29.10.1976
Sameinað þing: 12. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var hér síðast á dagskrá, þá hafði ég gert nokkrar almennar aths. við frv. og rætt nokkuð um stöðuna almennt í landhelgismálinu. Í tilefni af því, sem ég sagði, tóku til máls á eftir þrír hæstv. ráðh, og véku nokkuð að því sem ég hafði sagt, og það gaf mér tilefni til þess að biðja um orðið aftur, af því að mér fannst vera nokkur ástæða til að víkja að því sem þessir hæstv. ráðh. höfðu fram að færa í málinu.

Ég vil þá fyrst víkja að því sem kom fram hjá hæstv. forsrh. varðandi þær aths. sem ég hafði að gera og snertu formshlið málsins, þ.e.a.s. að gert hafði verið samkomulag við breta um fiskveiðar í íslenskri fiskveiðilandhelgi og það látið koma til framkvæmda án þess að Alþ. gæti fjallað um málið, nú væri leitað eftir staðfestingu Alþingis þegar í rauninni væri aðeins formsatriði að ræða því að samkomulagið hefði nánast verið framkvæmt að fullu. Um þetta atriði sagði hæstv. forsrh. aðeins það, að ríkisstj. hefði vitað að allir þm. stjórnarflokkanna hefðu verið samkomulaginu samþykkir og a.m.k. einn til viðbótar úr liði stjórnarandstöðunnar. Ég hafði vikið einmitt að þessari sömu röksemd áður í minni ræðu og taldi að röksemdir af þessu tagi væru ekki mikils virði. Það er mjög óvíðeigandi að standa þannig að afgreiðslu mála, sem Alþ. á eðli málsins samkvæmt að hafa með að gera, að ríkisstj. gangi í rauninni fram hjá Alþ. með þeirri afsökun einni að hún hafi kynnt sér afstöðu þm., að hún hafi tryggt sér afstöðu tiltekins fjölda þm. án þess að Alþ. hafi á eðlilegan hátt fjallað um málið. Fari menn inn á þessa braut, þá getur sitthvað gerst á þeirri braut að sniðganga raunverulega Alþ. Ég viðurkenndi í aths. mínum varðandi formsatriði málsins, að það er hægt að finna dæmi um hliðstæð mál, þó yfirleitt þar sem hefur verið um miklu minna mál að gera, að það hafi veríð hafður sami háttur á, að ganga til framkvæmda á samningum, sem gerðir hafa verið við erlenda aðila, og leita eftir staðfestingu Alþingis síðar. En ég bætti því við sem minni skoðun, að jafnvel þó að dæmi finnist um þetta, þá réttlæti það ekki á neinn hátt að taka þetta upp sem fasta reglu og ætla í öllum tilvikum að fara eftir því. Ég benti einnig á það, að þegar um landhelgissamninga hefur verið að ræða sem nokkru verulegu máli skipta, þá hefur hinn hátturinn verið hafður á, málið hefur verið lagt fyrir Alþ. fyrst, samþ, þar eða afgreitt og síðan komið til framkvæmda. En þarna var um verulega mikilvægan samning að ræða, stóran samning sem hafði býsna mikil áhrif, og af því tel ég að allt það, sem ég sagði og sagt hefur verið um þessa formshlið málsins, standi í rauninni þrátt fyrir þessar skýringar sem komið hafa frá hæstv. ríkisstj., að hér var staðið mjög óeðlilega að málinu og í rauninni réttar reglur voru brotnar.

Ég get ekki tekið undir það með hæstv. utanrrh. varðandi þetta atriði, að hér hafi verið um tiltölulega lítinn samning að ræða sem ekki hafi skipt miklu máli. Ég hafði bent á að þetta samkomulag, sem þarna var gert, hafði beinlínis í för með sér framlengingu á samkomulaginu við vestur-þjóðverja. Þetta samkomulag sló því föstu á nýjan leik að þjóðverjar skyldu hafa hér rétt til fiskveiða í íslenskri fiskveiðilandhelgi í eitt og hálft úr til viðbótar og mega veiða hér á okkar miðum aflamagn sem nam 90 þús. tonnum, það var ekkert smáræði, og svo auðvitað til viðbótar það sem bretar fengu samkv. þessu samkomulagi. Hér var því um býsna veigamikið atriði að ræða í samningagerð varðandi fiskveiðarnar, varðandi landhelgismálið sem slíkt.

