14.04.1977
Neðri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3118 í B-deild Alþingistíðinda. (2279)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þessar umr. hafa aðallega snúist um tvö formsatriði eða átt að snúast um þau: annars vegar óskina um að taka málið af dagskrá í dag og hins vegar um það að ein mikilvæg skýrsla í málinu hefur verið sýnd nm. sem trúnaðarmál. Að vísu er þessi skýrsla, sem er kölluð „umsögn“ Heilbrigðis­eftirlits ríkisins, eins og hæstv. ráðh. hefur út­skýrt, umsögn eftirlitsins til ráðh. Þetta er ekki umsögn til Alþ. Engu að síður er þessi skýrsla komin inn í málið, og ég tel það mikinn mis­skilning að stimpla hana trúnaðarmál. Ég vil leyfa mér að túlka orð hæstv. heilbrrh. hér áð­an svo, að hann hafi tekið þetta aftur og þessi skýrsla sé ekki trúnaðarmál lengur. Ef þetta er misskilningur hjá mér, þá vænti ég að það verði leiðrétt. (Sjútvrh.: Þetta er rétt.) Þetta er rétt, segir hæstv. ráðh. Þá hefur það náðst fram og er vafalaust til bóta.

Ég mun ekki skipta mér af deilum um dag­skrána. Venjan er fyrst og fremst sú hér á Alþ. að reyna að ná samkomulagi milli meiri hl. og minni hl. um hvernig hátta skal afgreiðslu stórra mála, þó að lesa megi í þingsköpum reglur sem oft hefur verið í ýmsar áttir vikið frá. Ég harma það að slíkt samkomulag skuli ekki vera fyrir hendi að þessu sinni, enda hefur farið svo, að þessi fundur er nú langt til farinn í umr. sem hefðu aldrei átt að fara fram.

Meginástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er þó sú, að mér finnst ég þurfa að bera af mér sakir. Það hafa fallið þung orð um vinnubrögð meiri hl. iðnn. og verið sagt að hún hafi gefið út álit sitt án þess að hafa séð þessa umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Ég hef að vísu skrif­að undir álit meiri hl. n. með fyrirvara sem við getum rætt síðar. Tveir forsvarsmenn Heil­brigðiseftirlitsins sátu langan fund með iðnn. og þá höfðu þeir þessa margumræddu fjölrituðu umsögn í höndunum. Á þessum fundi var rætt um öll meginatriði málsins frá heilbrigðissjónar­miði og mér fannst koma þar fram mjög skýrt hver deilumálin voru og hver meginviðhorf Heil­brigðiseftirlitsins. Eftir það var langt hlé á fundum meðan beðið var eftir því að heilbrrn. gæfi út leyfið. Þegar leyfið lá fyrir, ég fékk það miðvikudaginn fyrir páska, þá átti ég fyrir mína hönd viðræður við forstöðumenn Heil­brigðiseftirlitsins í framhaldi af fundinum sem við áttum með þeim, og með tilliti til leyfisins. Í þessum ítarlegu viðræðum sannfærðist ég um það, að Heilbrigðiseftirlitið teldi að leyfið væri mjög vel viðunandi. Það var fyrst eftir að ég hafði sannfærst um það í viðræðum við for­ráðamenn Heilbrigðiseftirlitsins, eftir að leyfið hafði verið gefið út, og ég hafði haft heilt kvöld til að lesa það sjálfur, sem ég lét í ljós við formann iðnn. að ég væri reiðubúinn til þess að skrifa undir álitið með fyrirvara. Ég vísa því algerlega frá mér öllum ásökunum um óvönduð vinnubrögð eða skort á umhyggju fyrir þessari hlið málsins.

Ég vil geta þess, að Heilbrigðiseftirlitið hafði vissar hugmyndir um breytingar á lögum um verksmiðjuna í viðræðum við n. og lét okkur meira að segja sjá þær fjölritaðar. Tvö megin­atriðí í þessum hugmyndum þeirra hafa alþfl.­menn tekið upp og samið um þau sérstakt frv. sem var útbýtt í dag, frv. um breytingar á lög­unum um öryggisráðstafanir á vinnustöðum. Þetta varðar trúnaðarmenn verkafólksins og sér­stakar hollustunefndir, en ég tel eðlilegra, að slík ákvæði séu í þeim lögum og eigi við allan iðnað í landinu, heldur en reyna að koma þeim inn í þessi lög, þannig að þau ættu aðeins við þessa einu verksmiðju. Ég nefni þetta til þess að sýna fram á að ég hef haft samráð við Heil­brigðiseftirlitið og skrifaði ekki undir nál. fyrr en ég var sjálfur sannfærður um að Heilbrigðis­eftirlitið er eftir efnum og ástæðum ánægt með leyfið.

Ég leit svo á að umsögn, sem þessir embættis­menn sendu til rn. síns um ákveðið mál, sem er nýjung eins og hér hefur komið fram, sé þess eðlis að hún sé ekki lágmarkskröfur þeirra. Þetta fannst mér koma fram í viðræðum við þá, bæði á fundum n. og utan. Umsögnin var ekki lág­markskröfur. Það getur enginn maður sagt hvað eru lágmarkskröfur. Þeir eru þarna að berjast fyrir vissum reglum og fara að eins og samn­ingamenn. Þeir stilla í þessari umsögn sinni til rn. kröfunum mjög hátt, og það er þess vegna sem málið er búið að taka þennan tíma. Ég heyrði á embættismönnum Heilbrigðiseftirlits­ins, að þeir teldu að heilbrrn. hafi staðið vel í ístaðinu fyrir þeirra hönd, af því að vafalaust hefur deilan ekki verið milli Heilbrigðiseftirlits­ins og heilbrrn., heldur milli þessara heilbrigðis­aðila annars vegar og verksmiðjunnar og þeirra, sem skipta beint við hana. Það eru eðlilega and­stæðir pólar í málinu.

Um efni leyfisins getum við rætt, þegar málið verður formlega tekið á dagskrá. Ég vil ítreka það, að ég vænti þess að menn geti náð frið­samlegu samkomulagi um umræðuna, því að eftir þá mánuði sem liðnir eru getur einn dagur til eða frá ekki ráðið sköpum, og hefur raunar þegar oriðið til þess að hleypa illu blóði í meðferð málsins.