30.03.1977
Efri deild: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3033 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

211. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. hefur gert hér grein fyrir þessu frv. sem veitir ríkisstj. heimild til að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar og viðauka við stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Eins og hv. þm. hafa orðið varir við er hér um að ræða þykka bók sem lögð hefur verið á borðið hjá okkur, hún er 101 bls., en af þessari 101 síðu eru 5 á íslensku, en 96 á ensku, þar af er allur samningurinn, sem okkur þm. er ætlað að fjalla um, á ensku. Ég tel að það sé alveg af og frá að nokkur þingnefnd fáist til þess að fjalla um samning, sem óskað er eftir að Alþ. leggi blessun sína yfir, án þess að hann hafi verið lagður fram í íslenskri þýðingu. Ég heyrði afsökunarbeiðni hæstv. ráðh. og veit að honum er ekki vel við að eyða miklu fé úr ríkissjóði og vill því reyna að spara. En í þessum efnum er ég hræddur um að sparnaðurinn verði lítill að endingu, vegna þess að það segir sig nokkuð sjálft að þennan samning verður hvort eð er að þýða á íslensku, hvað sem tautar og raular, og er reyndar gert ráð fyrir því í grg. að svo verði gert, því að þar stendur: „Þýðing á stofnskránni að meðtöldum ofantöldum breytingum mun verða birt í C-deild Stjórnartíðinda, þegar breytingarnar hafa verið staðfestar fyrir Íslands hönd.“ Hefðu þá ekki verið hyggilegri vinnubrögð að byrja á því að þýða samninginn, þannig að Alþ. hefði getað fjallað um hann í íslenskri þýðingu.

Það er síður en svo að hér sé um að ræða eitthvert ómerkilegt mál sem ekki sé ástæða fyrir alþm. að kynna sér. Þessi stofnun hefur ekki sloppið við gagnrýni, eins og mörgum er kunnugt, og mér þykir því einsýnt að alþm. telji sér skylt að kynna sér hvaða breytingar er verið að gera nú á þessari stofnun sem svo mjög hefur verið á milli tannanna á mönnum af ýmsum ástæðum. Ég tel því að það liggi e. t. v. ekki mikið á að afgreiða þetta mál og það séu ekki ýkjamiklar líkur til þess að það sé hægt að afgreiða það fyrir þinghlé úr því að það er seint fram komið og þýðing ekki fyrir hendi, enda fæ ég satt að segja ekki séð að samþykki okkar íslendinga á þessum samningi breyti ýkjamiklu til eða frá. Okkar lóð á vogarskálina, sem mælir það hvort samningurinn hefur hlotið staðfestingu eða ekki, er svo agnarsmátt, eins og sjá má á bls. 81 þar sem raktir eru kvótar hinna einstöku þjóða, að það mun áreiðanlega engu skipta í þessu sambandi.

Þessi stofnun er sem sagt ekkert sérstaklega lýðræðisleg, enda þótt hún sé kennd við Hinar sameinuðu þjóðir, og hún er mjög afbrigðileg sem slík og langt frá því að geta talist stofnun sem þjóðir Sameinuðu þjóðanna eru ásáttar við. Þetta kemur kannske berlegast fram í kvótaskiptingunni á bls. 81, þar sem fram kemur aðeins lítill hluti ríkja Sameinuðu þjóðanna eða a. m. k. langt frá því að vera allur fjöldinn af þátttökuríkjum Sameinuðu þjóðanna sem þar er aðili að.

Ég vil nú leyfa mér í þessu sambandi að spyrja hæstv. ráðh. að því, áður en lengra er haldið, hvort sú kvótaskipting, sem þar er upp gefin, sé rétt eða ekki, hvort tölurnar, sem þar eru nefndar, séu raunveruleg mynd af veruleikanum eins og hann er eða hvort þarna er um að ræða einhverjar tölur sem tilheyra fortíðinni og skipta engu máli í þessu sambandi. Mér er það satt að segja alls ekki ljóst. Ég hélt að Bandaríki Norður-Ameríku hefðu í kringum 25% af samanlögðum kvóta allra aðildarríkja, en samkv. upptalningunni á bls. 81 eru þau með hvorki meira né minna en 32% af samanlögðum kvóta, sem kynni að hafa verið upphafleg kvótaskipting. Er mér þess vegna ekki alveg ljóst hvers vegna þessari kvótaskiptingu er haldið við endurnýjun og breytingar sem nú er verið að gera á samningnum. Þetta vildi ég sem sagt fá hér upplýst, hvort mér er um raunverulega kvótaskiptingu að ræða eða upplýsingar um liðna tíð. Ef þetta er hin raunverulega kvótaskipting, þá fer auðvitað ekkert á milli mála að hún er mjög ósanngjörn og óeðlileg í hæsta máta. Kvótafjöldinn mun vera samanlagt tæplega 9000 millj. dollara, en eins og við sjáum á bls. 81 ráða Bandaríki Norður-Ameríku yfir 2750 millj. dollara eða tæpum þriðjungi. Aftur á móti ræður Ísland ekki yfir nema 1 millj. dollara. Ef við berum saman hlutföllin milli Íslands og Bandaríkjanna, þá sjáum við að þar er engin sanngirni þótt miðað væri við fólksfjölda, því að bandaríkjamenn eru þó þrátt fyrir allt ekki nema þúsund sinnum fleiri en við íslendingar, en hérna er gert ráð fyrir því að þeir hafi 2750 sinnum meiri rétt í þessum sjóði, og þannig mætti reyndar lengi telja. Þessi kvótaskipting er afar einkennileg, að ekki sé meira sagt, og væri mjög nauðsynlegt að fá upplýsingar um það, hvort hún er raunverulega svona eða ekki.

