15.04.1977
Sameinað þing: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3173 í B-deild Alþingistíðinda. (2293)

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Guðmundur H. Garðarsson:

Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir góða skýrslu um utanríkismál og hafði hugsað mér að fjalla hér um þann þátt utanríkismála sem snýr að utanríkisviðskiptum. Það kom mér satt að segja mjög á óvart að hv. síðasti ræðu­maður, Magnús T. Ólafsson, skyldi þó einn þm. víkja nokkuð að utanríkisviðskiptunum í sam­bandi við utanríkismál þjóðarinnar. Þau þing, sem ég hef setið, hefur þessi þáttur utanríkis­mála íslendinga og sú stefnumótun, sem þar hefur átt sér stað, lítið verið til umr. og ég vil segja verið vanræktur. Ég vil þess vegna taka undir lokaorð hv. þm. þegar hann sagði hér áðan, að þetta væri sá þáttur í utanríkismálum íslendinga sem alþm. ættu að fjalla meira um, bæði vegna eigin starfa og vegna þjóðarinnar.

Ég mun víkja nokkru nánar að því sem hv. þm. Magnús Torfi sagði í sambandi við mat hans á einstökum mörkuðum og markaðsmögu­leikum fyrir sölu íslenskra afurða í framtíðinni. En áður vil ég fjalla með nokkuð öðrum hætti um utanríkismál heldur en tíðkast hefur hér þegar skýrsla utanrrh. hefur verið rædd á undan­gengnum árum.

Sú skýrsla, sem fram er lögð, er samin að hefðbundnum hætti. Þar er fjallað almennt um þróun alþjóðamála, talað um Mið-Austurlönd, mál­efni sunnanverðrar Afríku, aðgerðir í framhaldi að Helsinki-ráðstefnunni, Sameinuðu þjóðirnar, hafréttarmál, öryggismál o. s. frv. En síðan kemur sá kafli, sem ég hafði hugsað mér að helga mína ræðu, um utanríkisviðskipti. Sá kafli í skýrslu hæstv. ráðh. er mun ítarlegri en í fyrri skýrslum á síðustu árum og fagna ég því mjög, því að ég er þeirrar skoðunar, eins og hv. þm. Magnús T. Ólafsson, að utanríkisviðskiptin séu raunverulega veigamesti þáttur utanríkismála næst varnar- og öryggismálum.

Umr. um utanríkismál Íslands, þegar undan eru skilin varnar- og öryggismál, hafa ekki verið miklar á liðnum árum, og ber sérstaklega að harma hversu lítil áhersla hefur verið lögð á af hálfu íslenskra stjórnmálamanna að fjalla um þýðingu utanríkisviðskipta í stefnumótun utan­ríkismála. Það skal dregið í efa að allur almenn­ingur og jafnvel hv. þm. geri sér nægilega góða grein fyrir mikilvægi utanríkisviðskipta fyrir frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar né því orsaka­sambandi sem er á milli frjálsra utanríkisvið­skipta og einstaklingsfrelsis.

Um þessar mundir eru liðin 37 ár frá því að íslendingar fengu utanríkismál til fullrar og sjálf­stæðrar meðferðar. Það var í apríl 1940 við hernám þjóðverja á Danmörku, en samkv. sam­bandslögunum frá 1918 fóru danir með utanríkis­mál fyrir Íslands hönd. Hernámið gerði dönum ókleift að fjalla um þessi mál, og hinn 10. apríl 1940 samþykkti Alþ., sem þá sat, þáltill. um að Ísland skyldi að svo stöddu taka meðferð utan­ríkismálanna í sínar hendur. Á grundvelli þess­arar þál. voru síðan gefin út brbl. nr. 120 frá 8. júlí 1940, um utanríkisþjónustu erlendis.

Frá því að þessir atburðir áttu sér stað eru liðin 37 ár, eins og ég gat um áðan. Á þessu tímabili hafa orðið mikil umskipti í heiminum og þeir atburðir gerst er kollvarpað hafa eldri hugmyndum um stöðu og samskipti þjóða. Á þessum tíma hefur mikill fjöldi þjóða öðlast frelsi og sjálfstæði, þ. á m. Ísland árið 1944. En á sama tíma hafa aðrar þjóðir glatað því algerlega og hafa verið innlimaðar í ríkjaheildir eða samsteypur, svo sem átti sér stað með Eystrasaltslöndin og fleiri ríki á yfirráðasvæði Sovétríkjanna, svo að dæmi sé nefnt.

