15.04.1977
Sameinað þing: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3152 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Gils Guðmundason:

Herra forseti. Ég vil í byrjun máls míns þakka hæstv. utanrrh, fyrir skýrslu hans. Hún var snemma á ferðinni að þessu sinni og er það vissulega þakkarvert, og einnig tel ég það þakkarvert að nú skuli gefast tækifæri til þess að ræða skýrsluna á sæmilega rúmum tíma, en því miður hefur ekki alltaf verið svo.

Þessari skýrslu ráðh. fylgdi í þetta skipti ítarleg grg. um síðasta Allsherjarþing Samein­uðu þjóðanna og er það nýmæli sem einnig ber að fagna. Annað nýmæli, sem ég tel að beri að meta og væntanlega verður framhald á, er að ekki alls fyrir löngu hefur einnig verið útbýtt hér meðal alþm. sérstakri skýrslu um norrænt samstarf á árinu 1976. Sú skýrsla er samin af formanni Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á því ári. Ég hygg að ég hafi fundið að því á s. 1. ári, þegar skýrsla hæstv. utanrrh. var til meðferðar, að slík grg. annaðhvort frá samstarfsráðh. okkar í ráðherranefnd Norðurlandaráðs eða frá fulltrú­um Íslands í ráðinu, þingfulltrúunum, hefði ekki komið fram og væri ekki rædd á Alþ. Ég vil einnig fagna því, að nú hefur verið úr þessu bætt, og ég vona, að þar verði framhald á. Ég tel að það séu þessar skýrslur og þó að sjálf­sögðu fyrst og fremst skýrsla hæstv. utanrrh. sem hljóti að vera grundvöllur þeirra umr. sem hér fara fram um utanríkismál í dag, enda þótt ég telji eðlilegt og raunar sjálfsagt að þm. ræði hvern þann þátt utanríkismála undir þessum lið sem þeir telja einhverju skipta, hvort sem um hann er fjallað í skýrslunum eða ekki.

Ég hef ekki hina minnstu tilhneigingu til að þegja um það sem vel hefur verið gert á sviði utanríkismála á liðnu ári, en það er sem betur fer ýmislegt. Sérstaklega er mér það fagnaðar­efni, að íslenskir ráðamenn hafa breytt allmjög um viðhorf og vinnubrögð að því er tekur til stuðnings við þróunarlönd og skipti við Þróunar­stofnun Sameinuðu þjóðanna. Það má vissu­lega segja í þessu sambandi að batnandi mönnum sé best að lifa. Raunar efa ég ekki að hæstv. utanrrh. hefur lengi verið það ljóst að hér þurfti verulega um að bæta ef íslendingar ættu ekki að verða sér varanlega til minnkunar í þessum efnum. En annað tveggja hefur átt sér stað þangað til nú, að hæstv. ráðh. hefur ekki sótt þetta mál af þeim skörungsskap sem dugði, eða hitt, að hann hefur hitt fyrir óbilgjarna fjáröflunar- eða fjárgæslumenn ríkissjóðs sem ekki hafa látið undan síga fyrr en nú. Það hefur helst til lengi verið bæði Alþ. og ríkisstjórnum, ekki einni, heldur fleirum, til vansæmdar hvernig að þessum málum hefur verið staðið. Sjóður sá, sem stofnaður var með lögum frá Alþ. árið 1971, hefur verið févana alla tíð og sáralítils megn­ugur. Hitt hefur þó verið enn þá blöskrunarlegra, að ár eftir ár skyldum við íslendingar sækjast eftir og þiggja umtalsverða fjárhagsaðstoð frá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, þeirri stofnun sem hefur það hlutverk að styðja fátæk­ar, styðja sveltandi þjóðir. Fyrir þetta höfum við mátt bera kinnroða a. m. k. s. l. 5 ár. Nú hefur þessu betli verið hætt og því ber vissulega að fagna.

Hitt sætir einnig tíðindum, sem gerðist við afgreiðslu fjárlaganna síðustu, að fjárhæðin til Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin var hækkuð úr 12.5 millj. kr. í 25 millj. eða tvöfölduð. Víst er þetta framför og ber vott um aukinn skilning á gildi þess máls, sem hér er um að ræða, og sæmd okkar íslendinga sem tiltölulega vel settrar þjóðar. Ég er ekki í neinum vafa um það, að í samstarfi við aðrar Norðurlandaþjóðir, sem vinna að þessum málum, kemur þessi fjárhæð, sem veitt var til Þróunarsjóðsins, að töluverðu gagni þótt ekki sé hún stór. Ég óska þess vegna hæstv. utanrrh. og hæstv. fjmrh. raunar líka til ham­ingju með þennan áfanga í málefnum okkar annars vegar og þróunarlandanna hins vegar í von um að hér sé um upphaf stefnubreytingar að ræða sem framhald verði á. Mætti vel una því að Alþ. og ríkisstjórnir settu sér það mark að tvöfalda t. d. framlagið til Þróunarsjóðsins árlega nokkur næstu árin, þangað til því marki væri þá náð sem að er stefnt og ákveðið í lög­um um sjóðinn frá 1961 um aðstoð við þróunar­löndin, þar sem segir að framlög íslendinga til þróunarlanda skulu aukin svo fljótt sem verða má til þess að þau nemi 1% af þjóðartekjum. Vil ég í þessu sambandi láta í ljós þá ósk mína og von, að hvorki hæstv. utanrrh., hæstv. fjmrh. né aðrir íslenskir ráðh. nú eða á komandi tím­um þurfi að roðna af blygðun þegar minnst er á þróunaraðstoð, þegar minnst er á samskipti ríkra og fátækra þjóða, en það veit ég að ráðamenn okkar hafa þurft að gera á undanförnum árum.

