18.04.1977
Neðri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3273 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Þessar umr. eru nú orðnar langar og er nú ekki ástæða til að lengja þær mikið. En mér datt í hug núna þegar hv. 5. þm. Vesturl. fór héðan úr ræðustólnum gömul saga sem sögð var af konu sem kom í verslun og ætlaði að kaupa púður­sykur og hafa það tvö pund, og þá sagði verslunarmaðurinn: „Kíló er það nú kallað.“ Þá sagði gamla konan: „Alltaf heyrir maður nú eitthvað nýtt. Er það nú ekki lengur kallað púðursykur.“ Þetta er í fyrsta skipti í þau ár, sem ég hef hlustað á ræður hv. 5. þm. Vesturl., sem ég hef heyrt hann segja frá því að hann væri sósíalisti. Það er eitt af því sem hann hefur forðast að nefna og talið mjög fráleitt að vera að segja frá. Hins vegar hefur hann haft þann hátt á sem hann hafði áðan, og það þekkti ég vel, að hann segði frá því að það bæri ekki mikið á milli sín og framsóknarmanna. Þeir væru að vísu misjafnlega góðir, en ögn betri tegundin væri eins og hann og þess vegna ættu menn að kjósa sig, en ekki að vera kjósa Framsókn, enda hefði hún alveg nóg af atkv. á Vesturlandi. Ég man t. d. eftir því á framboðsfundunum fyrir síðustu kosningar í Vesturlandskjördæmi, að þá sagði hv. 5. þm. Vesturl.: „Hann Halldór er svo góður landbrh., það hafa ekki aðrir verið betri, og til þess að tryggja að hann verði áfram verðið þið að kjósa mig.“ Þess vegna þekkti ég þetta ósköp vel, að framsóknarmenn væru ágætir, og að hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, væri ágætis­maður nema hann færi að gera einhverjar aths. við það sem hv. 5. þm. Vesturl. segði, þá fóru gæðin af. Þetta kannaðist ég allt saman við. Ég kannaðist líka við það, að þegar hæstv. iðnrh. ásamt mér boðaði til fundar til að kynna þetta mál uppi í Leirarsveit, þá kom hv. 5. þm. Vesturl. með tvo þingeyinga og lét þá biðja um orðið á undan bændunum í Leirársveit og heimamönnum í héraði. Þetta fannst honum eðlileg kynning og passa vel. (Gripið fram í.) Ja, ég veit nú ekki nema mennirnir hafi nú verið pantaðir að norð­an, ansi fannst mér það líkt því, og ég er alveg viss um að hv. 5. þm. Vesturl. vissi vel af því.

Ég kann ekki heldur við það, og ég ætlaði hv. 5. þm. Vesturl. stærri hlut en það, þegar hann segir að við séum háðir norðmönnum af því að við eigum í fyrirtæki með þeim þar sem við höfum meiri hluta. Hverjir bregðast? Þá eru það við sjálfir sem bregðumst, en ekki norðmenn­irnir. Meira að segja er það svo í okkar pólitísku flokkum, að þar erum við ekki hver háður öðrum þó að skoðanir okkar liggi saman. Við reynum, ef ber á milli, að sameina okkur um það þegar á þarf að halda og við þurfum að koma fram málum sem máli skipta. En það þýðir ekki að við séum háðir, heldur er það ákvörðun okkar, hvers og eins, að standa að þeim málum sem flokkur okkar og ríkisstj., sem við stöndum að, kemur fram fyrir þjóðina, af því að við vitum að það gera það ekki aðrir betur. Þetta er ljóst, og ég efast ekkert um að samstarf okkar við norðmenn verður með þeim hætti að fulltrúar okkar í þeirri stjórn og því fyrirtæki hafa al­veg í fullu tré við þá. Ég er ekkert kvíðinn út af því. Ég tel að okkar menn hafi sýnt það í stærri málum og veigameiri að þeir hafa í fullu tré við erlendar þjóðir, þó miklar séu fyrir sér, og hafa sigrað þær og leitt þær sjálfir inn á rétta braut. Þessu held ég að hv. 5. þm. Vesturl. verði að gera sér grein fyrir og eigi að hafa í frásögn þegar hann fer næst að tala við kjósendur okkar þar efra og segja þeim að nú ætli hann að reyna að komast inn á þessa braut fyrir áhrif frá Framsókn.