Í umróti seinni heimsstyrjaldarinnar, 1939–1945 og á næstu árum þar á eftir, þurftu ís­lendingar að þreifa sig áfram um mótun sjálf­stæðrar stefnu í utanríkismálum, — stefnu sem hentaði smáríki í baráttu þess fyrir frelsi og sjálfstæði í samræmi við þjóðareðli og forna arfleifð. Vandi þjóðarinnar og forustumanna hennar var mikill, en grundvöllur stefnumörk­unar var skýr. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóð­arinnar vildi að stefna í utanríkismálum hvíldi á borgaralegum, þingræðislegum grundvelli sem tryggði þjóðinni og einstaklingunum sem mest frelsi og sjálfstæði inn og út á við. Mótun utanríkisstefnu Íslands á þessum árum var þó að ýmsu leyti örðugt og vandasamt verk. Það burfti víðsýni og mikinn kjark til að móta frá grunni stefnu í utanríkismálum sem í ýms­um efnum braut í bága við hefðbundnar hug­myndir manna.

Heimsstyrjöldin síðari, er kostaði tugi milljóna manna lífið, gerbreytti heimsmyndinni og sann­aði mönnum m. a. skaðsemi gagnrýnislausrar þjóðernishyggju. Mótaði það mjög framþróun í samskiptum þjóða á næstu árum og var lýðræðis­ríkjunum mikil hvatning til stóraukinnar sam­vinnu og samstarfs á mörgum sviðum.

Utanríkismál eru eðli málsins samkvæmt mjög margbrotin og fjölþætt. Erfitt er að skilgreina, svo að fullnægjandi sé, hvað í hugtakinu felst. Í víðustu merkingu má segja að undir utan­ríkismál heyrir það er varðar hagsmuni Íslands út á við. Sem dæmi má nefna utanríkispólitík landsins, viðskipti við önnur lönd, svo sem stjórnvöld annarra ríkja og verslunaraðila, fyrir­svar Íslands í öðrum ríkjum og hjá alþjóða­stofnunum, gæslu hagsmuna íslenskra ríkisborg­ara utan Íslands o. s. frv. Og vegna smæðar þjóðarinnar og eðlilegrar takmörkunar og mik­illar verkaskiptingar kom þegar í upphafi í hlut utanrrh. og utanrrn. að fjalla sérstaklega um öryggis-, varnar- og hafréttarmál.

Forustumenn borgaraflokkanna á sínum tíma skynjuðu vel óskir og kröfur þjóðarinnar í þessum efnum og mörkuðu þá stefnu sem hefur tryggt íslendingum frelsi og öryggi í tæp­lega fjóra áratugi. Áhersla var lögð á sjálf­stæði Íslands í nánu samstarfi við lýðræðis­þjóðir heims. Aðild Íslands að Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, Atlantshafsbandalaginu, Fríverslunarbandalagi Evrópu, Norðurlandaráði o. s. frv. bera þessu órækan vott. Aðild Ís­lands að framangreindum bandalögum og stofn­unum felur í sér nánara samstarf en áður þekkt­ist við aðrar þjóðir á mikilvægum hagsmuna­sviðum samfara ákveðnum skuldbindingum er af viðeigandi þátttöku leiðir. Hin nýja og breytta heimsmynd, sem fylgdi í kjölfar heimsstyrjald­arinnar og Kóreustríðsins 1950–1953, neyddi þjóðir heims til ákveðnari afstöðu til þeirra miklu þjóðfélagsátaka er áttu sér stað á þessum upplausnarárum. Lýðræðisþjóðirnar efndu til efnahags- og varnarsamstarf á þessum árum til varnar borgaralegum lýðræðis- og þingræðisrétt­indum sem við íslendingar búum enn við eins og flestar aðrar vestrænar þjóðir. Á þessu tíma­bili hefur verið hart sótt að þessum þjóðum inn og út á við af aðilum sem vilja borgaralegt lýðræði og frelsi feigt. Þá hefur því miður örl­að á því að vegið hefur verið sérstaklega að þeim mönnum íslenskum sem mótuðu og hrundu í framkvæmd þeirri stefnu í utanríkismálum Ís­lands sem hefur tryggt frelsi og fullveldi þjóð­arinnar frá stofnun lýðveldisins árið 1944. Og því miður hafa ómerkilegar og jafnvel rangar fullyrðingar um farsælan árangur þessarar stefnu frjálshyggju og víðsýni verið viðhafðar og þeir forustumenn sumir, sem nú eru fallnir frá, hlotið ranglátan dóm sumra manna, og oft á tíðum hefur verið talað um þjóðholl þeirra á vítaverðan hátt.

