19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3326 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

178. mál, raforkumál Vestfjarða

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft ákaflega mikilvægu máli fyrir Vestfirði. Orkumálin eru þar einn veigamesti þáttur í því að gera byggðir þar byggilegar og samkeppnisfær­ar við það sem annars staðar er. Í orkumálum Vestfjarða er það að sjálfsögðu markmið, að þar verði fullnægt orkuþörfinni með innlendum orkugjöfum og orkuverðið verði þar hliðstætt því eða sambærilegt við það sem gerist annars staðar í landinu. Við erum að sjálfsögðu öll sammála um þessi grundvallaratriði. Og að er augljóst mál, að það vantar mikið á að búið sé að ná þessum markmiðum á Vestfjörðum. Þar ber m. a. vott um ræða hv. flm., 8. landsk. þm., hér aðan og grg. sú sem fylgir þáltill. sem hér er til umr.

Ein meginuppistaðan í grg. fyrir þessari till. er lýsing á ástandinu í dag. Og það er ekki farið fögrum orðum um það. Það er framarlega í grg. talað um að það sé óhætt að fullyrða, að algert neyðarástand sé á næsta leiti, og síðar í grg. er sagt að þetta neyðarástand sé þegar orðið. Það er kannske að mínu viti fullsterkum litum dregið upp um þetta ástand. Þó vil ég ekkert gera lítið úr alvöru málsins og tek undir það, sem hv. flm. lagði áherslu á og var auðvitað meginkjarni í hans ræðu, að það er nauðsyn aðgerða í þessum málum á Vestfjörðum. Það er enginn ágreiningur okkar á milli um þetta atriði.

Ég sagði að það væri kannske nokkuð dökkum litum máluð myndin af ástandinu. Það er t. d. þar sem talað er um og vitnað í orkuspá og reiknuð út orkuvöntun og einnig útreikningar á kostnaði af orkuframleiðslu frá dísilstöðvum. Hv. þm. gerði grein fyrir þessu öllu saman og nefndi tölur í þessu sambandi. Þessar tölur eru umdeilanlegar. Þær eru ekki í samræmi við þá nýju samræmdu orkuspá sem hefur verið gerð fyrir landið. Þessar tölur eru nokkru hærri og gefa því ekki rétta mynd, ef gengið er út frá því að hin nýja samræmda orkuspá sé spá sem má byggja á. Ég skal ekki gera mikið úr þessu eða fara að tíunda hér hverju munar. Það skiptir í raun og veru ekki máli. Aðalatriðið er það, að það verður ekki um það deilt aðnú þarf aðgerða við til þess að sjá vestfirðingum fyrir meiri orku.

Þetta er um ástandið í dag. Hv. 8. landsk. þm. var helst til stórorður, verð ég nú að segja, þegar hann fullyrti í ræðu sinni og raunar í grg. með till., að ekkert hafi verið gert í orku­málum á Vestfjörðum að undanförnu, eins og hann tók til orða.

Ég skal nú ekki fara að tíunda hvað hefur verið gert. Það má t. d. minna á það, að gert er ráð fyrir framkvæmdum í orkumálum á Vest­fjörðum á þessu ári fyrir a. m. k. rúmar 500 millj. kr.

En það er rétt, og það vil ég ekki heldur draga neina dul á og það dregur heldur enginn dul á slíka staðreynd, að það er ekki gert ráð fyrir nú á þessu ári fjárframlögum til orkumannvirkja, virkjana á Vestfjörðum né heldur gert ráð fyrir fjárveitingu fyrir byggðalínu. En það eru þessar framkvæmdir hvorar tveggja sem till., sem við ræðum hér, fjallar um. Og það er ekki óeðlilegt, því að þarna er um að ræða þá tvo veigamestu þætti, sem þarf að snúa sér að í sambandi við framkvæmdir í orkumálum Vestfjarða.

