29.10.1976
Sameinað þing: 12. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég ætla reyndar ekki að blanda mér inn í þessar deilur, en í raun og veru voru það orð hæstv. forsrh. í lokin, sem urðu til þess að ég stóð upp, og einnig þetta atriði um bretana.

Ég fæ ekki betur séð en bretar hafi sagt það sjálfir og gert raunar kröfu til þess að Efnahagsbandalagið sem heild kæmi fram sem samningsaðili ef samningar verða á döfinni gagnvart Íslandi. Ég sagði það strax, að kjarni málsins í þessum samningum, og því fylgdi ég þeim, en þó með þeirri forsendu, væri sá, að við réðum skilyrðislaust yfir okkar fiskveiðilandhelgi 1. des. Því fylgdi ég þessum samningum. Ef það reynist á annan veg, þá eru þeir gallaðir. En það hefur komið hér fram, og það þekkja allir þeir sem fylgst hafa með þróun á hafréttarsviðinu, að stíflan er að bresta og hver þjóðin eftir aðra tekur sér 200 mílur. Það er einnig staðreynd að Efnahagsbandalagslöndin eru nú þessa dagana að móta sina fiskveiðistefnu og ætla að koma fram sem einn aðili í heild gagnvart okkur. Við höfum þegar veitt Efnahagsbandalaginu sem slíku mikla fiskveiðiréttarsamninga, og ég sé ekki minnsta möguleika — tek það fram af því að hæstv. sjútvrh. er hér — til þess að veita þeim kg meira eftir 1. des., ekki kg um óákveðinn tíma.

Í útvarpi hældist hæstv. sjútvrh. yfir því að hafa veitt ákveðnum landshluta og ákveðnum útgerðaraðilum raunverulega flottrollið svo það væri hægt að moka sem mestum fiski upp, 4–6 ára gömlum. Þvílíkt og annað eins, ég segi það bara, að hæla sér af því eins og ástandið er. Ef einhverjir hér á hv. Alþ. eða utan dyra ímynda sér að á næstunni verði hægt að semja um aukin fiskveiðiréttindi, þá vaða þeir í villu og það alvarlega.

Gildi þessa samnings að mínu mati var eins og margra annarra, er við heyrðum fyrst um samninginn, að fiskveiðimöguleikar breta væru á enda 1. des. eða þá um nóttina. Ég trúi því ekki að menn ímyndi sér að það sé hægt að semja um einhvers konar fiskveiðiréttindi eftir 1. des., — ég trúi því ekki. Þeir hafa ekkert hingað meira að sækja því að við erum ekki aflögufærir um óákveðinn tíma. Það er alger blekking að ímynda sér það, — alger blekking.

Ég skal ekki taka þátt í deilu um formshlið málsins, hvernig það ber það. Það ber að á óeðlilegan hátt, um það verður ekki deilt. Það ber að á óeðlilegan hátt hér á Alþ. og hefði verið sæmandi að leggja það strax fyrir og ræða það strax. En það þýðir ekki að fást um orðinn hlut. Sú hlið á teningnum kemur ekki upp fyrr en í dag, þegar tímabil samningsins er næstum því á enda. Það mun koma í ljós hvernig viðurkenningin er skilin af hálfu beggja aðila, og um það þýðir því lítt að þrátta í dag. Við getum endalaust togast á um skilning á þessu orðalagi. Ég hef mína skoðun og aðrir sína. En það kemur innan skamms í ljós hvort við skiljum þetta rétt, að öllu sé lokið 1. des. algerlega. Það er meginatriði samningsins og það er megingildi samningsins.

Þó að einhver blöð séu með vangaveltur í því sambandi í Bretlandi, að það verði nýtt þorskastrið milli breta og íslendinga, þá skil ég ekki svo furðulegan þankagang, vegna þess að eftir um veiðar breskra togara: 370 því sem ég hef heyrt og lesið mér til, þá tel ég að Efnahagsbandalagsþjóðirnar séu að móta eina fiskveiðistefnu, og það er alveg furðulegt ef ein þjóð fer að taka sig út úr og reka sérstaka fiskveiðipólitík, miðað við þær fregnir og þær umsagnir sem maður sér í því sambandi. Það er því undarleg vangavelta ef mönnum dettur slíkt í hug.

