30.03.1977
Neðri deild: 64. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3052 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

144. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Frsm. meiri hl. (Tómas Árnason) :

Herra forseti. Frv. um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða o. fl. hefur verið til meðferðar hjá fjh.- og viðskn. og hún hefur fjallað um málið og ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþ., en minni hl. leggur til að því verði breytt á þann hátt, að sú upphæð, sem verja á í þessu skyni, verði hækkuð verulega.

Þetta frv. fjallar um það, sem fyrirsögn þess segir til um, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða o. fl. Í Ed. var gerð breyting á frv. frá því sem það upphaflega var lagt fram, á þá leið að styrkja sérstaklega í fyrsta lagi þá aðila, sem ekki eiga kost á raforku frá samveitu og verða að leysa raforkuþörf sína með rekstri dísilstöðva, og í öðru lagi til að styrkja heimavistarskóla á grunnskólastigi sem verða að nota olíu til upphitunar. Þessir tveir líðir, liðirnir e og d í frv., hafa lítil áhrif á málið, vegna þess að gert er ráð fyrir því á fjárl. að um 698 millj. kr. verði varið til þess að greiða niður hitunarkostnað íbúða sem nota olíu til upphitunar aðallega, en gert er ráð fyrir því, að þessir tveir liðir, e- og d-liður, sem bætt var við frv. í meðferð þess í Ed., muni kosta um 6 millj. kr. samtals eða um 3 millj. kr. hvor liður, þannig að þessi breyting hefur sáralítil áhrif á málið í heild, þar sem um er að ræða yfir 70 þús. styrki skv. þeim reglum sem í ráði er að greiða út styrki til.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa mörg orð um frv. umfram þessi aðalatriði. Eins og ég gat um áðan liggja fyrir brtt. sem minni hl. fjh.- og viðskn., hv. þm. Lúðvík Jósepsson, hefur flutt um að sú upphæð, sem verja á í þessu skyni, verði hækkuð úr 698 millj. upp í 1275 millj., að því er ég ætla, miðað við það sem ætla má að söluskattsstig muni gefa í tekjur. Ég vil aðeins í sambandi við þetta segja það, að það er orðið svo að segja daglegt brauð að það berist till. inn á Alþ. frá þm. Alþb. um stórhækkanir útgjalda úr ríkissjóði án þess að það sé jafnframt gerð grein fyrir því hvernig á að standa undir þeim útgjöldum. Í dag er það olíustyrkurinn sem á að hækka, eins og ég sagði áðan, úr 698 millj. upp í 1275 millj. Í gær voru það vegamálin sem áttu að hækka um 725 millj., að því er mig minnir. Fyrir nokkrum dögum eða kannske vikum flutti þm. úr Alþb. till. um að fella niður söluskatt af kjöti og kjötvörum, sem mundi kosta ríkissjóð um 2000 millj., og einnig af rafmagni, sem mundi kosta ríkissjóð um 1100 millj., án þess að það væru gerðar nokkrar till. um það með hverjum hætti ætti að mæta þessum auknu útgjöldum.

Ég álít að þegar um er að ræða till. um veruleg útgjöld úr ríkissjóði, þá séu slíkar till. alls ekki marktækar nema gerð sé grein fyrir því hvernig á að afla fjár. Ég tók eftir því fyrir nokkru, að það var sagt frá því í fréttum frá Svíþjóð að stjórnarandstaðan þar í landi hefði flutt alveg sérstakar till. um það hvernig hún vildi hafa fjárl., og í þeim till. kom fram hvernig stjórnarandstaðan ætlaði að afla tekna til þeirra fjárlaga, en það var gert ráð fyrir því að útgjöld skv. þeim fjárl. yrðu talsvert verulega hærri en í þeim fjárl. sem ríkisstj. í því landi hefur lagt til að verði.

Að öðru leyti skal ég ekki gera að umtalsefni þessar brtt., þar sem ekki hefur verið talað fyrir þeim enn þá.

Eins og komið hefur fram hér áður, þá nemur styrkur til þess að greiða niður hitunarkostnað eða útgjöld á fjárl. 698 millj. kr. Í því sambandi er rétt að undirstrika þá stefnu hæstv. ríkisstj., að þó að ég mundi kjósa að þessi upphæð væri hærri og áliti að það eigi að stefna að því að gera hitunarkostnað sem jafnastan um landið, þá vil ég aðeins undirstrika þá stefnu hæstv. ríkisstj., að hún leggur mjög mikla áherslu á að flýta lagningu hitaveitna alls staðar á landinu, og á nokkrum árum hafa verið tekin stór stökk í þessum efnum og tugþúsundir manna hafa fengið hitaveitur sem áður höfðu þær ekki. Þetta þýðir auðvitað að það verða sífellt færri og færri sem þurfa að hita híbýli sín upp með olíu og þess vegna nýtast þær fjárhæðir betur sem til þess er varið.

