18.04.1977
Neðri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3266 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Þetta var nú ljóta Njálan, sagði Sigurður skólameistari eitt sinn þegar strákur einn hafði sagt honum ýmsar sögur eftir Njáli sem hann kannaðist lítt við að væru sannar. Vera má þó að þessir útreikningar hv. 2. þm. Austurl., sem hann hefur haldið að okkur hér í hálfa þriðju klukkustund, fái að einhverju leyti staðist. Úr því verður reynslan að skera.

Þetta mál um járnblendið hefur verið mikið rætt og á sér langan aðdraganda. Saga þess er margþætt. Þar hafa ýmsir ráðamenn og sérfræðingar látið álit sitt í ljós. Og með lögum nr. 10 frá 26. apríl 1975 var ríkisstj. heimilað að stofna hlutafélag til að reisa og reka kísiljárns­verksmiðju á Grundartanga við Hvalfjörð í sam­vinnu við bandaríska stórfyrirtækið Union Carbide. Nú er það ekki ætlun mín að rekja aðdraganda þessa máls eða sögu í mörgum orð­um. rétt er þó að nefna nokkur atriði.

Það hefur orðið mönnum mikið umhugsunarefni, hvers vegna risaveldið Union Carbide óskaði eftir að hætta við fyrirhugaða þátttöku í þessum félagsskap. Sumir telja að mannaskipti í stjórn þess stórfyrirtækis hafi leitt til þess­arar niðurstöðu. Hv. 4. þm. Reykv. vek að því í ræðu sinni í dag. Aðrir segja aðalástæðuna vera þá, að forraðamönnum Union Carbide hafi ekki lítist á blikuna við nánari athugun, að því er varðar gróðavon og markaðshorfur.

Hvað sem um hinar raunverulegu ástæður má segja, gekkst fyrirtæki þetta þó inn á að greiða það sem því bar samkv. samningum þegar samvinnuslit urðu. Ég tel ekki ástæðu til að harma það að Union Carbide hætti við aðild sína að fyrirtæki þessu, miklu fremur ástæðu til að fagna því að vel metið og traust norskt fyrirtæki skyldi koma í staðinn, stutt í raun og veru af norrænu samstarfi og fjármagni úr Norræna fjárfestingarbankanum. Þó er svo að sjá og heyra að nokkurs saknaðar kenni í af­stöðu og orðum a. m. k. sumra talsmanna Alþb. út af því að Union Carbide skuli nú endanlega vera úr sögunni að þessu leyti.

Ég bendi á það, sem segir í nál. frá 2. minni hl. iðnn. á þskj. 462. Þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Auk þess er ljóst, að frv. þetta og samningur við Elkem-Spigerverket eru í ýmsum atriðum verri en upphaflegar hugmyndir um samvinnu Union Carbide, svo sem hvað varðar sölu og markaðsmál, tæknisamvinnu og mengunarvarnir.“ Og enn segir: „Union Carbide, sem upphaflega var rætt við um samstarf við byggingu verksmiðjunnar, hafði hins vegar yfir að ráða tækni til að hreinsa útblásturinn um 99% og tækni til að endurvinna úrgang hennar. Allar umr. um mengunarþátt verksmiðjunnar og veit­ingu starfsleyfis í upphafi voru því miðaðar við tæknikunnáttu hins bandaríska aðila, en með tilkomu Elkems eru nú allt önnur viðhorf uppi.“

Það er sannarlega fróðlegt og frásagnarvert að heyra talsmenn Alþb. minnast sinna forna félaga í Union Carbide með allt að því grátklökk­um saknaðarhreim í röddinni.

Niðurstaða frsm. 2. minni hl. iðnn. er því sú, að hér sé um að ræða áhættusamt glæfrafyrir­tæki hvað viðkemur arðsemi þess, eins og ástand markaðsmála er nú. M. ö. o. gengur nær öll hin langa grg. hans eða nál., alls upp á 12. bls., út á það að skeggræða um hina fjárhagslegu uppbyggingu fyrirtækisins og hæpinn fjárhagslegan grunn þess. Hann ræðir m. a. þar og einnig í ræðu sinni hér í dag um rekstrarhorfur og hæpna arðsemi verksmiðjunnar, stálmarkaðurinn eigi nú í erfiðleikum í heiminum, hráefnakostnaður. sé mikill, hallalaus rekstur sé næsta vonlaus, niðurstaða hvað viðkemur arðsemi: Fjárglæfrar. Þetta kom einnig fram hjá hv. síðasta ræðu­manni. Vonandi sýnir þetta aðallega vaxandi ábyrgðartilfinningu á svið fjármála og má það til tíðinda telja úr þessari átt.