Það er svo með byggðalínuna, að ég er alveg sammála hv. flm. svo og raunar því, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf. áðan, að það er nauð­synlegt að leggja byggðalínu svokallaða eða há­spennulínu til þess að tengja Vestfirði aðalhá­spennukerfi landsins. Ég hygg að það geti ekki verið ágreiningur um þetta. En menn geta litið nokkuð mismunandi á það, í hvaða röð fram­kvæmdir eigi að vera í orkumálunum, hvort byggðalína eigi að ganga á undan virkjun á Vest­fjörðum eða öfugt. Ég skal ekki fara hér út í umr. um það. En ég vil láta það koma hér fram, að nú er verið að vinna að undirbúningi fram­kvæmdaáætlunar fyrir Rafmagnsveitur ríkisins á næsta ári og í þeirri undirbúningsvinnu er gert ráð fyrir því, að á næsta ári verði byrjað á byggðalínu til Vestfjarða og það verði lokið að leggja slíka línu, eða háspennulínu frá Brú í Hrútafirði og í Króksfjarðarnes. Það er ákaf­lega þýðingarmikil framkvæmd Í sjálfu sér, því að með því að hafa úrtak úr þessari línu í Króksfjarðarnes er búið að tengja samveitukerfið á austanverðum Vestfjörðum, í Strandasýslu og í Austur-Barðastrandarsýslu, við aðalorkukerfi landsins, og um leið er hér kominn mikilvægur áfangi þessarar línu allt í Mjólká eða til Ísa­fjarðar, hvort heldur sem farið yrði, en um báða þessa möguleika er rætt.

Í sambandi við hinn meginþátt till. vil ég víkja aðeins örfáum orðum að Dynjanda. Hv. flm. ræddi nokkuð um þann undirbúning sem fram hefur farið að virkjun Dynjanda. Það er öllum kunnugt, að sá undirbúningur hefur staðið lengi. Og það hefur verið talað um þetta og viss undir­búningur að slíkri virkjun var hafinn jafnvel fyrir áratugum. En nú hin síðustu ár hefur þessum undirbúningi miðað svo ört áfram, að það er svo komið að það væri hægt að hefja nú hönnun mannvirkja og framkvæmdir á Virkjun í Dynjanda. Og það er svo, að einmitt virkjun þar er eina umtalsverða virkjunin á Vestfjörð­um sem hægt er að hefja framkvæmdir við svo að segja strax eða á næstunni. Annars staðar er rannsóknum ekki það langt komið — undir­stöðurannsóknum, almennum rannsóknum á virkjunarskilyrðum, að það sé raunhæft að tala um möguleika á að virkja þar alveg á næstunni.

En það hefur komið upp mál á síðustu árum eða kannske ekki nema á síðustu missirum, sem hefur gert Dynjandisvirkjun nokkru erfiðari viðfangs. Það eru náttúruverndarsjónarmið sem aldrei heyrðist áður talað um í þessu sambandi. Og ég hygg að það sé nú svo, að það verði fáir sem ljá því fylgi að virkja Dynjanda nema hægt sé að samræma þessi sjónarmið: náttúruverndarsjónarmið og virkjunarsjónarmið. Þess vegna hefur samstarfsnefnd, sem er á vegum Orku­stofnunar og iðnrn. og vinnur að því að sam­ræma þessi sjónarmið, haft Dynjandisvirkjun til meðferðar á undanförnum missirum. Og það hefur verið lögð áhersla á það, og ég hef ekki átt ófá viðtöl t. d. Við orkumálastjóra út af þessu máli, að ýta undir það, að það geti legið fyrir sem fyrst, hvort tekst að samræma náttúru­verndarsjónarmið Dynjandisvirkjun eða ekki, við séum ekki lengur að velta vöngum yfir þessum möguleika sem kynni að vera, ef hann væri eftir allt saman óraunhæfur.

Það kom sérstakur skriður á þetta mál nú s.l. vor og sérstakar rannsóknir voru gerðar í þessu sambandi allt s.l. sumar, sem ég sé ekki ástæðu til þess að vera að tíunda hér í hverju eru fólgn­ar. Og nú fyrir nokkrum vikum var svo fundur í þessari samstarfsnefnd og fundur í Náttúru­verndarráði þar sem málið var sérstaklega á dag­skrá, og málið stendur þannig núna að Náttúru­verndarráð hefur sent bréf til náttúruverndar­nefndar Vestur-Ísafjarðarsýslu, dags. 25. mars s.l., þar sem lagt er fyrir náttúruverndarnefnd sýslunnar, þar sem Dynjandi er, að kveða á um sínar skoðanir í þessu máli, og það er beðið um svar fyrir lok þessa manaðar. Ég er því að vona að það sé núna sá skriður á þessu máli sem geti leitt alveg á næstunni til úrslita, þannig að þetta mikilvæga atriði í orkumálum Vestfjarða liggi ljóst fyrir, þ. e. hvort hægt er að virkja Dynjanda eða ekki.