Út af því, sem háttv. þm. Austurl. sagði hér í kvöld, þá væri það mikið verk sem ég ætti fyrir höndum ef ég ætlaði mér að fara að ræða þá ræðu alla, enda sagði einn frammi á gangin­um: Þetta er nú ekki mikið, því hann er ekki nema hálfdrættingur á við samþm. sinn á Austur­landi, hv. 3. þm. Austurl., í tíma, hann er ekki kominn upp í nema 21/2 tíma, Sverrir komst í fimm, hv. 3. þm. Austurl., á sínum tíma, svo þeir eru færir til verka þar. Hitt held ég að okkur muni ekki bera saman um, og hélt ég þó að við hefðum báðir allsæmilegt minni, að þegar ákvörðunin var tekin um Sigöldu hafi það ekki verið af þáv. iðnrh. tengt því að það væri verið að vinna að því að fá erlent fyrirtæki til að taka þátt í atvinnurekstri hér, sem keypti raforku frá Sigöldu, og þess vegna væri hægt að virkja hana í einum áfanga. Þetta tel ég mig muna, að það hafi verið stefna þáv. hæstv. iðnrh. að fara inn á þessa braut þá og hann hafi byggt ákvörð­unina um að virkja Sigöldu í einu lagi einmitt á þessu. Ég man hitt líka jafnvel, að hv. 2. þm. Austurl., þá hæstv. sjútvrh., hafði aðra skoðun á málinu. Hann var á móti málinu frá upphafi. Þess vegna er ekki um snúning frá hans hendi að ræða. Hitt kann ég ekki við og hef áður mót­mælt, að því sé haldið fram að þáv. hæstv. iðnrh. hafi staðið einn í sínum flokki um þessa skoðun. Því hef ég ekki trúað og trúi ekki enn. Ég minni á það að í aprílmánuði 1974, þegar séð var til hvers mundi draga í íslenskum stjórnmálum, þá var ráð hv. hæstv. iðnrh. sem vildi gefa út bréf til Union Carbide um það, að að afstöðn­um kosningum mundi verða staðið við samninga við þá, og ef ég man rétt, þá var það þáv. stjórn­arandstaða í Sjálfstfl. sem ekki taldi tímabært að gefa út þetta bréf. Ég treysti því að hv. 2. þm. Austurl. muni þetta eins og eg. (Gripið fram í.) Mér er alveg sama þó þú sért með þetta í þingtíðindunum. Ég veit vel um þetta mál. Og hann veit það, hv. 2. þm. Austurl., að þetta bréf vildi þáv. hæstv. iðnrh. að yrði skrifað þeim þar vestra og flokkarnir sameinuðust um það.

Nú verð ég að segja það, að mér fannst það dálítið merkilegt í dag þegar ég heyrði sakn­aðartón t. d. í ræðu hv. frsm. minni hl. yfir því, að það skyldi slitna upp úr samningum við Union Carbide, þeir hefðu verið betri en þeir norsku. Og þessa kenndi jafnvel hjá hv. 2. þm. Austurl. einnig í hans ræðu. Ég skal að vísu játa að ég þekki ekki eins vel inn á þessi fyrirtæki og hv. 5. þm. Vesturl. því hann hefur farið miklu víðar. Vafalaust hefur hann sýnt leikritið sitt núna um daginn þegar hann var fyrir vestan, ég vona að þeir hafi fengið að sjá Skjaldhamra, og þá hafa karlarnir lagast þar vestra. Ekki trúi ég öðru, því að það leikrit er gott, og ég vona hv. 5. þm. Vesturl. hafi kunnað á þeim tökin. Þess vegna er kannske saknaðartónninn núna. En það er nú fleira sem snýst, og þetta kom mér á óvart.