Viðskiptaþáttur íslenskrar utanríkisstefnu, sem fyrr er getið, byggðist á frjálsum og óþvinguð­um viðskiptum við þær þjóðir sem hentaði hags­munum Íslands best á hverjum tíma að eiga viðskipti við. Forustumenn íslenskra stjórnmála­flokka hafa aldrei þurft að blanda saman við­ræðum um viðskiptahagsmuni Íslands annars vegar við öryggis- og varnarhagsmuni þjóðar­innar hins vegar, sama hvaða ríkisstj. hefur setið að völdum. Og ástæðurnar eru mjög ein­faldar. Það var og er hagsmunamál megin­þorra íslendinga að borgaralegt lýðræði og ör­yggi út á við sé verndað í skjóli aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu og með víðtæku sam­starfi við vestrænar þjóðir á sem flestum svið­um. Þannig hefur það verið í framkvæmd á liðn­um 30 árum.

Þjóðin hefur líka í tæplega þrjá áratugi stutt þá flokka sérstaklega sem hafa stofnað til og stuðlað að framgangi utanríkisstefnu Íslands á á framangreindum grundvelli. Yfir 80% kjósenda styður þessa flokka. Íslendingar hafa notið fulls frelsis til að leita og njóta viðskipta við aðrar þjóðir. Aðild Íslands að NATO hefur hvorki hindrað né stuðlað að viðskiptum við einstakar þjóðir á því tímabili sem um er að ræða. Ís­lendingar hafa t. d. óhindrað haft sín viðskipti við Sovétríkin á þriðja áratug, selt þangað mikið af frystum sjávarafurðum og keypt í staðinn mestalla þá brennsluolíu og bensín sem þörf hefur verið fyrir.

Umr. sumra um þátt utanríkisviðskipta og af­staða þessara manna til einstakra landa hafa oft og tíðum einkennst af mikilli fákunnáttu eða fáfræði. Hefur jafnvel verið reynt að halda því fram að aðild Íslands að NATO hafi haft áhrif á íslensk utanríkisviðskipti. Þetta er al­rangt. T. d. má nefna að á síðustu 30 árum og eftir að Ísland gerðist aðili að Atlantshafs­bandalaginu árið 1949 hafa viðskiptin við Sovét­ríkin stóraukist. Þessi viðskipti hafa oft verið Íslandi hagkvæm. Aðild að NATO hefur ekki verið þjóðinni fjötur um fót að nýta þá mögu­leika út í ystu æsar sem þar hafa verið fyrir hendi á hverjum tíma. Það er svo annað mál, hvort Sovétríkin hafa ekki reynt að notfæra sér þessi viðskiptatengsl sér og fylgdarmönnum sínum hérlendis til framdráttar. Á þessu stigi skal ekki frekar farið út í þá sálma.

Því er svo ekki að leyna, að þótt viðskiptin við Sovétríkin hafi á stundum verið Íslandi hag­kvæm, en þau hafa til skamms tíma verið á vöruskiptagrundvelli, þá hafi hin frjálsu og óbundnu viðskipti Íslands við Bandaríki Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu verið miklu hag­kvæmari og fólkinu í landinu ábatasamari. Sem dæmi má nefna að útflutningur Íslands til Bandaríkjanna á frystum sjávarafurðum síðustu áratugina hefur raunverulega verið kjölfestan í atvinnulífi og góðri lífsafkomu þjóðarinnar. At­vinnuöryggi og bein lífsafkoma þúsunda sjó­manna, verkamanna og verkakvenna um land allt hefur byggst á framleiðslu og útflutningi frystra sjávarafurða til Bandaríkjanna, en þangað fer um 75% af öllum frystum sjávarafurðum sem framleiddar eru hérlendis. Þar hefur verðlag á frystum sjávarafurðum verið hvað hæst og fyrir þann markað hafa því dýrustu vörurnar verið framleiddar. Þetta eru staðreyndir sem ég heyri yfirleitt aldrei talað um á hv. Alþ., ég veit ekki hvernig á því stendur — fyrr en hv. þm. Magnús Torfi fór að fjalla um þessi mál með þeim hætti sem mjög æskilegt er að ræða um utan­ríkismál. Hann sagði m. a. að það væri gott fyrir hv. alþm. og þjóðina í heild að gera sér grein fyrir því og hugsa til þess hver fram­tíðarþróunin verður væntanlega í þessum mál­um við það að aðrar þjóðir hafa fært fisk­veiðilögsögu sína út í 200 sjómílur.

