14.04.1977
Neðri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3112 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

Umræður utan dagskrár

Sigurður Magnússon:

Herra forseti. Ég vil fyrst segja vegna ummæla hæstv. forseta í sambandi við ósk mína um að fá málinu frestað, — um­mæla þar sem hann vitnar til þingskapa og ég ætla ekki að rengja í sjálfu sér að séu rétt, ég hef ekki þá þekkingu að ég treysti mér til þess að rengja þau ummæli forseta, — en ég vil af því tilefni segja honum að í gærmorgun óskaði ég eftir því við hv. formann iðnn., Ingólf Jónsson, að fá téða umsögn afhenta þá strax í gær. Þessa ósk bar ég fram fyrir hádegi í gær og hafði þá upplýsingar um það, staðfestar bæði frá heilbr­rn. og Heilbrigðiseftirliti ríkisins, að þessi um­sögn hefði verið send hv. þm. Ingólfi Jónssyni 6. þ. m., þ. e. a. s. miðvikudaginn fyrir skírdag, og þess vegna taldi ég víst að þm. gæti orðið við ósk minni og afhent mér þessa umsögn í gær. Þá hefði e. t. v. ekki þurft að koma til þessara umr. hér í dag. Af þeim ástæðum, vegna þess að ég átti von á því í allan gærdag að fá þessa umsögn afhenta, gerði ég ekki ráðstafanir til að óska eftir frestun fyrr en að loknum þessum fundi, og ég vil að forseti endurskoði afstöðu sína með tilliti til þessara upplýsinga minna.

Ég hef hér í höndunum bréf, sem hv. þm. Ingólfur Jónsson hefur reyndar lesið hér upp, sem fylgdi umsögninni frá heilbrigðisráðuneyt­inu, en þetta bréf er dags. 6. þ. m. þegar um­sögnin var send honum.

Ég veit ekki hvað ég á að eyða að öðru leyti miklum tíma í að ræða ummæli þessa hv. þm. Sumir hafa þegar vikið að sumum þeirra, svo sem því, að plagg þetta þurfi að vera trúnaðar­mál vegna þess að það sé auðvelt að rangtúlka það og misnota það. Ég er nú satt að segja ekki þingvanur, en mér koma þessi ummæli mjög á óvart. Okkur alþm. berast nær daglega hvers kyns umsagnir, tillögur, greinargerðir og skýrslur frá jafnt opinberum aðilum sem félagasamtökum. Okkur eru fengin þessi gögn til þess að auð­velda okkar málatilbúnað og til þess að við get­um greint rétt frá röngu hér í okkar daglegu störfum. Ég get ekki séð að þessi umsögn, sem hér um ræðir, sé neitt öðruvísi en öll þau plögg sem á borð okkar koma. Ég get ekki litið öðru­vísi á en hér sé beinlínis verið að búa sér til eða finna ástæður til þess að koma í veg fyrir það, að hér á Alþ. séu þessi mál rædd og að þau nái eyrum þjóðarinnar. Ég get enga aðra skýringu séð á þessu.

Síðan gaf þessi hv. þm. í skyn, að það hafi verið rangt af mér og ódrengilegt að vitna til ummæla, sem hann viðhafði við mig um af­greiðslumáta meiri hl. n., a. m. k. sumra nm., á þessu máli, að þeir skyldu skrifa undir nál. áður en starfsleyfið lá frammi og einnig og enn frekar áður en umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkisins var lögð fram. Ég verð nú að segja eins og er, að ég gat ekki ímyndað mér, — og ég vona að hv. þm. skilji það, — ég gat ekki ímyndað mér að þetta væri neitt leyndarmál sem ég væri að ljóstra upp. Satt að segja tók ég það ekki sem slíkt, því það liggur í augum uppi að hv. þm., sem að meiri hl. standa, voru ekki búnir að kynna sér umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkisins þegar nál. þeirra fór í prentun. Því var dreift hér á borð þm. í gær, ef ég man rétt, en það hefur komið fram, að umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkisins var lögð fram til þessara sömu þm. í dag. Ég gat því í þessum efnum ekki verið að ljóstra upp neinu leyndarmáli, og ég vil að það komi hér fram.

