30.03.1977
Neðri deild: 64. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3059 í B-deild Alþingistíðinda. (2232)

144. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Frsm. meiri hl. (Tómas Árnason) :

Herra forseti. Ég er sammála hv. 2. þm. Austurl. um það, eins og ég hef áður tekið fram, bæði í ræðu minni hér áður og einnig á Alþ. í fyrravetur, að það ber að stefna að jöfnuði í þessum málum, ber að stefna að því að húshitunarkostnaður verði svipaður um land allt, og þarf ég í raun og veru engu við það að bæta, enda er það í fullu samræmi við stefnu Framsfl. í þessum málum. Þá er ástæða til að benda á það, að þegar gerð var sú breyting á þessu að færa styrkfjárhæðina inn á fjárl. í staðinn fyrir að vera skv. sérstökum lögum, þá var um að ræða nánast bókhaldsatriði. Áður greiddu allir landsmenn þennan söluskatt. Það er ekkert nýtt nú að þeir, sem njóta olíustyrks, greiði einnig söluskatt. Þeir gerðu það einnig áður af þessu söluskattsstigi, þannig að þar er ekki á nein breyting.

Þess er að geta til glöggvunar, ef það hefur ekki komið fram nægilega skýrt hjá mér áður, að það er ætlast til þess skv. fjári. að 698 millj. kr. verði varið til þessa máls og það er föst upphæð í fjárl. Gefi hins vegar söluskattsstigið meira af sér, þá geri ég ráð fyrir að það renni í ríkissjóð og sennilega þá Orkusjóð ef til þess kæmi. Viðskrn. telur ekki mögulegt að segja til um það nú, hversu margir styrkþegar muni verða á þessu reikningsári sem byrjaði 1. mars, vegna þess að það liggur ekki ljóst fyrir á hverjum tíma hve margir hafa tengst hitaveitum, og þess vegna er ekki hægt á þessu stigi málsins að segja til um það, hve styrkurinn verði hár, en í fyrra var fjármagnið 693.5 millj. Nú er fjármagnið 698 millj. Það liggur ekki ljóst fyrir, eins og ég sagði áður, hversu margir hafa horfið sem styrkþegar vegna þess að þeir hafa tengst hitaveitum, og þarna kemur til væntanlega talsverður munur sem kemur þeim til góða sem þiggja olíustyrk.

Hv. 2. þm. Austurl. gekk það langt í sínum málflutningi, að hann talaði um að það væri kannske eins gott að leggja þennan styrk niður. Ég vil benda á það,að 5 manna fjölskylda nýtur styrks sem nemur 52 500 kr. á ári, ef styrkurinn er 10 500 kr., og sennilega verður hann hærri. Ég vil taka það fram að ég vildi hafa þetta hærra, en þeir, sem taka þátt í því að stjórna landi og tilheyra stjórnarmeirihl., verða að gæta þess að til sé fé til ráðstöfunar, og það kannast áreiðanlega hv. 2. þm. Austurl. við frá því að hann hefur átt sæti í ríkisstj.

En varðandi það atriði sem ég drap aðeins á hér áður, að alþb.-menn bæru fram mikið af till. um aukin útgjöld úr ríkissjóði án þess að gera grein fyrir því, hvernig ætti að mæta þeim útgjöldum, þá minntist hv. 2. þm. Austurl. nokkuð á þetta og skýrði frá því, að þeir hefðu lagt til að feila niður útgjöld ríkissjóðs sem nemur líklega um 1100 millj. kr., þ. e. a. s. Grundartangamálið. En það er eins og dropi í hafið ef miðað er við till. alþb.-manna hér á Alþ. um aukin útgjöld úr ríkissjóði og málflutning þeirra innan þings og utan um útgjöld úr ríkissjóði og einnig um að fella niður stórkostlegar tekjur í ríkissjóð. Ég get minnst á örfá atriði án þess að ég vilji lengja mjög mitt mál.

Ég hef tekið saman t. d. útgjaldatillögur þriggja þm. úr Alþb., þeirra hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, Lúðvíks Jósepssonar og Ragnars Arnalds, við fjárl. Þær nema tæplega 2500 millj. kr. — 2 milljörðum 443 millj. og 600 þús kr. Einnig hefur Alþb. haldið því fram — og þ. á m. hv. 2. þm. Austurl. — í blöðum að það ætti að hækka raungildi tekna opinberra starfsmanna um 20–30%. Það mundi þýða 5 500 millj. kr. aukin útgjöld úr ríkissjóði. Síðan koma vegamálin með 725 millj. kr. Síðan kemur þetta mál með olíustyrkinn, 575 millj. Þetta eru því æðiháar upphæðir þegar um þessi mál er rætt í heild.

Ef við lítum hins vegar á málflutninginn um lækkun á tekjum ríkissjóðs, þá hefur hv. 2. þm. Austurl. skrifað um og gagnrýnt þá ráðstöfun núv. ríkisstj. að hækka söluskattinn um tvö stig. Það þýða tekjur upp á 3400 millj. Hann hefur gagnrýnt þá ráðstöfun að tvö söluskattsstig, sem lögð voru á vegna Vestmannaeyjagossins og snjóflóðanna í Norðfirði, skyldu tekin í ríkissjóð. Það eru 3 400 millj. Þá hefur einnig verið gagnrýnd harðlega sú ráðstöfun að framlengja tímabundna vörugjaldið, 18%. Ef það væri fellt niður, þá mundi það kosta ríkissjóð 5 500 millj. Upp í þetta kemur svo Grundartanginn, 1100 millj., sem er eins og dropi í hafinu, eins og ég sagði áðan, því ég hygg að þegar þessi mál öll eru lögð saman muni skorta um 20 milljarða á að endarnir nái saman á þeim fjárl. sem Alþb. talar fyrir innan þings og utan og gerir till. um aukin útgjöld hér á Alþingi.

Það er svo alveg sérstakt mál að tala um Grundartangann, vegna þess að ég veit ekki betur en að Grundartangaverksmiðjan, járnblendiverksmiðjan, hafi verið samþ. í fyrrv. ríkisstj. og ráðh. Alþb., sem sat í fyrrv. ríkisstj., hafi verið aðaltalsmaður málsins. Það er því hæpið að gera mikið úr þessu sem sparnaði ef miðað er við forsögu málsins.

Ég kem nú aðeins inn á þetta í tilefni af þessu máli. Það er kannske vegna þess, að ég vildi gjarnan geta verið sammála um að greiða hærri upphæð til olíustyrksins vegna þess aðstöðumunar sem fólk býr við sem þarf að kynda hús sín með olíu, miðað við þá sem njóta hitaveitna. Ég vildi gjarnan taka þátt í því að afla meira fjár til vegaframkvæmda o. s. frv., o. s. frv. Allt verður þetta auðvitað háð því hver heildarútkoman er, og þess vegna bendi ég á þessa staðreynd, að miðað við tillögugerð alþb.-manna hér á Alþ. um aukin útgjöld úr ríkissjóði og málflutning þeirra innan þings og utan, þá skortir á 20 milljarða að endarnir nái saman á þeim fjárl., sem Alþb. talar fyrir.