19.04.1977
Sameinað þing: 76. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3302 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

266. mál, útgjöld vísitölufjölskyldunnar

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 7. landsk. þm. vil ég leyfa mér að segja að sú framkvæmd, sem ríkt hefur við álagningu og innheimtu söluskatts af vinnu við hús­byggingar, byggist á 1. tölul. 7. gr. l. nr. 10 frá 1960, um söluskatt, en sá tölul. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Eftirtalin starfsemi og þjónusta er undan­þegin söluskatti: 1) Vinna við húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð svo og vinna við endur­bætur og viðhald slíkra mannvirkja. Undanþága þessi tekur einvörðungu til þeirrar vinnu sem unnin er á byggingarstað, en ekki til vinnu við framleiðslu eða aðvinnslu byggingarvara í verk­smiðju, verkstæði eða starfsstöð.“

Segja má að þetta ákvæði sé nokkuð skýrt og ótvírætt og hafi ekki valdið framkvæmdarerfiðleikum, en nokkrir úrskurðir hafa þó verið kveðn­ir upp um hvort takmarkatilfelli falli undir þetta undanþáguákvæði. Að óbreyttum lögum sýnist ekki mögulegt að breyta þeirri framkvæmd sem ríkt hefur varðandi innheimtu söluskatts af vinnu við byggingar. Hinu verður ekki neitað, að þetta lagaákvæði hefur verið gagnrýnt og hef­ur sú gagnrýni einkum beinst í þá átt, að nú­gildandi lagareglur kunni að standa eðlilegri þróun og stöðlun byggingariðnaðarins fyrir þrifum. Hafa þau vandkvæði, sem af þessari reglu leiðir, farið vaxandi hin síðari ár með hækkun söluskattshlutfallsins. Þetta vandamál er alls ekki einskorðað við söluskattsálagningu á byggingariðnaðinum. á þeim 17 árum, sem liðin eru frá gildistöku söluskattslaganna, hefur töluvert gætt víxlverkana milli skattskylda sviðs­ins og söluskattshlutfallsins. Hækkandi sölu­skattshlutfall hefur gefið kröfum um undanþág­ur byr undir vængi. Því hærra verður skatthlut­fallið að vera á þeim vörum og þeirri þjónustu, sem skattskyld er, til þess að halda óskertum tekjum ríkissjóðs. Ég tel því að fara verði mjög varlega í það að veita frekari undanþágur frá söluskattsálagningu og almennt beri að forðast að líta einangrað á einstök tilvik um þetta, heldur beri að stefna að heildstæðri lausn þessara vandamála. Kemur þá vel til greina í því sam­bandi að fækka undanþágum frá söluskattsálagningu og reyna þannig að ná lækkun á skatthlut­fallinu og þá án þess að tekjur ríkissjóðs skerðist.