18.04.1977
Neðri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3277 í B-deild Alþingistíðinda. (2314)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er nú ljóta barnsfaðernismálið hver eigi þennan járnblendikróga sem allir eru nú að sverja af sér hver í kapp við annan. Hæstv. iðnrh. kennir hann fyrir­rennara sínum í ráðherrastarfinu. Hv. 2. þm. Austurl. sver hann bæði af sér og flokksbróður sínum. Og hv. þm. flokksbróðir minn Þórarinn Þórarinsson kennir Alþb. þennan króga og segist hafa verið viðstaddur. En ég verð nú að segja það, að það skiptir kannske ekki miklu máli hver er ættin að þessum grip. Hann er ekki gæfulegur og það er ekki ástæða til þess að binda við hann góðar vonir. Ég held að úr því að allir aðstandendur skammast sín svo fyrir þetta afkvæmi sitt, þá ættu þeir að hætta að deila um það hverjum sé um að kenna, að það skyldi koma undir, og raunar bara gleyma því, að þessi at­burður hefur átt sér stað, og gera ekki svona lagað aftur og vita hvort þeir öðluðust þá ekki meydóminn á ný.

Ég get verið stuttorður í þetta skiptið. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni við 1. umr. um málið og við umr. um járnblendisamninginn við Union Carbide árið 1975. Sú afstaða mín hefur ekkert breyst. Ég gerði mér von um það, þar sem málið hafði langa dvöl í hv. iðnn., að þá yrði það saltað þar til frambúðar eða þá að það tæki þeim breytingum að það yrði aðgengilegra. Því miður hefur raunin ekki orðið sú. Að vísu er rétt að geta þess, að einungis þrír af sjö iðnnm. fylgja frv. án fyrirvara. Hv. þm. Lárus Jónsson og hv. þm. Benedikt Gröndal var kaþólskari en páfinn í iðnn. og fús að taka alla áhættu af þessari samningagerð, og þar með sýnist mér þá að nál. sá réttnefnt meirihlutaálit. En ég verð að segja það, að mér þykir þeir hv. þm. sýna verulegan kjark og óraunhæfa bjart­sýni sem ekki ala í brjósti efasemdir um rétt­mæti þess að fylgja þessu máli eftir þær upp­lýsingar sem hafa komið í ljós við nána athugun á málinu. Rafmagnsverðið er of lágt og ráð er engin skynsemi í því að selja rafmagn eftir þessum orkusölusamningi. Orkumálastjóri hefur að vísu látið í ljós með mjög þokukenndum orðum, eins og hv. 2. þm. Austurl. benti á, í fskj. með nál. á þskj. 462, að orkuverð á forgangsorkunni verði svipað og framleiðslukostnaðarverð hjá Sigöldu ef miðað er við 40 ára afskriftatíma og 10% vexti. Það má vera að þetta sé rétt hjá honum. En þessi sala tekur ekkert mið af því raforkuverði, sem verður eftir að Krafla er kom­in í gagnið og farin að „færa ljós og yl“, og ekki heldur af orkuverði frá Hrauneyjafossi.

Þessi stefna getur ekki gengið. Það verður að reisa rönd við því að íslendingar verði sífellt að greiða niður orkuverð til útlendra stórfyrir­tækja og taka á sig sjálfir allar hækkanir. Um þetta efni höfum við hv. 1. þm. Norðurl. e. flutt till. til þál. um raforkusölu á framleiðslukostn­aðarverði á þskj. 306. Við vekjum þar athygli á aðferðum norðmanna við verðlagningu á raf­orku til orkufreks iðnaðar, en hún er breytileg á nýjum samningum eftir framleiðslukostnaðar­verði ríkisrafveitnanna norsku. Ég hef gert grein fyrir því máli hér í þessum ræðustól og þarf ekki að rifja það upp hér. En í stað þess að þessi samningur gerir ráð fyrir orkuverði 31/2 eyri yrði fyrirtækið að greiða 61/2 eyri norskan ef það yrði reist í Noregi. Svona framferði er rangt og það bindur framtíðinni byrðar sem illt er að rísa undir. Þetta fer fyrirsjáanlega eins og í Straumsvík. Verðið verður fyrr en varir allt of lágt og strax og næsta orkuver tekur til starfa eru íslenskir notendur farnir að greiða niður verðið. Það, sem kallað er afgangsorka og orku­sala í þessum samningi, er ekki raunverulega afgangsorka. Það er ráð sem Norðmenn kalla „fastkraft med afbrudsklausul“. Það á að greið­ast með 75% af forgangsorkuverði. Þetta liggur í því hverjir eru afhendingarskilmálarnir og magn orkunnar, þessar 244 gwst. á ári til jafnaðar á samningstímanum.

