14.04.1977
Efri deild: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3086 í B-deild Alþingistíðinda. (2253)

213. mál, Skálholtsskóli

Ingiberg J. Hannesson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til þess að fagna því að frv. þetta skuli vera komið hér fram. Hér er gert ráð fyrir því að stofnun, sem hefur starfað undanfarin ár með ágætum, fái sinn sess í skólakerfinu, og ég lít svo á að skóli á þessum grundvelli eigi þar heima.

Frá því að Skálholtsstaður fékk sess í hugum íslendinga sem biskupssetur að fornu hefur þar verið rekinn skóli, að sjálfsögðu fyrst og lengi vel í tengslum við kirkjuna, en jafnframt var hann sú stofnun sem miðlaði almennri þekkingu til þeirra lærisveina sinna sem síðan gegndu áhrifastöðum í þjóðlífinu og voru brautryðjend­ur á ýmsum sviðum þjóðlífsins. Því hefur Skál­holt ásamt með Hólum í Hjaltadal skipað sinn ákveðna sess og sinn virta sess í hugum íslend­inga allt þar til stóll og skóli voru niðurlagðir laust fyrir síðustu aldamót, illu heilli, á niður­lægingartímum í sögu þjóðarinnar. En með end­urreisn Skálholts nú hin síðustu árin hefur þótt sjálfsagt, að jafnframt því sem staðurinn yrði kirkjuleg miðstöð risi þar og starfaði skóli, svo sem áður var, þó með öðru sniði væri en þá. Þessi skóli hefur nú starfað í nokkur ár og lagt áherslu á, eins og segir í frv. sem hér liggur fyrir, að „dýpka skilning“ nemenda sinna á félags- og menningarlífi samtíðarinnar, auk þess sem hann vinnur að varðveislu þjóðlegrar menningararf­leifðar íslendinga og starfar á grundvelli krist­innar kirkju. Að þessu leyti hefur skólinn sér­stöðu í íslensku skólakerfi, byggir enda á starf­semi og starfsháttum hinna kunnu norrænu lýð­háskóla sem reynst hafa mörgum æskumannin­um notadrjúgir til uppbyggingar fyrir menntun framtíðarinnar.

Hér hefur Skálholtsskóli auk þess fyllt upp í vissa eyðu í skólakerfinu, þar sem þar hafa fengið aðgang ýmsir þeir nemendur sem urðu utanveltu í hinu almenna kerfi og fengu aðstöðu til að átta sig og finna sjálfan sig á nýjum vettvangi við frjálst nám og holla leiðsögn.

Ég tel að Skálholtsskóli hafi þegar sannað ágæti sitt, þótt hann hafi ekki lengi starfað, og styð því þá hugsjón, sem að baki honum liggur, og þá viðleitni að stuðla að hagnýtu þjóðlegu skóla­starfi á kristilegum grundvelli. Það dylst áreiðan­lega engum, að á tímum siðferðilegrar upplausn­ar, sem við blasir á mörgum sviðum, því verður ekki á móti mælt, þá er sérstök þörf á stofnun sem leggur áherslu á kristilegar dyggðir og beinir nemendum sínum inn á siðferðilega heilbrigðar brautir og elur jafnframt upp heilbrigt ungt fólk sem vill beina kröftum sínum að eflingu þjóð­legra verðmæta og fegurra mannlífs. Þetta er auðvitað hlutverk allra skóla í landinu. En mis­jafnlega er það rækt, eins og við má búast, og ekki er alls staðar lögð sú áhersla á hinn sið­ferðilega og trúarlega þátt uppeldisins sem þörf væri á ef þjóðin á að stefna til farsældar og gæfu á komandi árum.

Það er þjóðinni til sóma hvernig staðið hefur verið að endurreisn Skálholtsstaðar, og ef Skál­holtsskóli fær að starfa áfram á sama grundvelli og verið hefur með stuðningi ríkisvaldsins, þá er vel farið og áreiðanlega þjóðinni til gæfu. Þess vegna styð ég þetta frv. og vænti þess, að það hljóti jákvæða afgreiðslu á hv. Alþingi.