18.04.1977
Neðri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3287 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Jónas Árnason:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi hér hljóðs aðan var hæstv. landbrh. enn í saln­um. Ætlun mín var að þýfga hann um svar við þeirri áskorun, sem ég beindi til hans áðan, að við héldum fund í Vesturlandskjördæmi um Grundartangaverksmiðjumálið. En hann er farinn og ekki þá svars að vænta hjá honum á þessari nóttu.

Hv. þm. Friðjón Þórðarson er hins vegar hér enn, og til hans beindi ég líka þessari áskorun. Ég tel að í tilefni þeirrar yfirlýsingar hæstv. iðn­rh. sem ég ræddi um áðan, sé þetta sjálfsagt mál, og ég vænti þess, að þessir hv. þm. séu til viðtals um þetta.

Ég verð að segja að heldur hressist maður þegar maður hlustar á ræðu eins og þá sem hér var flutt rétt áðan. Heldur sáttari verður maður við að tilheyra þeim hópi sem heitir alþm. Ég leyfi mér að þakka hv. þm. Sigurlaugu Bjarna­dóttur fyrir þau orð, þó að forsendur hennar fyrir afstöðu til Grundartangaverksmiðju séu reyndar ekki þær sem móta afstöðu mína.

Mér láðist áðan, þegar ég var að tala um Framsfl. og afstöðu hans í þessu máli og lét orð falla sem máttu kannske skiljast sem svo, að ég teldi flokkinn skipaðan næsta ósjálfstæðum einstaklingum, ef ekki bara rolum, þá láðist mér sem borgfirðingur að beina sérstökum þökkum til þeirra hv. þm. tveggja sem hér hafa gengið hiklaust fram fyrir skjöldu í baráttu gegn Grundartangaverksmiðju. Þar á ég við hv. þm. Ingvar Gíslason og Pál Pétursson. Og ég leyfi mér að beina því til þeirra, að þó að hæstv. flokksbróðir þeirra, landbrh. tali gjarnan í skopi um að tveir norðlendingar komu á fund, sem haldinn var um Grundartangaverksmiðjuna í Borgarfirði, til þess að vara borgfirðinga við og segja af reynslu sinni af verksmiðju þar nyrðra, þá vona ég að þessir tveir hv. þm. norðlendinga, ef til þess kemur að þeir þurfi einhvern tíma að halda svipaðan fund eða á liðstyrk að halda á slíkum fundi, ef á döfinni væri að reisa verksmiðju þar nyrðra af sama tagi og Grundartangaverksmiðju, þá telji þeir það ekki goðgá að kveðja til ein­hverja menn úr Borgarfirði.