Mér fannst vangaveltur hv. þm. mjög athyglis­verðar þegar hann skipti réttilega helstu mark­aðssvæðum íslendinga í þrjú höfuðsvæði, í fyrsta lagi Norður-Ameríka, þ. e. a. s. Banda­ríkin og Kanada, í öðru lagi Vestur-Evrópu og í þriðja lagi Austur-Evrópu og Sovétríkin. Hv. þm. ræddi um áhrif útfærslunnar með tilliti til þess, hvort búast mætti við því að mikil framboðs­aukning yrði á fiski t. d. í Bandaríkjunum, þannig að íslendingar yrðu að fara að athuga sinn gang í þeim efnum með tilliti til mark­aðsuppbyggingar í Vestur-Evrópu sérstaklega. Um það, hvort staða íslenskra útflutningsaðila þreng­ist janfmikið, t. d. í Bandaríkjunum, eins og hv. þm. kom inn á, er ég ekki alveg sömu skoðunar um þróunina næstu tvo áratugina, m. a. vegna þess að bandarískur sjávarútvegur er kominn á ég vil segja það niðurlægingarstig, að það eru litlar líkur fyrir því, að hann geti náð sér upp með þeim hætti að það framboð fisks, sem hann mun koma til með að setja inn á bandaríska markaðinn, breyti miklu þar um. Ef við höfum það í huga að framleiðsla Banda­ríkjanna á þorskfiskafurðum og innflutningur á tímabilinu 1948–1975 hefur breyst þannig, að ár­ið 1948 gátu bandaríkjamenn sjálfir látið mark­aðnum í té 72% af þörfum hans, en innflutn­ingur 28%, en árið 1975 er svo komið að 93% af þörfum markaðarins fyrir þessar fisktegundir er fullnægt með innflutningi, en 7% var eigið framboð, þá sér maður hvílík gífurleg breyting hefur þarna á orðið. Það eitt mundi t. d. ekki nægja í þessari stöðu að fiskstofnarnir styrktust við austurströnd Bandaríkjanna, því að þar eru nú aðallega þær fisktegundir sem íslendingar selja í Bandaríkjunum, — það eitt, að þessir stofnar styrkist, mundi ekki nægja, vegna þess að flóttinn úr þessari atvinnugrein í Banda­ríkjunum, bæði sjávarútvegi og fiskiðnaði, hef­ur verið það mikill og lífsafkoma manna í sjáv­arútvegi og fiskiðnaði í Bandaríkjunum er langt fyrir neðan það meðallag sem þekkist í banda­rísku atvinnulífi, að það þarf mjög mikla breyt­ingu til hins betra til þess að það þrífist með þeim hætti að okkur ætti að stafa hætta af auknu framboði frá bandaríkjamönnum sjálfum. Hins vegar er hugsanlegt að kanadamenn, sem að vísu eru líka komnir nokkuð langt niður í sjávarútvegi, gætu eflt sjávarútveg sinn á ný og aukið útflutning sinn til Bandaríkjanna og þar gæti komið aukin samkeppni gagnvart ís­lenskum fiski á næstu árum. En þá er einnig rétt að hafa það í huga, að fiskverslun hefur aukist gífurlega mikið í Bandaríkjunum á síð­ustu árum og áratugum. Bæði hefur hún aukist nokkuð vegna aukinnar fiskneyslu á hvern íbúa og svo hefur hún aukist að sjálfsögðu við hina miklu íbúafjölgun sem er í Bandaríkjunum. Einnig má geta þess, að bandaríkjamenn stefna hröðum skrefum að því að minnka kjötneyslu. Þá eru bæði íslensku fyrirtækin og önnur fyrir­tæki, sem selja fiskafurðir í Bandaríkjunum, orðin miklu áhrifameiri aðili á markaðnum í Bandaríkjunum en þau voru fyrir nokkrum árum og geta þess vegna haft mun meiri áhrif á neyslu fisks í framtíðinni heldur en verið hefur hingað til. Hins vegar er ég sammála hv. þm. Magnúsi Torfa, að þetta er auðvitað mál sem þarf að huga að og ekki séu ráð nema í tíma séu tekin.