Það fannst mér líka koma fram í ræðu hv. 2. þm. Austurl. og fannst mér það ekki óeðlilegt af svo veraldarvönum manni sem honum, að hann gerði ráð fyrir því að þannig stæðu fyrir­tæki að rekstri, að það bæri ekki allt upp á sama dag og það gæti verið að illa gengi nú hjá þessu fyrirtækinu þó það gengi betur hjá því á morgun. Ég held að við höfum haft þá sögu að segja í öllum okkar atvinnurekstri, og það verð­ur alveg sama þótt við stöndum að atvinnurekstri með mönnum frá öðrum þjóðum. Skin og skúrir skiptast á í öllum atvinnurekstri, og ástæðan til þess að við erum að reyna að gera okkar atvinnurekstur fjölbreyttari er einmitt að reyna að verj­ast þessum áföllum sem alltaf koma upp í öllum atvinnurekstri, en auðvitað misjafnlega, geta komið upp í sjávarútvegi í dag, landbúnaði á morgun og iðnaði þriðja daginn. Það er ástæðan fyrir því að við erum að reyna að hagnýta okkur þær orkulindir sem við höfum yfir að ráða, og þ. á m. eru fallvötnin.

Hv. 2. þm. Austurl. var að tala um að hann mundi reyna að snúa framsóknarmönnum síðar meir. Ég veit nú ekki hvort á að snúa hinum í þessu máli, því ég veit ekki annað en að við hefðum sameiginlega markað þá stefnu að samstarf við erlenda aðila um atvinnurekstur hér á Íslandi væri bundið því skilyrði að við ættum meiri hl., að það færi að íslenskum lögum í einu og öllu og við reyndum að selja raforkuna á sem hagkvæmustu verði svo við gætum flýtt fyr­ir orkuframkvæmdunum og hagnýtt okkur fall­vötnin á þennan veg. Það er svo annað mál þó að þetta hafi gerst svona eins og hv. 4. þm. Reykv. lýsti í dag.

Hv. 2. þm. Austurl. lýsti þvínú yfir og það kom engum á óvart, en hann lagði nú á það áherslu og lokaði alveg augunum þá og sagði að þeir stefndu að því að fá fleiri menn inn á þing nást. Hvaða stjórnmálaflokkur gerir það ekki? Ég held að allir stefni að því, svo þetta þurfti hv. þm. ekki að segja hér.

Ég skal nú reyna að fara ekki að eyða löngum tíma í þetta mál því umr. eru orðnar langar. Ég vil aðeins minna á að það, sem hefur gengið yfir núna á s.l. ári og á þessu, er að hér hafa verið uppi í fjölmiðlum, mörgum blöðum og út­varps- og sjónvarpsþáttum umr. um að landbúnaður á Íslandi væri óverjandi og óferjandi, sauð­féð gengi á gróður landsins, það þyrfti að gefa með því sem færi út úr landinu og annað eftir því. Samt er það staðreynd í sambandi við út­flutning á landbúnaðarvörum, að fyrir ríkissjósbæturnar hagstæðar vegna þess að kjöti fylgir ull og gæra og ullariðnaðurinn er vaxtarbrodd­ur í okkar iðnaði og gerði það að verkum, þessi útflutningur á landbúnaðarvörum, að íslenska ríkið hafði 1200–1300 millj. kr. meiri tekjur á s.l. ári vegna gjaldeyrissölu og þar af leiðandi innflutnings heldur en greitt var í útflutnings­bætur. Það þarf ekki heldur að minna á það, að hér hafa verið uppi miklar umr. hjá spek­ingum, sem spá inn í framtíðina, um að allur fiskur okkar væri til þurrðar genginn. Ég tek hins vegar undir það með hv. 2. þm. Austurl., og þá þekkti ég hann og þá var hann í essinu sínu þegar hann talaði um fiskinn, að auðvitað vex fiskurinn hjá okkur á miðunum þegar við erum búnir að friða landhelgina út í 200 mílur. Til þess höfum við verið að þessu. Og þeir sem sýknt og heilagt eru að reyna að telja þjóðinni trú um að allir atvinnuvegir hennar séu að ganga til þurrðar og hún hafi í raun og veru ekkert til að lifa á, það eru spámenn sem ég hef litla löngun til þess að hlusta á.

