14.04.1977
Neðri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3108 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það er fyrst og fremst í tilefni af ummælum hæstv. forseta í sambandi við þá beiðni sem hér hefur fram kom­ið um að taka út af dagskrá tiltekið mál. Ég verð að segja það, að ummæli hæstv. forseta komu mér mjög á óvart og eru mjög einkennileg og það virðist vera að hann sé lítið kunnugur starfsvenjum hér á Alþ. í sambandi við það sem hann sagði hér um þessa beiðni. Hér er um það að ræða hvort taka skuli til umr. mál þar sem n. hefur ekki enn þá skilað nál. til þingsins að fullu. Það er upplýst að sú n., sem hafði með málið að gera, var á fundi rétt fyrir hádegi í morgun og þá voru lögð fram mjög þýðingar­mikil gögn í þessu máli, skýrsla frá Heilbrigðis­eftirliti ríkisins. Það er vitanlega engin fram­bærileg ástæða til þess að ætlast til að nál. séu komin á borð þm. á þessum tíma, sem liðinn er síðan n. hélt fund. Það kemur líka í ljós að 1. minni hl. í n. hefur lagt fram sitt nál. og því var útbýtt hér á borðin um leið og þingfundur var settur, og ég býst ekki við að neinn hv. dm. hafi enn þá komist yfir að lesa það nál. Til þess hefur ekki unnist neinn tími. Það er algjörlega óvenjulegt á Alþ. að taka til umræðu mál þegar ekki er búið að sinna þeim þinglegu skyldum að leggja fram nál., ef aðilar í n. óska eftir að leggja fram nál. og innan hóflegs tíma. Það er því brot á öllum venjulegum þingstörfum að taka mál eins og þetta til umr. á þessum fundi.

Það er líka algjör misskilningur, að ekki sé ann­að sagt, hjá hæstv. forseta að túlka þingsköpin þannig, að ef óskað sé eftir því af þm. að taka mál út af dagskrá af einhverjum sérstökum ástæðum, þá beri honum skylda til þess að leggja fram beiðni um það þann dag sem dagskrá sé samin. Hæstv. forseti hlýtur að vita það, að yfir­leitt sjá þm. ekki dagskrána fyrr en á fundar­degi. Þetta er því vitanlega líka alveg út í hött, enda eru auðvitað mörg dæmi um það, tugir, ef ekki hundruð dæma um það, að þm. hafi óskað eftir því hér í ræðustól að mál yrði tekið út af dagskrá, m. a. af því að nál. hafi ekki verið út­býtt, eða einhverjar aðrar ástæður liggja þar til, og forseti hefur allajafna orðið við slíku ef það hefur ekki afgerandi áhrif á afgreiðslu málsins.

Nú er auðvitað ekkert um það að villast í þessu efni, að það er auðvelt að afgreiða það mál, sem hér er um að ræða í gegnum þingið og gera frv. að lögum sé nægur meiri hl. fyrir því hér á Alþ. Það er nægur tími til þess án þess að ætla sér að gera það með þeim hætti að brjóta allar venjulegar þingreglur sem viðhafðar hafa verið hingað til.

Ég beini því þeim tilmælum enn ti hæstv. forseta að hann endurskoði þessa afstöðu sína og fallist á að taka þetta mál út af dagskrá, því það er algjörlega óvenjulegt að ætla að ræða það með þessum hætti. Ég er ansi hræddur um að það verði þá að gera hér alveg nýjar kröfur í sam­bandi við gerð dagskrár og útbýtingu hennar til þm. ef ætti að fara að beita slíkum bolabrögð­um eins og hæstv. forseti er hér að vitna til í sambandi við þetta mál.

Ég vil einnig beina því til hæstv. ríkisstj., sem að þessu máli stendur, að það verður skilj­anlega ekki til þess að greiða fyrir afgreiðslu þessa máls hér að efna hér til langra umr. um þau atriði sem auðvelt er að losna við umr. um. Ég tel á engan hátt heppilegt að standa þannig að umr. að taka málið fyrir nú, áður en nm. eru búnir að skila nál., áður en þm. hafa getað fengið að lesa sum nál. sem eru nú komin á borð þm., að ég tali ekki um að það liggur fyrir að menn hafa ekki fengið að kynna sér þýðingar­mestu gögn málsins, hafa ekki fengið tíma til þess enn þá.

