19.04.1977
Sameinað þing: 76. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3299 í B-deild Alþingistíðinda. (2330)

266. mál, útgjöld vísitölufjölskyldunnar

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur gert grein fyrir fsp. sínum. Í tilefni þessara fsp. hef ég óskað eftir því, að Hagstofa Íslands gerði þá könnun sem farið er fram á, og hefur mér borist svo hljóðandi grg. frá Hagstofu Íslands, sem ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp:

„Á þskj. nr. 440 er fsp. frá Geir Gunnarssyni til forsrh. um útgjöld vísitölufjölskyldunnar, svo hljóðandi: „Hversu mikill hluti (í krónum og hundraðshlutum) af arsútgjöldum vísitölufjölskyldunnar miðað við verðlag 1. febr. s.l. fer til greiðslu: a) aðflutningsgjalds, b) skatta af framleiðslu og söluskatts, c) verslunarálagningar. Á þskj. stendur í lið á innflutningsgjalds, en þar mun eiga að standa aðflutningsgjalds.

Hagstofan hefur áætlað hlutdeild umræddra útgjaldaþátta í framfærsluvísitölunni 1. febr. 1977 og eru niðurstöður hennar þessar:

1. Aðflutningsgjöld, ársútgjöld í kr. 91 þús., í hundraðshlutum af vísitölu 5.

2. Vörugjald, ársútgjöld í kr. 24 þús., í hundraðshlutum af vísitölu 1.3.

3. Sérstakt gjald á cif-verði bifreiða, innflutningsgjald af bensíni og hjólbörðum 25 þús. kr. í ársútgjöldum, í hundraðshlutum af vísitölu 1.4.

4. Sölugjald (20% ) ársútgjöld 202 þús. kr. í hundraðshlutum af vísitölu 11.2.

5. Verslunaralágning 225 þús. kr., í hundraðshlutum af vísitölu 12.4.

Heildarútgjöld vísitölufjölskyldunnar miðað við verðlag 1. febr. 1977 eru 1807 768 kr. Margvíslegir örðugleikar eru á áætlun þessara útgjaldaþátta og geta niðurstöður því ekki orðið nákvæmar, en varla ætti hér að skakka miklu frá réttu.

Tekið skal fram að þessi áætlun tekur einvörðungu til vöruliðs vísitölunnar nema hvað sölugjaldið áhrærir, það er reiknað af öllu sem það leggst á. Að því er varðar aðflutningsgjöld, vörugjald og verslunarálagningu er þannig ekk­ert áætlað um hlutdeild í þjónustuliðum né húsnæðislið vísitölunnar, enda miklir örðugleikar á að áætla þetta. Auk þess er hér um tiltölulega litlar fjárhæðir að ræða. Þjónustuliðir og hús­næðisliðir nema 1. febr. 1977 um 28% af heildar­útgjöldum vísitölufjölskyldunnar.

Hér fara á eftir skýringar við einstaka þætti áætlunarinnar.

Aðflutningsgjöld: Áætlun er gerð um aðflutningsgjöld á öllum erlendum vörum í vísitölunni og á nokkrum hluta hráefna innlendrar vöru, t. d. í fatnaði. Ekki eru reiknuð aðflutningsgjöld í verðlagsgrundvelli búvöru né í aðföngum inn­lendra vara, þar sem innlendur virðisauki er meginhluti af verði vörunnar. Í báðum þessum tilvikum er um smávægileg útgjöld að ræða. Á mörgum vörum eru aðflutningsgjöld mishá eftir því, hvort flutt er inn frá EFTA- eða EBE-löndum eða öðrum löndum. Er reynt að taka tillit til þessa.

Vörugjald: Reiknað er með vörugjaldi á innfluttum neysluvörum og innlendum fullunnum vörum í vísitölunni, en vörugjald á innflutt hráefni í innlenda framleiðsluvöru er ekki með­talið.

Sölugjald er, eins og áður segir, reiknað af öllum liðum vísitölunnar, einnig af þjónustu­liðum.

Verslunarálagning: Áætluð er almenn verslunarálagning, þ. e. álagning smásöluverslana (þar með brauðbúða og fisksala) og heildverslana. Yfirleitt er aðeins reiknuð smásöluálagning á innlendar vörur þar sem þær ganga beint frá framleiðanda til smásala. Þá er og ekki í áætlun þessari reiknafl með því sem hér fer á eftir.

a) Álagning á aðföng innlendra vara, t. d. í heildsölukostnaði búvöru.

b) Álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á tóbak og áfengi.

c) Smásölualagning á mjólk og rjóma. Hún kom raunar ekki til fyrr en í marsbyrjun 1977.

d) Álagning á lyf. Kaupandi greiðir aðeins hluta af verði lyfja (ca. 18–22%).

Álagning á innfluttum vörum er mishá eftir því, hvort innflytjandi selur vöruna í smásölu eða hún fer um hendur heildsala. Reynt er að meta í hverju tilviki, hvernig þessu er varið.“

Greinargerð Hagstofu Íslands var á þessa leið, og vonast ég til þess að hún gefi fullnægjandi svar við fsp. hv. þm.