Eins og fram kemur í þessum samningi hefur það löngum verið svo, að 85% samanlagðs kvóta hefur þurft til þess að breyta stofnskránni eða til að taka þýðingarmestu ákvarðanir. Af þessu má ljóst vera að bandaríkjamenn hafa algert neitunarvald vegna þessa ákvæðis um kvótaskiptinguna. Þeir hafa algert neitunarvald gagnvart öllum ákvörðunum sem lúta þessu ákvæði. Ég hef satt að segja grun um að kvóti bandaríkjamanna sé ekki eins hár og hér er greint frá, að hann sé einhvers staðar nærri því að vera 25%. En það breytir ekki því, að þeir hafa algert neitunarvald, líka eftir að breytingar hafa verið gerðar.

Nú er það að vísu svo, að ein breyting virðist hafa verið gerð, eins og kemur fram í formála, að sjóðnum væri heimilt að endurskoða ákvæði um lágmarkseign þátttökuaðila í sérstökum dráttarréttindum. Er honum leyfilegt að koma á, breyta eða fella niður reglur í þessu efni með minni meiri hl. atkv. en nú er leyfilegt, 70% í staðinn fyrir 85%. Það er sem sagt gert ráð fyrir því, að ákvæði um aukinn meiri hl. sé breytt og hinn aukni meiri hl. lækkaður í þessu sérstaka tilviki. Einmitt í þessu sambandi skiptir ákaflega miklu máli hver hinn raunverulegi kvóti handaríkjamanna er, hvort hann er meiri eða minni en 30%, því að það sker úr um það hvort bandaríkjamenn hafa úrslitavald í þessari stofnun, hafa algert neitunarvald einir þjóða eða ekki.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða hér um þennan samning að öðru leyti. Ég vildi bara fá strax upplýsingar um þetta mikilvæga atriði, en áskil mér rétt til þess að ræða þetta við síðari umr. málsins.

Því er sem sagt ekki að leyna, að þessi stofnun hefur sætt harðri gagnrýni úr ýmsum áttum, vegna þess að við hefur þótt brenna að fyrirgreiðsla af hálfu þessarar stofnunar væri pólitískum skilyrðum háð og að þessari stofnun væri beitt í þágu þeirra skoðana sem bandaríkjamenn og stjórn þeirra aðhyllast hverju sinni. Menn hafa vafalaust gert sér vonir um að nú, 32 árum eftir að Sameinuðu þjóðirnar voru settar á stofn, 32 árum eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tók til starfa, yrði hinum ólýðræðislegu ákvæðum í stofnskrá þessarar stofnunar breytt til hins betra. En það virðist ekki mikið bóla á breytingum í þá átt, nema svo óverulegum að þær skipta sáralitlu máli.

Upplýst var í ræðu hæstv. ráðh. að skuld Íslands við sjóðinn næmi nú samtals 62 millj. sérstakra dráttarréttinda, sem væru jafnvirði 13 600 millj. kr., af því væru svonefnd jöfnunarlán 11.5 millj. sérstakra dráttarréttinda, olíulán 39.2 millj. sérstakra dráttarréttinda og almenn yfirdráttarlán 11.5 millj. sérstakra dráttarréttinda. Það kemur reyndar allt fram hér í grg. Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvaða áform eru uppi af hálfu ríkisstj. um greiðslu þessara lána.

Þótt ég hafi nú ekki á takteinum í hvaða ákvæði það er, þá veit ég þó að í samningnum er gert ráð fyrir því að almennar skuldir við sjóðinn séu greiddar upp á 3–5 árum, sem er tiltölulega skammur tími þegar svo stórar upphæðir eiga í hlut. Gott væri því að fá upplýsingar um það, hver væru áform ríkisstj. um greiðslu þessara miklu lána sem mörg hver eru eyðslulán, hrein eyðslulán, vegna þess að ríkisstj. og hæstv. viðskrh. hafa verið ófáanleg til að setja einhverjar hömlur á óþarfan innflutning. Vegna þess að núv. ríkisstj. og hæstv. ráðh. hafa verið ófáanleg til þess að taka upp einhverja stjórn á gjaldeyrismálum þegar verst hefur staðið á í þeim efnum, þá höfum við íslendingar safnað óhóflegum gjaldeyrisskuldum á seinustu árum sem eiga vafalaust eftir að koma okkur í mikinn vanda. Það er því alls ekki að ófyrirsynju að spurt er hvernig háttað verði endurgreiðslu þessara miklu lána, þegar fyrir liggur einmitt í því máli, sem við erum hér að ræða, að lánin verður að greiða upp á 3–5 árum.