30.03.1977
Efri deild: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3037 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

211. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Mér þykir gott að heyra að hæstv. ráðh. ætlar ekki að ýta svo fast á eftir afgreiðslu þessa máls að það geti ekki fengið eðlilega skoðun, og ég minni á að það mun víst engu breyta hvort þetta mál verður afgreitt á þessu vori eða næsta hausti. Þá þarf að liggja fyrir þýðing samningsins á íslensku. Enginn skilji orð mín svo að ég sé að áfellast hæstv. ráðh. fyrir það að þýðinguna skuli vanta, því að málið er auðvitað ekki þess eðlis að hann hafi beinlínis haft með það að gera. En ég tel að þar sé ljóður á ráði þeirra embættismanna, sem hafa undirbúið þetta mál, að hafa ekki séð til þess að Alþ. gæti fjallað um það með íslenska þýðingu í höndunum því að þeir hafa haft nógan tíma. Það er ekki því um að kenna. Þessi samningur mun hafa verið afgreiddur í ráðinu fyrir einu ári, eða í aprílmánuði 1976, og því hefði nægur tími átt að geta gefist til þess að þýða samninginn á íslensku, eins og þarf hvort eð er að gera, þannig að hann gæti legið fyrir þegar málið væri tekið hér til afgreiðslu. En mér finnst að vinnubrögð af þessu tagi sýni, eins og oft vill vera, virðingarleysi embættismanna gagnvart Alþ. sem þeir líta á eins og hverja aðra afgreiðslustofnun sem ekki þurfi að upplýsa um efnisatriði málsins, heldur nægi að fleygja málinu til þingsins og láta það síðan afgreiða það með skjótum hætti.

Ég undraðist það að hæstv. ráðh. skyldi gera tilraun til að verja það ólýðræðislega skipulag sem er á þessari alþjóðlegu stofnun, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. (Dómsmrh.: Þetta eru nú kannske öllu frekar staðreyndir.) Jú, en ég hjó eftir því að ráðh. nefndi það sem dæmi, að þegar um væri að ræða stofnanir hér innanlands, eins og hlutafélög, þá gilti það gjarnan að atkvæðisréttur færi eftir fjáreign. Það er út af fyrir sig alveg rétt, að slíkt gerist þegar byggð eru upp fyrirtæki. En þess háttar fyrirkomulag á auðvitað miklu síður nokkurn rétt á sér í eðlilegum samskiptum ríkja og síst af öllu þegar búið er að koma því svo fyrir að það er ekki hægt að breyta þeirri aðstöðu sem eitt ríkið hefur komið sér í fyrir 32 árum vegna þess að þetta ríki hefur neitunarvald gagnvart breytingunum vegna þeirra ákvæða sem eru í stofnskránni. Og það er að sjá að Bandaríkin hafi enn neytt aðstöðu sinnar að þessu sinni til þess að koma í veg fyrir að aðstöðu þeirra væri hnekkt.

Í sambandi við hlutafélög er kannske rétt að minna á í þessu sambandi, að það þykir ekki við eiga að nokkur einn fjármagnsaðill ráði yfir meira en 20% atkv. á aðalfundi hlutafélags. Það þykir við hæfi að setja því nokkrar skorður hve mikil völd einn aðili geti haft, og væri betur ef sú regla væri viðhöfð í sambandi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. En eins og við höfum áður rakið er svo ekki. Það vantar á að áhrifavaldi Bandaríkjanna séu nokkrar skorður settar, og það er einmitt þetta atriði sem er sjálfsagt að skoða miklu rækilegar. Ég er út af fyrir sig ekki að segja að við íslendingar munum megna í framhaldi af skoðun Alþ. á þessu máli að breyta þar miklu. En menn verða hins vegar að gera sér fyllilega grein fyrir því, hvernig aðstæður eru og þá í minnsta lagi að leggja lóð sitt á þá vogarskál að þessu verði breytt með sameinuðu átaki. Menn verða sem sagt að hafa stefnu í þessu máli, skoðun á því, jafnvel þótt ekki séu miklar líkur á að við einir fáum þar miklu um breytt.