En ég dvel þá ekki lengur við þessar aths. og það sem fram kom í sambandi við þær, þ.e.a.s. formshlíð málsins, en sný mér að öðrum atriðum.

Hæstv. forsrh. vék að því í sínu máli að þetta samkomulag, sem gert var í Osló, hefði í rauninni verið stórkostlegur stjórnmálasigur, og hann greip auðvitað á lofti það sem einhver hefur sagt, að hér væri jafnvel um mesta stjórnmálasigur íslendinga fyrr og síðar að ræða. Það munaði nú ekkert um það! Það að gera samninga við breta undir þessum kringumstæðum og að tryggja útlendingum þennan aukna veiðirétt í okkar landhelgi, það þýddi hvorki meira né minna en mesta stjórnmálasigur íslendinga! Ég segi það fyrir mitt leyti, að ég lít á þetta eins og hvert annað gamanyrði hjá þeim sem þetta segir, á bak við svona fullyrðingar geti ekki verið nein haldbær hugsun. Hún er í rauninni svo fráleit. Og ég er hræddur um að þeir verði fáir með árunum sem kalla þetta samkomulag sem slíkt stjórnmálasigur af hálfu íslendinga. Hitt er miklu nær að segja, að heildarbarátta okkar íslendinga í landhelgismálinu flokkast að sjálfsögðu að mínum dómi í hóp okkar stórmála og sigra okkar í átökum við útlendinga, sú barátta sem við höfum háð í mörgum lotum, við breta sérstaklega og aðra útlendinga, og náð þeim sigri sem við höfum máð í málinu. Það er vissulega mikill sigur. En það er allt annað mál heldur en þessi sérstaki samningur sem gerður var í Osló þegar komið var að lokum í þessu máli.

En varðandi svo það atriði sem hæstv. forsrh. vék að í þessu sambandi, að við höfum með þessu samkomulagi engu fórnað, fengið viðurkenningu, og eins og hann sagði, nú kæmi það best í ljós, þegar bretar leituðu nú eftir nýjum víðræðum við okkur, hversu mikils virði þetta samkomulag hefði verið. Ég hef bent á það á þann hátt, sem ekki hefur verið reynt að hnekkja, að Það er auðvitað alger fjarstæða að segja að við höfum engu fórnað. Samkomulag, sem þýðir framlengingu á veiðirétti þjóðverja hér í eitt og hálft ár, það er auðvitað fjarstæða að segja um það að þarna hafi engu verið fórnað. Sá samningur var orðinn laus og átti að falla niður. Jafnvel þótt við gerum ráð fyrir því að við höfum ekki fórnað miklu til breta, sem sagt ekki heimilað þeim að veiða hér miklu meira en þeir hefðu gert annars, þá var hér auðvitað um greinilega fórn að ræða.

Viðurkenningin af hálfu breta er, eins og ég hef sagt, þannig, að í túlkun okkar ráðh. er hér um viðurkenningu að ræða. Sú viðurkenning hefur ekki fengist orðuð sem formleg viðurkenning af hálfu breta. Og vegna þess einmitt að slík viðurkenning hefur ekki fengist, þá knýja þeir á með þeim hætti sem þeir gera nú í dag, að þeir sögðu við undirskrift samkomulagsins að ætlun þeirra væri að taka upp áframhaldandi samningavíðræður, annaðhvort sjálfir eða á vegum Efnahagsbandalagsins. Þeir telja að þeir þurfi að fá og ætla sér að fá samkomulag við okkur í framhaldi af þessu samkomulagi. Það er því í rauninni alveg augljóst að mínum dómi að bretar litu á það, sem gert var í Osló, sem bráðabirgðasamkomulag til ákveðins tíma með óbeinni viðurkenningu. Það er vel hægt að segja, vegna þess að þeir viðurkenna að Þeir vilji eiga samninga við okkur um áframhald. Það er því að mínum dómi ekki rétt sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að hér hafi engu verið fórnað og hér hafi fengist viðurkenning og það, hvernig málin standa nú, sýni það sérstaklega að við höfum fulla viðurkenningu í okkar höndum.