Óneitanlega væri ánægjulegt að lifa sem fyrst þá stund þegar íslenskur ráðh. gæti með mjög góðri samvisku hvatt til aukinnar aðstoðar hinna ríku þjóða heims við þróunarlöndin. Gott fordæmi Íslands gæfi slíkri ræðu aukinn þunga, hvort heldur hún yrði flutt austur í Manilla eða ein­hvers staðar hérna megin á jarðkringlunni.

Um landhelgismálið get ég að þessu sinni verið fáorður. Eins og aðrir alþm. og íslendingar almennt fagna ég innilega þeim mikla sigri okk­ar íslendinga, þeim mikla sigri hins íslenska málstaðar sem nú er orðinn staðreynd. Ég skal að þessu sinni spara mér allar tilraunir til sögu­skýringar um það, hverjum sá árangur, hverjum sá sigur er fyrst og fremst að þakka. Nú skiptir að sjálfsögðu mestu máli að við berum gæfu til að hagnýta hina nýju stöðu, sem upp er komin, á skynsamlegan hátt, svo að brátt megi sannast á þann hátt, að enginn vefengi, að stefna okkar var rétt og hún var ekki aðeins í okkar þágu eða annarra strandríkja, heldur mannkynsins í heild.

En í sambandi við landhelgismálið langar mig þó til að spyrja hæstv. utanrrh. tveggja spurn­inga. Hin fyrri krefst örstutts inngangs.

Fyrir páska bárust hingað þær fréttir að Efnahagsbandalag Evrópu ætlaði nú að fara að senda menn til Íslands í því skyni að semja um veiðiheimildir bretum til handa í íslenskri land­helgi. Fréttastofur fullyrtu jafnvel að nú yrði þumalskrúfan sett á Íslendinga, nú yrði þeim hótað með viðskiptaþvingunum. Ráðamenn hér, ráðh. hæstv., voru spurðir hvað hæft væri í þessu. Þeir báru fréttina til baka. Þeir sögðu að ekki hefði komið fram nein beiðni um við­ræður og því síður væri það rétt að nokkrum hótunum hefði verið beitt í sambandi við þessi mál. Svo liðu páskarnir og ekkert fréttist til hinna væntanlegu sendimanna frá Efnahags­bandalagi Evrópu. En svo bregður við, ég held einhvern fyrsta dag, ef ekki fyrsta dag eftir páska, að ríkisstj. Íslands heldur fund og sendir frá sér hátíðlega tilkynningu að fundinum lokn­um, og ég verð að segja að mér fannst og kannske fleirum sú tilkynning vera harla kynleg. Hún var í stuttu máli, ef ég man hana rétt — og efnis­lega hygg ég að ég muni hana rétt, þá var hún á þá leið, að ef tilmæli bærust frá Efnahags­bandalagi Evrópu um viðræður, þá yrði slíkri beiðni vel tekið af hálfu íslenskra stjórnarvalda.

Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh.: Hefur hann breytt um skoðun frá því í vetur? Er hann ekki á sömu skoðun og hann var í vetur þegar hann lýsti því yfir að það væri ekki um neitt að semja? Telur hann í dag að um eitthvað sé að semja?

Seinni spurningin, sem mig langar til að varpa fram, varðar fiskveiðisamninga þá sem í gildi eru, ýmist tímabundnir við vestur-þjóðverja eða með uppsagnarfresti við belga, norðmenn og færeyinga. Í sambandi við þessa samninga leyfi ég mér að varpa fram þessari spurningu: Hefur hæstv. ríkisstj. tekið ákvörðun um að segja þeim samningum upp, sem með uppsagnarfresti eru, og jafnframt, hefur hún tekið afstöðu til þess, hvernig svarað verður beiðni vestur-þjóð­verja eða Efnahagsbandalagsins fyrir þeirra hönd um endurnýjaðar eða framlengdar fiskveiðiheim­ildir þegar þýski samningurinn rennur út? Þetta eru mikilvægar spurningar, og ég veit að það eru fleiri en ég sem æskja gjarnan að fá sem greiðust og ákveðnust svör við þeim.

