18.04.1977
Neðri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3224 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þegar rætt er um veigamikil iðnaðarmál er eðlilegt að um leið sé rætt um orkumál, svo mjög fléttast þess­ir málaflokkar saman og verða á ýmsum sviðum ekki aðskildir. Alþfl. hefur haldið uppi mjög harðri gagnrýni á stjórn núv. ríkisstj. á orku­málum, bæði stefnuleysi, sem virðist vera, og framkvæmdum, sem frægar eru að endemum. Engu að síður höfum við haldið fast við þá af­stöðu sem við tókum áður þegar afgreitt var frv. um járnblendiverksmiðju, enda má segja að Sigölduvirkjun sé fyrir mörgum árum orðin að veru­leika og að ákvörðunin um þessa orkufreku verksmiðju standi í beinu samhengi við hana. Í þessari afstöðu felst síður en svo nokkur viðurkenning á meðferð eða stöðu orkumálanna í heild. Við höfum stutt hugmyndina um þessa verksmiðju í samhengi við byggingu Sigöldu­virkjunar af því að hún er byggð á þeim for­sendum, að fyrir hendi sé a. m. k. einn stór kaupandi.

Við teljum að það sé eðlilegt að nú eftir áratugshlé sé stigið annað skref í sambandi við orkufrekan iðnað í landinu, og verður varla sagt að þar sé farið með neinu óðagoti þegar upp­bygging á iðnaði af þessu tagi gengur ekki hrað­ar. Við höfum frá upphafi haft allan fyrirvara varðandi fullkomnustu mengunarvarnir innan­húss og utan um þetta mannvirki svo og nokkur fleiri atriði.

Í þeim umr., sem verið hafa í landinu um iðn­að almennt í tilefni af þessari fyrirhuguðu verk­smiðjubyggingu, hefur ýmislegt næsta serkenni­legt komið fram. Það er búið að flokka iðnað og sú flokkaskipting er ærið einkennileg. Í fyrsta lagi er talað um „íslenskan iðnað“, í öðru lagi er talað um „nýiðnað“. Það er ekki „nýiðnaður“ þegar nýjungar verða í stóriðju eða minnstu iðn­fyrirtækjum. Þetta er nýtt fyrirbæri sem mjög bar á t. d. í ræðu síðasta ræðumanns. Í þriðja lagi er „stóriðja“.

Þessi flokkaskipting, sem aðallega er í mál­flutningi alþb.-manna, er ábyrgðarlaus og glóru­laus pólitískur áróður sem byggist á því að koma misskilningi inn hjá þjóðinni og getur ekki orðið íslenskum iðnaði til annars en tjóns. Enginn hef­ur nokkru sinni reynt að draga línu á milli iðn­aðar og stóriðnaðar, enda getur það orðið býsna erfitt. Ég tel að við, sem yfirleitt viljum að íslenskur iðnaður verði byggður upp, eigum að líta svo á að íslendingum beri að nota tækifærið til þess að koma upp iðnaði eins stórum og við getum og hagkvæmt þykir, en það séu engin slík mörk til og að flokkun iðnfyrirtækja í áróð­ursskyni sé iðnaðinum beinlínis til tjóns. Mörg fyrirtæki í landinu eru á okkar mælikvarða stór­iðja, eins og sementsverksmiðja, áburðarverksmiðja o. fl., og það á ekki að brjóta niður með misnotkun orða vilja þjóðarinnar til þess að koma sér upp slíkum iðnaði.

Hitt er svo annað mál, hver afstaða manna er til þess að hleypa erlendu fjármagni inn í land­ið í sambandi við uppbyggingu iðnaðar. Ég tel að við eigum að halda þessu máli algerlega að­skildu. Enda þótt á 15–20 ára tímabili sé um að ræða þrjú iðnmannvirki, þar sem til mála kemur þátttaka erlends fjármagns, er engin ástæða til að gera orðið stóriðju að einhvers konar skammaryrði og nota það í svívirðingar­skyni við hvert tækifæri.