Ég er sammála hv. þm. varðandi Sovétríkin, að þar munu markaðsmöguleikar okkar hugsan­lega þrengjast í framtíðinni, enda hefur það sýnt sig í útflutningi sjávarafurða til Sovét­ríkjanna á síðustu árum að sovétmenn meta stöðuna þannig sjálfir, því að það hefur stór­lega dregið úr innkaupum sovétmanna á fiski frá Íslandi á síðustu árum og eru allar horfur á að svo muni halda áfram. En það er ekki ein­göngu vegna þess að þeir séu farnir að fiska meira sjálfir eða það standi á okkur að bjóða fiskinn, heldur er hitt, að verðlag á fiski og sjávarafurðum í Sovétríkjunum er fyrir neðan það sem íslendingar vilja selja sinn fisk á í frystu ástandi. Stundum hafa sovétmenn látið þau orð falla í samningaviðræðum, að raunveru­lega væru þeir að borga jafnvel hærra verð heldur en þeir seldu þann sama fisk út úr búð í verslun í Moskvu þannig að af því mætti draga þá ályktun að viðskipti þessi séu þess eðlis að á þeim sé ekki að byggja, og rétt ályktað hjá hv. þm., að það mun líklegast þrengja mjög um útflutningsmöguleika þangað.

En þá komum við að Vestur-Evrópu. Hvaða möguleika og hvaða skilyrði höfum við til þess að auka útflutning okkar til Vestur-Evrópu? Um verðlag á sjávarafurðum í Vestur-Evrópu, ef und­an er skilinn ísfiskur, dagverð á ísfiski, sem getur verið mjög hátt, er það að segja, að það hefur verið fyrir neðan það markaðsverð sem bandaríski markaðurinn hefur boðið. Hins vegar hafa verið að skapast nokkru betri möguleikar á sölu frysts fisks í Vestur-Þýskalandi á síðustu árum, og það er fyrirsjáanlegt að bretar munu hafa mikla þörf fyrir fisk, bæði ísaðan og fryst­an. Það eru engar líkur fyrir því að bretar geti orðið sjálfum sér nægir í þeim efnum þrátt fyrir útvíkkaða fiskveiðilögsögu í kringum Bret­landseyjar og Írland. Það er því ekki nokkur vafi á því að Vestur-Evrópa mun hafa vaxandi þýð­ingu fyrir íslenska útflytjendur og útflutnings­atvinnuvegi á næstu áratugum. Og ég hallast að þeirri skoðun, að það sé einmitt í vesturvegi, í Vestur-Evrópu, sem við gætum hugsanlega haft aukna möguleika á sölu sjávarafurða, að því til­skildu að fiskstofnarnir styrkist við Ísland í framtíðinni og svo einnig vegna þess, að ef eitthvað kynni að dragast saman í Bandaríkj­unum, þá er þetta markaðssvæði sem býr við þau lífskjör að markaðirnir munu helst svara þeim verðkröfum sem íslendingar gera vegna framleiðslu sinnar. Þess vegna er mjög þýðing­armikið fyrir íslensku þjóðina að vel takist til í samskiptum hennar við Vestur-Evrópubúa.

Okkur hefur tekist mjög vel í sambandi við útfærslu íslenskrar fiskveiðilögsögu. Við höfum fengið viðurkenningu fyrir 200 mílunum af hálfu þessara þjóða, þ. e. a. s. Vestur-Evrópuþjóðanna, og það er engin ástæða til að halda annað en að samskipti okkar við þessar þjóðir muni leysast með farsælum hætti í framtíðinni, þannig að það ætti ekki að vera hindrun í vegi fyrir því að íslendingar fái þau tækifæri í sambandi við sinn vöruútflutning í Vestur-Evrópu sem nauð­synlegt er.