Að öðru leyti snerust ummæli þessa hv. þm. um það að gera sem allra minnst úr þessu máli. M. a. kom það fram hjá honum, að ég einn nm. í iðnn. Nd. hefði óskað eftir að fá að sjá umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Ja, ég verð að segja eins og er, að mér finnst þetta slæmur dómur um aðra hv. þm. í þessari ágætu n., og ég veit reyndar ekki hvort það er rétt. En ef svo er, þá er þetta mjög slæmur dómur, og það er eins gott að þjóðin fái að vita það, ef þetta er satt, hvers konar vinnubrögð eru stunduð á Alþ., að menn skuli leyfa sér það eftir þá reynslu, sem við höfum af stóriðju á Íslandi. — eftir þá illu reynslu — og eftir þá reynslu sem við höfum af samskiptum Heilbrigðiseftirlits ríkisins og annarra eftirlitsaðila við stóriðjufyrirtæki, að þm. skuli leyfa sér það að skoða ekki umsagnir Heilbrigðiseftirlits ríkisins um svona mál. Síðan er reynt að afgreiða málið og segja að umsögnin sé í samræmi við starfsleyfið og bætt svo við kannske á eftir: í aðalatriðum eða í meginatrið­um. Nei, ég held að úr því að þessar upplýsingar hafa komið hér fram, þá séu gagnlegar umr. fyr­ir fólkið í landinu að fá að frétta af skoðun­um þeirra þm., sem hér um ræðir, á málum sem þessum.

Ég vék stuttlega að því í ræðu minni áðan, að það væri komið nóg af því að fótumtroða um­sagnir íslenskra vísindamanna og heilbrigðisað­ila í málum sem þessum. Það er kannske full ástæða til þess, úr því að umr. eru hafnar hér um þetta mál, að rifja eitthvað annað af því upp. Ég hef reyndar stundum gert það áður hér í ræðustól. Ég minnti á það t. d. fyrir nokkrum dögum hér í umr., að síðast þegar hér var til af­greiðsln á Alþ. till. um stækkun álversins í Straumsvík, sem og var samþ. og gerður viðbótar­samningur, m. a. um raforkumál, um það leyti sem Alþ. var að fjalla um þetta, þá hefði Heil­brigðiseftirlit ríkisins sent Íslenska álfélaginu bréf, þar sem það gerði því grein fyrir hug­myndum sínum, hugmyndum heilbrigðismálaráðs Hafnarfjarðar og hugmyndum Náttúruverndar­ráðs um það, hvernig staðið skyldi að mengunar­vörnum í álverinu. Í þessu bréfi segir orðrétt í 4. lið þess, og ætla ég að lesa það hér upp, með leyfi forseta: „Öll hugsanleg stækkun álversins í Straumsvík verði háð skilyrðum reglugerðar 164 frá 1972, um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna. Enn fremur mun Heilbrigðiseftirlit ríkisins beita sér gegn því að frekari stækkun álversins verði leyfð fyrr en hreinsibúnaður hefur verið tekinn í notkun fyrir meginhluta keranna og sönnuð hefur verið hæfni hans (þ. e. hæfni hreinsibúnaðarins) um hreinsi­möguleika og mengunarmörk fyrir hugsanlegan hreinsibúnað ákveðin.“ Þetta álit lá fyrir. Það var ekki verið að hafa fyrir því að kynna það alþm. og þetta er fótumtroðið. Það er gerður samningur 1975 um stækkun álversins án þess að virða þessi orð. Það má reyndar segja sömu sögu í sambandi við Kísiliðjuna við Mývatn. Það hefur komið fram í nýlegri skýrslu, sem hefur verið dreift hér á borð okkar um mengunar­hættu þar, að Heilbrigðiseftirlit ríkisins er búið að standa í áralangri baráttu við að fá komið þar upp nauðsynlegum mengunarvörnum. Og nú þeg­ar nýtt mál er á ferðinni, þá er það stór hópur þm., sem á að fjalla um málið, sem telur ekki ástæðu til þess að kanna umsagnir þessara aðila, og það er sagt beinlínis hér í ræðustóli á Alþ. að starfsleyfið og umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkis­ins séu í aðalatriðum samhljóða.

