14.04.1977
Neðri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3110 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Magnús T. Ólafason):

Vegna ummæla hv. 2. þm. Austurl. vil ég enn ítreka það sem ég sagði í athugasemd minni við mál hv. 3. þm. Reykv. Það var á vitorði þingheims og deildar­manna í gær að þetta mál yrði tekið á dagskrá. Það kom m. a. fram í máli eins af þm. þingflokks hv. 2. þm. Austf., og því var hægur hjá, ef þm. úr þeim þingflokki óskuðu mjög eindregið að málið væri ekki tekið á dagskrá, að koma þeirri ósk á framfæri þá þegar við mig sem vitað var að mundi stjórna þessum fundi. Það var ekki gert. En þá áttu þeir enn þess kost að fara að ákvæð­um 44. gr., sem ég vitnaði til áðan, um það að ákveðinn fjöldi þm. getur knúið fram atkvgr. í d. um hvort mál skuli tekið á dagskrá, ef þeir eru ósammála um þá dagskrá sem forseti hefur samið.

Ég vísa því algjörlega á bug ummælum hv. þm. um að þau orð, sem ég lét hér falla, hafi byggst á vanþekkingu á þingvenjum, og því fremur vísa ég á bug þeim ummælum að þar sé um bolabrögð að ræða.