29.10.1976
Sameinað þing: 12. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég minntist á það að hægt hefði verið að veita leyfi til veiða með flotvörpu fyrir ákveðinn landshluta. Í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands eru ákveðnar heimildir um veiðar með flotvörpu. Ég hef verið stuðningsmaður þeirrar heimildar um veiðar með flotvörpu innan skynsamlegra marka og á þeim tímum sem við drepum ekki hrygningarfiskinn. Það hefur verið tekið upp mjög strangt eftirlit með smáfiskadrápi. Hins vegar hafa sumir menn fengið smáfisk á heilann, og það þýðir ekkert að sýna þeim annað, því að þeir trúa því að það sé ekkert nema smáfiskur á ákveðnum stöðum, þrátt fyrir það hvað veitt er og hefur verið unnið á þessum sömu stöðum. En ég vil aðeins leiðrétta það hjá þessum hv. þm., að þó að það sé misjafnt eftir landshlutum hvað eru mörg botnvörpuskip með flotvörpu, þá fer það ekkert eftir því hvaðan viðkomandi skip er gert út. Og það eru auðvitað til botnvörpuskip með flotvörpu frá fleiri en einum landshluta, meira að segja frá öllum landshlutum.

Í sambandi við þá yfirlýsingu hans, að hann hefði lýst því yfir að hann styddi Oslóarsamninginn eða þann samning, sem hér liggur fyrir, og þá með því eina skilyrði að það yrði ekki gengið til nýrra samninga eftir 1. des., þá liggur það svo ljóst fyrir og skilmerkilega, hvað sem hver og einn segir af andófsmönnum þessa samnings, að í 10. gr. segir: „Samningur þessi skal gilda í 6 mánuði frá gildistöku“ — eða strangt tekið að morgni 2. des. „Eftir að samningurinn fellur úr gildi munu bresk skip aðeins stunda veiðar á því svæði, sem greint er í hinni íslensku reglugerð frá 15. júlí 1975, í samræmi við það sem samþykkt kann að verða af Íslands hálfu.“ Nú hafa þeir ráðh., sem hafa tekið þátt í þessum umr., og ríkisstj. öll marglýst því yfir að ekki komi til greina nokkrir samningar nema um gagnkvæm fiskveiðiréttindi. Þar höfum við heitið að hlusta á aðra. Og við höfum lýst því yfir til viðbótar, að ef um gagnkvæm fiskveiðiréttindi væri að ræða, þá yrðum við að meta þau á þann hátt, að við teldum hagkvæmt fyrir okkur íslendinga að gera slíkan samning, annars ekki. Það hafa engin loforð verið gefin og þó að við séum að heyra daglega fregnir um að Efnahagsbandalagið óski eftir fundi eða samningum við Ísland, þá er þetta aðeins í fréttaskeytum frá fréttastofum, eins og hæstv. utanrrh. hefur marglýst yfir, og þarf eiginlega ekki að endurtaka. Ég skil ekki hvað hv. þm. geta oft talað um þennan sama hlut þegar jafnskýrar og ákveðnar yfirlýsingar liggja fyrir í þessum efnum. (Gripið fram í.) Já, um enn nýjan fund, og utanrrh. var að lýsa yfir að hann hefði ekkert heyrt. Ef við ættum að hlaupa eftir öllum fréttunum í íslensku blöðunum, hvað er þá mikið hald í þeim. Og við skulum ekki ætla að þau séu betri, þessi bresku eða í löndum Efnahagsbandalagsins.