Ég sagði í minni fyrri ræðu, að þó að mér hefðu verið afhent þessi gögn sem trúnaðarmál, þá liti ég svo á að það bæri að túlka það þannig, að sú túlkun, að þetta væri trúnaðarmál, gæti ekki komið í veg fyrir að ég hefði heimild til þess að greina hér frá þeim ákvæðum í starfsleyfi annars vegar og umsögn hins vegar þar sem ákvæði stönguðust á. Ég tel ekki hægt að túlka þetta svo. Og eftir að hv. þm. Ingólfur Jónsson hefur sagt það sem hann gerði fyrr í ræðu sinni, tel ég mér skylt að koma hér að þó ekki sé nema einu ákvæði í þessu starfsleyfi þar sem verulega er vikið frá kröfum Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Ég læt nægja að vitna hér í eitt atriði, en mun væntanlega við umr. síðar, ef þeim verður frest­að, gera frekari grein fyrir þessu. Þetta er ákvæði 25 í starfsleyfi, og ég ætla að lesa það upp, a. m. k. fyrri part þess. Þar segir, með leyfi forseta:

„Verði af óviðráðanlegum og ófyrirséðum or­sökum ekki unnt að flytja til hreinsibúnaðar allt rykmengað loft, sem um ræðir í ákvæðum 2.1, skulu þegar í stað hafnar nauðsynlegar lag­færingar í samræmi við áætlun þá, sem gerð skal samkv. ákvæði 2.3, 2. málsl. Reynist fyrirtækinu ekki unnt að ljúka nauðsynlegum lagfæringum til uppfyllingar ákvæðis 2.1 innan þriggja klukku­stunda frá því er umrætt ástand skapaðist, skal bilunin tilkynnt Heilbrigðiseftirliti ríkisins er fylgist með framkvæmd úrbóta og leggur fyrir ráðh. í samráði við landlækni hvort ástæða geti verið til sérstakra aðgerða vegna bilunarinnar. Fyrirtækinu er heimilt að halda áfram rekstri verksmiðjunnar meðan viðgerð stendur yfir, ef bilunin stafar ekki af ófullnægjandi viðhaldi búnaðarins og unnið er að úrbótum af fullum hraða, enda sé ekki ástæða til að ætla að rekstur­inn valdi tjóni á heilsu starfsmanna verksmiðj­unnar eða íbúa í grennd eða spjöllum á umhverfi. Að öðrum kosti getur ráðh. mælt svo fyrir að rafstraumur til ofns verði rofinn og rekstur hans stöðvaður þar til úrbótum er lokið.“

Svona hljóðar þessi grein í starfsleyfi umræddr­ar verksmiðju, og mér sýnist að þarna séu ýms­ir annmarkar á. En hvernig hljóðar samsvarandi grein í umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkisins og tillögum þess. Ég ætla að lesa hana hér upp, með leyfi forseta:

„Verði af óviðráðanlegum og ófyrirsjáanlegum orsökum ekki unnt að flytja til hreinsibúnaðar allt rykmengað loft, sem um ræðir í ákvæði 2.1, skulu þegar í stað hafnar nauðsynlegar lagfær­ingar í samræmi við áætlun þá, sem gerð skal samkv. ákvæði 2.3, 3. málsl. Reynist fyrirtækinu ekki unnt að ljúka nauðsynlegum lagfæringum til uppfyllingar ákvæðis 2.1 innan einnar klukku­stundar frá því að umrætt ástand skapaðist, skal rafstraumur til ofns verksmiðjunnar rofinn og rekstur hans stöðvaður.“

Ég vænti þess að þm. geri sér grein fyrir því, líka þeir sem standa að meirihlutaáliti hv. iðnn. Nd. Alþ., að á þessum ákvæðum er meginmunur og það er rangt, sem hér kom fram í ummælum hv. formanns iðnn., að starfsleyfið sé í aðalatrið­um eins og umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Við það getur hann ekki staðið þegar á reynir.

Ég ítreka ósk mína til forseta, sérstaklega með tilliti til þess sem ég gat um í upphafi máls míns.