30.03.1977
Efri deild: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3036 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

211. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég get fallist á þá aths. sem hv. þm. Ragnar Arnalds setti hér fram varðandi það, að ekki fylgdi með þýðing á íslensku á stofnskránni, enda gat ég þess í minni frumræðu, en vil jafnframt segja, að ég hygg að þetta sé engan veginn fordæmalaus aðferð, en ég er ekki að mæla með henni. Eins og hv. þm. vék að, þá er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að þessi stofnskrá eða skipulagsskrá eða hvað á að kalla hana verði þýdd á íslensku og hún verði þannig birt í Stjórnartíðindum á sínum tíma. En það er alveg áreiðanlegt að þýðing á þessari stofnskrá er ekki hrist fram úr erminni á stuttum tíma þannig að ef ætti að gera kröfu um þýðingu áður en Alþ. afgreiðir málið, þá yrði það ekki afgreitt á þessu þingi. Veröldin mundi nú sennilega halda áfram að ganga sinn gang þó að það yrði ekki afgreitt á þessu þingi, og ég legg það alveg á vald þn., sem fær frv. til meðferðar, hvort henni sýnist fært að afgreiða það eða hvort hún fellst ekki á það. Þá mundi að sjálfsögðu afgreiðsla málsins bíða næsta þings. Mér dettur ekki í hug að vera að ýta neitt sérstaklega á það. En það hefur verið talið æskilegt að Ísland gæti fullgilt samninginn eða stofnskrána hið fyrsta.

Hv. þm. beindi þeirri spurningu til mín, hvort þessi viðbætir eða listi yfir kvótana, sem birtur er á bls. 81, væri raunverulegur eða ekki. Ég vil játa það í hreinskilni að ég vil heldur fá að láta athuga þetta og koma upplýsingum um það til n. sem fær málið til meðferðar, en maður gæti haldið að það væri ekki birt annað með þessari stofnskrá en það sem raunverulegt væri. Það eru svo, eins og hann sagði, sérstakar reglur um atkvgr. í þessari stofnskrá, og þær er að finna þarna í stofnskránni. Þar er mismunandi gildi gefið atkv. ríkjanna eftir því, hversu framlögin eða kvótarnir eru háir. Þessar reglur um atkvgr. liggja fyrir í þessari stofnskrá. Það má sjálfsagt deila um það í sjálfu sér, hvort það séu lýðræðislegri hættir eða ekki. Við vitum að í Sameinuðu þjóðunum sjálfum hefur hver þjóð, stór eða smá, sitt atkv. og sitt eina atkv. En aftur á móti í hinum svokölluðu sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna, a. m. k. í þeim ýmsum, er þetta með öðrum hætti. Þannig er það í þessum fjármálalegu stofnunum bandalagsins eða sérstofnunum bandalagsins, sem raunar sumar hverjar og þ. á m. þessi voru stofnaðar á undan sjálfum Sameinuðu þjóðunum. En það þykir auðvitað góð og gild regla í ýmsum tilfellum að atkvgr. sé að einhverju leyti bundin við fjáreign, og mörg félög eru þannig byggð, eins og öllum er kunnugt, og þ. á m. hlutafélög í okkar rétti og rétti flestra þjóða, þannig að ég held að um þetta atriði megi út af fyrir sig deila, hvort það er lýðræðislegt eða ekki að haga atkvgr. á þennan hátt.

Hv. þm. gat þess að starfsemi þessa sjóðs hefði verið gagnrýnd allmikið. Sjálfsagt er það rétt, að það hafi komið fram gagnrýni á þennan sjóð og stjórn hans og þá af mismunandi tilefnum. Hitt held ég að enginn dragi í efa að þessi sjóður hefur gert mikið gagn, og ég held að sú breyting, sem nú er lögð til á þessari stofnskrá, sé gerð með samkomulagi þeirra ríkja sem þarna eiga aðild að, eða a. m. k. í grundvallaratriðum er hún þannig til orðin. Annars hélt ég að sú gagnrýni, sem fram hefur komið, hefði öllu frekar beinst að hinni stofnuninni, þeirri stofnun sem má kalla systurstofnun þessarar stofnunar, þ. e. a. s. Alþjóðabankanum. En sjálfsagt hafa þær báðar endrum og eins verið gagnrýndar. Ég hef átt þess kost að sitja á fundum þarna, fáum að vísu, en þó nokkrum, og hefur þar komið fram nokkur gagnrýni, eins og eðlilegt er. En ég held þó að það hafi frekar sett svip sinn á þær samkomur, að menn hafi talið að þessar stofnanir hafi gert mikið gagn og þeir vildu ekki vera án þeirra. Ég hygg að þetta eigi við um velflest þátttökuríkin, hvort sem eru stór eða smá.

Hv. þm. spurðist fyrir um það, hvernig Ísland hygðist greiða skuldir sínar eða lán við sjóðinn. Ég get nú eiginlega ekki á stundinni svarað því öðruvísi en svo, að Ísland mun að sjálfsögðu greiða það á þann hátt sem samið hefur verið um. Ég hef ekki í höndunum lista yfir þessi lán og ekki yfir einstaka gjalddaga þeirra. En það verður auðvitað staðið við þær skuldbindingar. Um sum þessara lána gilda sérreglur, þ. e. a. s. um lán þessa olíusjóðs sem settur var á fót vegna þeirra miklu verðbreytinga sem urðu á olíunni og var ekki ætlað að starfa nema um takmarkaðan tíma og ef ég man rétt mun hafa hætt lánveitingum á síðasta ári. Þó má vera að þetta sé ekki nákvæmlega rétt hjá mér, en ég held að því hafi þannig verið varið.

Eins og ég gat um í framsöguræðu minni er það Seðlabankinn sem hefur mjög annast öll þessi samskipti við þessar stofnanir fyrir Íslands hönd. Sérstaklega er það einn starfsmaður þar sem hefur haft með höndum þau málefni sem varða þessar stofnanir, og það er sjálfsagt að n. sú, sem fær þetta mál til meðferðar, fái hann á sinn fund og fái þær upplýsingar hjá honum sem n. óskar eftir. En ég endurtek — og það er aðalatriðið — að mér dettur ekki í hug að vera með neina sérstaka ýtni hér með þetta mál. Ég viðurkenni, að það má gagnrýna annmarka á framlengingu þess, og legg það á vald n., hvort hún treystir sér til að afgreiða það eða telur réttara að fresta málinu öllu til næsta þings, sem mundi þá verða til þess að það yrði dráttur á því að Ísland gæti fullgilt þessa nýju skipulagsskrá.