Ég verð því að segja, að þó að þessi till. sé allra góðra gjalda verð og ekkert nema gott um það að hún kemur fram, þá getur naumast verið sagt að hún veki af nokkrum svefni í þess­um málum. Eins og ég hef hér greint frá í stuttu máli, þá hefur þetta hvort tveggja verið til með­ferðar, bæði það sem varðar virkjun á Vest­fjörðum og sem varðar tengingu Vestfjarða við aðalorkuveitukerfið.

Hv. 2. þm. Vestf. talaði hér næstur á undan mér, og hann minntist nokkuð á Orkubú Vestfjarða. Hann gaf í skyn að það gæti verið, að umr. og fyrirætlanir um stofnun Orkubúsins hefðu tafið fyrir framkvæmdum í orkumálum Vestfjarða. Ég held að þetta hafi nú ekki orðið, og ég vil af þessu tilefni láta það koma hér fram, að þeir, sem hafa unnið að stofnun Orku­búsins, hafa á öllum stigum málsins lagt á það áherslu við forsvarsmenn vestfirðinga og sveitar­stjórnarmenn á Vestfjörðum að láta hugmyndina um Orkubúið ekki tefja fyrir neinu. Halda skyldi áfram öllum framkvæmdum sem menn væru með eða teldu æskilegar, eins og ekkert hefði í skor­ist, á þeirri forsendu að það gæti aldrei skaðað, ráð væru hlutir sem væru orðnir til þegar Orku­búið yrði á sínum tíma stofnað og væntanlega gengju þá inn í Orkubúið. Ég leyfi mér því að vona að það hafi ekki verið nein töf af þessum ástæðum.

Ég vek aðeins að því áður, að það hefði verið ýmislegt að ske í orkumálum Vestfjarða og það væri gert ráð fyrir rúmum hálfum milljarði kr. til framkvæmda í raforkumálum á þessu ári. En það má líka minna á það, að á Vestfjörðum hafa á undanförnum missirum verið ákaflega miklar framkvæmdir á sviði jarðvarmans í því formi, að það hafi verið lögð mikil áhersla á að kanna hverjir möguleikar væru á því að hagnýta mætti jarðvarma í þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum til hitaveitna eða upphitunar húsa. Eins og hv. 2. þm. Vestf. kom inn á, þá stendur þetta verk enn yfir. Það er of snemmt að vera að spá um endanlegar niðurstöður, og ég skal ekki fara út í það. En það liggur í augum uppi, að hagnýting jarðvarmans er þjóðhagslega og frá sjónarmiði vestfirðinga sjálfra hagkvæmasta leiðin til upp­hitunar húsa. Þess vegna þarf að leggja ákaflega mikla áherslu á þetta. Það er svo, að þegar at­hugað er hve þörfin á Vestfjörðum er mikil fyrir orku til upphitunar húsa, þá er hún meira en helmingur af allri orkuþörf vestfirðinga til al­mennrar notkunar, iðnaðar o. s. frv. Það gefur upplýsingar um þetta að minna á, að í orkuspá, sem gerð var á s.l. ári á vegum orkunefndar Vestfjarða, var gert ráð fyrir að orkuþörf Vest­fjarða yrði árið 1985 170 gwst., en þar af 112 gwst. til húshitunar. Af þessu er ljóst hvað það er í raun og voru mikilvægt starf sem er núna verið að vinna til athugunar á því að hagnýta jarðvarma til húshitunar, og undir árangrinum af því er líka ákaflega mikið komið. Það geta oltið á því ýmsar ákvarðanir í virkjunarmál­um o. fl.

Nú skal ég ekki vera að ræða frekar um orkumál Vestfjarða í þessu sambandi.

Hv. 2. þm. Vestf. kom nokkuð í sínu tali inn á skipulag orkumála almennt og minnti á það, að hæstv. iðnrh. hefur nú á þessum vetri skipað sérstaka n. til þess að endurskoða orkulögin og gera till. um heildarskipulag orkumála. Við hv. 2. þm. Vestf. eigum báðir sæti í þessari n. Og ég ætla að láta nægja núna í bili að ræða málið við hann á þeim vettvangi og skal því ekki fara að ræða um skipulagsmálið hér í þessum umr. En ég vil aðeins segja það, að svo best verður skipulagið að það stuðli að því að virkja alla krafta, öll þjóðfélagsöfl, allt fólk í landinu sem best til átaka í þessum efnum. Og það er trúa mín, að það verði svo best gert að fólkið í hverj­um landshluta og í hverju byggðarlagi hafi sem mest um sín eigin mál að segja í þessu efni eins og öðrum.