19.04.1977
Sameinað þing: 76. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3301 í B-deild Alþingistíðinda. (2333)

266. mál, útgjöld vísitölufjölskyldunnar

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hefja umr. í tilefni þessara aths. hv. síðasta ræðumanns, 2. landsk. þm., en ég vil leggja á það áherslu, að ég a. m. k. hef enga tilhneigingu til þess að leyna heildarútgjöldum vísitölufjölskyldunnar svokölluðu. En ef við ætlum að draga ályktanir af þeim útgjöldum, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði, þá held ég að rétt sé að hafa í huga, og ég vona að ég fari rétt með, að vísitölufjölskyldan er samsafn og meðaltal margra fjölskyldna með mismunandi tekjur, úr mismunandi stéttum, þannig að það er e. t. v. ekki réttlátt að taka vísitölufjölskyld­una annars vegar og lægstu laun hins vegar, þótt ég vilji með engu móti með þeim orðum gefa í skyn að laun hinna lægst launuðu í þjóðfélaginu séu fullnægjandi. Ég tel þó rétt, að þetta komi fram og við gerum okkur grein fyrir því, hvernig vísitalan er reiknuð út. En það gefur mér aftur á móti tilefni til þess að hafa orð á því hér, að langt er síðan vísitölugrundvöllurinn var endur­skoðaður og þar með útreikningur vísitölunnar, svo langt að ég hygg að neysluvenjur og kröfur manna hafi breyst allmjög á því tímabili og því sé ástæða til að endurskoðun fari fram að þessu leyti.