19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3332 í B-deild Alþingistíðinda. (2359)

178. mál, raforkumál Vestfjarða

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. iðnrh. þau svör sem hann veitti við fsp. mínum, þó að þannig hafi staðið á því miður, að mér gafst ekki tími til þess að láta hann vita af því fyrir fram að ég mundi flytja slíkar fsp., og þakka ég honum þá enn og aftur fyrir að hafa bæði viljað og getað svarað þeim fsp. sem ég beindi til hans með svo skömmum fresti. Hitt vil ég aftur á móti taka fram, að ég hélt því aldrei fram að það kynni að hafa verið ósk frá iðnrn. eða yfirvöldum orkumála um að neita þm. Vestf. um skýrslur eða áætlanir um virkjanir sem kynnu að hafa verið unnar ef þeir óskuðu eftir því. Því hélt ég aldrei fram. Það hefur engin fyrir­staða verið á því að fá slíkar skýrslur, eins og það var engin fyrirstaða þegar ég óskaði eftir að fá þessar tvær skýrslur sem ég nefndi hér sérstaklega. Það er nú einu sinni þannig, að hvorki þm. Vestf. né aðrir eiga sér sagnaranda, þannig að það getur verið að menn þurfi að hafa einhverja hugmynd um það, um hvað þeir eiga að spyrja. Og ég vil taka það sérstaklega fram og árétta það enn, að þegar ég hafði fengið þessar skýrslur í hendur, sem ég gerði að um­talsefni, þá for ég til nokkurra þingbræðra minna af Vestfjörðum — raunar allra — og þessar skýrslur komu þeim flestum — öllum, e. t. v. að einum undanteknum, jafnt á óvart og mér, og mér er ekki kunnugt um að aðrir þm. Vestf., að einum undanteknum, hafi þessar skýrslur í höndum, þannig að ef ég er sekur um aðgerðrleysi í þessu máli og vanrækslu, þá er ég ansi hræddur um að við séum allir undir sömu sök seldir þar, þm. Vestf. Ég hefði talið það hyggilegra og að mörgu leyti æskilegra að við fengjum að fylgjast með málum eins og þessu frá upphafi, fengjum að vita um það, þegar þessar skýrslur voru gerðar, og mundi telja það mjög ákjósanlegt að sá háttur væri hafður á í framtíðinni, vegna þess að það er ekki við því að búast að við getum spurt um hluti sem við höfum ekki grun um að séu fram komnir.

Ég vil enn fremur leiðrétta hér nokkuð sem kom fram hjá hæstv. ráðh., þar sem hann vitn­aði í álit Rafmagnsveitna ríkisins við fréttaauka sem lesinn var upp í útvarpi einhvern tíma í vetur. Það er ekki rétt, að engum á Vestfjörðum hafi verið neitað um rafmagn. Mér er fyllilega kunnugt um að fleiri en einum og fleiri en tveimur vestfirðingum hefur verið neitað um að fá rafmagn á næturhitunartaxta til þess að hita upp hús sín. Það hefur gerst á fáum undan­förnum árum. Áður var ekki fyrirstaða á þessu. Nú er þetta ekki lengur hægt, þannig að það er ekki rétt með farið hjá Rafmagnsveitum ríkisins að ástandið á Vestfjörðum í raforkumálum sé þannig að menn fái þar rafmagn eins og þeir óska eftir og biðja um. Ég get sérstaklega nefnt það sem dæmi, að það hefur verið óskað eftir rafmagni á næturhitunartaxta til húsahitunar fyr­ir fjölmörg ný hús sem hafa verið byggð á Patreksfirði, og mér er ekki kunnugt um annað en að öllum þeim óskum hafi verið svarað neit­andi.