Þar sem fyrir Alþ. liggur þáltill. frá okkur alþb.-mönnum um úrsögn úr Atlantshafsbanda­lagi og brottför hersins og umr. um þessa till. fara væntanlega fram bráðlega, þá ætla ég ekki við þetta tækifæri að ræða hermálið eða NATO-málið almennt. Það verður gert af minni hálfu og okkar alþb.-manna síðar. Hins vegar þykir mér rétt í tilefni af skýrslu hæstv. utanrrh. að minnast á nokkur framkvæmdaatriði — bein framkvæmdaatriði — sem varða íslensk stjórn­völd og aðra íslenska aðila annars vegar og ame­ríska herinn hins vegar, og mun ég þá að þessu sinni fyrst og fremst víkja að vandamálum sem leiðir af þeirri staðreynd að hér er erlendur her í landi, alveg án tillits til þess að sumir telja dvöl hans í sjálfu sér a. m. k. réttlætanlega og jafnvel nauðsynlega, en aðrir telja hana óæski­lega og stórháskalega.

Fyrst vil ég víkja stuttlega að vandamáli sem allt of lítill gaumur hefur verið gefinn og of margir virðast loka augunum fyrir. Þar er um að ræða þau margvíslegu neikvæðu áhrif sem herstöðin og bramboltið þar á Miðnesheiðinni hefur á allt venjulegt íslenskt atvinnulíf í sínu umhverfi. Sjávarútvegur á Suðurnesjum hefur lengi átt þarna við algerlega óeðlilegan keppinaut að etja og átt í vök að verjast af þeim sökum á margvíslegan hátt. Þar nefni ég fyrst sam­keppnina um vinnuaflið, og þá er ekki einungis um sjálfa bandaríkjamennina að ræða eða her­inn beinlínis, heldur engu síður þá verktaka ís­lenska sem vinna margvísleg störf í þágu hersins. Þessi og önnur samkeppni svo og sú staðreynd, að hundruð bandaríkjamanna hafa búið í sjávar­plássunum syðra og notið þar margvíslegrar op­inberrar þjónustu án þess að greiða eina krónu til sveitarfélaga þeirra þar sem þeir hafa verið búsettir, þetta er einnig sérstakt vandamál. Sam­keppni hinna mörgu og í ýmsum tilvikum smáu og fjárhagslega veikburða útgerðarmanna og út­gerðarstöðva suður með sjó, samkeppnin við herstöðina og við forríka Aðalverktaka og Regin-verktaka eða hvað þeir nú heita allir er ákaflega erfið, ekki síst þegar stórfelld aflarýrnun á sér jafnhliða stað, eins og suðurnesjamenn hafa mátt búa við umfram flesta aðra landsmenn nú hin síðustu ár. Það verður að segjast eins og er, að þeir, sem þarna eru að berjast við það að halda íslenskum atvinnutækjum í gangi rétt við herstöðvarvegginn, ef svo má segja, telja sig lítinn stuðning og lítinn skilning hafa hlotið hjá ýmsum opinberum aðilum í þeirri tvísýnu glímu, sem þeir heyja, og í sambandi við að leysa þá margvíslegu örðugleika sem þarna eru á ferð. Þeir staðhæfa og færa í sumum tilvikum a. m. k. að því nokkur rök, að þeir hafi orðið afskiptir á ýmsan hátt og um lánafyrirgreiðslu til upp­byggingar og endurnýjunar flota og fiskvinnslu­stöðva hafi síður verið að ræða á þessum slóðum heldur en víðast hvar annars staðar. Það er full ástæða til að gera þessi mál öll að ítarlegu um­ræðuefni hér á Alþ., enda þótt ég láti það ógert að sinni, láti nægja að minna á þetta vandamál. Hitt vil ég þó segja og legg á það áherslu, að það er fullkomið alvörumál fyrir Alþ. og ríkisstj. ef hinn gamli og oft og tíðum blómlegi höfuðat­vinnuvegur suðurnesjamanna, sjávarútvegurinn, berst ekki aðeins í bökkum, heldur riðar hrein­lega til falls, eins og nú virðist vera. Þeir, sem gera þá kröfu, sem ég tel réttmæta og vil fyrir mitt leyti styðja, að við leitumst við að byggja landið allt, hvarvetna þar sem lífvænlegt er, ættu ekki að gleyma því, að Suðurnes með sína mörgu, bæði stóru og smáu útgerðarstaði eru líka hluti landsbyggðarinnar og hann alls ekki ómerkur, og í þessu efni skiptir ekki ýkjamiklu máli hvort fjarlægðin frá Reykjavík er 50 km, 100 eða 200 km. Það má ekki eiga sér stað að útgerð drag­ist stórlega saman á þessu svæði, en það hlýtur að verða á næstu missirum ef ekki verður að því unnið og það jafnvel gert á alveg skipulagðan hátt með sérstöku átaki að snúa þarna þróuninni við, endurnýja með eðlilegum hætti fiskvinnslu­stöðvar og fiskiskip á þessu svæði ekki síður en á öðrum útgerðarstöðum víðs vegar um land. Eins og sakir standa er ástandið þarna ekki að­eins ískyggilegt, heldur mjög alvarlegt.

