15.04.1977
Sameinað þing: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3169 í B-deild Alþingistíðinda. (2292)

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Ég tel vel á því fara að hæstv. utanrrh. skuli hafa valið að hefja skýrslu sína um utanríkismál á kafla þar sem vikið er að mannréttindamálum í heim­inum. Tilvera sjálfstæðs lýðfrjáls þjóðfélags á Íslandi er, þegar allt kemur til alls, reist á þeirri bjargföstu trú, að þegar til lengdar lætur séu skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi, samtakafrelsi og ferðafrelsi öflugri en vopn og vígvélar. Þetta er grundvallarsannfæring okkar sem fyrir hvern mun viljum halda uppi lýðfrjálsu þjóðfélagi í landinu.

Við, sem lifað höfum áratugina beggja vegna miðbiks þessarar aldar, höfum fengið að heyra marga spádóma um þverrandi lífsmátt og slæm­ar framtíðarhorfur lýðfrjálsra þjóðfélaga og lög­bundinna stjórnarhátta í heiminum. Einatt hefur virst dökkt í álinn og ýmislegt mátti færa því til sönnunar að bölsýnismennirnir hefðu nokk­uð til síns máls. Samt tel ég reynsluna sýna að spádómar þeirra hafi orðið sér til skammar. Það þarf ekki annað en líta á atburði síðasta árs, t. a. m. í sunnanverðri Evrópu eða sunnanverðri Asíu, til að sannfærast um hver þróttur er í lýðræðislegu stjórnarfari og frelsisþrá þjóðanna. Eftir áratuga fasistastjórn eru þjóðir Pýrenea­skaga, portúgalir og spánverjar, sem óðast að koma á hjá sér lýðfrelsi og lýðræðislegum stjórn­arháttum. Ekki er langt síðan einræðisstjórn herforingja í Grikklandi hrundi til grunna undan þunga illra verka sinna. Og fyrir fáum vikum gerðist það í öðru fjölmennasta ríki heims og fjölmennasta lýðræðisríki sem uppi hefur verið, að þar skipti í fyrsta skipti í sögu sjálfstæðs Indlands um stjórn. Valdaflokkurinn þar um marga áratugi beið ósigur í kosningum og or­sökin að ósigri hans var fyrst og fremst að allra dómi að valdhafarnir höfðu vegið að lýð­ræðis- og frelsishefð í landinu.

Það hefur einnig sýnt sig á síðustu missirum, að Helsinki-samþykktin, kafli hennar um mann­réttindi, hefur sýnt mátt sinn, sýnt lífsmagn frelsishugsjónar. Meðan Helsinki-ráðstefnan var á döfinni spáðu ýmsir hraklega fyrir henni, en reynslan hefur tvímælalaust sýnt á þeim skamma tíma, sem liðinn er síðan gengið var frá sam­þykktum ráðstefnunnar, að sú mikla vinna og tími, sem fór í það starf var ekki unnið fyrir gýg.

Ég vil í þessu sambandi gera sérstaklega að umræðnefni, að að mínum dómi skorti nokkuð á að Ísland hafi fyrir sitt leyti sinnt mannrétt­indamálum á einum vettvangi eins og vert væri og eins og okkur ber. Þar á ég við þær sam­þykktir sem byggðar voru eftir langt þóf og mikið starf á mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Enn hefur Ísland ekki gerst aðili að þessum samþykktum, hvorki hinni almennu sam­þykkt um að halda mannréttindi í heiðri né hinni sérstöku um að leggja mannréttindamál að vissu marki undir dóm á vegum mannrétt­indanefndar Sameinuðu þjóðanna. Ég tel ekki vansalaust að ár líði eftir ár án þess að nokkuð örli á því að íslenskar ríkisstjórnir geri alvöru úr því að Ísland gerist aðili að þessum sam­þykktum og fullgildi þær fyrir sitt leyti, en nú mun loks fullnægt þeirri ríkjatölu sem þarf til þess að samþykktirnar komi til framkvæmda.