Að vísu ræddi hv. frsm. 2. minni hl. mengunarmálin í síðari hluta ræðu sinnar, en einhvern veginn fannst mér hann skipa þeim í annað sæti.

Hv. iðnn. hefur klofnað í þrennt í þessu máli. Sá hlutinn, sem ég hef nú minnst á, leggur til að frv. sé vísað frá með rökstuddri dagskrá l. minni hl. iðnn. leggur til að frv. verði fellt. Um þetta fjallar sá minni hl. í þskj. 461. Þar segir hv. 1. þm. Norðurl. e. að vísu.

„Elkem-Spigerverket er myndarlegt og traust fyrirtæki en engin góðgerðarstofnun fremur en við er að búast. Það er ekki eins og að hafa him­ininn höndum tekið að þurfa á slíkum viðskiptum sem þessum að hrekjast frá einum auðhringnum til annars, hvort sem hann á heimilisfang í New York eða Osló.“

Ég leyfi mér að víkja að öðru sem þessi talsmaður hv. 1. minni hl. iðnn. segir undir rómversk­um lið III í sínu plaggi. Þar segir hann eitthvað á þá leið, að bak við hugmyndina um kísiljárns­framleiðsluna á Grundartanga liggi sú ímyndun, sem festi rætur hér á landi snemma á þessari öld, að leið íslendinga til hagsældar og framfara lagi í því að virkja fallvötn landsins til raforku­framleiðslu í þágu stórfyrirtækja og gilti þá einu hvort slík fyrirtæki væru innlend eða erlend, aðalatriðið væri að ná tangarhaldi á auðmagn: og tæknikunnáttu til þess að koma upp þess háttar fyrirtækjum. „Þessi stefna var ekki einvörð­ungu boðuð með köldum rökum efnishyggju og talnaspeki,“ segir þessi hv. talsmaður, „heldur allt eins með skáldlegum draumsjónum og listrænum tilfinningahita. En reynslan hefur sýnt að þessi hugsjón er blekking.“ Þarna finnst mér hann víkja, þessi hv. alþm., heldur kuldalega að aldamótamönnum okkar sem sáu í anda „knörr og vagna knúða krafti, sem vannst úr fossa þinna skrúða“ o. s. frv. En e. t. v. höfðu þeir ekki eins mikla möguleika til að koma hugsjón­um sínum og fyrirætlunum í framkvæmd og við kunnum að eiga nú á dögum. Og hann legg­ur til, eftir að hafa skrifað tvo rómverska kafla í viðbót, nr. IV og V. að frv. þetta verði fellt.

Meiri hl. iðnn. leggur til í nál. á þskj. 455 að frv. verði samþykkt, þó að fyrirvarar prýði þar undirskriftir tveggja nm. Þess er getið í nál. að margir fundir hafi verið haldnir um málið og fjölmargra upplýsinga aflað. Það kemur fram í nál. þessu, að n. hefur m. a. haft samband og átt viðræður við Náttúruverndarráð, líffræðistofn­unina, Heilbrigðiseftirlit ríkisins, Vita- og hafna­málaskrifstofuna, Járnblendifélagið, Orkustofnun og Landsvirkjun. Enn fremur hafa komið á fund til n. forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar og fulltrúi hans, ráðuneytisstjórinn í iðnrn., ritari viðræðunefndar um orkufrekan iðnað, formaður verkalýðsfélagsins á Akranesi og stjórnarmaður frá verkalýðsfélaginu á Hvalfjarðarströnd ásamt oddvita Skilmannahrepps. Það er sagt, að allir þessir aðilar hafi skýrt viðhorf sín til verksmiðju­málsins, sem voru yfirleitt jákvæð, segir þar. Einnig er nefnt í nál. að haft hafi verið sam­band við Guðmund Guðmundsson efnafræðing, stjórnarmann í Sementsverksmiðju ríkisins, og rætt við hann sérstaklega um hvort og hvernig mætti nýta ryksalla frá járnblendiverksmiðjunni í sement. Talið er að menn geti gert sér vonir um þetta atriði.

Það er ofureðlilegt, og við þurfum ekki að fara í neinar grafgötur um það, að skoðanir manna eru skiptar um gildi stóriðju fyrir íslendinga. Það má telja þetta mjög eðlilegt, þar sem um slík mál er að ræða þar sem við erum í raun­inni að feta okkar fyrstu skref á þeirri braut, þó að hins vegar megi teljast mjög óeðlilegt þegar ýmsir hv. alþm., eins og hér var bent á í dag, eru að tala um iðnað, stóriðju, nýiðnað og hvað þeir kalla þetta allt saman og hvernig þeir flokka það og eftir hvaða reglum.

