30.03.1977
Neðri deild: 64. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3049 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

201. mál, tónmenntafræðsla í grunnskóla

Jónas Árnason:

Herra forseti. Það er góð till. sem hér er til umr., till. til þál. um tónmenntarfræðslu í grunnskóla. Ég held að þessi till. sé bara hátt upp í það eins góð og till. sem samþ. var hér á Alþ. 29. apríl 1974. Hún fjallar um nákvæmlega sama efni. Ég ætla að leyfa mér að lesa þá till. upp. Flm. hennar var Helgi Seljan, hafði reyndar hreyft þessu máli oftar en einu sinni og í fyrsta sinn þegar hann kom á þing sem varamaður fyrir 19 árum. En þessi till., samþ. á Alþ. 29. apríl 1974, hljóðar svo:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að taka til gagngerðrar endurskoðunar allt tónlistarnám í landinu. M. a. skal starf hinna einstöku tónlistarskóla samræmt skyldunáminu og almenn tónlistarkennsla skipulögð, þar sem engin er nú. Skal að því stefnt að færa undirstöðukennslu í hljóðfæraleik inn í alla skyldunámsskóla nemendum að kostnaðarlausu. Við þessar aðgerðir svo og aðrar, sem nauðsynlegar reynast, skal stuðst við álit tónmenntunarnefndar menntmrn. frá 30. ágúst 1972.“

Ég heyrði ekki betur en 1. flm. þeirrar till., sem hér er til umr., segði að í viðtali sem hún átti við hæstv. menntmrh. hefði hann tekið vel þessu máli, sýnt því mikinn skilning. Ég verð að láta í ljós undrun mína yfir því, að enginn þeirra fjögurra þm., sem að þessari till. standa, virðist hafa vitað um þessa þál. frá 1974, sem ég var að lesa upp áðan, né heldur menntmrh. sjálfur. Ég hef litið yfir grg. með þessari till. og sé ekki að á þessa þál. frá 1974 sé minnst. En vegna hennar held ég að það sé óþarfi að vísa þessari till. til n. Mál þetta hefur þegar verið samþ. hér á Alþ. Hins vegar má hér vel viðhafa hið fornkveðna, að sjaldan sé góð vísa of oft kveðin. Ég hef ekkert á móti því að þessari till. sé vísað til n., en ég fyrir mitt leyti vísa til þál. þeirrar sem þegar hefur verið gerð. Og ef menn vilja tvítaka þetta, þá sé ég ekki annað en það væri hægt þegar í stað, án þess að um málið þurfi endilega að fjalla í nefnd.

Það er mikið talað í grg. — og frsm. gerði það líka — um „tónmennt“. Ég vænti þess að þar sé líka átt við söngmennt. Sannleikurinn er sá, að það, sem okkur vantar í skólana, er ekki fyrst og fremst að nemendur læri að spila á hljóðfæri, heldur að nemendur læri að syngja. Reyndar vil ég hafa fyrirvara varðandi þetta orð „að læra“ að syngja. Það á að vera hlutverk skólanna að auðvelda nemendum þá ánægju sem söngur veitir hverjum manni og þá ekki síst fjöldasöngur. Ég leyfi mér að vara við því, að farið verði að kenna músíkina allt of vísindalega í skólunum. Það er gott að nemendur læri á hljóðfæri, en þá fyrst og fremst til þess að spila undir söng.

Þetta er eitt af því sem við höfum verið að glata, íslendingar, á undanförnum áratugum af ýmsum ástæðum. Söngurinn sem tíðkaðist víða, jafnvel á heimilum, var talinn sjálfsagður þáttur í lífi fólksins. Hann hefur smám saman verið að hverfa. Til þess að fá eðlilegan söng á heimilum þarf maður nú orðið helst að fara norður í Þingeyjarsýslu. Þar helst þessi hefð ennþá.

