29.10.1976
Sameinað þing: 12. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., aðeins segja örfá orð. Ég vil láta það koma fram hér alveg ótvírætt, að ég tel að sá samningur, sem gerður var við breta í vor, hafi ekki einasta verið hagstæður fyrir íslendinga, miðað við okkar aðstæður, heldur sé það stærsti sigur íslendinga í landhelgismálinu frá því að farið var að færa út fiskveiðimörkin. Og ég vil taka undir það með hv. 4. þm. Austurl., að vissulega var um sögulegan atburð að ræða þegar lokið hafði verið undirskrift þess samnings.

Ég hygg að þjóðin öll sé nokkuð sammála um þetta. Menn urðu næsta undrandi, þegar það lá fyrir og samningar höfðu verið gerðir, að íslendingum skyldi hafa tekist að knýja breta til þess samnings sem þeir undirrituðu í Osló og allir vissu að var þeim mjög óhagstæður, miðað við þær kröfur sem þeir gerðu, og að samningurinn hlaut að verða túlkaður sem undanhald og uppgjöf í samskiptum þeirra við Íslendinga í sambandi við útfærslu landhelginnar.

Það, sem hlýtur að vekja athygli einnig, er afstaða þeirra hv. þm. sem eru að andmæla samningnum. Ég er sannfærður um að hefði fyrrv. sjútvrh., hv. 2. þm. Austurl., lagt efnislega slíkan samning fyrir Alþ. þegar samið var við breta 1973, þá hefði hver einasti alþm. samþykkt þann samning. Það væri mjög fróðlegt að gera samanburð á þessum tveimur samningum, frá 1973 og þeim samningi sem nú liggur fyrir, en ég ætla ekki að fara að eyða tíma þingsins í það. Það er mín skoðun að þeir, sem nú eru að andmæla samningnum, gera það af lítilli sannfæringu. Þetta er taktík sem stjórnarandstaðan hefur tekið upp og ég tel að sé meira til að sýnast heldur en að þeir geti meint það, því ef þeir meintu eitthvað sem þeir segja í sambandi við samningana nú, þá hafa þeir vissulega gert slæman samning sjálfir 1973, sem þeir þá lögðu fyrir Alþ. og fengu hér samþykktan. Og eins og ég sagði, ég er sannfærður um að hefði sá samningur efnislega verið samhljóða því sem við nú ræðum, þá hefði hver einasti þm. með ánægju samþykkt þann samning.