Það er rétt að ýmsir óttast mengun og óheilbrigði af völdum slíkrar verksmiðju og af slíkum ótta snúast þeir gegn málinu. En hér er m. a. vitnað í skýrslu Náttúruverndarráðs til Heilbrigðiseftirlits ríkisins frá 1975, þó ég hirði ekki að lesa þá umsögn upp.

Í þessu nál. er einnig bent á reynslu umhverfisyfirvalda í Noregi. Þar er því haldið fram, að ekki hafi komið fram neinar upplýsingar sem bendi til þess að slík mengun sem talin er stafa frá slíkum verksmiðjum hafi haft skaðleg áhrif á gróður eða dýralíf. Það má einnig benda á, án vitaskuld hefur mengunarvörnum á þessu sviði fleygt fram hin síðustu ár. Tækni til þess að mæta slíkum skaðvænlegum áhrifum er með allt öðru móti núna heldur en var fyrir tiltölu­lega fáum árum. enda er starfsleyfi til handa járnblendiverksmiðjunni bundið ýmsum ströng­um skilyrðum, eins og bent hefur verið.

Þessi meiri hl. iðnn., sem ræðir mál sitt á þskj. 455, leggur til, eins og ég hef nú bent á, að frv. sé samþ.

Oft og iðulega hefur verið um það rætt, af flestum alþm., að ég ætla, að nauðsynlegt sé að skjóta fleiri styrkum stöðum undir íslenskt atvinnulíf, þó að hv. 2. þm. Austurl. minnti á þessa setningu eða svipaða í hálfgerðum háð­glósutón eða hálfkæringi áðan.

Þegar hafist var handa um fyrstu stórvirkjan­ir fallvatna herlendis var það mat hæfustu og raunsæjustu manna, að slíkt yrði óframkvæman­legt a. m. k. fyrst í stað án þess að hafa all­stóran orkumarkað. Þannig var álverksmiðjan í Straumsvík tengd Búrfellsvirkjun og Grundar­tangaverksmiðjan eða önnur stóriðja af svipuðu tagi tengd Sigölduvirkjun. þær ríkisstjórnir, sem setið hafa að völdum á Íslandi frá því að stórvirkjanir hófust, hafa lagt mikið kapp á störf og rannsóknir stóriðjunefndar eða nefndar til að leita að hentugum orkufrekum iðnaði, eins og það hefur oft verið orðað. Það er nánast hending ein, að samstarfið við Union Carbide skyldi ekki verða endanlega staðfest og innsiglað í tíð vinstri stjórnarinnar undir yfirumsjón orku­- og iðnrh. Alþb. Þetta vita allir sem vilja vita, og þetta kom mjög greinilega fram hjá hv. 4. þm. Reykv. síðdegis í dag. Hvort það samstarf hefði enst lengur eða skemur undir þeim hatti veit náttúrlega enginn, en vel má svo vera.

Hitt má svo segja, að það sé óþarfi fyrir þá ríkisstj., sem við tekur hverju sinni, að feta í fótspor frafarandi ríkisstj. Ljóst er þó að erfitt er að söðla alveg um, ekki síst í orkumálum, þar sem allar rannsóknir og undirbúningsað­gerðir eru sérlega fjárfrekar og tímafrekar, en orkueftirspurnin á hinn bóginn mjög aðkallandi og aðgangshörð.

Við þurfum að efla iðnaðinn, hvaða nöfn sem honum eru gefin, og gera hann fjölþættari. Bent hefur verið á að kísiljárnsframleiðslan sé nátengd stálframleiðslunni, sem er ein af grund­vallariðngreinum nútíma tækniþjóðfélags. Öll­um atvinnurekstri fylgir áhætta og í raun og veru margs konar mengun. Við komumst aldrei langt án þess að taka einhverja áhættu, það er deginum ljósara. Að sjálfsögðu verður að gæta hófs og hollustuhátta, sýna fyllstu gætni, leggja áhersla á umhverfisvernd. En það er allt önnur aðstaða nú og fullkomnari tækni til að hamla gegn hvers konar mengun og óhollum áhrifum í atvinnurekstri, bæði hér og annars staðar. Og það er ljóst og þess er krafist, að slíkri tækni eigi og verði beitt til hins ítrasta til að hamla gegn hvers konar skaðlegum áhrifum.

Við megum ekki gleyma því, að fyrirhuguð verksmiðja á Grundartanga er íslenskt fyrirtæki, háð löggjöf landsins, lögsögu og yfirstjórn okk­ar sjálfra. Hún á að veita mörgu fólki örugga og lífvænlega atvinnu, auka fjárrað okkar, framkvæmdagetu og gjaldeyrisöflun og stuðla að bættum lífskjörum landsmanna.