Ég vil fagna því sem fram kom í skýrslu hæstv. utanrrh. um breytta afstöðu Íslands til þróunaraðstoðar á vegum Sameinuðu þjóðanna. Á árum áður, þegar við hæstv. utanrrh. sátum saman í ríkisstj., var það sameiginleg afstaða okkar að Íslandi bæri að afþakka þær fjárhæðir sem til boða stóðu af þróunarfé frá stofnun Sam­einuðu þjóðanna, og ég samgleðst hæstv. ráðh. að þetta markmið er nú orðið að veruleika, að sá skerfur, sem Ísland átti kost á, hefur verið afþakkaður og við tökum ekki lengur fé til okkar þarfa frá margfalt brýnni þörfum fátæk­ustu þjóða veraldar. Þá er það einnig ánægju­efni að framlag Íslands hefur verið nokkuð aukið til þróunaraðstoðarstofnana á vegum Sameinuðu þjóðanna, en þó má miklu betur gera ef duga skal til að sóma Íslands sé borgið.

Meginefni þess máls, sem ég mun flytja hér, er um þau viðhorf sem skapast hafa eftir að stefna Íslands um lögsögu strandríkja yfir miðum fyrir ströndum sínum hefur unnið algeran sigur hvað okkur snertir og 200 mílna reglan er að verða al­menn regla við Norður-Atlantshaf. Mér finnst of mikið á því bera að fólk telji að hér sé um mála­lok að ræða, að þessi sigur færi okkur í sjálfu sér svo öfluga aðstöðu að þessum málum þurfi ekki að sinna að sama marki hér eftir og verið hefur um skeið, að þeim þurfi ekki að helga þá athygli og umhugsun sem verið hefur á baráttuskeiðinu. Hér hafa aðeins orðið að mín­um dómi áfangaskipti. Nýr áfangi er að hefjast, ný þróun við breytt skilyrði. Ekki þarf annað en að benda á hversu breytt viðhorf ríkja um fiskverndarmál á alþjóðavettvangi hafa sýnilega fallið í breyttan farveg nú alveg á síðustu mán­uðum. Það er komið í ljós að þær alþjóðastofn­anir, sem fjallað hafa um fiskverndarmál á Norður-Atlantshafi, Norðaustur-Atlantshafs- og Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðinefndirnar, eru í rauninni úr sögunni. Nú hljóta sameiginlegar að­gerðir margra ríkja á þessu svæði að byggjast á 200 mílna lögsögu strandríkja og þá er þátt­taka veiðiríkjanna úr sögunni, þeirra veiðiríkja sem eiga ekki land að þessu hafsvæði, í því formi sem hún hefur verið meðan nefndirnar tvær störfuðu. Strandríkin hafa þessi mál alger­lega í sínum höndum. Veiðiríkin falla út nema þá sem samningsaðilar við strandríkin sem hafa um það sjálfdæmi hvern hlut veiðiríkjanna þau vilja gera. Yfirráð fiskimiða á Norður-Atlantshafi eru í rauninni hér eftir í höndum fárra ríkja: Bandaríkjanna, Kanada, Grænlands, Íslands, Færeyja og Noregs, og Efnahagsbandalags Evrópu, þar sem sá hluti af sameiginlegri lögsögu þess bandalags, sem Bretlandi heyrir til, hefur lang­mesta þýðingu.

Kanadastjórn hefur þegar átt frumkvæði að því að koma skipan á mál á Norðvestur-Atlants­hafi að Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðanefndinni frágenginni. Fyrsti undir­búnings­fundur í því skyni var haldinn á þessum vetri. Á Norðaust­ur-Atlantshafi hafa átt sér stað viðræður milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu, enn sem komið er mjög lauslegar viðræður um sjónar­mið í fiskverndarmálum. Sömuleiðis hafa átt sér stað viðræður um sama efni og einnig um veiði­mál milli Noregs og Efnahagsbandalagsins. Vand­kvæði eru nokkur á því að ræða þessi mál á ákveðnum grundvelli vegna þeirrar óvissu sem enn ríkir að sumu leyti um hvernig háttað verð­ur framkvæmd á fiskveiðilögsögu við Grænland, og það mál skiptir auðvitað mestu fyrir okkur Íslendinga hvað varðar fiskimið sem koma innan lögsögu annarra ríkja. Engu að síður ber að mínu viti mikla nauðsyn til að við íslendingar verjum bestu kröftum, sem stofnanir okkar á þessu sviði eiga yfir að ráða, til að meta að­stöðuna og móta stefnu. Það er aðkallandi að staðan sé metin og mótuð meginstefna sem von sé til að staðist geti fram í tímann.