Einhver kann að segja að það sé mikilvægt að hafa síldveiðimöguleika í Norðursjó, einhverja löndun eða sölu á rækju og fleiru í þessum löndum. En það eru smámunir einir gagnvart því að ætla að hleypa þeim áfram inn í okkar fiskveiðilögsögu; eins og ástandið er. Og það er alveg út í hött að vera að bera saman eitthvert fiskimagn hér áður fyrr; þegar mikið var af fiski, að það sé eitthvað hliðstætt í tonnatölu núna. Við erum að taka síðasta fiskinn með þessari ofveiði. Við erum að taka síðasta fiskinn, svo að það verður að líta á þetta hlutfallslega, en ekki bara í kílóatölu. Og það vita allir, sem um það vilja fræðast, að aldursdreifing fisksins, sem á land hefur komið, hefur verið alltaf yngri og yngri, og í því er hættan fólgin. Það skiptir því meginmáli, hvort menn eru að taka ungfiskinn eða rígfullorðinn þorskinn, og ég hélt að menn þyrftu ekki að vera að vitna í einhverjar aflatölur tugi ára aftur í tímann til þess að segja að það væri verjanlegt. Það á sér enga stoð í veruleikanum vegna áhættunnar sem því fylgir. Og áhættan er þess eðlis, að það hefur enginn maður rétt til þess að fara gáleysislega í þessu efni — ekki nokkur maður. Við ættum að læra af öðrum fisktegundum, bæði hjá okkur og öðrum þjóðum. Þorskinn getur tekið tugi ára að koma upp, og þó að vel hafi tekist til um klak í vor, þá eru 6 ár fram undan þangað til skynsamlegt er að nýta þann stofn verulega.

Ástandið er þannig á stórum hluta flotans, að þessi svokölluðu hefðbundnu þorsk- og síldveiðiskip, yngstu skipin, eru 10 ára. Ætlar ríkisstj. að leyfa endurnýjun á þeim flota sem hefur haldið uppi atvinnulífinu s.l. 15 ár að verulegu leyti? Ef eðlileg endurnýjun á að fá að hefjast, þá hlýtur afkastageta þessa flota að aukast. Ef á að fara að semja við aðrar þjóðir, þá er ekki á sama tíma unnt að leyfa eðlilega endurnýjun þessa hluta flotans, þ.e.a.s. ekki togaranna. Það eru margir, sem hefðu áhuga á því að endurnýja sín skip sem eru orðin 10–15 ára gömul og eru sum að syngja sitt síðasta og hafa skilað miklu í þjóðarbúið undanfarin ár, sérstaklega á vissum stöðum, — ég vil segja frá Hornafirði og vestur að Snæfellsnesi, og er lífsspursmál að fá að endurnýja í áföngum, en ekki í heljarstökkum, eins og oft hefur átt sér stað.

Ef ekki á að koma í veg fyrir heilbrigða og eðlilega endurnýjun togaraflotans að vel yfirveguðu ráði, þá er ekki minnsti möguleiki til að hefja samninga um einhvers konar fiskveiðiréttindi handa bretum eða öðrum þjóðum, ekki minnsti vottur af möguleika. Ég trúi því, og ég er ánægður með yfirlýsingu hæstv. utanrrh., að ekkert hafi skeð í þessa átt enn þá. Auðvitað veit ég, að hann er svo fágaður og siðprúður maður, að hann mun svara þeim á kurteislegan og góðan hátt og gera grein fyrir því að við höfum ekkert að bjóða, því er lokið og á að vera lokið. Og það er gildi þeirra samninga, sem hann stóð svo mjög í eldlínunni við að koma á og ég sagði á sínum tíma að ég styddi á þeirri einu forsendu að öllu væri lokið 1. des.