Ég vil svo að lokum fjalla lítillega um þýð­ingu frjálsra utanríkisviðskipta. Það er ágætt að rifja einstöku sinnum upp að ekki eru allir sam­mála í þeim efnum hvernig þessi mál skulu vera skipulögð. En hérlendis hafa í áratugi tog­ast á tvö andstæð öfl varðandi stefnuna í utan­ríkisviðskiptum. Annars vegar hafa verið bar­áttumenn frjálsrar verslunar og hins vegar tals­menn skipulagshyggju og ófrelsis í þessum efn­um sem öðrum. Mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur fylkt sér að stefnu frjálshyggju um frjálsa verslun, og má segja að í grundvallaratriðum hafi verið reynt að vinna samkv. því í utan­ríkisviðskiptum. Stundum hefur reynst erfitt að framkvæma stefnu frjálsrar verslunar í inn­flutningsmálum vegna óviðráðanlegra erfiðleika í efnahags- og gjaldeyrismálum. En hvað sem því líður er hægt að slá því föstu, að stefna frjálsra viðskipta hafi ráðið frá upphafi stefnu­mótunar í þessum efnum á fyrsta áratug lýð­veldisins Íslands. Og enn er þetta grundvallar­stefnan í utanríkisverslun landsmanna og þann­ig vill meiri hluti þjóðarinnar hafa það.

Ástæður hins mikla fylgis fólks við frjálsa utanríkisverslun eru augljósar. Almenningur vill hafa gott vöruúrval og valfrelsi. Fólk hefur­komist að raun um að ríkisforsjá, höft og skömmtun í þessum efnum eru andstæð hags­munum þess. Reynslan hefur sýnt að vöruúrval við slíkar aðstæður hefur orðið minna og gæði þess, sem á boðstólum er, lakari án þess að verð­lag væri hagstæðara.

Utanríkisviðskipti landsins hafa byggst á frelsi einstaklinga og félagasamtaka, framleiðenda til að annast innkaup á vöru landsmanna erlendis frá eða leita markaða þar fyrir útflutningsaf­urðir þjóðarinnar. Þetta frelsi hefur skilað þjóð­inni ómældum verðmætum og raunverulega ráð­ið úrslitum um frelsi Íslands og sjálfstæði út á við. Fólkið hefur sjálft án afskipta ríkisvalds­ins fengið að leita fanga þar sem arðsvonin var mest. Á grundvelli þessa hafa utanríkisviðskipt­in þróast á síðustu áratugum og eru nú í nokkuð fastmótuðum skorðum, þannig að íslendingar selja nú meginmagn útflutningsafurða sinna til landa sem kaupa þær á besta fáanlega verði. Á sama tíma eru innkaup gerð frá löndum þar sem þau eru hagkvæmust og vörurnar bestar. Þarf ekki ætíð að fara saman að hagkvæmasta markaðslandið fyrir íslenskar vörur séu best þegar að innkaupum kemur. Gott dæmi þess er að á síðustu árum hafa 25–30% af útflutningnum, miðað við verðmæti, farið til Bandaríkjanna, en þaðan hefur innflutningurinn hins vegar aðeins verið 7–9%. Aftur á móti hefur útflutningurinn til Efnahagsbandalagslanda Evrópu verið um 31%, en innflutningurinn um 44% frá þessu­svæði. Þannig hafa dollaratekjurnar af útflutn­ingnum til Bandaríkjanna að verulegum hluta verið notaðar til vörukaupa í Vestur-Evrópu eða til að greiða fyrir olíuvörur frá Sovétríkjunum nú síðustu árin vegna minnkandi kaupa rússa á sjávarafurðum frá Íslandi, á sama tíma og ís­lendingar viðhalda sínum innkaupum þaðan. Vöru- og olíuinnkaup frá þessum löndum hafa verið hagkvæmari en frá Bandaríkjunum. Þannig er viðskiptafrelsið notað þjóðinni í hag.