Sama hefur verið uppi með iðnaðinn, að það er alltaf verið að reyna að predika að við getum ekki rekið okkar iðnað. Nú vil ég taka undir það, að við eigum að efla okkar atvinnuvegi af fullri orku og við höfum til þess mikla möguleika á öllum sviðum. En ég vil einnig minna á að uppbygging sú, sem við höfum haldið uppi í land­inu, hefur gerst með erlendu fjármagni. Þetta fjármagn höfum við í flestum tilfellum fengið að lani. Þannig höfum við virkjað, þannig höf­um við byggt áburðarverksmiðjuna, sementsverksmiðjuna. Þetta eru, eins og hv. 2. þm. Austurl. sagði, líka stóriðjufyrirtæki, og okkar fiskiðnaður er mesta stóriðjan í okkar landi og raunar má segja að ullariðnaður eða gæruiðn­aðurinn sé orðinn það líka.

Eitt af því, sem nú er til umr. og mest er talað um af þessum mönnum, sem þykjast vera framsýnir, er að þjóðin sé búin að taka svo mikil lán að nú megi hún engin láan taka meir. Mér finnst hjá þessum spekingum, en sem betur fer hefur ekki farið mikið fyrir slíkri speki hér í þessum umr. þó það hafi verið dalítill keimur af því, þá séu okkur sem sagt allir vegir bannaðir eða ófærir eða lítt færir. Þess háttar svartsýni vil ég ekki hlusta á. Ég vil hins vegar segja það, að ég tel að það, sem máli skipti í sambandi við viðskipti okkar við aðrar þjóðir í sambandi við atvinnumál, það sé höfuðatriði að við höfum meiri hl. í fyrirtækjunum og þau hlíti íslenskri lögsögu. Þetta er meginmálið.

Ég vil einnig segja það, og ég tel það kost við Grundartangaverksmiðjuna, að þetta er ekk­ert stórfyrirtæki. Þetta er álíka fyrirtæki og sementsverksmiðjan á Akranesi. Ég veit að ég þarf ekki að spyrja hv. 5. þm. Vesturl. að því, hann veit vel að þeir á Akranesi mundu ekki vilja sleppa sementsverksmiðjunni, en það voru til menn á þeim tíma sem töldu fráleitt að byggja hana uppi á Akranesi. Og það er nú svo, að ef við ætlum að dreifa byggðinni og efla okkar byggðir úti um landið þá liggur það m. a. í því og náttúrlega undirstaðan í því er sú, að við verðum að koma þar upp atvinnufyrirtækjum því bar fjölgar ekki fólkinu nema atvinnan auk­ist. Þetta verðum við að gera okkur ljóst. En ég tel líka mikinn kost við slík fyrirtæki eins og þetta að ekki sé um of stór fyrirtæki að ræða, heldur fyrirtæki sem falli eðlilega að því að fjölga fólki með hæfilegum hraða í þeim byggð­arlögum sem slík fyrirtæki eru sett niður í. Tel ég að Grundartangaverksmiðjan nái því takmarki. Ég tel einnig að með samningum og leyfi hæstv. heilbrrh. sé gengið frá þessum málum eins og best v erður fyrir seð. Ég efast heldur ekkert um það, ef þarf þar um að bæta, að þá muni okkar menn, sem með þessi mál fara, kunna þar full skil á og koma því í framkvæmd. Ég efast ekkert um það. Mér dettur ekki í hug að við verðum neinir undirlægjumenn í samskiptum okkar við norðmenn. Ég álít því, eins og er stefnumörkun míns flokks, Framsfl., að við getum undir vissum kringumstæðum átt fyrir­tæki með öðrum þjóðum eða þegnum annarra bjóða, enda sé þessum skilyrðum fylgt, og þannig hafi verið á þessu máli haldið frá því fyrsta og til þessa dags, að ráð sé frá þessu gengið. Ég efast ekki um að það þætti ekki mikið happaverk almennt þar efra ef við kæmum í veg fyrir bygg­ingu Grundartangaverksmiðju og hafnarinnar.