Þá lagði hæstv. forsrh. og reyndar fleiri ráðh., sem hér töluðu, allmikla áherslu á að ríkisstj. vildi í þessum efnum sýna kurteisi og hvað hún teldi vera viðeigandi og hvað óviðeigandi í samskiptum við aðrar þjóðir. Sem sagt, hún taldi það vera kurteisi að vilja taka upp viðræður við breta eða Efnahagsbandalagið um málið — og ekki aðeins vilja taka upp viðræður, því að það kom mjög skýrt fram í máli hæstv. forsrh., heldur er kurteisin einnig fólgin í því að hafa ekki látið uppi á neinn hátt hver sé okkar afstaða, það sé ekki viðeigandi að vera búinn að marka það fyrir fram, hvaða skoðun við höfum í málinu, eða láta það unni á neinn hátt, það sé rétt að ganga til viðræðna á þennan sérstaka kurteislega hátt, fara og hlusta og gefa ekkert upp um afstöðu sina og taka ákvörðun siðar. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta vera alveg furðuleg kenning, og hún passar harla illa við það hvernig haldið hefur verið á málum æðioft áður, bæði af okkur og öðrum þjóðum, því að ég veit ekki betur en það sé það algenga að það heyrist frá þeim, sem ganga til samninga, hver sé þeirra meginafstaða og hvert sé þeirra grundvallarsjónarmið, þó að menn gangi til viðræðna um deilumál. Ég álít því að hér sé um hreinn fyrirslátt að ræða, að hér sé ríkisstj. að sýna einhverja sérstaka kurteisi eða hún sé að standa á eðlilegan hátt að samskiptum við aðrar þjóðir.

Ég hef sagt það í mínu máli, að ég get vel fallist á að við ræðum við fulltrúa Efnahagsbandalagsins eða fulltrúa breta um þetta mál, vegna þess að það felst ekki í minni afstöðu á neinn hátt að ég vilji sýna þeim neina ókurteisi. Deilan á milli mín og hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, er því ekki um það hver vilji sýna ókurteisi og hver ekki. En ef við göngum til viðræðna, þá eigum við að hafa markað okkar stefnu áður en við förum til viðræðnanna, svo að það fari ekkert á milli mála hver er okkar stefna, inn í hvaða viðræður við erum að ganga, hvað okkar talsmenn eiga að segja. Auðvitað er alltaf hætta á því, ef menn ganga að samningaborði og hafa ekki gert upp hug sinn áður, ganga þangað stefnulausir, að þá flæki þeir sig í málunum á þann hátt sem gæti valdið skaða. Auðvitað eigum við í þessu eins og öllum mikilvægum málum að marka okkar afstöðu, segja alveg til um það hver er okkar meginskoðun. Og þeirri skoðun verður vitanlega ekki breytt nema með einhverjum alveg nýjum upplýsingum sem við höfum ekki séð fyrir eða ekki reiknað með. En maður telur sig auðvitað alltaf hafa leyfi til þess að breyta um afstöðu þegar eitthvað nýtt kemur upp í málinu.