Ég vonaði sannarlega að hv. frsm. n., 1.þm. Suðurl., áttaði sig á málinu, en hann hefur ekk­ert lært og hann hefur heldur engu gleymt. Hann er enn þá með sömu rökin sem hann hefur alltaf haldið fram af óhugnanlegri þrautseigju um hagnaðinn af raforkusölu til álversins í Straums­vík, því miður.

Þá er það áætlun Þóðhagsstofnunar um 800 millj. kr. tap sem orðið hefði 1976 ef verksmiðj­an hefði þá verið tekin til starfa og rekin með fullum afköstum og þá miðað við skilaverð Fesils það ár, sem er auðvitað það eina raun­hæfa. Storm P. sagði að það væri erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina. Þjóðhagsstofnun þurfti ekkert að spá, því að hún þurfti bara að setja dæmið upp út frá gerðum hlutum og þekktum stærðum og reikna svo, og þeir reikn­uðu og fengu út 800 millj. kr. tap fyrir skatta. Það er von að hv. 2. landsk. þm., Benedikt Gröndal, tali hér skörulega um áhættu sem sé óforsvaranlegt að taka ekki.

Svo kemur greiðslubyrði ríkissjóðs. Hv. þm. Lárus Jónsson, einn af iðnaðarnm. í hv. d., fékk starfsmann stóriðjunefndarinnar og Seðlabank­ans og Járnblendifélagsins og guð veit hvað til þess að gera útreikninga á greiðslubyrði vegna hlutafjárframlaga. Greiðslubyrðin á að vera samkv. beim upplýsingum, sem hann var hér að leggja fram í dag, 3 400 millj. umfram tekjur til 1985, og þá eru lögð til grundvallar lan til 15 ára á 8.5% vöxtum. Þetta er gert samkv. rekstraráætlun Jánblendifélagsins sjálfs og af þessum þrígilda starfsmanni. Þá er eftir náttúr­lega bygging hafnarinnar og að sjálfsögðu sú greiðslubyrði, sem af henni hlýst. Ég er ekkert hissa á því þó að hv. þm. Lárus Jónsson skrifi nú undir með fyrirvara. Að vísu væri hreinlegra af hv. þm. að leggjast gegn fyrirtækinu eins og hv. þm. Ingvar Gíslason, vegna þess að það er engin lausn að íslendingar eigi fyrirtækið einir. Það eru miklu fleiri ókostir á frv. heldur en þessi.

Ég er ekki sammála flokksbróður mínum og formanni þingflokksins um það, að samningarnir hafi batnað mjög við það að Union Carbide sé úr spilinu, en Elkem sé komið í staðinn. Ég hef að vísu ekkert góða trú á Union Carbide. En þeir hafa sýnt það, eins og hv. þm. Jónas Árnason og Þórarinn Þórarinsson tóku eftir um árið þegar þeir voru fyrir vestan, að þeir kunna að græða hjá Union Carbide og þarna var ekki gróðavon. Menn geta svo velt því fyrir sér, hvort það hafi verið teflt eitthvert valdatafl þarna innan hringsins. Ég legg ekki mikinn trúnað á það. Ég held að það komist ekki þar að stjórnaðrir menn en þeir sem bera þó nokkurt skyn á rekstraráætlanir og hagnaðarvon.