Menn geta haft mismunandi skoðanir á notkun erlends fjármagns. Alþfl. hefur frá upphafi hvatt til þess að farið verði varlega í að hleypa er­lendum aðilum inn í landið, inn í íslenskt at­vinnulíf, og hefur lagt til að hvert slíkt tilvik yrði rannsakað vandlega. Hins vegar er þess að geta, að járnblendiverksmiðjan hefur frá upp­hafi — fyrir atbeina iðnrh. og orkumálaráðh. Alþb. — verið hugsuð þannig að þar yrði meiri hl. hlutafjár í eigu íslendinga og fyrirtækið því að meiri hl. til íslenskt fyrirtæki. Ég tel að allur áróður alþb.-manna í þessu máli sé í raun og veru bein andstaða gegn uppbyggingu iðnaðar og furðulegt afturhald. Satt að segja kemur það úr óvæntustu átt þegar menn halda uppi slíkum draugagangi í íslensku þjóðfélagi sem getur ekki orðið til neins annars en þess að draga úr hug þjóðarinnar til að koma upp og styrkja iðnað í landinu.

Það má færa fram ýmis rök gegn einstökum iðngreinum og segja að þær séu óhreinar, þær valdi mengun og við eigum ekki að ráðast í þær, það sé of erfitt og hættulegt að vinna við þær. Þetta eru sjónarmið sem vert er að skoða.

Við skulum minnast þess, að fyrsti þáttur stór­framleiðslu á Íslandi var togaraútgerð. Við höfð­um ekki rekið togara í mörg ár þegar það kom í ljós, að um borð í þessum skipum viðgekkst mesta vinnuþrælkun sem þekktist í sögu þjóðar­innar. Áttum við þá að hætta við togaraútgerð? Ég býst við að vitringarnir í Alþb. hefðu komist að þeirri niðurstöðu. Er ekki hægt að hlusta á þá og komast að annarri niðurstöðu en þeir hefðu lagt til ef þeir hefðu setið hér á Alþ. 1920, að við legðum togaraútgerð niður. En nákvæmlega sama má segja um langflestar greinar nútíma­iðnaðar. Þær einkennast af hraðri tækni og mikilli notkun nýrra efna og öðru sem er varhuga­vert fyrir umhverfi og starfsfólk. En með ár­verkni getum við yfirunnið þessi vandkvæði og það verðum við að gera.

Við skulum gera okkur ljóst að þetta kostar peninga. Mengunarvarnir kosta peninga. En iðnaður verður að rísa undir því að greiða þann kostnað. Á s.l. ári, 1976, var fjárfesting í öllum iðnaði í Noregi liðlega 6 milljarðar norskra kr. Þar af fór einn milljarður eingöngu til þess að draga úr mengun eldri verksmiðja og bæta starfs­umhverfi í verksmiðjunum, enda eru norsk yfir­völd nú, þótt seint sé fyrir þá, að setja mjög strangar reglur og lög um þetta efni.

Varðandi þýðingu þessarar fyrirhuguðu verksmiðju almennt má vísa til umsagnar sem Þjóð­hagsstofnun og forstöðumaður hennar, Jón Sig­urðsson, hafa gefið. Hér er um allmikið fyrir­tæki að ræða sem, eins og hann segir, hækkar að viðbættu raforkuverði vinnsluvirðið í 3050 milljarða eða 1.6% af þjóðartekjum svo að hér er um allmikla viðbót við íslenskt atvinnulíf að ræða hvað framleiðslu snertir. Er ábyrgðarhlut­ur að neita slíku fyrirtæki eingöngu út af til­tektum spekinga sem aldrei hafa sett sig inn í íslenskt atvinnulíf eða lífsbaráttu og berjast gegn fyrirtækinu af uppdikteruðum pólitískum ástæðum.

Þjóðhagsstjóri segir einnig að helstu niður­stöður aths. hans séu, að í samanburði við fyrri samninga séu þær áætlanir, sem nú eru uppi um stofnun og rekstur fyrirtækisins, mun traust­ari en áður. á þetta einkum við um stofnkostnaðar- og rekstrarkostnaðaráætlanir, um sölu og markaðsmál og fjáröflun til byggingar verksmiðjunnar. Hins vegar sýna núverandi áætlanir minni arðsemi en þær fyrri, enda sennilega mun var­kárari en þær áætlanir sem gerðar voru í sam­vinnu við Union Carbide Corporation. Helsta áhættan virðist bundin forsendum um þróun markaðsverðs, þótt hún sé almennt talin vera svipuð því sem þessar áætlanir gera ráð fyrir.

