18.04.1977
Neðri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3287 í B-deild Alþingistíðinda. (2317)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Það er nú liðið alllangt á kvöldið og raunar fram á nótt og ég mun ekki lengja þessar umr. mikið, en ég vildi þó aðeins með örfáum orðum koma hér í ræðustól og gera grein fyrir afstöðu minni í þessu máli.

Hv. 5. þm. Vesturl. talaði hér í kvöld og raunar við 1. umr., og það kom fram bæði þá sem og báðum ræðum hans í kvöld, að það færi furðuhljótt um afstöðu framsóknarmanna flestra í þessu máli. Hann taldi sig þó hafa haft þann aðgang að hjörtum og nýrum framsóknarmanna að hann kynni á því nokkur skil, og ég fagna því út af fyrir sig að hann fann þar vissa sam­hljóðun með honum varðandi ýmis atriði stjórn­málalegs eðlis. En hann lét orð að því liggja að flokksmenn flestir væru eins og óvitar í bandi fóstru, jafnvel þó ekki væri getið um það hver forstöðukonan væri, og það fer nú nokkuð á milli mála hvort hún var í líki fyrrverandi iðnrh. eða núv. iðnrh.

En ég vil segja það um þetta mál, að það kemur honum kannske nokkuð á óvart sem og öðrum sem fyrir fram móta ákveðna afstöðu, að mál kunni að vera þannig vaxin að þau orki nokkuð tvímælis, að það kunni að vera vanda­samt mat hvað gera skuli. Og ég verð að segja það í þessu máli, að mér þykir þetta mat nokk­uð erfitt. En ég vil líta til þess að málið á sér forsögu og hana nokkuð langa. Þetta mál er ná­tengt allri umr. um stefnu í orkumálum og við höfum í rauninni ekki mótað fyrir fram ákveðna stefnu sem fylgt hefur verið. Við höfum ekki búið við áætlunarbúskap í orkumálum.

Mér kemur það út af fyrir sig spánskt fyrir sjónir, svo sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Austurl., að umr. um fjármögnun vegna Sigölduvirkjunar hafi á engan hátt verið tengdar hug­myndum um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Það voru aðrir menn hér á vettvangi í þann tíð, og ég verð að segja það, að þá hefur almennt verið ranglega greint frá málum ef það hefur ekki verið tekið með í rekstraráætlun Sigöldu­virkjunar, þegar leitað var erlends fjármagns, að hægt væri að selja orkuna. Þar geta að sjálfsögðu aðrir betur svarað fyrir en ég. En svona hefur það komið til mín a. m. k. (Gripið fram í.) Ég hygg að ég hafi lesið bæði Tímann og ýmis önnur blöð um þetta atriði.

En við stöndum frammi fyrir lagasetningunni frá 1975, og í kjölfar hennar var Járnblendifélagið stofnað og það hafa þegar átt sér stað vissar framkvæmdir, vissar aðgerðir átt sér stað m. a. kaup á landi. Við stöndum frammi fyrir því, að til ráðstöfunar er umframorka sem ekki er seljanleg, ekki a. m. k. fyrst um sinn, ef ekki kemur til þessi umtalaða að mörgu leyti miður geðþekka stóriðja.

Við stöndum frammi fyrir því líka, að ef áætlanir stæðust um Kröfluvirkjun, þá hefðum við á næstunni enn þá meiri umframraforku til sölu. Hér er því nokkur póstur sem rétt er að líta á, teknamegin séð, enda þótt ég ætli ekki að blanda mér í umr. um það hvort orkuverðið er rétt metið eða rangt.

Við stöndum sem sagt frammi fyrir því, að við erum þarna með umframorku til að byrja með sem við komum ekki í lög. Og þá blandast þetta mál að sjálfsögðu líka inn í þær umr. og þá ákvörðun sem þegar er búið að taka um Hraun­eyjafossvirkjun.

Þetta má segja að sé af hinu jákvæða, en ég vil segja að það, sem neikvætt er, eru fyrst og fremst efasemdir um rekstrargrundvöll verk­smiðjunnar.