En hvers vegna Elkem þrátt fyrir þetta allt saman leggur í þessa áhættu, að taka batt í fyrirtækinu, væri náttúrlega freistandi að velta fyrir sér. Áhætta þeirra er að vísu ekki nærri eins mikil og ÍSALs, bar sem þeir geta selt félaginu tækniþekkingu upp í hlutabréf og verðlagt hana sjálfir. Þeir gætu einnig ætlað að hagnast á sölu hráefna til Járnblendifélagsins. Japanir eru að leggja kísiljárnsmarkað heimsins undir sig, og það kann að vera að Elkem-hringurinn megi ekki vegna hluthafa sinna heima fyrir láta mikinn bilbug á sér finna. Þar kann að vera hluti af skýringunni af hverju þeir færa út kvíarnar hér. Það kann að vera að þeir eigi óþægilegt með að fá leyfi til þess að gera það í Noregi. Og svo er það nátturlega freisting þegar orkan er seld næstum helmingi ódýrar hér en ef þeir reistu nýja verksmiðju í Noregi.

Það væri ástæða til að tala langt mál um umhverfisáhrif þessarar verksmiðju, en ég ætla nú ekki að fjölyrða um þau. Það hefur verið farið nokkuð ítarlega út í það í þessum umr. og ég ætla ekki að bæta miklu við það. Það kann að vera að þetta lauslega rabb um hugsanlega notkun úrgangsefna í sementsverksmiðjunni beri ávöxt, en það verður ekki notað nema lítið af úrganginum á þann hátt og hitt verður að hrúg­ast upp til minningar um forgöngumenn verk­smiðjunnar. Það er mjög veruleg mengunar­áhætta tekin með þessari verksmiðju þrátt fyrir þau ákvæði sem í samningnum eiga að tryggja mengunarvarnir, og þau eru ekki einhlít. Það nægir að minna á að ÍSAL lofaði 1966, — ég vitna til laganna um ÍSAL með leyfi forseta, það lofaði að gera allar eðlilegar ráðstafanir til þess að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venj­ur, — ég endurtek: Góðar venjur í öðrum löndum við svipuð skilyrði. Ég rifja ekki upp hér eða nú hvernig þetta ákvæði hefur verið haldið í ál­samningnum. Það er öllum kunnugt, þó líklega sé hér einn maður inni sem vill ekki viðurkenna að neinn pottur sé brotinn í því efni.

Ég minni einnig á óæskileg þjóóðhagsleg áhrif stóriðjuvera af þessari gerð. Ég fæ ekki séð að sá glannaskapur, sem lýsir sér í því að gera þennan samning, eigi rétt á sér, að það sé forsvaranlegt að taka þessa áhættu að þarflausu. Það er skárra að fullnýta ekki Sigölduvirkjun strax. Hún er af óheppilegri stærð og heppilegra hefði verið ef hægt hefði verið að virkja í áföngum. Það væri e. t. v. hægt að hugsa sér að setja ekki niður túrbínu strax. Og þá mætti fresta Hrauneyjafossvirkjun um tvö ár, og það held ég væri skynsamlegra heldur en ráðstafa orkunni svona. Þess vegna er afstaða mín enn þá hin sama og við 1. umr. málsins, að ég legg til að málið verði fellt, því að ég tel að þarna sé ráðleysislega farið með raforku, fyrirsjáanlegt tap á rekstrinum, greiðslubyrði vegna hluta­fjár langt of þung og ömurlega farið með þetta góða land og ekki einasta það fólk, sem þarna kemur til starfa, heldur einnig það fólk, sem lifir í þessu þjóðfélagi og kemur til með að þurfa að axla þær fjárhagsbyrðar sem af þessu fyrirtæki munu fyrirsjáanlega hljótast.