14.04.1977
Efri deild: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3095 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

213. mál, Skálholtsskóli

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla alls ekki að lengja umr. um þetta frv., aðeins þrjú og þó fyrst og fremst tvö atriði sem ég vildi leiðrétta í máli hæstv. ráðh., eða leiðrétta annað þeirra, en skýra hitt.

Því fer víðs fjarri að ég hafi eða muni mæla gegn því að við færum okkur í nyt reynslu er­lendra skólamanna í íslenska menntakerfinu. Því fer víðs fjarri. Ég er þeirrar skoðunar eins og hæstv. ráðh., að okkur beri að tileinka okkur þá þekkingu þeirra sem fellur að íslenskum að­stæðum, og svo er ekki aðeins í menntamálum, heldur öðrum þeim málum sem varða framfarir á landi hér og lausn íslenskra vandamála. En hitt staðhæfði ég, að fjölmargt í hinu danska skólakerfi, hinu erlenda skólakerfi, hafi verið flutt hingað inn til landsins án þess að gerð væri nógu ítarleg tilraun til þess að fella það að íslenskum þjóðháttum, atvinnuháttum, náttúru­fari landsins og með þessum hætti hafi verið unnið stórtjón á íslenskri skólaæsku, á menn­ingu þjóðarinnar og atvinnuháttum hennar. Ég get nefnt dæmi um þetta. Ég get nefnt hæstv. menntmrh. dæmi um þetta, svo að ég taki nú það allra grófasta, um kennslu í málfræði á landi hér, þá kennslu sem stundum hefur verið í mál­fræði á landi hér. Hér er kennd íslensk málfræði sem kölluð er. Sannleikurinn um þessa málfræði er hins vegar sá, að hér er kennd latnesk mál­fræði, þýdd yfir á íslensku, og öll þessi ár hefur verið unnið að því að sveigja íslensku undir lög­mál latneskrar málfræði og það svo, að hún er víða gengin af göflunum. Þetta er aðeins eitt dæmi af ákaflega mörgum. Hvaða vit er í því á þessu vertíðanna landi, þar sem megnið af fram­leiðslunni er árstíðabundið, að við kúldrum vinnu­glaða unglinga í skólum, t. d. á sauðburðinum, þegar þeir eru látnir sitja allt að því gráti nær yfir latneskri málfræði á íslensku, allt að því gráti nær af löngun til þess að koma heim og taka þátt í þeim menntandi undrum sem eru að gerast úti í vorgrænni náttúrunni, að láta skóla­kerfið ræna unglingana þessari gleði og þeim þroskamöguleikum sem felast í því að fá að taka þátt í því allra skemmtilegasta og besta og erfið­asta í atvinnulífi landsins? Þetta sama gildir um starfið við sjóinn.

Nei, það má vel vera að svo sé um margar íslenskar stofnanir og marga starfsemi á landi hér og það teljist eðlilegt að dómi hæstv. mennt­mrh., að fyrst byggi menn hús af mikilli starfs­gleði, að ég ekki segi í „fanens vold og magt“, setjist síðan niður og spekúleri í því til hvers eigi að nota húsið. Það hafði verið lagt í tals­verðar byggingarframkvæmdir á Skálholtsstað og það megum við muna býsna vel, a. m. k. við sem unnum að því að skrifa fréttir á þeim árum, að það var svo sannarlega stefnt að því að endur­reistur yrði biskupsstóll í Skálholti. Þetta var haft uppi af hálfu þeirra sem fyrir framkvæmd­unum stóðu, raunar löngu eftir það að þeir vissu það sjálfir að þar mundi aldrei rísa biskupsstóll. Og það hafði verið reynt til þrautar áður að það yrði hreint ekki um sinn að biskupssetur yrði aftur í Skálholti. En það var haldið áfram að starfa þarna að framkvæmdum, og ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið gott. Ég vil á engan hátt gera hlut þeirra manna, sem að því unnu, lítinn. En það var ljóst mál, að löngu, löngu áður en forustumenn Skálholtsfélagsins hættu að hafa það uppi, að þar ætti að verða biskups­setur, þá vissu þeir það sjálfir að af því mundi ekkert verða, þannig að þarna brást nú dálítið á heilindin. Og ég er þeirrar skoðunar, að við uppbyggingu íslenskra skóla og þ. á m. e. t. v. fyrst og fremst íslenskra lýðháskóla, þá megum við ekki láta þess háttar vinnubrögð ráða. Það voru slíkir menningarmenn, sem stóðu að Skál­holtshreyfingunni, ágætis menningarmenn, að þeim kom það náttúrlega miklu fremur til hugar, þegar þeir voru búnir að reisa þarna þessar byggingar, að koma þá upp skóla í Skálholti, enda átti sú hugmynd sér vissulega sögulega stoð, vitaskuld alltaf miklu frekar í huga að að koma þar upp skóla heldur en t. d. hænsna­búi. En ég aðhyllist alls ekki þá skoðun hæstv. menntmrh., að það geti talist eðlilegt að byggja fyrst hús og taka síðan ákvörðun um það, til hvers eigi að nota það. Hitt er náttúrlega miklu eðlilegra, að sníða þá bygginguna að fyrirhug­uðum notum.

Ég ítreka þetta: Ég er því ekki hlynntur að það verði brugðið fæti fyrir lýðháskólann í Skál­holti. Ég vil að lagt verði af mörkum fé til þess að hann geti starfað og látið gott af sér leiða. Og ég tel alveg hreint fráleitt að rammi utan um lýðháskóla á Íslandi, sem ég vona að verði miklu meiri, verði smíðaður utan um þennan sérstaka skóla í Skálholti. Ég tel það alveg fráleitt. Ég er hræddur um að löggjöfin um lýðháskólann í Skálholti yrði síðan látin gilda um aðra lýðháskóla á Íslandi eða a. m. k. látin verka sem rammi um þá, þannig að þeir yrðu felldir inn í þess háttar form. Ég tel óeðlilegt að það væri gert. Ég er þeirrar skoðunar, að eðlilegt sé að lýðháskólinn í Skálholti starfi eins og hann hefur gert án sérstakrar löggjafar og við getum lært af þeirri reynslu, sem þar fæst, og tekið tillit til hennar þegar við síðan smíð­um löggjöf um lýðháskóla á Íslandi.