Það fer auðvitað ekkert á milli mála, það vita allir hv. alþm., að ástæðan til þess að það mál, sern hér er rætt um, hefur verið hjá iðnn. d. rétt um 2 1/2 mánuð, er sú, að umsögn hefur legið fyrir frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins varðandi skilyrði fyrir starfsleyfi sem aðilar málsins, m. a. hinn erlendi aðili, hafa ekki viljað sætta sig við. Þetta hafa allir alþm. vitað. Nú hefur hins vegar orðið sú breyting á, að starfsleyfi er veitt og málið á að fá sinn framgang hér á Alþ. eftir því sem meiri hl. stendur til með því. En hvað er þá eðlilegra í sambandi við skyldur alþm. í sambandi við afgreiðslu svona mála en að alþm. vilji fá að sjá hvað það var sem Heilbrigðis­eftir­lit ríkisins sagði í sínu áliti sem stöðvaði þetta mál í 2 1/2 mánuð. Hvað var það? Um hvað sner­ist málið? Hvaða skilyrði settu þeir fram sem þurftu að stöðva málið? Dettur nokkrum manni í hug að það sé frambærilegt að segja hér á Alþ. í sambandi við afgreiðslu máls eins og þessa: Ja, þetta er trúnaðarmál, þetta má ekki sýna alþm., þetta mega þeir ekki ræða um. Þetta er trúnaðarmál. — Auðvitað lætur Alþ. ekki bjóða sér slíka forsmán, og það er enginn embættis­maður, hvorki hjá Heilbrigðiseftirliti ríkisins né annars staðar, fær um að ætla að svara Alþ. á þann hátt að það fái ekki að sjá þessa umsögn. Og þó að sagt sé að þessi umsögn hafi verið send formönnum iðnn. beggja d., þá er það vitanlega ekki frambærilegt á neinn hátt. Allir alþm. eiga rétt á að fá að sjá hana. Hér hefur ekki verið gerð nein sérstök krafa um að þetta álit yrði prentað og því yrði dreift út til allra alþm. Það er mál út af fyrir sig. En hér á ekki að vera um neitt leyniplagg að ræða. Alþm. eiga að fá rétt til að sjá það og lesa það og gera sér fulla grein fyrir því um hvað var deilt og hverju hefur verið breytt.

Mér er ljóst af þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, að það hefur verið vikið frá heim upp­haflegu skilyrðum, sem Heilbrigðiseftirlit ríkis­ins setti í sambandi við mengunarvarnir, í veiga­miklum atriðum. En samt eru sett allströng skil­yrði í sambandi við starfsleyfið og auðvitað eiga þessi mál öll að koma hér fram. Það er svo mál út af fyrir sig, að það er hv. iðnn. til há­borinnar skammar að hafa staðið þannig að mál­um eins og þessu að afgreiða fyrir sitt leyti þetta mál áður en hún hefur kynnt sér þetta megin­atriði málsins, umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkis­ins, og borið það saman við þau skilyrði sem síðan hafa verið sett fyrir starfsleyfinu. Og það er líka óþinglegt á allan hátt að iðnn. skuli ekki gera hv. Alþ. fulla grein fyrir því í öllum meg­inatriðum um hvað hér var deilt. Ég skil satt að segja ekki að það geti verið ósk nokkurs alþm. að fara í launkofa með eitthvað af þessum atriðum. Auðvitað komast þau öll til skila á sínum tíma og verða upplýst. Þessi mál eru þegar komin svo langt að þeim verður ekki haldið leyndum, og af því á vitanlega að upplýsa þau hér á Alþ. og einmitt á meðan málið er hér til umr. og afgreiðslu.

Ég skal ekki lengja þetta hér að sinni, en ítreka enn við hæstv. ríkisstj. og viðkomandi hæstv. ráðh., að hann beiti sér fyrir því að fresta umr. um málið, taka það út af dagskrá í dag svo það geti fengið hér eðlilega umr., nál. liggi fyrir, eins og venja er til og mönnum gefist kostur á því að kynna sér þá þýðingarmiklu umsögn, sem þarna liggur fyrir, með eðlilegum hætti. Og það er alveg víst, að verði gripið til þess að ætla reyna að þjösna þessu máli í gegn með slík­um lagaskýringum eins og hér komu fram hjá hæstv. forseta, þá má hann eiga það alveg víst að það mun ekki ganga greiðlega að fá hér ýmis afbrigði sem leitað er eftir í sambandi við af­greiðslu mála, því þetta er að brjóta venjulegar þingreglur sem viðhafðar hafa verið hér á Alþ. árum saman. Ég þekki ekkert dæmi þess, að að þarflausu sé neitað að fresta máli þegar svona stendur á.

Ég undirstrika það enn einu sinni, að frá minni hálfu og míns flokks er ekki á nokkurn hátt verið að gera hér tilraun til þess að koma í veg fyrir að hv. Alþ. geti með eðlilegum hætti afgreitt það mál sem hér er um að ræða. Meiri hl. verður að sjálfsögðu að ráða. Og það er nægur tími til þess.

Ég vænti þess að hæstv. forseti eða viðkomandi hæstv. ráðh. beiti sér fyrir því að málið verði tekið út af dagskrá.