30.03.1977
Neðri deild: 64. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3044 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

208. mál, byggingarlög

Eitt atriði vil ég þó sérstaklega nefna hér sem er nýmæli. Það er í 4. gr. frv., 3. málsgr., þar sem segir svo:

„Í byggingarreglugerð skal setja ákvæði varðandi umbúnað bygginga til þess að auðvelda ellihrumu og fötluðu fólki að komast leiðar sinnar.“ Aðdragandi þessa máls er sá, að á Alþ. 1972 var samþ. þál. skv. till. sem hv. 2. þm. Reykn., Oddur Ólafsson, flutti um það að kanna leiðir sem tryggi að byggingar og umferðaræðar framtíðarinnar, er njóta fjárhagslegrar fyrirgreiðslu opinberra aðila, verði hannaðar þannig að fatlað fólk komist sem greiðlegast um þær. Þessi till. var samþ. og í framhaldi af samþykkt hennar fjallaði svo bæði flm. hennar ásamt fleiri aðilum um þetta mál. Í samræmi við till. Odds Ólafssonar alþm. er þetta ákvæði nú inn sett í 4. gr. og miðar að því að skylt sé að setja í byggingarreglugerð ákvæði sem tryggi umbúnað til að auðvelda fötluðum og ellihrumum að komast leiðar sinnar. Hér er um margvíslegar aðgerðir að ræða sem raktar voru rækilega á sínum tíma, bæði í till. þessa hv. þm. og umr., og skal ég ekki fara frekar út í það hér. En ég held að hér sé um félagslega mjög mikilvægt atriði að ræða.

Í grg. frv., sem fylgdi frá þeirri n., sem samdi frv., og birt er hér aftur, er gerð ítarleg grein fyrir frv., bæði almennt og í einstökum atriðum, og í upphafi grg., á bls. 8–10, er getið um þær breyt. sem gerðar hafa verið frá því að frv. var lagt fyrir í fyrra.

Ég læt þessa framsögu nægja að sinni, en legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og félmn.