18.04.1977
Efri deild: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3200 í B-deild Alþingistíðinda. (2299)

200. mál, innlend endurtrygging

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Heilbr. ­og trn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á l. nr. 43 9. maí 1947, um innlenda endurtrygg­ingu, stríðsslysatryggingu skipshafna o. fl. N. varð einhuga um að leggja til að frv. verði sam­þykkt óbreytt. Halldór Ásgrímsson var fjarver­andi afgreiðslu málsins. Meginefni þessa frv. er að auka áhættufé félagsins, og var sannarlega orðið mál á að svo yrði gert. Lögin eru orðin 30 ára gömul og aðeins smávægilegar breytingar hafa verið gerðar á þeim frá því þau voru sett og þess vegna er auðsætt að það er tímabært að breyta tölum sem þar eru.

Áhættufé félagsins var í upphafi ákveðið 6 millj. og hafa aðeins bæst 400 þús. kr. við, inn­borgað áhættufé frá vátryggingarfélögum, en sýnilegt er að þetta verður að stórauka. Það verður að teljast mjög óheppilegt að vátryggingarfélag, þar sem ríkið er langstærsti eigandinn, fullnægi ekki þeim kröfum er ríkisvaldið gerir til annarra vátryggingarfélaga um áhættufé, jafn­vel þótt eigið fé þess sé nægilega hátt. Nokkur hluti af iðgjaldatekjum íslenskrar endurtrygg­ingar, eða um 20%, er frá erlendum vátrygg­ingarsamningum, og það hefur viljað brenna við að erlend frumtryggingarfélög hafi ekki vilj­að endurtryggja hjá íslenskri endurtryggingu vegna þess að þeim hefur þótt áhættuféð heldur of lítið. Þess vegna er aðkallandi að ráða bót á þessu, svo að félagið tapi ekki af hagstæðum samningum. Hagkvæmasta leiðin, að því er kunn­ugir telja, er að fá lagaheimild til þess að gefa út jöfnunaráhættufjárbréf og nota til þess mis­mun er fram kæmi við hækkun á bókfærðu verði á fasteignum félagsins.

Í frv. er lagt til að áhættuféð verði 34 millj. og það verði fengið með því að gefa út jöfnunar­áhættufjárbréf. Talið er að fasteignir félagsins geti staðið undir þessu. Brunabótamat þeirra var síðast 199232689 kr., en bókfært verð aðeins 126196080 kr.

Önnur atriði frv. en þau, sem snerta áhættuféð, eru aðeins til komin vegna breyttra aðstæðna. Eins og ég sagði var einróma álít n. að leggja til að frv. verði samþykkt óbreytt.