Til þess einnig að svara því, sem kom fram hjá Þorv. Garðari Kristjánssyni, hv. þm., þá veit ég ekki hvað neyðarástand er í orkumálum ef það er ekki talið neyðarástand, að núna fyrir þremur vikum, eins og ég vitnaði til áðan, þrutu uppistöðulón aðalvatnsaflsvirkjunarinnar á Vestfjörðum með þeim afleiðingum að það varð að keyra allar varaaflstöðvar, dísilstöðvar, í fjórðungnum á fullu afli til þess að anna raforkuþörfum svæðisins. Ég vil aðeins benda á það, að þetta kom fram í fréttum fyrir svona þremur vikum, að þá væru uppistöðulón Mjólkárvirkj­unar þorrin og byrjað var að keyra allar dísil­stöðvar á öllum stöðum í Vestfirðingafjórðungi þar sem þær eru tiltækar. Og ég vil benda á t. d. hversu óhagkvæmt þetta er, að það kemur fram í orkuspá orkuspárnefndar, að undir slík­um kringumstæðum megi búast við allt að 44% orkutapi, sem er tvöfalt til þrefalt meira orku­tap heldur en eðlilegt getur talist og viðgengst annars staðar. Þannig hefur ástandið verið á Vestfjörðum núna í þrjár vikur, og ef það er ekki neyðarástand að á þessum tíma skuli allar varaaflstöðvar vera keyrðar á fullu og ekkert öryggi til í raforkumálum fjórðungsins, allt varaafl fullnýtt, þá veit ég ekki hvað neyðar­ástand er. Ég vil enn fremur vekja athygli á því, að það er einmitt á þessum árstíma, ein­mitt á vetrarmánuðunum, sem eiga að safnast fyrir birgðir af snjó til þess að nægja í uppi­stöðulón með leysingum á sumrin svo einhver varaforði sé til að hausti. Nú eru öll uppistöðulón Mjólkárvirkjunar þrotin og menn, sem fylgjast mikið með virkjunarmálum á Vestfjörðum, hafa þungar áhyggjur af því, að hafi ástandið verið slæmt í þessum efnumnú síðari hluta vetrar, þá keyri algjörlega um þverbak á næsta vetri.

Þessar ástæður voru fyrir því, að ég nefndi það ástand, sem ríkir í raforkumálum á Vestfjörð­um nú, hreint neyðarástand vegna þess að ef það gerist, að einhver af þessum gömlu dísil­vélum, semnú um farra vikna skeið hafa verið keyrðar á fullu afli til þess að anna raforku­þörfum svæðisins, ef eitthvað kemur fyrir ein­hverjar af þessum gömlu veitum, þá verður um að ræða hugsanlega stórfellt afurðatjón, alla vega mikla erfiðleika og vandkvæði fyrir íbúa svæðisins. Ég vil líka taka það fram, að það eru til mörg dæmi um það, bæði í vetur og í fyrravetur og veturinn þar áður, að ýmis heimilis­tæki og rafmagnstæki og jafnvel atvinnutæki, sem knúin eru rafmagni, hafi stórlega skemmst eða jafnvel eyðilagst vegna spennufalls.

Aðeins örfá orð um það sem fram hefur komið hér áður.

Það er misskilningur hjá hv. þm. Steingrími Hermannssyni, að þessi till. geri ráð fyrir því, að jafnhliða verði unnið að lagningu byggðalínu úr Hrútafirði og að byggingu virkjunar. Þvert á móti gerir till. ráð fyrir því, að þarna verði viðhöfð ákveðin framkvæmdaröðun, eins og greinilega kemur fram í till. sjálfri og eins og greinilega kemur fram í grg. Ég vil t. d. vitna í 2. mgr. grg. þar sem segir: „Till. gerir ráð fyrir að sem fyrsti kostur til úrbóta verði sú leið valin, . . . að lögð verði lína frá byggðalínu í botni Hrútafjarðar til Mjólkárvirkjunar jafn­framt lagt til að hraðað verði athugunum á líklegustu virkjunarstöðum á Vestfjöðum ­og endanlega skorið úr um hvaða virkjunar­staður sé hagkvæmastur.“ Þarna er sem sé lagt til í fyrsta lagi, að úr vandkvæðum vestfirðinga í raforkumálum verði bætt þannig, að lögð verði byggðalína úr botni Hrútafjarðar til Króksfjarðarness, síðan áfram vestur til Mjólkárvirkj­unar, þessi ákvörðun verði tekin hið allra bráð­asta, en síðar verði haldið áfram og hraðað undirbúningi að næsta vatnsaflsvirkjun á Vest­fjörðum, þannig að þegar að því kemur að slíkr­ar virkjunar sé þörf, þá verði áætlanir um þá virkjun tilbúnar, þá verði búið að velja þann virkjunarstað á Vestfjörðum sem hagkvæmastur er og brýtur ekki í bága við náttúruverndarsjón­armið. Það er því rangt að segja að þarna sé ekki um að ræða röðun verkefna. Þvert á móti fjallar till. um röðun verkefna, og það er að sjálfsögðu mjög eðlilegt að það sé lagt til að verkefnum verði raðað með þessum hætti. Ég vil benda á að það er almennt talið, að frá því að ákvörðuun er tekin um nýja vatnsaflsvirkjun líði 5–8 ár þar til vatnsaflsvirkjun þessi fari að skila frá sér raforku. Og ef ætti að bíða við núverandi aðstæður á Vestfjörðum í 5–8 ár héðan í frá eftir að úr því yrði bætt með nýrri virkjun, þá er ég hræddur um að allir væru orðnir sammála um að neyðarástand væri farið að ríkja þar löngu áður en að því kæmi. Einnig er mjög hentugt að leggja byggðalínuna sem fyrsta valkost þegar þannig stendur á að ekki er enn ljóst hversu mikill jarðhiti er finnanlegur til upphitunar á íbúðarhúsnæði á Vestfjörðum, því kostur byggðalínunnar er nefnilega einmitt sá, að það er hægt að stjórna því í samræmi við þarfir, hve flutningarnir verða örir eftir lín­unni.