En það, sem vekur athygli í þessum efnum, er að þeir hæstv. ráðh., sem hafa talað í þessum málum, fást ekki með nokkru móti til þess að taka afstöðu til þess hver sé stefnan í málinu. Það er verið að tala nm að við getum hugsað okkur samninga um veiðirétt á gagnkvæmisgrundvelli. En ég spyr enn þá einu sinni: Hver er þessi grundvöllur? Um hvað eru menn að tala? Hvaða rétt geta menn í þessum efnum hugsað sér okkur til handa í staðinn fyrir það, sem við þurfum að láta af hendi? Hvað er það? Ja, við þessu hefur ekki fengist neitt svar. Ekkert efnislegt atriði hefur þarna komið fram hjá hæstv. ráðh., annað en það að sagt er: Ja, við þurfum að hafa í huga framtíðarhagsmuni okkar íslendinga, við þurfum að hafa hér langtímasjónarmið í huga. — Ég hef einnig spurt um það, hvað liggi á bak við þessi orð, hvað menn meini. Meina menn að við eigum að heimila t.d. bretum eða öðrum aðilum Efnahagsbandalagsins að veiða í íslenskri fiskveiðilandhelgi nú, eins og þeir eru að sækjast eftir, gegn því að við fáum að veiða í landhelgi þeirra eftir nokkur ár, t.d. 5–6 ár? Eru menn að undirbúa viðræður við þessa aðila á þessum grundvelli? Er þetta stefnan?

Ég vil í þessum efnum einnig segja það við hv. alþm.: Getur það verið að hv. alþm. í stjórnarflokkunum, sem standa að ríkisstj., séu ásáttir með þau vinnubrögð að fulltrúar ríkisstj. eða einstakir ráðh. gangi til viðræðna um þessi mál við fulltrúa breta eða Efnahagsbandalagsins án þess að þeir fái að vita um hvað á að ræða? Það er auðvitað ekkert annað en útúrsnúningur, eins og kom fram í ræðu hæstv. forsrh., að segja: Við viljum taka upp viðræður, við ætlum að hlusta á hvað mennirnir hafa að bjóða — bara hlusta á hvað þeir hafa að bjóða. — Dettur nokkrum manni í hug að við göngum til viðræðna um þessi mál án þess að segja þar eitthvað? Við vitum alveg upp á hár hvað það er sem þessar þjóðir eru að sækjast eftir. Við vitum hvað bretar koma til með að biðja um. Það má kannske segja að við vitum ekki nákvæmlega hvað þeir vilja fá veiðirétt til langs tíma núna í þessari lotu. Það má líka segja að við vitum ekki nákvæmlega hvað þeir sætti sig við að mega hafa hér mörg skip eða ætla að fá rétt til þess að veiða mikið magn. En við vitum hvað þeir eru að fara fram á. Þeir vilja fá framlengingu á þeim veiðirétti, sem þeir hafa haft, að meira eða minna leyti um einhvern óákveðinn tíma. Þetta er það s:m þeir koma til með að biðja um. Hvað ætla okkar menn að segja? Ætla þeir bara að leggja kollhúfur og segja: Við höfum nú hlustað á hvað þið hafið sagt — og fara svo heim? Nei, svona gerast viðræður ekki. Og það er alveg þýðingarlaust fyrir hæstv. ráðh. að setja upp skilningsleysissvip eins og þeir gera í þessum efnum.