Þáttur í uppbyggingarstarfi sjávarútvegs og fiskiðnaðar á Suðurnesjum verður að vera í því fólginn að halda framkvæmdum og hvers konar brambolti hersins og verktaka á hans snærum í sæmilegum skefjum.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um hin sýnilegu óþrif sem af hernum og herstöðinni stafa. Þau eru þó sum næsta alvarleg og geta orðið örlagarík, svo sem sú staðreynd að helstu vatnsból þar syðra eru í bráðri hættu vegna margra ára og áratuga olíumengunar af völdum hersins. Ekki er það heldur alveg saklaust eða með eðlilegum hætti þegar herinn verður uppvís að því að brjóta reglur og fleygja úrgangi í hafið í trássi við alþjóðasamþykktir, í trássi við lands­lög. Og það verð ég að segja, að framkoma ýmissa þeirra opinberra aðila, sem við sögu komu ný­lega í sambandi við slíkt atvik, þ. á m. tveggja rn., var ekki til þess fallin að vekja sérstakt traust eða sannfæra menn um að þeir, sem þar fjölluðu um þetta mál, stæðu nægilega fast í ístaðinu þegar herinn á Miðnesheiði væri annars vegar. Ef ég man allar hringavitleysuyfirlýsing­arnar í sambandi við málið rétt, þá var gangur­inn eitthvað á þessa leið:

Upp kemst um það, að herinn hefur fleygt í sjó í Faxaflóa einhverjum hylkjum og það ekkert fáum, heldur í tonnatali. Utanrrn. segir þegar að það hafi ekki veitt leyfi, en virðist hins veg­ar bera það á Landhelgisgæsluna og lögreglu­stjórann á Keflavíkurflugvelli að þau hefðu lík­lega verið þarna með í ráðum og sennilega veitt einhver leyfi. Forstjóri landhelgisgæslunnar og lögreglustjórinn í Keflavík harðneita allri aðild að þessu máli. Sjútvrn. lætur frá sér fara yfirlýsingu sem var dálítið einkennileg og bendir jafnvel til þess að það hafi ekki vitað nægilega gerla hvaða reglur gilda um mengunar­varnir á sjó, og ætti það þó að vita slíkt. Og loks kemur hin síðasta tilkynning, annaðhvort frá utanrrn. sjálfu eða varnarmáladeild þess, ég man nú ekki hvort heldur var, og því miður, hæstv. utanrrh., held ég að þessi síðasta til­kynning hafi jafnvel verið vitlausari, ef ég má orða það svo, heldur en allar hinar til samans. Þar var frá því skýrt, að manni skildist, að þetta væri í rauninni nokkurn veginn í lagi, þar eð utanrrn. hefði veitt leyfi til losunar á þessu rusli ef það hefði verið spurt. Það væri nefni­lega búið að spyrja herinn hvers konar úrgangur hér hefði verið á ferðinni, og herinn hefði svarað að þetta væri ákaflega saklaust drasl og það væri ekki hættulegt á nokkurra handa máta.

Meira hygg ég að hafi ekki gerst í þessu máli, og ég held að enginn íslendingur viti með fullum sannindum nánari deili á þessum hylkjum sem þarna var í leyfisleysi sökkt í sæ. En því miður virðist svo, a. m. k. í vissum tilvikum, þegar herinn á í hlut, þá er eins og utanrrn. trúi, það þurfi ekki að þreifa á eins og Tómas forðum.

En úr því að ég minntist á drasl frá hernum get ég ekki stillt mig um að segja fáein orð um embættisveitingu eina sem hæstv. utanrrh. hefur verið töluvert gagnrýndur fyrir. Ég á þá að sjálfsögðu við embætti skransölustjóra setuliðs­eigna, á fínu máli forstjóra Sölu varnarliðseigna, ef ég man það rétt. Umsækjendur um þetta gagn­merka embætti í utanríkisþjónustunni — mér skilst að það tilheyri henni — voru að sjálf­sögðu fjölmargir. Margt var þar harðduglegra og hámenntaðra manna. Og það verð ég að segja, að langt er síðan Framsóknarráðh. a. m. k. hefur tekist með slíkum ágætum að velja hæfasta umsækjandann í veglegt embætti eins og ég hygg að hæstv. utanrrh. hafi gert í þetta sinn. Sá, sem stöðuna hlaut, var eins og allir vita að­stoðarritstjóri Tímans. Þetta var áreiðanlega verðskuldað úr því að framkvæmdastjóri blaðs­ins sótti ekki.

