14.04.1977
Neðri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3106 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Mér kemur nú alveg á óvart að heyra í hv. 3. þm. Reykv. Það hefur verið gott samstarf í iðnn. Nd. Þar hafa margir fundir verið haldnir, og ég hef ekki vitað annað en að hv. 3. þm. Reykv. hafi fengið svör við öllum þeim spurningum sem hann hefur bor­ið fram um þetta mál, m. a. skriflegum spurn­ingum sem voru 31 að tölu, minnir mig, — svör við þessu öllu.

Hv. þm. talaði um að hann hafi ekki fengið starfsleyfið fyrr en 6. þ. m., það var fyrir páska, og þess vegna hefði ekki verið gott að átta sig á því og umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkisins hefði ekki legið fyrir. Ég fékk umsögn Heilbrigðiseftir­lits ríkisins í gær, þykka bók, og henni fylgdi svo hljóðandi bréf, með leyfi hæstv. forseta: „Til formanna iðnn. Alþ.

Að beiðni heilbr.- og trmrn. sendir Heilbrigðis­eftirlit ríkisins formönnum iðnn. Alþ. tvö ein­tök af umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkisins um starfsleyfisumsókn íslensku járnblendiverksmiðj­unnar.“

Og neðan undir stendur: „Sent sem trúnaðar­mál.

Hrafn Friðriksson yfirlæknir,

forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins.“

Ég hringdi í Hrafn Friðriksson í gærkvöldi og spurði hann að því, hvers vegna þetta væri sent sem trúnaðarmál. Hann sagði að það væri hægt að misnota þetta með því að slíta úr sam­hengi efni umsagnarinnar og það væri ekki til þess ætlast, það væri ekki heldur málinu til bóta. Ég spurði hann að því, hvort starfsleyfið væri í samræmi við till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins. „Já,“ sagði hann, „það er það í aðalatriðum.“ „Eruð þið ánægðir með starfsleyfið?“ spurði ég. „Já,“ sagði hann. „Þetta er aðalatriði málsins,“ sagði ég. „Já auðvitað þetta er aðalatriði málsins,“ sagði hann. Ég sagði að þm. mundu e. t. v. óska eftir að sjá þessa umsögn, en ég fyrir mitt leyti óskaði ekkert sérstaklega eftir því eftir þetta samtal, því aðalatriðið frá mínu sjónarmiði væri að Heilbrigðiseftirlitið hefði fengið óskir sínar uppfylltar í starfsleyfinu.

Við Heilbrigðiseftirlitið starfa nú tveir ungir og færir menn sem áreiðanlega vilja ekkert nema gott. Þeir ætlast ekki til, að það verði farið út í öfgar í þessum málum, en þeir vilja, eins og skylda ber til, reyna að gera það sem í mannlegu valdi stendur til þess að stuðla að góðum meng­unarvörnum hér á landi. Það viljum við þm. líka.

Ég tel rétt að láta þm. hafa þessa bók, en því miður er hún ekki til strax. Við eigum bara tvö eintök, upplýsti Hrafn. Það er allmikil vinna að prenta þetta því bókin er þykk.

Í morgun var fundur í iðnn. Nd. Ég var með eitt eintak, sem ég átti að hafa, og ég var með annað eintak, sem form. iðnn. Ed. átti að fá og hann er nú búinn að fá. Þetta eina eintak lánaði ég Sigurði Magnússyni, hv. 3. þm. Reykv., og lét afrit af bréfi Heilbrigðiseftirlitsins vera með í bókinni, þótt hún yrði aðeins þykkari fyrir það. Ég sagði að þótt þetta væri trúnaðarmál, þá gæti hann vitanlega sýnt flokksbræðrum sínum þessa bók, og Hrafn Friðriksson hefði sagt í gær að hann væri reiðubúinn hvenær sem væri að ræða við þm. bæði um þessa till. þeirra og eins starfs­leyfið í heild. Enginn í iðnn. Nd. óskaði eftir að fá bókina nema hv. 3. þm. Reykv., enda töldu þeir nm. að það væri aðalatriðið að starfsleyfið væri í samræmi við till. Heilbrigðiseftirlitsins. Það væri og miklu hægara að tala við forstöðu­mann Heilbrigðiseftirlits ríkisins heldur en að lesa bókina, og allir þm. eiga aðgang að Heil­brigðiseftirlitinu.

Það er þess vegna alger fjarstæða sem hv. 3. þm. Reykv. fer fram á, að nú verði þetta mál tekið út af dagskrá vegna þess, að umsögn Heil­brigðiseftirlitsins liggi ekki fyrir og hafi ekki verið útbýtt áður. Að segja það eftir þær upp­lýsingar, sem þessi hv. þm. fékk í morgun í iðnn. það er nú svona dálítið skrítið. Það er svo aftur annað mál, að vitna svona í tveggja manna tal. Það er ekki alltaf viðeigandi, en það er nú sjálf­sagt að muna eftir því, ef leiðir okkar liggja saman eftirleiðis, að segja ekki orð við hv. 3. þm. Reykv. svona sem ekki mega fljúga. Að vísu var ekki um það að ræða í þessu tilfelli. Það mátti fara allt sem ég sagði við hann. Má koma á prenti meira að segja, því það var ekkert ljótt, en stundum er þó þannig að menn veigra sér við því að vera að vitna í það sem sagt er undir fjögur augu, jafnvel þótt það sé skaðlaust. En hv. þm. segist ekki vera tilbúinn með sitt minnihluta álit. Hann þarf langan tíma og þess vegna þarf hann að fá frest. Ég held, herra for­seti, að ég tefji ekki tímann með lengra máli og sé ekki ástæðu til annars heldur en að haldið verði áfram með umr.