Við vitum um það sem er hugsanlegt að okkur verði boðið, við vitum alveg hvað það getur verið. Ég tók eftir því að hæstv. utanrrh. sagði hér í sínu máli: Ég persónulega tel að bretar hafi okkur ekkert að bjóða og því sé í rauninni alveg þýðingarlaust að vera að tala við þá. — Já, það vakti athygli mína að hæstv. utanrrh. sagði þetta: það væri í rauninni alveg þýðingarlaust að tala við breta, — af því að ég tel, sagði hann, að þeir hafi ekkert að bjóða. En hvað hafa þá hinir að bjóða? Hvað hafa hinir úr Efnahagshandalaginu að bjóða, ef bretar hafa ekkert að bjóða? Og þá er ég að tala um gagnkvæman veiðirétt, af því að ríkisstj. er búin að taka það fram, hæstv. sjútvrh. tók mjög skýrt fram að ríkisstj. væri alveg ákveðin í því að semja ekki um veiðiheimildir fyrir einhvers konar skipti á viðskiptasviði í sambandi við tollamál eða annað þess háttar, það væri útilokað, hér væri bara um gagnkvæman veiðirétt að ræða. En ef menn eru á þessari skoðun sem kom fram hjá hæstv. utanrrh., en hann virðist þarna vera á sama máli og ég, að það, sem bretar hafa hugsanlega fram að bjóða sem veiðirétt handa okkur, sé einskis virði, það sé ekki umtalsvert, þeir hafi ekkert að bjóða, hvað hafa þá hinir að bjóða? Það sjáum við alveg í hendi okkar, að þeir hafa ekkert að bjóða. Í þessu hugsanlega dæmi er þá aðeins um að ræða fiskveiðilandhelgina við Grænland, þar sem við vitum að gildir sérstaða innan Efnahagsbandalagsins, og danir tala um að sú sérstaða sé þar, að þar sé fyrst og fremst um réttindi grænlendinga að ræða, en ekki annarra innan Efnahagsbandalagsins. Og því verður ekki trúað, miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið um það mál, að Efnahagsbandalagið almennt geti farið að semja um landhelgina við Grænland í skiptum fyrir eitthvað annað fyrir breta hér hjá okkur. En auk þess er svo það, að hér hefur ekki komið fram í þessum umr. nokkur minnsta vísbending um að málin standi þannig að við gætum farið að meta einhverjar heimildir til veiða innan 200 mílna fiskveiðilandhelginnar við Grænland þannig að við heimiluðum bretum að veiða í okkar fiskveiðilandhelgi, ekki eins og sakir standa.

Ég tel því að þessar umr. hafi í rauninni leitt það alveg skýrt í ljós, að hæstv. ríkisstj. hefur tekið ákvörðun um það að hún vilji taka upp þessar viðræður, enda kom það fram hér áður að hún hefði beinlínis lofað því í sambandi við samningagerðina í Osló. En hún tekur fram að þessar viðræður eigi að vera um gagnkvæmisrétt til fiskveiða. Það er sá grundvöllur sem á að ræða málið á. En hún fæst ekki til þess að ræða um þennan gagnkvæmisrétt, í hverju hann er fólginn, hvað þar getur yfirleitt komið til mála.

Einn af þm. úr stjórnarliðinu hefur tekið fram í þessum umr. að hann teldi að hér væri ekki um neinn gagnkvæmisrétt að ræða miðað við núverandi aðstæður, hann teldi að hér væri ekki um neitt að semja. En aðrir hafa ekki talað hér í málinu, nema þessir þrír hæstv. ráðh. sem allir virðast vera ákveðnir í því að taka upp þessar viðræður á þessum grundveili, án þess að vilja ræða um það á nokkurn hátt frekar hver sé hin efnislega afstaða þeirra. Og þá er það aðeins þessi skýring, að menn gangi til viðræðnanna af kurteisisástæðum og vilji ekki hafa talað neitt opinberlega um hver sé okkar skoðun, einnig af kurteisisástæðum, og ætli bara að hlusta.

Í þessum umr. hefur auðvitað sitt af hverju annað komið hér fram sem er næsta lítils virði að vera að þrátta hér um. Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. taldi að það væru uppi hjá okkur í stjórnarandstöðunni og ýmsum öðrum aðilum þær óbilgjörnu og óeðlilegu kröfur, að við hefðum gert kröfu til þess í sambandi við samkomulagið sem gert var í Osló að bretar færu aldrei fram á nein frekari veiðiréttindi við Ísland. Þetta hef ég aldrei sagt og aldrei dottið í hug. Ég hef hvergi séð þetta frá hálfu stjórnarandstöðunnar, að við höfum sett fram þá kröfu að viðurkenningin, sem við vildum fá frá hálfu breta, ætti að vera þannig orðuð, að þeir féllust á að fara aldrei í framtíðinni fram á neinn veiðirétt. Þetta er alger tilbúningur af hálfu ríkisstj., að halda þessu fram. Þessu hefur enginn haldið fram. Hitt er annað mál. að það mátti orða viðurkenninguna þannig að það væri enginn vafi á því að bretar viðurkenndu 200 mílna fiskveiðilandhelgi við Ísland. Það fengust þeir ekki til að skrifa undir, en segja hins vegar að þeir muni veiða á þeim slóðum innan íslensku fiskveiðilandhelginnar í framtíðinni sem samkomulag kunni að takast um við íslendinga, óbeint gefið undir fótinn með að það eigi að verða um áframhald að ræða á fiskveiðum, að vísu eftir nánara samkomulagi.

