19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3307 í B-deild Alþingistíðinda. (2343)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er mælt fyrir, er flutt af ríkisstj. í því skyni að fá heimild Alþ. til að setja þjóhátíðarsjóði skipulagsskrá. Stofnfé sjóðsins er ágóði af útgáfu Seðlabanka Íslands á þjóðhátíðarmynt í tilefni af 1100 ára búsetu Íslands 1974. Ráðgert er að 300 millj. kr. verði lagðar í þennan sjóð sem hafi þann megintilgang að veita styrki til stofnana og annarra aðila er vinni að varðveislu þeirra verðmæta lands og menningar sem núverandi kynslóð hefur tekið í arf. Alþm. er þetta mál kunnugt, því að ráðstöfun þessa fjár kom til umr. Hér á Alþ. í des. 1974 og að nýju í des. 1976. Þá var því lýst yfir af hæstv. viðskrh., að ágóða Seðlabanka Íslands af sölu þjóðhátíðarmyntar yrði ekki ráðstafað án at­beina Alþingis.

Samkv. lokauppgjöri Seðlabanka voru hreinar sölutekjur hans umfram allan kostnað af sölu þjóðhátíðarmyntar 337 millj. kr. miðað við uppgjörsdag 31. des. 1975. Ríkisstj. taldi eðlilegt að nokkrum hluta þessa ágóða yrði varið til þess að greiða ýmsan áfallinn kostnað vegna þjóðhátíðarinnar sem ekki hafði verið ætluð sérstök fjárveiting til að mæta. Í samræmi við þetta og fyrir tilmæli forsrh. greiddi Seðlabanki Íslands fyrir árslok 1976 rúmar 39 millj. kr. Þar af runnu rumar 25 millj. til greiðslu á lagningu Gjábakkavegar, rúmlega 9.5 millj. til greiðslu á halla af sögusýningu og tæpar 4 millj. til greiðslu á kostnaði við Íslandskvikmynd. Jafnframt greiddi Seðlabankinn á þessu ári 15 millj. kr. af tekjum af sölu þjóðhátíðarmyntar til þeirra að­ila sem standa að byggingu sögualdarbæjar í Þjórsárdal, en það fé á að nægja til að ljúka þeirri framkvæmd. Alls hefur bankinn þá greitt rumar 54 millj. kr. vegna þjóðhátíðarinnar, og hefur hluti þeirrar fjárhæðar komið af vöxtum af Þjóðhátíðarsjóðnum á árinu 1976, svo að þær greiðslur skerða ekki ráðgert stofnfé hans, 300 millj. kr.

Eins og rakið er í grg. með þáltill. hefur nú verið gengið frá reikningsskilum vegna þjóðhátíðarhaldsins og þar kemur fram að nettóskil nefndarinnar við ríkissjóð eru jákvæð um tæpar 6 millj. kr., enda eru birgðir, er Þjóðhátíðar­nefnd skilaði af sér, þá reiknaðar á bókfærðu verði og ekki er talinn kostnaður við ritun Sögu Íslands, rúmar 4.5 millj. kr., þar sem útgáfu og sölu þess ritverks er ekki lokið.

Þáltill. þessari fylgir skipulagsskrá Þjóðhátíðarsjóðs sem forsrn. hefur samið í samráði við dómsmrn. í umboði ríkisstj. á grundvelli tillagna Seðlabanka Íslands. Við gerð skipu­lagsskrár sjóðsins hefur einkum verið haft tvennt í huga: Í fyrsta lagi þótti rétt að afmarka ekki hlutverk sjóðs sem þessa svo þröngt að til baga geti orðið, því að erfitt er að sjá fyrir hvar skórinn muni helst kreppa í framtíðinni. Í öðru lagi þótti rétt að taka út úr tvö verkefni þar sem um óvenjumikla fjárþörf verður að ræða á næstu árum ef ætlunin er að hamla á móti örri og vaxandi eyðileggingu. Er hér annars vegar um að ræða náttúruvernd, en hins vegar varðveislu fornminja, gamalla bygginga og annarra menningarverðmæta sem dreifð eru um allt land. Er ætlað að binda 1/4 af ráðstöfunarfé sjóðsins til hvors þessa verkefnis fyrir sig.

Í grg. með þáltill. er að finna sérstakar álits­gerðir frá Nátttúruverndarráði, Þjóðminjasafni Íslands og húsfriðunarnefnd, þar sem þessir að­ilar gera grein fyrir verkefnum sínum og þörf sinni fyrir aukið fjármagn. Rek ég þær hug­myndir ekki frekar, en bendi á að húsafriðunar­nefnd hefur samið skrá yfir þau hús sem hún leggur til að varðveitt verði eða friðuð í náinni framtíð. Ekki má skilja framlagningu þeirrar skrár hér á Alþ. á þann veg að með henni hafi stjórnvöld fallist á allar þær till. sem þar hafa komið fram.

Hinum helmingnum af ráðstöfunarfé sjóðsins mundi stjórn hans úthluta í samræmi við megin­markmið hans, og koma þá einnig til greina viðbótarframlög til fyrrgreindra verkefna.