En nú vík ég að stærra og miklu alvarlegra máli. Þar er um slíkt mál að ræða að ekki verður við það unað að hæstv. utanrrh. og ráðunautar hans taki því með axlaypptingum og kæruleysi, eins og því miður hefur átt sér stað. Hér á ég við þá mikilvægu spurningu, þá örlagaríku spurn­ingu, hvort hér í herstöðinni eða í tengslum við hana séu geymd kjarnorkuvopn af einhverju tagi. Þetta mál hefur verið rætt hér á Alþ. nokkrum sinnum, einkum s. 1. ár, þegar ýmsir erlendir aðilar, þ. á m. kunnir vísindamenn á sviði hernaðar, fullyrtu hiklaust að Ísland væri eitt þeirra landa þar sem kjarnorkuvopn eru varðveitt. Hæstv. utanrrh. hefur því miður látið undir höfuð leggjast að ganga úr skugga um hvernig þessum málum er raunverulega háttað. Hann hefur jafnvel sagt að sönnunarskyldan á þessu máli hvíli á okkur sem vakið höfum at­hygli á staðhæfingum herfræðirita og vísinda­manna víðs vegar um heim. Það væri okkar að sanna að herinn hér væri með kjarnorkuvopn. Ég varð satt að segja steinhissa þegar ég heyrði hæstv. utanrrh. halda þessu fram. Þetta var satt að segja miklu misheppnaðri varnartilraun heldur en ég átti von á frá honum. Og hún var enn þá misheppnaðri heldur en sú tilraun að spyrja herinn og láta sér nægja hin loðnu svör hans.

Hæstv. ráðh. lét þau ummæli falla hér í fyrra, að hann tryði því ekki að bandaríkjamenn gengju á gert samkomulag um að hafa hér engin kjarn­orkuvopn. En hér er um slíkt mál að ræða að menn mega ekki leyfa sér að lifa í trú, síst sjálfur utanrrh. landsins. Hér þarf að ríkja vissa. Og það er hæstv. utanrrh. sem á embættis síns vegna og eðli málsins samkv. að gangast fyrir því að ekki aðeins alþm., heldur þjóðin öll viti fyrir víst hvort hér eru faldar kjarnorkusprengj­ur eða ekki.

Það er haft fyrir satt um víða veröld að kjarnavopn séu í bandarísku herstöðinni á Kefla­víkurflugvelli. Ég get ekkert um þetta fullyrt. Hæstv. utanrrh. getur það því miður ekki heldur, hann bara trúir. Það kann að nægja honum. En þetta mál er svo alvarlegt að það er ábyrgðar­leysi að skella við því skollaeyrunum og láta þá óvissu haldast sem um þetta ríkir vissulega. Fram að þessu hefur þess einungis verið farið á leit við hæstv. utanrrh. að hann láti fara fram könnun á því, hvort hér á landi geti verið um það að ræða að varðveitt séu kjarnorkuvopn. Það er vissulega kominn tími til að skerpa þessa kröfu, og ég leyfi mér því hér og nú að gera þá kröfu til hæstv. utanrrh. að hann afsanni, að hér séu kjarnorkusprengjur, eða sanni, að þær séu hér, og skipi þá bandaríkjamönnum tafarlaust að hverfa með þær á brott í samræmi við margyfirlýstan vilja íslenskra ríkisstjórna og við samkomulag við Bandaríkin þar um.

Ég ætla ekki að rekja hér í löngu máli eða einstökum atriðum hinar mörgu blaða- og tíma­ritagreinar þar sem því er alveg hiklaust haldið fram að kjarnorkuvopn séu á Íslandi. Það hefur oft verið gert áður. En ég sé ekki betur en svo megi telja að flestir þeir, sem rita um hernaðar­fræðileg efni og um vopnabúnað í heiminum, gangi út frá því sem staðreynd, að hér séu kjarn­orkuvopn. Ég ætla að þessu sinni að láta nægja að vitna til einnar greinar um þessi mál, en hún birtist s. 1. sumar í þekktu vísindatímariti, New Scientist. Grein þessi — eða efnisatriði hennar — er byggð á samstarfi þriggja vísindamanna og birt á ábyrgð þeirra allra. Hún hefur að geyma afar fróðlegar, en að sama skapi uggvænlegar upplýsingar um dreifingu kjarnorkuvopna og hugsanlega beitingu þeirra, jafnvel fyrir mis­skilning eða slys í upphafi. Þeir vísindamenn, sem þarna eiga hlut að máli, eru prófessor við Upp­salaháskóla og Nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði, forstjóri Alþjóðlegu friðarrannsóknarstofnunar­innar í Stokkhólmi og prófessor við Kaliforníu­háskóla, áður deildarstjóri í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Í inngangi að grein þessari er áhersla á það lögð af tímaritsins hálfu eða þeirra, sem gefa það út, að höfundar séu allir í fremstu röð vísindamanna að því er tekur til gerðar og útbreiðslu kjarnorkuvopna. Allir virð­ast þeir ganga út frá því sem gefnu, lýsa því aðeins sem kunnri staðreynd að Bandaríkin munu hafa svokölluð „taktisk“ kjarnorkuvopn á Íslandi. Nú er það svo um okkur íslendinga flesta eða alla, að við erum það illa lærðir í her­stjórnarlist og atómfræðum að okkur er ekki fullljós munurinn á hinum ýmsu tegundum kjarn­orkuvopna. Mér skilst, að fræðimenn skipti slík­um vopnum í tvo meginflokka: „strategisk“ og „taktisk“ kjarnorkuvopn. Virðist þá aðalmunur­inn vera sá, að hin fyrrnefndu, „strategisku“ vopnin, eru mjög langdræg og mjög öflug, en hin „taktisku“ draga skemmra, en þó að því er sagt er yfir þvera og endilanga Evrópu eftir því sem upplýst hefur verið.