Svipað var að segja um það sem hæstv. sjútvrh. hafði hér um málið að segja. Það var að mínum dómi líka í rauninni alveg út í hött og þar rætt um þá liði málsins sem koma ekkert við þessu máli sem hér er verið að ræða um. Töflur um það, hvað bretar hafi veitt mikið á mánuði hverjum nú í sumar samkv. eigin uppgjöf og hvað þeir hafi veitt í sömu mánuðum árið áður, á meðan þeir höfðu hér í gildi samning, og tölur, sem sýna að þeir hafi veitt minna núna en samkv. eldri samningi, þær segja vitanlega ekki nokkurn skapaðan hlut. Það vita allir að fyrri samningur var þannig, að bretar máttu halda til veiða hér við landið allt upp í 139 skipum og eftir þar til settum reglum. En samkv. þessu nýja samkomulagi er svo komið að þeir geta í rauninni ekki haldið hér úti fleiri skipum til veiða en sem nemur 50–60 skipum, þ.e.a.s. 24 sem eru stöðugt að meðaltali á miðunum. Það er auðvitað alveg gefið mál. að hér var um minna fiskmagn að ræða. Það að draga þetta sérstaklega inn í þessar umr. er bara að drepa málinu á dreif, á svipaðan hátt og kom fram hjá hæstv. sjútvrh. þegar hann sagði: Já, hvað gerðu þeir menn sem eru nú á móti því að Oslóarsamkomulagið var gert við breta, — hvað gerðu þeir í nóv. 1973; þegar þeir stóðu að því að samið var við breta?

Vitanlega eru allar umr. af þessu tagi út í hött og koma ekkert kjarna þessa máls við. Við vitum að við höfum átt í deilu við breta í langan tíma og okkar skýrslur og breta líka sýna það, að frá því að þessar deilur voru teknar upp nú í seinni lotunni, þ.e.a.s. á árinu 1972, og þar til nú, þá hefur fiskmagn þeirra héðan af Íslandsmiðum og annarra útlendinga verið að ganga niður allan tímann jafnt og þétt, — og sem betur fer auðvitað núna í síðustu lotunni einnig í sambandi við það samkomulag sem gert var í Osló, þá hefur þetta fiskmagn enn haldið áfram að minnka. Við höfum verið að ná árangri allan þennan tíma og einnig með samkomulagi sem hefur verið gert, hvort sem mönnum hefur fundist það samkomulag ná nægilega langt á hverjum tíma málsins eða ekki. Það er því ekki það sem hér er um að ræða, hvort rétt hafi verið áður að semja við hreta eða ekki og hvort þeir hafi þá með samningum fengið of mikið eða ekki. Hér er um allt annað mál að ræða. Hér er fyrst og fremst um það að ræða hvað eigi að gerast í okkar landhelgismáli eftir 1. des. n.k. og á hvaða grundvelli eigi nú að taka upp viðræður, um hvað eigi að ræða efnislega og hvort menn fást til þess að gefa það upp í meginatriðum hver sé okkar stefna, hvert muni verða okkar svar. Um það snýst málið.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að halda hér uppi karpi um einstaka undirþætti þessa máls, eins og varðandi samningsgerð sem fram fór í Osló í júníbyrjun. Ég hafði bent á það í minni ræðu að það hafi komið fram frá gagnaðilanum sjálfum, þ.e.a.s. utanrrh. breta sem stóð fyrir þeirra hönd í þessum samningum, þar sem hann lýsti því yfir í breska þinginu að bretar hafi ekki átt neinn annan kost, eins og komið var, annan en að ljúka deilunni við íslendinga. Þetta var hans skýring á því hvernig okkar landhelgisdeila hafði þróast. Þeir urðu að taka upp breytta afstöðu, og það vorum ekki við sem knúðum þá til þess með þessari samningagerð. Þeir fengu hins vegar samninginn til þess kannske að bjarga aðeins sínu andliti fyrir einhverjum. Það var eitthvað aðeins betra fyrir þá að bakka út úr því sem komið var með svona samningagerð. En hitt er sem sagt þeirra eigin yfirlýsing, að svo hafi verið komið að það hafi ekki verið hægt að halda þessu áfram; m.a: vegna breyttrar stefnu þeirra sjálfra og átaka varðandi landhelgismálið sem upp voru komin hjá þeim.