Ef virkjun er byggð á staðnum, sem yrði ef til vill jafnóhagkvæm í samanburði við aðrar virkjanir og hv. þm. Steingrímur Hermannsson var að lýsa hér áðan þá yrði a. m. k. um að ræða, fyrstu árin talsverða umframframleiðslu á raforku sem ekki væri hægt að selja innan fjórðungsins og líklegt væri að vestfirskir raforkunotendur yrðu að bera baggana af í hærra raforkuverði en þeir ella þyrftu að greiða. Af þessum ástæðum báðum er mjög hyggilegt að velja þann valkostinn fyrst að byggja byggðalínu úr Hrútafirði og vestur um til Króksfjarðarness og síðan áfram til Mjólkárvirkjunar, ekki síst þegar það er vitað, að um verður að ræða talsvert mikið fram­boð á ódýrri raforku til flutnings eftir þessari línu, — raforku sem yrði ódýrari í kaupum fyrir vestfirðinga heldur en sú raforka sem þeir gætu aflað sér með virkjun heima í héraði. Og það er alveg rétt hjá hv. þm. Steingrími Hermannssyni, að Orkubú vestfirðinga getur tafið framkvæmdir í orkumálum í fjórðungnum. En það er alls ekki rétt hjá þessum ágæta þm. að Orkubú vestfirðinga þurfi að tefja framkvæmdir í raforkumálum í fjórðungnum. Ég vil aðeins í því sambandi benda á, að að sjálfsögðu er gert ráð fyrir í þessari þál­till. að það verði staðið með svipuðum hætti að byggingu byggðalínu eða Vestfjarðalínu frá byggðalínu í botni Hrútafjarðar og vestur um eins og staðið hefur verið að byggingu Norðurlínunnar sjálfrar. Það var ekki til fyrirstöðu fyrir þeirri framkvæmd að ekki var endanlega búið að fast úr því skorið hvernig ætti að skipa raforkumálum á Norðurlandi. Og það á ekki heldur að þurfa að standa í vegi fyrir slíkri framkvæmd fyrir vest­firðinga að ekki sé endanlega búið að ganga frá stofnun Orkubúsins. Nákvæmlega er þar um sama að ræða eins og gagnvart norðlendingum. Það er rétt að marka þá stefnu sem þar var mörkuð með lagningu byggðalínunnar. Sú stefna var á sínum tíma rétt, jafnrétt fyrir norðlendinga og hún er fyrir vestfirðinga, og það þarf ekki og á ekki að tefja þá framkvæmd þó að endanleg mynd sé ekki komin á skipulag raforkumála í þessum landshlutum.