Ég vænti þess að enginn maður hafi haldið því fram, að stóriðja sé gulltryggð og að hún sé ekki háð almennum efnahagssveiflum í því efnahagskerfi sem ríkir á vesturlöndum. Það er öllum ljóst, það höfum við upplifað varðandi álverið, og auðvitað er tekin áhætta með slíku fyrirtæki. Þá áhættu þarf að meta. Eftir þeim upplýsingum, sem fram hafa komið, fæ ég ekki séð að það sé ekki rétt fyrir okkur að taka þá áhættu í þessu tilviki. Það er vitað mál, að vegna þess hve stórkostlegar kröfur um innri og ytri mengunarvarnir hafa aukist og hve allri tækni hefur fleygt fram á þessu sviði, mun á næstu árum mikill fjöldi af þeim verksmiðjum, sem til eru á þessu sviði, heltast úr lestinni. Þess vegna er ekki hægt að taka eina og eina setningu upp úr blöðum suður í álfu um það að stálframleiðsla eigi almennt ekki við gott útlit að búa. Hér er um að ræða eina af grundvallariðngrein­um nútíma tækniþjóðfélags, þannig að ég tel að óhætt sé fyrir alþm. að treysta dómum þeirra serfroðu manna, sem um þetta mál hafa fjallað, hvað þetta snertir.

Rætt hefur verið um ýmsa þætti varðandi járnblendiverksmiðjuna, en þó engan eins og mengunarmálin og það sem viðkemur starfsleyfi verksmiðjunnar sem nú hefur verið gefið út. Hv. síðasti ræðumaður sá ástæðu til þess að bera svívirðingar á aðra þm. Í sambandi við þetta og tók töluvert upp í sig, þó hann væri augsýnilega að reyna að varast að fá aftur áminningu frá forseta, eins og hann sagðist hafa fengið áður. Ég get svarað fyrir mig og sagt, að ég vísa algerlega burt sem tilefnis- og tilhæfulaus­um árásum, að ég hafi ekki séð ástæðu til að kynna mér málið. Þegar menn hafa setið fund eftir fund saman í n. til þess að vinna að þessu máli og skjalabunkarnir, sem þeir hafa með höndum, eru farnir að vera mörg pund, þá finnst mér heldur furðulegt og persónulegt að menn kveði upp slíka úrskurði um vinnubrögð hver annars. Við getum verið ósammála um efni máls­ins, en slíkar dylgjur eru ekki viðeigandi.

Varðandi mengunarhlutann og þátt Heilbrigðieftirlits ríkisins lét ég þau orð falla á nefndar­fundi eitt sinn, að ef ætlunin væri að reyna að knýja þetta mál fram þannig að Heilbrigðis­eftirlit ríkisins mótmælti afgreiðslu þess, þá teldi ég að málið mundi ekki ná fram að ganga. Ég get sagt það enn: Ef Heilbrigðiseftirlit ríkisins mótmælir opinberlega vinnsluleyfinu sem verksmiðjan hefur fengið, þá askil ég mér rétt, sem ég gerði með undirskrift undir nál., til að endurskoða afstöðu mína.

Við höfðum rætt ítarlega við forraðamenn Heilbrigðiseftirlitsins í n., og þeir höfðu þá með sér margumrædda umsögn sína til ráðh. og upp­lýstu n, eins og framast var hægt á þeim fundi. Þegar leyfið hafði verið gefið út sneri ég mér persónulega til forstöðumanns Heilbrigðiseftir­litsins og ræddi við hann þetta mál, eins og það stóð eftir að við höfðum báðir lesið leyfið. Það var skoðun hans að hann teldi leyfið mjög viðunandi, og hann sagði meira að segja ótil­kvaddur að hann teldi að heilbrrh. hefði staðið vel í ístaðinu fyrir hönd heilbrigðissjónarmiðanna. Og ekki var hann að hæla sjálfstæðisráðh. mér til þóknunar.

