13.04.1977
Sameinað þing: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3067 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

148. mál, bygging nýs þinghúss

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þáltill. um byggingu nýs þinghúss. Ég vil taka undir það, sem í till. felst, að byggja nýtt þinghús á þeirri lóð sem Alþ. hefur nú yfir að ráða, og ég vil líka taka það fram að þetta er mitt persónulega álit. Hins vegar hafa forsetarnir sem slíkir ekki tekið beina afstöðu til þessa máls.

Þetta mál horfir öðruvísi við nú en fyrir nokkr­um árum vegna þess að þá hafði Alþ. ekki yfir að ráða jafnmiklu lóðarrými og nú er hér í ná­grenni við alþingishúsið. Svo giftusamlega hefur til tekist á undanförnum árum, að ríkið og Alþ. hafa eignast hús og lóðir í nágrenni við alþingis­húsið. Ég get vel tekið undir það, að starfs­aðstaða alþm. og starfsfólks Alþ. er engan veginn nógu góð, og það er gefið mál að þessi aðstaða batnar ekki á þann veg sem hún þarf að vera fyrr en við höfum komið upp nýju alþingishúsi eða byggt við, þannig að aðstaðan batni eins og hún þarf að verða.

En á hitt vil ég benda í leiðinni, að mikið hefur verið gert hin síðari ár til þess að bæta starfs­aðstöðu Alþingis og alþm. Kaup á húseignum í Kirkjustræti, Vonarstræti og Þórshamri hafa gjörbreytt þessari aðstöðu frá því sem áður var. Það má segja að nú hafi allir alþm. skrifstofu til þess að vinna í og flestir sérherbergi, þótt enn þá vanti nokkuð á, að allir alþm. hafi þá aðstöðu. En að því er unnið að því marki verði náð áður en langir tímar líða.

Þá hefur starfsaðstaða nefnda Alþ. batnað mikið frá því sem var fyrir nokkrum árum, og einnig hefur skapast aðstaða til þess að koma í aðgengilegt horf bókasafni Alþ. Sömuleiðis hefur verið hægt að skipuleggja lóðina í kringum al­þingishúsið þannig að hún lítur miklu betur út en áður. Einnig hafa komið upp bílastæði sem áður vantaði til þess að þau kæmu að fullum notum.

Á þetta vil ég minna því þessi aðstaða hefur breyst mest nú hin síðustu ár. Hitt er alveg rétt, að þinghúsbygging er eigi að síður aðkallandi mál sem alltaf hefur verið til umr. á Alþ. annað slagið. Árið 1961 var samþ. þál. á Alþingi sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsetum þingsins í samvinnu við fulltrúa frá þingflokkunum að gera till. um framtíðarhúsnæði Alþingis.“

Till. þessi var frá allshn. Alþ., en n. hafði til meðferðar þáltill. frá þm. Þórarni Þórarinssyni og Halldóri E. Sigurðssyni. Síðan gerði Þórarinn Þórarinsson alþm. fyrirspurn um þetta mál, og það var árið 1968. Hefur verið unnið að máli þessu, þinghúsbyggingu, öðru hverju síðan, en ekki nógu skipulega að þessum málum staðið, vil ég segja, og á tímabili virtist útilokað að byggja alþingishús hér í nágrenni Tjarnarinnar þar sem fyrirhugað var þá að byggja ráðhús við Tjörnina. Nú virðist sú hugmynd vera úr sög­unni, þótt mér sé ekki kunnugt um hvar ráðhús skuli reisa, en það er annað mál sem ég ætla mér ekki að ræða.

Að lokum skal það fram tekið, að núv. forsetar Alþ. hafa falið húsameistara ríkisins að athuga þá möguleika sem fyrir hendi eru til byggingar nýs þinghúss á þeirri lóð er Alþ. hefur nú yfir að ráða. Vafalaust má koma nýju húsi fyrir með ýmsum hætti og margar eru þær spurningar sem koma fram þegar byggja skal yfir þingheim framtíðarinnar, t. d. hvað á að reikna með mörg­um alþm. og þingflokkum, á að reikna með skipt­ingu þingsins í deildir eða skal það vera ein mál­stofa? Þetta er aðeins örlítið brot af þeim málum sem koma fram í hugann þegar bygging er hug­leidd.

Ég endurtek þá skoðun mína, að við eigum að vinna að þinghúsbyggingu og vera framsýnir á því sviði og ætla okkur nægan undirbúningstíma, því það er eins og þar segir: Það skal vel vanda er lengi á að standa. Þetta vildi ég að kæmi fram hér við þessa umr., en að öðru leyti ætla ég mér ekki á þessu stigi að ræða þetta mál nema sér­stakt tilefni gefist til þess.