19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3337 í B-deild Alþingistíðinda. (2361)

187. mál, deildaskipting Skipaútgerðar ríkisins

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 375 hef ég ásamt hv. þm. Karvel Pálmasyni leyft mér að flytja till. til þál. um deildaskiptingu Skipaútgerðar ríkisins, svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að hefja nú þegar endurskipulagningu á starfsemi og rekstri Skipaútgerðar ríkisins, sem miði að því að henni verði skipt í tvær deildir: Austurlands- og Vestfjarðadeild, með aðsetri á Reyðarfirði og Ísafirði.

Skal tekið mið af till. stofnananefndar um þetta frá árinu 1975 og þegar á næsta þingi lagt fram frv. Hér að lútandi.“

Í grg. segjum við flm., að við sækjum okkar höfuðrök í einróma álit stofnananefndar frá árinu 1975 um deildaskiptingu Skipaútgerðar ríkisins, og er óþarfi að vitna frekar í það, það er í grg. En í þessari grg. er á það bent, að hér sé um töluvert atriði fyrir hvorn landshluta að ræða og einnig muni þetta hagkvæmara að mörgu leyti til þess að þjóna betur þeirri starfsemi, sem Skipaútgerð ríkisins á að annast. Það er ekki gert ráð fyrir því að flytja höfuðstöðvar Skipaútgerðarinnar frá Reykjavík engu að síður, en í hvorum landshluta væri skip og hvorri deild um sig mundu auk áhafnanna fylgja 5–10 menn. Og við bendum á það í lokin, flm., að einn þeirra nm., er að þessu áliti standa, er núv. forstöðumaður byggðadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, Bjarni Einarsson, en mjög væri eðlilegt að fela byggðadeild að vinna að þessu verkefni ásamt viðkomandi rn, og stofnuninni sjálfri.

Ég vil aðeins minna á það hér til þess að tefja ekki um of tímann, að á þinginu 1973–74 fluttu þeir hæstv. núv. menntmrh. og hv. þm. Karvel Pálmason þáltill. um smíði eða kaup strandferðaskips, og þar er mjög vikið að hinni miklu og brýnu þörf sem á því sé að starfsemi Skipaút­gerðarinnar sé sem allra mest og best og þjón­usta hennar sem best. Við þær umr. kom ég með þessa skoðun, sem ég hafði lengi haft, að rétt væri að Skipaútgerðin að hluta til væri staðsett á Austurlandi og að hluta til á Vestfjörðum með sinni nauðsynlegu sjálfsöðu aðstöðu í Reykja­vík.

Ég leyni því sem sagt ekki, að í þessari stofnananefnd, þar sem ég átti sæti, kom ég þessari hugmynd á framfæri og hún var þar samþykkt af öllum nm.

Á undanförnum áratugum hafa alltaf öðru hvoru verið uppi um Skipaútgerð ríkisins marg­ar hugmyndir, m. a. hugmyndir um að leggja hana hreinlega niður og ekki langt síðan sú till. kom fram, Út í það mál skal ekki farið hér. En við vitum að nú stendur fyrir dyrum nokk­ur endurskipulagning á aðstöðu Skipaútgerðar­innar. Nýr forstjóri hennar hyggst leggja sig fram um það að gera aðstöðu hér í Reykjavík til vörumóttöku og vöruafgreiðslu miklum mun betri en verið hefur, og á þann hátt viljum við flm. leggja mikla áherslu, einmitt að gera aðstöðuna hér viðunandi og í raun sem allra besta. ha aukast líkurnar á betri og bættri þjónustu Skipaútgerðarinnar í heild.

Um hinn mikilsverða þátt þessa fyrirtækis í öllu er lýtur að vörudreifingu úti á lands­byggðina á liðnum árum mætti vissulega margt gott segja. Sá þáttur hefur verið og á að vera sem mestur og bestur. Þar hefur e. t. v. ekki alltaf verið á haldið sem skyldi og ekki heldur veittur nægur skilningur eða fjármagn til að gera hlut­ina nógu vel. En mestu hefur þó ráðið hin öra þróun annarra flutninga með bílum og flugvelum, sem út af fyrir sig er margt gott um að segja, en geta þó aldrei leyst allan vanda, enda fjar­stæða í landi eins og okkar að nýta ekki til fulln­ustu þá ágætu flutningaleið sem sjórinn er.