Í tilbót við það, sem hv. þm. Þorvaldur Garðar sagði hér aðan um virkjanir á Vestfjörðum, get ég aðeins bætt því við, að þannig hefur verið að undirbúningi þeirra mála staðið — og vil ég þar ekki fara að ásaka einn eða neinn — að það má segja að einu fréttir, sem þm. vestfirðinga hafa haft af undirbúningi og rannsóknum á virkj­unum þar, eru eiginlega nýjar fréttir á hverju sumri um að þar séu í gangi tilraunir og athug­anir á því að veita sama vatnsmagninu ofan í nýjan fjörð, þannig að ég held að það sé búið að gera þrjár eða fjórar frumáætlanir um virkjun sama vatnsmagnsins á Drangajökulssvæðinu, og a. m. k. tvær, ef ekki þrjár áætlanir um virkjun sama vatnsmagnsins á Dynjandissvæðinu. Ég get svo bætt því við það, sem hv. þm. Þorvaldur Garðar sagði hér áðan um frumáætlanir Dyn­jandisvirkjunar, sem hann sagði, að mig minnir, að væri komið það vel á veg að nú væri ekki nema náttúruverndarsjónarmið sem stæðu þar í veginum, að ég veit ekki betur en nú á s. l. sumri hafi hjá einhverjum aðilum, sem hann e. t. v. þekkir betur til en ég, sá ágæti þm., komið upp sú hugmynd að það væri e. t. v. réttara að veita þessu vatnsmagni ofan í nýjan fjörð, þ. e. a. s. veita því ofan í Vatnsfjörð og virkja það þar og ekki með 12 mw. virkjun, eins og rætt er um hér, heldur 30 mw. virkjun í Vatnsfirði.

Og ég bið bara guð að hjálpa mér, ef þetta á að vera framhaldið á málunum, því margir eru firðirnir á Vestfjörðum og víða er hægt að leiða saman vatnið, þannig að þeir fara nú að verða fáir firðirnir sem ekki er búið að gera einhverjar frumáætlanir eða frumkannanir á hvernig leiða megi saman vatnið í.

Og ansi er ég hræddur um það, að það kunni að vera svarið þegar upp verður staðið, hvenær sem það verður, að sú frumáætlun, sem gerð er hér um Dynjandisvirkjun, reynist harla lítils virði þar sem sérfræðingarnir séu komnir að þeirri niðurstöðu, að það kunni að vera hag­kvæmara að leiða sama vatnsmagn af sama vatnasvæðinu yfir í annan fjörð, Vatnsfjörð, en ekki Arnarfjörð, og virkja þar. A. m. k. er mér tjáð, og hef ég þó haft fyrir því að afla mér þeirra upplýsinga, að ýmsir reiknimeistarar orku­ráðs eða Rafmagnsveitna ríkisins séu nú hrifn­ari af þeim hugmyndum heldur en hugmyndinni sem felst í þessu ágæta plaggi hér. Og það er ástæða þess, þetta sem ég er að segja hér, ­— það er ástæða þess, að ég legg til í seinni mgr. þessarar þáltill. að það verði undinn bráður bug­ur að því að velja sem allra fyrst þann virkjunar­kost á Vestfjörðum sem fýsilegastur er og brýtur ekki í baga við náttúruverndarsjónarmið og síðan verði kröftunum einbeitt að því að gera áætlun um virkjun á þeim virkjunarstað, gera útreikninga um kostnað við slíkar virkjunarframkvæmdir og hugsanlegt raforkuverð frá slíkri virkjun, þannig að það liggi fyrir sem valkostur þegar að því kemur að leysa þarf raforkuvanda vestfirðinga með öðrum hætti en þeim sem lagt er til í þessari þáltill. að farið verði fyrst í, þ. e. a. s. með öðrum hætti en með lagningu byggðalínu frá Hrútafirði og vestur á firði.

Ég held svo að ég hafi ekki öllu fleiri orð um þetta mál. Ég tel að þessar umr. hafi leitt það í ljós, að í rauninni séum við þm. vestfirðinga sammála í öllum meginatriðum um þessi mál. Sá lítilvægi ágreiningur, sem milli okkar er, er raunar svo lítill að það tekur því vart og alls ekki að gera hann að einhverju atriði. En ég vil þess í stað hvetja bæði þm. vestfirðinga og hæstv. iðnrh. til þess að taka þann kost, sem er lagður til í þessari þáltill. um röðun verkefna og þm. Vestf. eru í raun sammála um, ekki síst þegar svo vill til að sá kostur, sem lagt er hér til að tekinn verði, er í fullu samræmi við stefnu núv. og fyrrv. hæstv. iðnrh. um samtengingu orkuveitusvarða, er hyggilegur og nauðsynlegur fyrir þjóðarheildina og einnig eðlilegasta leiðin til þess að leysa raforkuvanda Vestfirðinga eins og hann er nú og við þekkjum hann, þm. Vestf. og aðrir vestfirðingar, að eigin reynd.