Því miður hefur dregið úr þessu æ meir sem áhrifin utan frá hafa aukist. Æskulýður okkar gengur upp í vissri tegund tónlistar sem kennd er við „popp“. Margt gott má um það segja. En það er einn galli á, og hann er sá, að á vissu skeiði, þegar unglingarnir eru hvað næmastir á ýmislegt sem gæti orðið þeim til þroska, þá lokast þeir af, ef svo mætti segja, í þessum tónlistarheimi. Þeir hlusta ekki á neina aðra tónlist. Það er m. a. fyrir það, að á þessu skeiði er afskaplega rík tilhneiging fólks að tilheyra skilyrðislaust einhverri hjörð. Og skv. lögmáli þessarar hjarðar, þá á maður ekki að hafa áhuga á öðru en þessari tónlist, og nokkrum stjörnum þessarar tónlistar. Það er ekki nóg með að þetta unga fólk hlusti einvörðungu á þessa tegund tónlistar, heldur les það næstum að segja ekki um annað en stjörnur þessarar tónlistar. Það lokast inni í þröngum tónlistarlegum radius og veit ekkert, á næmasta skeiði, hvað er að gerast þar fyrir utan.

Ég er þeirrar skoðunar, að söngur sé í rauninni svo eðlilegur manninum að telja megi að hann sé honum álíka eðlilegur og andardrátturinn. Eðlilegur söngur hefur horfið og þar með sá þroski og sú sáluhjálp, vil ég segja, sem fólk getur fengið af honum. Ef okkur tækist að koma á almennri eðlilegri söngiðkun í skólunum, þá er ég sannfærður um að það yrði miklu, miklu minni þörf fyrir svokallaða sálfræðiþjónustu. Eðlilegur söngur hjálpar til þess að losa fólk við ýmiss konar hömlur og margs kyns sálartruflanir. Það er ekkert vafamál.

Þess vegna vara ég við allt of fræðilegri framkvæmd þessara mála. Það er auðvelt að gera unglingana þreytta á þessu, ef þeir þurfa að stagla í ýmsum röddum hjá einhverjum kennara, af því að það er metnaðarmál kennarans að fá út svo og svo fágaðan söng og margraddaðan. Það er ekki það sem okkur vantar. Okkur vantar eðlilegan og óþvingaðan söng í skólana.

Í tengslum við þetta má svo nefna þetta margumtalaða kynslóðabil. Á samkomum úti á landsbyggðinni gerist það, guði sé lof, enn þá endrum og sinnum, að kynslóðirnar sameinast í söng og söngurinn gæti verið eitt tækið til þess að brúa bilið milli kynslóðanna. En þá má ekki heldur nein kynslóðin loka sig úti í horni með einhverja sérstaka tónlistartegund. Mér hefur satt að segja verið æðimikið áhyggjuefni þessi einangrunarstefna ungu kynslóðarinnar. Ég kynntist því meðan ég var að kenna, hvað nemendurnir gátu lokast af í þessum poppheimi sínum og hvað lögmál hjarðarinnar var þar miskunnarlaust. Mér er það minnisstætt einu sinni, er ég hafði orð á því við einn bekkinn, að tiltekinn nemandi, — ég var kunningi þeirrar fjölskyldu, — hlustaði mikið heima fyrir á klassíska tónlist, sinfóníur og annað slíkt. Ég hélt mig vera að hrósa nemandanum með þessu, hækka hann í áliti. En ég reyndist hafa gert honum hinn versta grikk. Ég hafði komið upp um hann. Hann tilheyrði ekki hjörðinni, eins og hann átti að gera. Hann laut ekki lögmálum hennar, úr því það sannaðist upp á hann að hann leyfði sér að hlusta á klassíska tónlist heima fyrir.

Ein leiðin út úr þessu væri söngurinn. Það, sem okkur vantar, er fyrst og fremst það, að sem flestir kennarar hafi fengið þjálfun til þess að stjórna eðlilegum söng nemenda. Of mikil þjálfun og hátíðleiki og mikil áhersla á ýmsar teoríur tónlistarinnar gæti hins vegar dregið úr hollum áhrifum hins eðlilega söngs.