Annar þáttur þessara mála er e. t. v. ekki eins aðkallandi, en getur þegar frá líður orðið enn þýðingarmeiri. Þar á ég við áhrifin af útfærslunni í 200 mílur umhverfis okkur, í við­skiptalöndum okkar, á þær markaðsaðstæður sem við þurfum að sæta fyrir útflutning á íslenskum sjávarafurðum í þessum löndum. Þýðingarmestu markaðssvæði okkar eru Bandaríkin, Vestur-Evrópa og Sovétríkin. Ég tel sýnt nú þegar, að áður en mjög langt um líður hljóti áhrif útfærslunnar í 200 mílur hjá þeim ríkjum, sem kaupa af okkur þorra fiskafurða okkar, að segja til sín. Innan 200 mílna lögsögu Bandaríkjanna koma gagnauðug fiskimið, líklega þau sem helst eru sambærileg eða hafa verið sambærileg við fiskimiðin við Ísland að fiskigengd um langan aldur. Á miðunum úti fyrir fylkjum Nýja-Eng­lands á norðausturströnd Bandaríkjanna voru fram eftir öldum stundaðar fiskveiðar í stórum stíl og þær voru þar þýðingarmikil atvinnugrein. Þeim hefur á síðustu öld hnignað verulega á þessu svæði vegna samkeppni iðnaðarins, þegar háborg bandarískrar iðnþróunar var í Norð­austurfylkjunum. Nú er sú breyting á orðin, að bandarískur iðnaður flyst í vaxandi mæli til annarra landshluta. Í norðausturhluta Bandaríkj­anna og sérstaklega í Nýja-Englandi ríkja breytt­ir atvinnuhættir. Þetta landssvæði er tiltölulega illa statt í atvinnumálum. Krafan um útfærslu af Bandaríkjanna hálfu í 200 mílna fiskveiðilögsögu kom líka fyrst og fremst frá fylkjum Nýja-Englands, t. d. Massachusetts og nálægum fylkj­um. Og það fór ekki milli mála og kom mjög skýrt fram í máli þeirra manna, sem beittu sér fyrir útfærslunni í Bandaríkjunum, að til­gangurinn var að gera sjávarútveg á ný að þýð­ingarmikilli undirstöðu í atvinnulífi þess svæðis. Því verður gerð gangskör að því, jafnframt því að þessi bandarísku mið verði friðuð fyrir stór­veiði erlendra flota og stofnarnir réttir við, þá munu bandaríkjamenn, bæði stjórnvöld og út­gerðarmenn, gera ráðstafanir til að stórauka fiskveiðar og fiskvinnslu á grundvelli forgangs­réttarins á fiskimiðunum innan 200 mílnanna. Þetta mál varðar okkar stórum að mínum dómi.

Skilyrðin fyrir fiskútflutningi okkar til Banda­ríkjanna, fyrir fisksölu fyrirtækja í íslenskri eigu í Bandaríkjunum, hljóta að breytast þegar þessi þróun kemst á rekspöl. Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið að fylgjast vandlega með því, hvað í vændum er, og móta hugmyndir um hversu bregðast skuli við þegar áhrifa útfærsl­unnar við Bandaríkin fer að gæta fyrir fisk­veiðar þar og á fiskmarkaðinum í því stóra og þýðingarmikla markaðslandi okkar.

Öðru máli gegnir um Sovétríkin. Um þau þrengist stórlega á fjarlægari miðum við út­færslu í 200 mílur. Þau verða þar með háðri eigin lögsögu sem einkum nær yfir auðug fiski­mið í Barentshafi og Hvítahafi. Þar er aflinn að mestu sömu fisktegundir og sovétmenn hafa keypt af okkur íslendingum í mestum mæli hingað til. Því eru þar, eins og reyndar í Banda­ríkjunum, horfur á því að breytingarnar, sem fylgja í kjölfar útfærslunnar í 200 mílur, verði til þess að þrengja aðgang íslenskra útflutnings­aðila að fiskmörkuðunum.