Nú er það svo, að menn geta haft mismunandi mikið sjálfstraust í þessum efnum. Margt í þessu leyfi og öðrum plöggum varðandi það er í flókn­um efnafræðilegum formúlum. Þó að leikmenn reyni að setja sig inn í þetta eftir því sem þeir best geta verður enginn ásakaður þó að hann vilji, áður en hann endanlega tekur afstöðu, heyra og jafnvel hlíta ráðum bestu sérfræðinga sem við höfum völ á. Það hef ég gert í þessu efni.

Ég mótmæli því, að þessi umsögn Heilbrigðis­eftirlitsins sé tekin sem úrslitakrafa. Það hefur komið fram í meðferð málsins að hér er um að ræða nýtt starfssvið og forráðamenn Heilbrigðiseftirlitsins vita að það er ekki hægt að draga línu og segja: Svona verður þetta að vera og öðruvísi ekki. — Þetta er meira eða minna samkomulags- og samningamál. Þess vegna setja þeir upp í umsögn sinni ítrustu kröfur sem þeir telja að komi til mála. Þeir vita að það er meira eða minna samningamál milli rn., og þá væntan­lega fyrst og fremst við aðila járnblendiverk­smiðjunnar, hver niðurstaðan verður. Þetta er skýringin á því að forráðamenn Heilbrigðiseftir­litsins eru, — eftir því sem þeir sögðu mér, ég hef ekki heyrt að þeir hafi skipt um skoðun síðan, — ánægðir með niðurstöðuna. Skýringin er sú, að þeir bjuggust aldrei við að fá allt sem þeir settu fram. Og ég hygg að það megi full­yrða að ráð sé leit að járnblendiverksmiðju sem býr við strangari kröfur en þarna eru gerðar. Það er a. m. k. ekki nema ein verksmiðja í Nor­egi sem kemst nálægt því að geta staðist þessar kröfur.

Ég ítreka, að ef Heilbrigðiseftirlitið opinber­lega mótmælir, þá mun ég og væntanlega fleiri endurskoða afstöðu mína. En við tökum ekki mark á sparðatíningi hv. frsm. Alþb. í n., þegar hann gat varla lesið sumar formúlurnar eða borið fram nöfnin á heimildarblöðum sem ein­hverjir spekingar í baknefndum Alþb. hafa fram­leitt fyrir hann.

Ég hef sagt frá því áður í umr. utan dagskrár, að alþfl.-menn hafa tekið upp tvö atriði úr hugmyndum Heilbrigðiseftirlitsins, sem raunar er gert ráð fyrir í starfsleyfinu, t. d. samstarfsnefnd, en þá er vísað í almenna samstarfsnefnd sem er í gömlu lögunum um járnblendiverk­smiðjuna. Við höfum lagt til að þetta yrði sett inn í lögin um öryggisráðstafanir á vinnustöð­um, þannig að ákvæði um trúnaðarmenn á vinnu­stað og hollustunefndir gildi um allar verksmiðjur, t. d. álverksmiðjuna og allar aðrar.

Ég vil svo í sambandi við þetta mál að lokum minna á að menn mega ekki tala eingöngu um Heilbrigðiseftirlitið og horfa á heilbrigðislög­gjöfina í þessum efnum. Það hefur gilt og gildir enn aldarfjórðungs gömul löggjöf, sem sett var árið 1952, um öryggisráðstafanir á vinnustöðum. Það var mjög góð löggjöf á sínum tíma, en hefur því miður verið framkvæmd allt of slælega. Í þessari löggjöf er ákvæði í 38. gr. sem segir, að ef talin er hætta á ferðum fyrir líf eða heilsu verkamanna, þá geti Öryggiseftirlit ríkisins, þ. e. öryggisráðið, látið hætta vinnu á viðkomandi vinnustöðum. Ef það er sýnileg hætta fyrir heilsu starfsfólksins í þessari verksmiðju, t. d. við bilun, eða verksmiðjuyfirvöldin reyndust vera þrjósk og vildu ekki hafa þann hátt á sem óskað er eftir, þá getur Öryggiseftirlit ríkisins stöðvað vinnu í verksmiðjunni. Lög hafa meira gildi heldur en úrskurðir rn., jafnvel þó að þeir veiti starfsleyfi fyrir verksmiðju.