Nú liggja flm. ekkert á þeirri skoðun sinni, að þeir vilja sem allra mest af vöruflutningum beint til hafna á landsbyggðinni án beinnar óþarfrar viðkomu í Reykjavík og þess mikla aukakostnaðar er í því felst. Þetta er jafnnauðsyn­legt að gera þrátt fyrir þessa till., því auðvitað halda viðskipti og vörudreifing margs konar áfram engu að síður þó gert yrði verulegt átak að flytja vöru erlendis frá beint til aðalhafnar í hverjum landsfjórðungi sem höfuðreglu t. d.

Við flm. höfum séð margar og miklar ritsmíðar um það frá þessari ágætu stofnun einmitt, því miður, hve tillögugerð af þessu tagi væri fjarstæðukennd, og við vitum að það stafar m. a. af því, að þar hrýs mörgum manni hugur við því að eiga að fara að róta sér úr áaratuga farvegi. Rétt er það, ef sú skipan, sem nú er á þessum málum, hefði gefist afburðavel, þá væri skiljan­legt að mótrök kæmu frá stofnuninni. En í sömu ritsmíðum er oft að finna dapurlega kafla um dæmi þess, hve þetta fyrirkomulag hefur gefist illa, ekki að vísu fyrirkomulagsins vegna, heldur miklu fremur vegna almennrar vanrækslu ráðandi aðila og jafnvel beins vilja til að leggja fyrirtækið niður, svo sem uppi hafa verið ákveðn­ar raddir um hér á Alþingi.

Við fengum í nefndarstarfinu í stofnana­nefnd að kynnast þessari dæmalausu tregðu sem hjá mörgum forstöðumönnum eða fyrirsvars­mönnum var fyrir hendi gegn öllum breytingum, hvers eðlis sem þær svo voru. Þetta var auðvitað misjafnt mjög, en þessi ágæta stofnun var þar síður en svo undantekning á hinn neikvæðari veg.

Þessi till. getur orðið til þess, þegar hún verð­ur rædd í betra tómi og að fleiri áheyrendum viðverandi og þá einkum þeim, sem hafa barist fyrir því að leggja þessa stofnun niður með öllu, hún getur orðið til þess að efla þá ágætu menn til frekari umr., og það vonum við að rætist þó síðar verði.

Ég efa það sem sé ekki að ýmsum þyki sem skipting af þessu tagi, þar sem skipin væru rek­in í sitt hvorum landshluta með þó vissri yfir­stjórn hér syðra, en að öðru leyti með mikla heimastjórn, sé fasinna ein. Sumir væru eflaust á því, að það ætti að fela einhverju Suðra­fyrirtæki eða einhverjum ámóta aðila að annast þessa vöruflutninga, og eflaust eiga þessar raddir eftir að heyrast og þær koma síður en svo á óvart.

Við höfum ekki frekar en stofnananefnd gerði á sínum tíma athugað þá rekstrarmöguleika, sem hér eru á, og þá annmarka, sem því kunna að vera samfara. Eflaust eru þeir einhverjir. En við efumst ekki um að þetta sé fullkomlega jafnmögulegt og að reka þessi skip héðan frá Reykjavík. Um það efumst við ekkert. Og tími flutninga á sjó er síður en svo liðinn hér við ströndina, og allra síst ætti það að vera þegar hafnarskilyrði hinna fjölmörgu staða hafa stór­batnað og öll aðstaða í landi einnig til að taka á móti vörum.

