29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3028 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

189. mál, launakjör hreppstjóra

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil í fáum orðum lýsa stuðningi mínum við þessa till. til þál. frá hv. 2. þm. Vestf. En í rauninni er þessi till. þó tæplega nógu víðtæk. Hún lýtur að því að láta endurskoða lög og reglur um launakjör hreppstjóra, og sannarlega er full þörf á því. En í raun og veru þyrfti líka að athuga starf þeirra og stöðu, því að sannleikurinn er sá, að störf hreppsstjóra eru mjög misjöfn eftir því um hvaða sveitarfélag er að ræða. Ég veit að það er fyllsta þörf á því að láta endurskoða launin, því eins og kemur fram af grg. og við vitum margir hverjir, þá eru þau ekki mannsæmandi miðað við þau störf sem margir þeirra inna af hendi. En starfsaðstaða þeirra og verkefni eru mjög mismunandi. Þeir eru nú margir hverjir t. d. umboðsmenn skattstjóra. Þeir voru lengi vel nokkuð almennt umboðsmenn trygginganna, en fyrir nokkrum árum, eins og menn muna, þótti mér gerð heldur ómakleg hríð að þeim á því sviði. Þar voru ýmsir sem sýndu ákveðna tilburði í þá átt með því að bera fram frv. og till. um að svipta þá þessu starfi sem umboðsmenn trygginganna og aðstoðarmenn sýslumanna að því leyti. Ég held að þau störf hafi þeir rækt vel.

Sannleikurinn er sá, að það er vitanlega ekki hægt að rökstyðja það að laun hreppstjóra hækki mikið nema þeir gegni tilsvarandi störfum. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að fara fram á það við þá n., sem fær þessa þáltill. til skoðunar og meðferðar, að hún athugi þetta mál vandlega á víðari vettvangi en þessi till. gerir ráð fyrir því þess er full þörf. Hreppstjórastarfið er virðulegt starf og það er vandasamt starf. Það stendur föstum rótum í fornum jarðvegi þjóðfélags okkar. Hreppstjórar hafa löngum verið verðir laga og réttar og aðstoðarmenn sýslumanna. Þeir þurfa að fá þokkaleg laun fyrir sín störf, en það þarf einnig að marka og skýrgreina störf þeirra og starfssvið, svo að hvort tveggja svari kröfum tímans.