Þetta verður til þess að áður en langt um líður hljóta íslenskir fiskútflytjendur og íslensk stjórnvöld að beina sjónum í vaxandi mæli að þriðja helsta markaðssvæðinu, Vestur- og Suður-Evrópu. Þróun útflutnings til ríkja Efnahags­bandalagsins, frá því að bókun 6 tók gildi fyrir tæpu ári, sýnir óumdeilanlega að skilyrðin eru góð fyrir sölu íslenskra sjávarafurða í stórum stíl á þessu markaðssvæði þegar íslenskir út­flutningsaðilar fá þar jafna aðstöðu og sam­keppnisaðilar þeirra. Nú hefur Portúgal sótt um inngöngu í Efnahagsbandalagið, og umsóknar frá Spáni um inngöngu í það bandalag er að vænta strax og um garð eru gengnar breytingarnar í lýðræðisátt á stjórnarfari þar í landi. Því getur svo farið innan nokkurra ára að tvö helstu markaðslönd íslenskra saltfiskútflytjenda verði komin inn á svæði Efnahagsbandalagsins, en saltfiskur er, eins og kunnugt er, sú fiskafurð sem verð hefur haldist einna stöðugast á í verðsveiflum síðustu ára.

Ég tel því að hér beri allt að sama brunni, að markaðir í Vestur-Evrópu og Suður-Evrópu, sem búast má við að tengist í einn sameigin­legan markað áður en langt um líður, öðlist vaxandi þýðingu fyrir íslenskan fiskútflutning. En þar er, eins og allir vita, ófrýnilegt ljón á veginum. Tvö af áhrifamestu ríkjum Efnahags­bandalagsins eru einmitt þau sem troðið hafa illsakir við Ísland á baráttuskeiðinu fyrir út­færslu fiskveiðilögsögunnar að þeim mörkum sem nú er að verða almenn regla og þessar þjóðir hafa tekið sér og farið þar með í slóð okkar íslendinga. Bretar hafa háð við okkur hvert þorskastríðið af öðru og þeir ásamt vestur­þjóðverjum beittu sér fyrir því, að Efnahags­bandalagið beitti okkur um skeið viðskiptaþving­unum til þess að reyna að knýja fram veiðiheim­ildir sér til handa á íslenskum fiskimiðum. Það er ljóst að enn sækjast þessi ríki eftir veiði­heimildum, og betra er að gera ráð fyrir að stjórnir þeirra séu enn til alls vísar. Ég tel reynsluna sýna að svo sé. Þetta gerir öll sam­skipti okkar við Efnahagsbandalagið erfið. Þau hafa vaxandi þýðingu og þeim fylgir vaxandi vandi.

Það er rangt að hafa hljótt um þessi mál, um þessi breyttu viðhorf, sem við hljótum að mínum dómi að standa frammi fyrir áður en langt um líður. Það er engum til góðs í þessu né nokkru öðru þýðingarmiklu máli að láta liggja í láginni breytingarnar, sem sjá má fyrir, og vandkvæðin, sem á því eru að bregðast við þeim á æskilegan hátt. Um þessi mál öll þarf að mínum dómi opinberar umræður í miklu meiri mæli en átt hafa sér stað hingað til. Það er áríðandi að þjóðin geri sér ljósar þær að­stæður sem geta skapast á þessu sviði von bráðar. Stjórnvöldum ber tvímælalaus skylda til að kanna þessi mál sem nánast, móta afstöðu til þeirra og skýra almenningi frá því mati á horf­um sem komist verður að eftir þeirri vitneskju, sem fyrir liggur á hverjum tíma, og hver úrræði virðast vænlegust til að taka því sem að hönd­um kann að bera.

Ég vil taka skýrt fram, að það er síður en svo að þessi orð mín megi skilja sem ádeilu eða gagnrýni á hæstv. ráðh. fyrir að þessu atriði skuli ekki gerð skil í skýrslu hans um utan­ríkismál. Þarna er að sjálfsögðu um að ræða málefni sem eru fullt eins mikið á vegum sjútvrn. og viðskrn. og utanrrn. En málið er þó í eðli sínu fyrst og fremst utanríkispólitískt að mín­um dómi. Því vildi ég ekki láta hjá líða að koma þessum sjónarmiðum á framfæri í einu umr. á Alþ. þar sem fjallað er um utanríkis­mál á breiðum grundvelli.