Í umræddri grein er þessum „taktisku“ kjarna­vopnum, eða eldflaugum lýst og sprengimætti þeirra. Þar er og gerð grein fyrir fjölda þeirra og dreifingu. Fullyrt er að í Evrópu einni séu um 7000 slík vopn á vegum bandaríkjamanna og a. m. k. 3500 eða fleiri á vegum rússa. Og löndin, þar sem bandaríkjamenn geyma birgðir sínar, eru talin upp: Bretland, Vestur-Þýskaland, Belg­ía, Holland, Portúgal, Spánn, Ísland, Ítalía, Grikkland, Tyrkland.

Nú kynni einhver að álykta sem svo að þessi „taktisku“ kjarnorkuvopn séu e. t. v. ekki sér­lega voðaleg samanborið við öflugu og langdrægu tegundina, stóru kjarnavopnin. En standi einhver í þeirri meiningu, að þessar svokölluðu minni sprengjur séu hálfgerð barnaleikföng, þá er það mikill og ákaflega háskalegur misskilningur. Fæst hinna „taktisku“ kjarnavopna eru kraft­minni en sprengjur þær sem á sínum tíma var varpað á Hiroshima og Nagasaki, en mörg þessara vopna eru langtum öflugri, allt að hundrað sinn­um kraftmeiri, að því er segir m. a. í þessari grein sem ég hef vitnað til. Samanlagður sprengi­kraftur „taktiskra“ kjarnorkuvopna í Evrópu einni er talinn um það bil fimmtíu sinnum meiri en allra þeirra sprengna sem sprengdar voru í síð­ustu heimsstyrjöld, í Kóreustríðinu og í Víetnam­styrjöldinni til samans.

Nú er það að sjálfsögðu von okkar allra, von alls mannkyns, að leiðtogar herveldanna sýni þá vitsmuni og þá varkárni sem þarf til að af­stýra kjarnorkustyrjöld. Ég er þeirrar skoðunar eða réttara sagt ég el þá von í brjósti að núv. ráðamenn jafnt í austri sem vestri vilji forðast þær ógnir sem af kjarnorkustríði hljótast. Ég vona einnig að þorri hershöfðingja jafnt í austri sem vestri fylgi þeim í þessu og er það þó að­eins von, veik von. Og því er verr og miður, að til kunna að vera svo ofstækisfullir menn, svo blindir, bæði hershöfðingjar og jafnvel stjórnmálamenn, að þeir munu tæplega hika við að tefla á allra tæpasta vað í þessum efnum án tillits til hugsanlegra afleiðinga. Þeir munu jafnvel finnast sem segjast ætla að bjarga Evrópu, eins og þeir orða það, með því að tor­tíma henni. Séu það slíkir ofstækismenn öðru hvorum megin sem hafa fingur á gikk atóm­ sprengjunnar á örlagaríku augnabliki, á tíma hótana, á tíma mikillar spennu, þá gætu þeir vissulega komið af stað þeirri keðjuverkun sem á örskömmum tíma skildi við Evrópu alla, ef ekki allan hnöttinn, sem rjúkandi rúst.

Nú er það margyfirlýst stefna bæði núv. og allra fyrrv. íslenskra stjórnvalda síðan her kom hér í landið, að hér á landi eigi ekki að vera kjarnorkuvopn af neinu tagi. Hæstv. núv. utanrrh. hefur lýst þessu yfir hvað eftir annað. Hann segir: Þetta er mín stefna, þetta er stefna ríkisstj. Íslands. — Hæstv. ráðh, segist trúa því að hér séu engin kjarnorkuvopn. Ég og margir fleiri viljum vita vissu okkar í þessum efnum. Herfræðingar um allar jarðir reikna með því, eins og ég hef þegar sagt, að Bandaríkin séu hér með svokölluð „taktisk“ kjarnorkuvopn. Við vitum ekki hvort þetta er rétt. En við viljum vita það og við teljum okkur eiga rétt á að fá að vita það, eiga heimtingu á að fá að vita það, því að hér er ekki um smávægilega hluti að tefla. Það er ekki af einstæðri forvitni og einskærri hnýsni sem verið er að krefjast skýrra og rökstuddra svara við þeirri spurningu, hvort herstöðin á Miðnesheiði og þar með allur þéttbýliskjarninn hér við Faxaflóa er eitt hinna líklegustu skot­marka á allra fyrstu mínútum kjarnorkustyrj­aldar.