Herra forseti. Ég mun ekki fara ítarlegar út í einstök atriði í sambandi við þetta mál. Það mætti tala um það langt mál og er raunar búið að gera það oft, en allar meginadeilur andstæð­inga málsins tel ég vera ósannaðar. Iðnn. gekk mjög á orkumálastjóra og eina 4 eða 5 ráða­menn í orkumálum og frá Landsvirkjun og spurði þá hreinlega, hvort það væri rétt, sem haldið er fram, að bygging þessarar verksmiðju mundi leiða til orkuskorts 1979–1980. Og þeir svöruðu því allir afdráttarlaust neitandi. En þm., sem telja sig vera þess umkomna að ráðast á þingfélaga sína fyrir vinnubrögð þeirra, sjá ekki eða láta sig ekki muna um það að endurtaka þessar firrur, þó að þeir hafi hlustað á 4–5 ráðamenn orkumála segja þveröfugt.

Það er fleira svona. Það var talað um að það hafi verið felld niður ósk um að verksmiðjan ætti að borga rannsóknir. Ég veit ekki betur en liður 1.2 í leyfinu segi að í samræmi við gild­andi lög og reglur skuli fyrirtækið greiða allan kostnað við þær rannsóknir og aðgerðir, sem Heilbrigðiseftirlit ríkisins telur nauðsynlegt að framkvæma og ráðh. samþykkir, til könnunar á ytri jafnt sem innri mengun, til að vernda heilsufar starfsfólks og fyrirbyggja skaðleg áhrif á umhverfi verksmiðjunnar. Heilbrigðiseftirlit ríkisins getur krafist þess að fyrirtækið láti sjálft framkvæma tilteknar rannsóknir í samráði við stofnunina að fengnu samþykki ráðh. Hv. þm. flytur langt mál um að þetta hafi verið fellt niður, af því að það er ekki á þeim stað í skýrslunum þar sem hann leitar að því. En þetta atriði er bara sett fram í leyfinu sem eitt af yfirlitsatriðum sem gildir um málið allt.

Mér er ljóst að það er margs konar áhætta fylgjandi því að ráðast í slíkt fyrirtæki sem járnblendiverksmiðjuna. Ég tel að við munum ekki geta hagnýtt okkur þá orku, sem við eigum ónotaða í landinu, án þess að ráðast í slíkt fyrirtæki. Ég tel æskilegt að byggja upp íslensk­an iðnað af þeirri stærð sem við getum alger­lega ráðið við og það verði meginþátturinn í iðnaðaruppbyggingu í landinu. En ég sé ekkert óeðlilegt við það, þó að við byggjum nokkrar verksmiðjur með aðild erlendra aðila sem geta ekki aðeins lagt til fjármuni, heldur og tækni­lega kunnáttu. Við skulum athuga að við eigum í iðnaðarsögu okkar glerverksmiðjuna og við eigum þaraverksmiðju á Reykhólum o.fl., þannig að það er ekki víst að sú tæknilega kunn­átta, sem við að vísu borgum töluvert mikið fyrir, sé einskis virði fyrir okkur. Ég lít á þetta sem einn lið iðnaðaruppbyggingar, ekki þann umfangsmesta, en lið sem við eigum að ráðast í.

Ég tel að öll vandamál varðandi mengun og hollustuhætti séu viðráðanleg og við getum með því að fylgja málum vel eftir séð til þess að í þeim efnum verði ástandið þannig að íslenskt verkafólk geti vel við unað. Þessi verksmiðja mun reynast einn af mörgum steinum til að koma upp framtíðaratvinnuvegum sem byggj­ast á því að nota ekki aðeins þær auðlindir, sem eru í sjó og í jarðvegi, heldur einnig orkulindir landsins. Þær verða ekki notaðar eingöngu nema við séum reiðubúnir til þess að gera tilraunir með orkufrekan iðnað.