farið.

Tillitið til málatilbúnaðar Kirkjuþings og lögskipaðs réttar þess felst í því, að Alþ. taki á þessu máli þannig að það hljóti eðlilega skoðun, sem við teljum að heppilegast verði gert með þeirri nefndarskipun sem við leggjum til. Í þessu felst alls ekki að þar með sé verið að samþ. fyrir fram, hvorki það, sem komið hefur frá Kirkjuþingi hingað til, né það, sem kynni að koma frá þessari n., ef skipuð yrði, þótt ég ali með mér þá von, eins og ég lýsti í fyrri ræðu minni, að af slíkri athugun gætu sprottið tillögur, sem yrðu til þess að setja niður þessar deilur og þennan ágreining, og fyrirkomulag fyndist sem allir mættu vel við una. Ég lýsti því í örfáum orðum og þarf ekki að endurtaka það, en þar lýsti ég því m. a. að þeir söfnuðir, sem það kysu, gætu haldið núverandi kosningafyrirkomulagi, þ. e. a. s. almennum, beinum prestskosningum.

Því er það algjörlega gegn öllum eðlilegum rökum að halda því fram að það eina, sem um sé að ræða, sé annaðhvort núverandi fyrirkomulag óbreytt eða afnám prestskosninga, eins og hv. 5. þm. Vestf. gerir. Hann hlýtur að geta látið sér skiljast við rólega yfirvegun að kostir í þessu máli, eins og mörgum öðrum, eru ekki bara tveir. Það eru ákaflega fá mál sem eru þannig vaxin að það sé aðeins um tvo andstæða kosti að velja, og sem betur fer er þetta mál ekki eitt af þeim.

Ég hef aldrei sagt það sem mér virtist hv. þm. eigna mér, að ég hefði brugðið honum eða öðrum um að halda uppi málþófi í þessu máli — og ég mun ekki gera það heldur, herra forseti. Ég ætla ekki að lengja orð mín verulega umfram það sem orðið er. En ég ætla aðeins að víkja að því sem hv. þm. hafði eftir grein séra Jóns Thorarensens, þar sem hann fyrir sitt leyti hafnar hugmyndinni um kvaðningu prests. Þau ummæli, sem höfð voru eftir séra Jóni, eiga alls ekki við þær hugmyndir sem ég reifaði hér í örfáum orðum, því ég tók skýrt fram að þar væri átt við kvaðningarrétt safnaðarins alls, svo að þar er enginn réttur tekinn af nokkrum safnaðarmanni til áhrifa á prestsval. Þar gæti kvaðning komið hreinlega í stað þess kosningafyrirkomulags sem nú gildir. Þetta sýnir einmitt hve margra kosta er völ og hve eðlilegt það er, eðli málsins samkv., að þeir kostir séu skoðaðir í kyrrð og næði af þeim mönnum sem Alþ. kann að velja til þess hlutverks.