Nú kann hæstv. utanrrh. að segja sem svo, að það sé hægara sagt en gert fyrir okkur íslend­inga, blessunarlega fáfróða í öllu sem að hern­aðarlist lýtur, að fá úr því skorið með óyggj­andi vissu hvort hér séu kjarnorkuvopn. Ég hygg að vísu að þeir íslenskir vísindamenn séu til sem með mælitækjum sínum og annarri könnun gætu úr því skorið, hvort rétt sé sú staðhæfing t. d. að Lockhead Orion vélar bandaríska flotans á Keflavíkurflugvelli séu að öllum líkindum búnar djúpsprengjum með kjarnaoddi. Þetta eru þær vélar, einmitt þær vélar sem fljúga reglulegt könnunarflug frá Íslandi og eru dag hvern að þvælast á aðalfarþegaflugvelli okkar í millilanda­flugi og yfir landi okkar og landhelgi. Það væri vissulega fróðlegt að fá af því fréttir, hvort til­gáta manna, þ. á m. ameríska vísindamannsins Barry Schneiders, um flutning véla þessara er rétt eða röng. Treysti nú hæstv. utanrrh. ekki íslenskum vísindamönnum til að rannsaka þessi mál, vil ég í allri vinsemd benda honum á annan möguleika. Það er að vísu hugmynd sem ég hef áður stungið að sessunaut mínum, hv. 4. þm. Reykv., formanni utanrmn., en þar sem hann er enn þá að hugsa sig um og virðist ekki vera tilbúinn með svarið, þá vil ég leyfa mér einnig að vekja athygli hæstv. utanrrh. á þessum. mögu­leika.

Í Stokkhólmi er stofnun, sem nefnist Alþjóð­lega friðarrannsóknarstofnunin og hefur þann tilgang að afla upplýsinga um vopnabúnað og hertækni og fjalla fræðilega um slík mál, fyrst og fremst í þágu afvopnunar og friðar. Þessi stofnun, skammstöfuð SIPRI, var sett á lagg­irnar árið 1966. Frumkvöðlar voru sænskir stjórn­málamenn með þáv. forsrh. Svíþjóðar, Tage Erlander, í broddi fylkingar. Stofnunin var sett á laggirnar til að minnast þess með verðugum og viðeigandi hætti að þá höfðu svíar setið á friðstóli í 150 ár. Hálf önnur öld var þá liðin án þess að Svíþjóð tæki þátt í styrjöld. Þessi alþjóðlega rannsóknarstofnun í þágu friðarins hefur unnið afar verðmætt starf á undanförnum árum. Enda þótt hún njóti fjárstyrks frá sænska ríkinu er stofnunin algerlega óháð því og sjálf­stæð um verkefnaval og starfsaðferðir. Þessi stofnun hefur lagt sig fram um að afla sem gleggstra upplýsinga um viðbúnað og dreifingu vopna um jarðkringluna, einkum til að bregða á það ljósi hvað stendur í vegi fyrir eða tor­veldar afvopnun og friðsamlega lausn ágreinings­og deilumála. Ég tel mig hafa traustar heimildir fyrir því, að þessi stofnun nýtur mikils og vax­andi álits og rit hennar um vígbúnað og fleira eru talin hin áreiðanlegustu heimildarrit á sínu sviði sem til eru. Rit þessi eru m. a. mikið notuð af stofnunum Sameinuðu þjóðanna og til þeirra er að sögn ótæpilega vitnað á afvopnunarfund­um stórveldanna, í Salt-viðræðunum svonefndu. Þykir hvorum deiluaðila um sig drjúgur stuðn­ingur að því, ef þeir geta við eitt eða annað tækifæri vitnað til svo hlutlauss og áreiðanlegs aðila eins og SIPRI er máli sínu til stuðnings.

Nú vil ég leyfa mér að beina því til hæstv. utanrrh., hvort hann vill ekki að athuguðu máli beita sér fyrir því, að starfsmenn frá þessari virtu og viðurkenndu rannsóknarstofnun, starfs­menn sem vinna í þágu afvopnunar og friðar, væru fengnir, ef fáanlegir eru, til að rannsaka búnað Bandaríkjahers á Íslandi með sérstöku tilliti til þess, hvort þar eru kjarnorkuvopn af einhverju tagi. Ég held að það sé allra hluta vegna nauðsynlegt að fá úr þessu skorið á svo öruggan hátt sem verða má. Og það mætti vel segja mér að hæstv. ráðh. yrði því feginn, ekkert síður en ég og margir aðrir, ef hægt væri að ganga úr skugga um það að málum sé ekki þann veg háttað að meira en annar hver íslendingur sofi með helsprengjuna svo að segja undir kodd­anum.

Að lokum vil ég segja nokkur orð um norrænt samstarf og aðild íslendinga að Norðurlandaráði. Um það mál þarf ég ekki að eyða mörgum orð­um, vegna þess að í því sambandi eru allir ís­lenskir stjórnmálaflokkar sammála í meginatrið­um.