En eins og ég hef sagt, þá er þetta ekkert höfuðatriði í málinu eins og nú standa sakir. Og samkomulagið, sem gert var í Osló 1. júní, er heldur ekkert höfuðatriði í þessu máli. Það er gert og framkvæmt og senn búið að vera. Menn geta eflaust haldið áfram að deila um hvort hafi verið þörf á því samkomulagi og hverjar hafi orðið afleiðingar þess samkomulags í sambandi við veiðimöguleika útlendinga hér á miðunum. Menn geta haldið því áfram. En um það snýst í rauninni ekki málið í dag, heldur hitt, hvert framhaldið á að verða. Ég verð líka að segja það, að heldur er það nú skothent að lýsa yfir að samkomulagið í Osló feli í sér algera viðurkenningu breta á 200 mílunum hér hjá okkur, að okkar réttur sé orðinn algerlega óumdeilanlegur, og í þessu sérstaka samkomulagi felist hinn mikli stjórnmálasigur, en svo skuli menn samt sem áður vera í einhverjum vafa um það eftir allan þennan tíma hvert framhaldið eigi að verða nú alveg á næstunni, þ.e.a.s. 1. des. Ég hélt satt að segja að þá ætti ekki að leika neinn minnsti vafi á því að menn ættu að fylgja þessu eftir á þann hátt, miðað við allar okkar aðstæður, að segja: Nú er ekki um neitt meira að semja. Við höfum samið, það var kominn punktur aftan við deiluna, þessu var lokið, og við höfum ekki um neitt að semja. Þið hafið ekkert það að bjóða okkur varðandi gagnkvæman fiskveiðirétt sem við getum litið víð, miðað við hið alvarlega ástand á okkar fiskimiðum, og því þarf ekki að ræða málið á þeim grundvelli. — Hitt gátu menn svo gert, sem vildu vera afskaplega kurteisir, að segja að þrátt fyrir þessa afstöðu værum við tilbúnir að hitta þá og drekka með þeim kaffi eða ræða við þá um þessi mál, en sem sagt, þetta væri okkar afstaða.

Ég geri ráð fyrir því að umr. um málið á þessu stigi breyti ekki miklu. Hér hafa komið fram þrír hæstv. ráðh. sem mjög hafa haft með málið að gera fyrir hönd ríkisstj., þ.e.a.s. hæstv. forsrh., hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh., og þeir hafa ekki fengist til þess enn þá að segja nokkurn skapaðan hlut um það, hvað sé á bak við þetta hjá þeim, hvað þeir meini, hvernig þeir ætli að halda á málinu, en verið að ræða um ýmis minni háttar atriði málsins, þar sem málflutningur þeirra er þó ekki byggður á sérstaklega föstum grunni. Það gerir því kannske lítið gagn að halda áfram einhliða umr. um það að knýja á menn með að tala þegar þeir fást ekki til þess að tala. En reynslan verður þá að sýna hvernig framhaldið verður. En ég er hræddur um að miðað við þessa afstöðu alla, þá þurfi jafnt alþm. sem aðrir í landinu að gæta að ráðh., þeir þurfi að láta þá finna það eftir öðrum leiðum hver sé skoðun manna og hvað þeir megi og hvað þeir megi ekki gera. En ég fyrir mitt leyti er mjög uggandi um að láta þá fara til samningaviðræðna í þessum kurteisistón sem þeir hafa verið að lýsa hér, vitandi ekkert hvað þeir ætla að gera.