Ég er ekkert hræddur um það og vil ekki taka undir það, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði, að stjórnvöld á Íslandi fái eitthvað í hnén þó þeir ræði við minnihlutaaðild erlends auðhrings. Það verða þá nýir stjórnendur sem fá í hnén ef til þess kemur að þeir veita þessum sama auð­hring síðar meirihlutaaðild.

Ég er ekki hræddur við það út af fyrir sig að það verði. En ég tel hitt vera mjög erfitt að meta, hvort rekstrarútkoma verksmiðjunnar verð­ur á þann veg að við höfum hagnað af henni. Og ég hygg að þegar meta skal þetta í dag, þá sé nánast ógerlegt að segja hvor hópurinn það verður eftir svona 4–5 ár sem segir: Sjáið þið til, það vorum við sem höfðum á réttu að standa.

Það vill svo til að ég á enga forsögu varð­andi afstöðu mína til járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði, af því að ég var hér ekki viðstaddur þegar atkv. voru greidd um það frv. síðast. En eitt ákvæði er í þessum lögum, og — raunar eru fleiri ákvæði í hugmyndunum sem ég er ekki alls kostar sáttur við, — en skilyrðislaust var ég á móti einu ákvæði í því frv. sem samþ. var 1975 og er nánast óbreytt í þessum lögum, og ráð er varðandi hafnaraðstöðuna á Grundar­tanga. Ég tel að stóriðjuhafnir eigi ekki að reisa undir hafnalögum. Ég tel það vera rangt að ríkið fjármagni þessa höfn að 3/4 hlutum, enda þótt bein fjárveiting komi ekki til verksmiðj­unnar á þessu stigi, heldur verði hafnargerðin fjármögnuð með erlendu fjármagni. En að því kemur að ríkið þarf að greiða þessa skuld, og það fær engar tekjur af höfninni til þess að greiða hana vegna þess að allar tekjur hafnarinnar renna til þeirra sveitarfélaga sem koma til með að eiga höfnina. Og ef það skyldi svo fara síðar, að aftur þurfi að reisa höfn í sambandi við einhvers konar stóriðju, þá tel ég rangt að gefa enn það fordæmi að stóriðjuhafnir verði reistar á sama hátt og íslenskar fiskihafnir.

Ég held að við séum nú komnir að þeim punkti að það verði ekki á næstunni til umr. Hér á Alþ. stóriðja í því formi sem við höfum nú verið að ræða um. Ég legg á það áherslu að í öllum umr. í orkumálum verði tímanum varið til þess að stilla saman þær framkvæmdir, sem vinna þarf í landinu til að nýta orkuna, og virkjunarhraða. Og því miður eigum við eftir geysilegt óleyst verkefni á því sviði. Það nægir ekki eingöngu að leggja nýjar stofnlínur til flutnings á þessari raforku austur um land og vestur, heldur krefst ráð líka endurbyggingar á dreifikerfunum, sérstaklega í þéttbýli, hvort heldur verður tekið fjarhitakerfi með rafmagnskyndingarmiðstöð eða bein rafhitun. Þó valin verði bein rafhitun, þá kostar það líka endurnýjun á dreifikerfinu. En mér virðast öll rök í dag hníga í þá átt að fjar­hitakerfi með vatni verði hagkvæmara og að kyndistöðvar með raforku og e. t. v. svartolíu til vara verði reistar.

Hér eigum við eftir óunnið verkefni sem kostar milljarða. Og ég tel að við eigum í framtíðinni að vera tiltölulega sparir á að ráðstafa okkar orku til orkufreks iðnaðar, þangað til við erum búnir að nyta þá möguleika sem við höfum hér í landinu barði á þessu sviði sem og í ýmiss konar innlendum iðnaði. Þar eigum við líka mjög mörg óleyst verkefni þar sem þarf tæknilegan undirbúning og breytingar og tilraunir til þess að ná fram rafnotkun í staðinn fyrir olíunotkun.