En framangreindur samanburður segir ekki nema hálfa sögu um eðli þess og kosti að geta valið um markaði fyrir útflutningsvörur þjóð­arinnar á hinum frjálsu mörkuðum heims, eins og t. d. í Bandaríkjum Norður-Ameríku og í Vestur-Evrópu. Það verð, sem fæst fyrir hverja útflutta einingu, og sú verðmætasköpun, sem þar er að baki, er mjög mismunandi eftir því til hvaða markaðslands selt er. Hið sama gildir um atvinnuuppbyggingu og atvinnuöryggi þessu tengt.

Sá útflutningsiðnaður, sem mesta þýðingu hef­ur fyrir íslenskan þjóðarbúskap, er hraðfrysti­iðnaðurinn. Hefur svo verið í þrjá áratugi. Hann er fyrst og fremst grundvallaður á sölu frystra sjávarafurða á hina frjálsu markaði, þ. e. a. s. markaðina í Norður-Ameríku og í Vestur-Evrópu. Sovétríkin og Tékkóslóvakía hafa einnig gegnt þar veigamiklu hlutverki. Sem dæmi má nefna að árlegt hlutfall meðaltals frystra sjávarafurða í útflutningi, miðað við verðmæti, hefur verið 25–40% af heildarútflutningsverðmæti þjóðar­innar á hverju ári. Til samanburðar má geta þess, að sá afurðaflokkur, sem hefur komist næst fiskinum í útflutningi, er saltfiskur. Árlegt meðaltal hans í útflutningnum er þetta frá 10% og upp í 14% á umræddu tímabili, en hefur komist hæst upp í 23%. Saltfiskurinn er einkum seldur til Portúgals og Ítalíu, þ. e. a. s. ríkja, sem eru innan Efnahagsbandalagsins.

Það er þess vegna mikilvægt, þegar rætt er um utanríkismál, að gera sér grein fyrir því hvað felst á bak við utanríkisviðskipti og frelsi í þeim efnum. Á þessari framkvæmd og þeirri stefnu, sem ég hef rætt um að framan, þ. e. a. s. uppbyggingu framleiðslutækja hraðfrysta iðn­aðarins á Íslandi og markaðsuppbyggingu er­lendis, er raunverulega grundvöllur íslensks at­vinnulífs byggður. Rúmlega 100 hraðfrystihús og á annað hundrað saltfisksstöðvar, sem dreift er um allt landið, framleiða staðlaðar vörur eftir kröfum markaðanna allt árið um kring, þeirra markaða, sem greiða vinnu við þessa fram­leiðslu. Og á síðustu áratugum og síðustu árum hefur auknu og samræmdu skipulagi verið komið á veiðar og vinnslu í sambandi við íslenskan fisk­iðnað. Velgengni og afkoma þjóðarinnar, fjölda byggðarlaga og þúsunda heimila um land allt, byggist á þessari atvinnugrein, þ. e. a. s. íslensk­um fiskiðnaði. Sölu-, markaðs- og viðskiptamál eru því snar þáttur í lífi og afkomu þessa fólks og þjóðarinnar í heild.

Í ljósi umr. um utanríkisstefnu Íslands taldi ég ekki óviðeigandi að draga upp þessa mynd í sambandi við utanríkisviðskiptin og minna á, hvernig stefna frjálshyggju í utanríkisverslun hefur tryggt Íslandi öruggan sess á bestu fisk­mörkuðum heimsins. Með því hefur styrkum stoðum verið rennt undir örugga afkomu þjóð­arinnar á grundvelli háþróaðs íslensks iðnaðar sem stenst að fullu harða samkeppni og kröfur heimsmarkaðanna. Í þessu felst veigamikill þátt­ur og ég vil segja veigamesti þátturinn í sjálf­stæði íslensku þjóðarinnar. Þær þúsundir, sem vinna í sjávarútvegi og fiskiðnaði á Íslandi, geta með stolti litið yfir farinn veg, og fram­tíðin gefur fyrirheit um enn glæsilegri árangur ef þjóðin og ég vil segja hv. þm. einnig halda vöku sinni. Því ber að tryggja enn betur nú­verandi grundvöll íslenskrar utanríkisstefnu á sviði utanríkisviðskipta og stuðla að auknum út­flutningi til háþróaðra markaðssvæða á grund­velli þeirrar utanríkisstefnu sem núverandi ríkis­stj. aðhyllist og stendur að.