Þjóðhátíðarsjóður verður ávaxtaður í Seðlabankanum með hagkvæmustu kjörum. Ríkisstj. telur hugsanlegt að einhver hluti af fjármagni sjóðsins verði ávaxtaður með lánum til ríkis­sjóðs í því skyni að fjármagna framkvæmdir sem eru menningarlega mikilvægar og standa nærri verksviði sjóðsins. Þar kemur ekki síst til álíta bygging þjóðarbókhlöðu, en byggingar­nefnd hennar mun væntanlega hafa gengið frá útboðsgögnum síðar á þessu ári.

Þær raddir hafa heyrst, að rétt væri að verja ágóða af sölu þjóðhátíðarmyntarinnar til bygg­ingar þjóðarbókhlöðu, og í byrjun þessa árs, 4. jan., barst ríkisstj. bréf frá byggingarnefnd þjóðarbókhlöðunnar og fagnar hún þeirri hug­mynd, sem hreyft hefur verið á Alþ. og ýmsir hafa tekið undir, að Þjóðhátíðarsjóði verði varið til byggingar þjóarbókhlöðu. Í tilefni af þessu bréfi efndum við menntmrh. til fundar með byggingarnefndinni. Fundurinn snerist um fram­kvæmdir við byggingu þjóðarbókhlöðunnar. Þar lögðum við menntmrh. áherslu á að öllum undirbúningi að byggingu bókhlöðunnar yrði haldið áfram af fullum krafti, en hann hefur nú staðið í allmörg ár, eins og eðlilegt er um svo viða­mikla framkvæmd. Ríkisstj. er þeirrar skoðunar, að á grundvelli þess einhugar, sem. ríkt hefur um byggingu þjóðarbókhlöðu hér á Alþ., sé einsýnt að þingið muni tryggja nægilegt fjármagn til þess að hagkvæmasta framkvæmdahraða verði haldið. Hluti af eða allt stofnfé Þjóðhátíðarsjóðs getur skipt máli að fá að láni til þjóðarbók­hlöðu á næsta ári eða þar næsta í viðbót við hækkaðar fjárveitingar Alþingis, en á þessu ári er séð fyrir nægilegu fjármagni og eftir 1979 er eðlilegt að átaki því, sem beint hefur verið að framkvæmd landgræðsluáætlunar, verði snúið að fullnaðarlokum byggingar Þjóðarbókhlöðunn­ar.

Lagt er til að sjóðsstjórn verði skipuð fimm mönnum og skuli þrír þeirra kjörnir af Sþ., einn tilnefndur af ríkisstj. og einn af Seðlabanka Íslands. Í upphaflegum till. Seðlabankans var gert ráð fyrir að stjórnin væri skipuð þremur mönn­um, einum tilnefndum af ríkisstj., öðrum af Há­skóla Íslands og þeim þriðja af Seðlabankanum, en með þeirri skipan, sem ríkisstj. ákvað, kýs Alþ, meiri hl. sjóðsstjórnar. Stjórnin, sem verður ólaunuð, ákveður bæði hve miklu fé verði varið til styrkveitinga hverju sinni og hverjir styrkina skuli hljóta. Ber hún í einu og öllu ábyrgð á starfsemi og stefnu sjóðsins, en Seðlabankinn mun annast ritara- og skrifstofustörf endurgjaldslaust, en annar kostnaður greiðist af sjóðn­um sjálfum.

Eins og segir í ítarlegri grg., sem fylgir þáltill., hafa menn á síðari tímum vaknað til meðvit­undar um það, að hinar ótrúlega öru tækni­breytingar nútímans eru að eyða fyrir augum okkar óbætanlegum menningararfi og spilla mörgum fegurstu stöðum landsins. Þó reynt hafi verið að spyrna við fótum með vaxandi framlögum og verndunaraðgerðum af hálfu ríkis og annarra aðila blandast vafalaust engum hugur um þau miklu verkefni sem enn eru óunnin á þessu sviði. Má því segja að ærin verkefni bíði sjóðs sem ætlað er það meginhlutverk að vinna að varðveislu þeirra miklu verðmæta menningar og nátttúru sem við íslendingar höfum fengið í arf.

Ég vil ljúka máli mínu með því að láta í ljós þá skoðun, að sú till. til þál., sem hér liggur fyrir, sé að meginstefnu í samræmi við þá þáltill. sem allir þingflokkar stóðu að og samþykkt var á Þingvöllum 28. júlí 1974, Eins og við munum og minnst hefur verið á, tók Alþ. þá ákvörðun að verja ríflegu fjárframlagi til og með 1979 til þess að græða upp landið og vernda gróðurinn. Einhugur hefur einnig ávallt ríkt um byggingu þjóðarbókhlöðu, og því verður að treysta að Alþ. sjái því máli fjárhagslega farborða jafn­óðum og tæknilegum undirbúningi er lokið. Hvor tveggja þessi mál miða að því að varðveita og ávaxta þjóðararf. En jafnhliða þessum stóru og mikilvægu verkefnum er ekki síður mikilvægt að veita fé til að varðveita og vernda þau marg­víslegu önnur verðmæti lands og menningar sem við höfum tekið í arf, eins og lagt er til nú að gert verði með Þjóðhatíðarsjóði. Ég vona að þm. verði einhuga um þessa till. og hún hljóti skjóta afgreiðslu.

Að svo mæltu vildi ég, herra forseti, gera það að till. minni að þáltill. verði vísað til síðari umr. og fjvn.