Skv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér í viðskrn. og rannar er kunnugt, var upphæð olíustyrksins 9 500 kr. á mann á tímabilinu 1. mars 1976 til 28. febr. 1977. Styrkþegar voru um 70 þús. samtals. En þar sem veittur er aukastyrkur til tekjulágra skv. lögunum, eins og einnig er gert ráð fyrir í þessu frv., samsvaraði þetta um 73 þús. einföldum styrkjum. Heildarupphæð olíustyrks var skv. þessu 693.5 millj. kr. á s. l. ári eða reikningsári, þ. e. a. s. því tímabili sem ég tiltók áður og miðað er við í sambandi við greiðslu olíustyrksins. Á þessu ári er áætlað að styrkurinn verði 10 500 kr. á mann, en um fjölda styrkþega er ekki vitað nákvæmlega, enda eru tölur breytilegar eftir ársfjórðungum og erfitt að reikna út hvað þeir munu verða margir. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því, að ef afgangur verður, þá gangi hann til þeirra sem lögin ætlast til að fái styrkina sem þá mundu hækka.

Eins og nú háttar mun fjöldi íbúa á hitaveitusvæðum, þeirra sem njóta hitaveitu í dag, vera samtals um 132150 manns. Það hafa verið gerðar um það áætlanir og það hefur verið skýrt frá því raunar hér á Alþ. af hæstv. orkumrh., hvernig horfi í þessum málum og að hverju sé stefnt. Þá er gert ráð fyrir því að staðir, sem líklega fái hitaveitu fyrir árið 1980, hafi íbúafjölda sem nemur 24 400 manns. Staðir, sem hugsanlega gætu fengið hitaveitu fyrir árið 1985, hafa íbúa að tölu til 10 800, og þeir staðir, sem hugsanlega gætu notið hitaveitu eftir 1985, hafa íbúafjölda sem nemur 2 700 manns. Þegar þetta er talið saman er ástæða til þess að ætla að hugsanlega gætu notið hitaveitu um 170 500 manns, þegar búið er að leggja þær hitaveitur sem möguleikar kunna að vera á að gera.

Þróun þessara mála hefur verið mjög ör á undanförnum árum, vegna þess að það hefur verið lögð á þetta mikil áhersla. Árið 1974 var talið að hitun húsa hérlendis væri þannig skipt: hús, sem hituð eru upp af jarðvarma, væru 45.8%, með rafmagni 6.6% og olíu 47.6%. Í dag er talið að hitaveita sé fulltengd til 58% þjóðarinnar, 10% noti rafmagn til að hita hús sín, en 32% brenni olíu í sama tilgangi. Frá árinu 1974 hefur þróunin orðið það ör að um 12.2% íbúa landsins hafa fengið tengda hitaveitu á þessu tímabili. Þarf raunar ekki að eyða mörgum orðum að því að þetta kostar mikið fjármagn, og það er einmitt það, sem menn hafa verið að stefna að í þessum málum í senn, að greiða styrki til þeirra, sem nota olíu til upphitunar og raunar rafmagn, og að reyna að hraða sem mest má verða lagningu hitaveitna á þeim stöðum landsins þar sem bestir kostir eru.

Eins og kom fram hjá mér hér áður, er ástæða til þess að ætla, miðað við þær áætlanir sem fyrir liggja, þó að þær séu með mörgum fyrirvörum á ýmsum stöðum, að möguleikar eigi að vera á því að tæplega 80% þjóðarinnar geti, þegar upp er staðið, hitað hús sín með jarðvarma, eða 78–30%, þá verði rafhitun hjá 11–12% þjóðarinnar og um 11–8% eftir atvikum noti olíu til upphitunar. Um þetta er þó tvennt að segja. Annars vegar það, að nokkrir staðir eru í þessum áætlunum um hitaveitur, þar sem ekki er alveg fullreynt hvort kunni að reynast hagkvæmt eða borgi sig að leggja þar hitaveitur. Á hitt er svo að líta, að það eru sífelldar örar tækniframfarir á þessum sviðum sem kunna að valda því að það verði möguleikar á að leggja hitaveitur á stöðum sem enginn telur mögulegt í dag.

Það er ástæða til þess, áður en ég lýk máli mínu, að geta þess, að fjh.- og viðskn. barst erindi frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, þ. e. a. s. útdráttur úr fundargerð stjórnarinnar varðandi sérstaklega olíustyrk til skóla. Ég sé ástæðu til þess að lesa bókun úr fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga sem gerð var 14. mars 1977, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Olíustyrkur til skóla: Lögð voru fram þskj. nr. 338 og 347 varðandi frv. til l. um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða o. fl. Samþ. var að mæla með framgangi frv. með þeirri breyt., að olíustyrkur verði greiddur öllum skólum sem hitaðir eru upp með olíu, en ekki einvörðungu heimavistarskólum.“