Samstarf íslensku sendinefndarinnar á vett­vangi Norðurlandaráðs hefur allan þann tíma, sem ég hef getað fylgst með því, verið gott. Það er löngu liðin sú tíð þegar hv. Alþ. eða þeir, sem hér réðu, voru að burðast við það með ýmsum kúnstum að útiloka sósíalista frá þátt­töku í þessu ráði, m. a. með því að láta deild­irnar kjósa hvora um sig og þar fram eftir götunum. Þetta er algerlega liðin tíð og raunar ástæðulaust að vera að rifja hana upp. En þó verður það að segjast, að enn heyrast raddir og þá sérstaklega kannske raddir ýmissa sérvitr­inga, en þó jafnframt manna sem virðast vera ókunnugir málum, sem nota hvert tækifæri til þess að gera lítið úr norrænni samvinnu og segja að hún sé ekkert annað en veisluhöld og skála­ræður. M. a. hafði ég punktað hjá mér það sem stóð í því virðulega dagblaði Vísi í dálki þeim sem ritar sá rithöfundur sem Svarthöfði nefnist. Þar kom nokkrum sinnum áður en síðasta Norð­urlandaráðsþing var haldið lítils háttar ádrepa um þá stofnun og þó alveg sérstaklega þá stofnun sem Norðurlandaráð hefur fætt af sér hér á landi, Norræna húsið. Og til þess að menn átti sig á því að þær raddir eru nú ekki aldauða, að nor­ræn samvinna sé ýmist einskis virði eða jafnvel af hinu illa, þá langar mig — með leyfi hæstv. forseta — að vitna í þessa grein til þess að sanna þetta, að svona raddir heyrast enn þá og er kannske víðar að finna en maður gerir sér grein fyrir. Þessi höfundur, sem kallar sig Svarthöfða, er gjarnan nokkuð stórorður stundum þegar hon­um er mikið niðri fyrir, og honum var það greinilega þegar hann gerði atlöguna að Nor­ræna húsinu — og geisaði hann mjög, eins og sagt var um Hallgerði forðum. Hann segir m. a. í þessari merku grein sinni:

„Við höfum fengið nóg af sleggjudómum og ósannindum í landinu þótt við séum ekki að burðast með einhverja samnorræna trúboðsstöð í áróðri.“ Og enn fremur: „Frá Norræna húsinu hefur flotið slíkur einhliða pólitískur áróður á undanförnum árum, að það hlýtur að fara að verða almenn krafa að því verði lokað.“

En sem betur fer held ég að þetta sé rödd undantekningarinnar og reglan sé sú, að íslend­ingar almennt meti a. m. k. að nokkru það sam­starf sem tekist hefur með Norðurlandaþjóðun­um og borið árangur, bæði í Norðurlandaráði og á öðrum vettvangi.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að starfsemi Norðurlandaráðs og norræn samvinna í heild sé okkur íslendingum ákaflega mikilvæg og fyrir margra hluta sakir eigi hún að vera, eins og hún er nú, einn af hornsteinum íslenskrar utanríkis­stefnu. Það er mjög margt sem rennir stoðum undir þessa skoðun. Ég vil aðeins nefna það, að í miklum sviptibyljum heimsmálanna allt frá lokum síðustu heimsstyrjaldar hafa að sjálfsögðu steðjað að okkur ýmsar hættur og svo er enn, m. a. vegna áratuga erlendrar hersetu í landinu, og sem sérstakt mótvægi gegn of einhliða erlend­um áhrifum og þá fyrst og fremst engilsaxnesk­um áhrifum eru menningartengslin við Norður­lönd okkur ákaflega mikilvæg. Þangað höfum við einnig bæði sótt nú þegar og eigum eftir að sækja eitt og annað á sviði löggjafar og af ýmsu öðru tagi.

Ég vil aðeins geta þess, áður en ég lýk máli mínu, að meðal mála á Norður­landa­ráðs­þinginu, sem haldið var nú í Helsinki í aprílbyrjun, voru málefni eins og aukið samstarf Norðurlandaþjóða á sviði þróunaraðstoðar. Það voru hvorki fleiri né færri en þrjú frv. eða till. sem fjölluðu um þessi efni sem þar voru til meðferðar — um þessi efni eða einstaka þætti þeirra — og ég hygg að það megi fullyrða, að það er vilji fyrir því innan Norðurlandaráðs að auka þessa samvinnu til verulegra muna.

Ég vil svo, herra forseti, að lokum vitna til þeirra orða sem ég lét falla hér við sama tæki­færi í fyrra, en þá lauk ég máli mínu á þessa leið: Flokkur minn, Alþb., er engum háður öðr­um en félagsmönnum sínum, íslensku alþýðu­fólki, sem hefur öðlast þá lífsskoðun að sósíal­ismi samfara lýðræði sé það þjóðskipulag, sem vert sé að berjast fyrir. En Alþb. viðurkennir einnig mikilvægi þeirrar baráttu og telur hana mál dagsins í dag, sem snýst um það að treysta stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslands og íslenskrar alþýðu. Það er af þessum sökum sem Alþb. hefur barist og mun berjast fyrir fullum sigri íslendinga í landhelgis­málinu. Það er af þessum sökum sem Alþb. spyrnir fast gegn vaxandi ítökum og áhrifum erlendra auðhringa á íslenskt atvinnulíf og hag­nýtingu íslenskra auðlinda. Það er af þessum sökum sem Alþb. heldur áfram af vaxandi þunga baráttunni fyrir úrsögn Íslands úr NATO, fyrir brottför alls herliðs héðan, fyrir afnámi her­stöðvar.