Ég vil líka taka það fram, að við flm. erum síður en svo að taka neinn spón úr aski norð­lendinga, eins og einnig hefur heyrst, með því að setja þetta í okkar landshluta, þ. e. setja þessar deildir niður á Ísafirði og á Reyðarfirði, svo Akureyri yrði þarna afskipt. Vitanlega er það alger fjarstæða. Við vitum að til Akureyrar er einmitt um margar góðar vörur að gera til að sækja. En við vitum hins vegar að hljóðlaust og átakalaust gengur þessi breyting ekki fyrir sig og að mörgu þarf að gæta.

Það er nú einu sinni svo, að það er verið að tala mikið um útþenslu kerfisins, þessa margumtalaða kerfis. Það vill nú svo til að þessi útþensla gerist nokkurn veginn sjálfkrafa hér á þessu svæði. Það er aukið við starfslið jafnt og þétt. Það eru settar upp nýjar deildir á deildir ofan. En það vill oft verða svo, ef vikið er að slíku úti um land, að þá kippast menn við og finnst semnú sé fyrst að verða aukning á þessu sama kerfi, og þá fyrst fara sumir að tala um óeðlilega yfirbyggingu og þó fyrst og fremst um hina miklu óhagkvæmni sem af slíku leiðir.

Menn hafa sagt að rekstur skipa af þessu tagi væri enn vonlausari austur á Reyðarfirði og vestur á Ísafirði en þó nokkurn tíma hér og væri þó langt til jafnað. Þetta er vitanlega sagt út í hött. Hringinn í kringum landið er ýmiss konar rekstur með ágætum, og við efumst ekki um að sú yrði raunin með þessi skip einnig ef þar væri vel að staðið og kannske sérstaklega ef dug­legur heimaaðili, — þar eigum við ekki við einkaaðila, heldur sérstaklega aðila sem starfaði á vegum eða í tengslum við sveitarfélögin, ­sæi um reksturinn í samráði við stofnunina hér syðra sem áfram héldist að sjálfsögðu, á þann veg, að hér yrði framkvæmdastjóri sem hefði ekki aðeins yfirsýn um allan rekstur, heldur annaðist sérstaklega þann þátt sem lyti að Reykjavík og vörudreifingunni þaðan.

Það er mikill misskilningur, sem fram hefur komið eða ég hef orðið var við, m. a. frá ágætum manni sem hefur haft mikil afskipti af mál­efnum Skipaútgerðarinnar, að með þessu móti eigi að skipta Skipaútgerð ríkisins í þessar tvær deildir og hún eigi að hverfa frá Reykja­vík. Það er mesti misskilningur, því að aðstaðan hér er vitanlega svo mikilvæg að það er útilokað að fella hana niður og dytti engum heilvita manni í hug.

Það má segja að þetta mál sé ekki nægilega vel undirbúið hjá okkur flm., það þyrfti að rann­saka ýmsa þætti þess vel. En við leggjum áherslu á að það þarf að gera með jákvæðu hugarfari gagnvart þeirri breytingu, sem við teljum síður en svo ofraun. Það kann líka vel að vera að einhverjum þyki sem allir útreikningar þyrftu nú þegar að koma inn í þessa mynd, þ. e. hver kostnaður yrði af breytingunni. Auðvitað vit­um við að hann verður nokkur. Hann verður það við hverja þá framkvæmd sem miðar að auknu jafnvægi í þessum efnum. En hér er auðvitað um að ræða alveg sérstaklega þjónustu við landsbyggðina og þess vegna er eðlilegt að sú þjónusta sé staðsett sem allra mest úti á landsbyggðinni.

Ég held að það sé enginn vafi á því, að stofnanadreifing almennt sé einn stærsti liðurinn í því að lagfæra ýmislegt sem orðið hefur á undanförnum árum varðandi jafnvægisleysi í byggð landsins. Við flm. tökum það skýrt fram, að við erum hér alls ekki að fitja upp á einhverju því, sem er allra sjálfsagðast eða brýnast. Það má auðvitað endalaust deila um það, hvað eigi þar að gera og við getum auðvitað fallist á það að gjarnan mætti ýmislegt á undan eða jafnhliða ganga.

Ég vildi t. d. benda á það sérstaklega, að það er einn sjálfsagður hlutur sem ég vona að gerist innan skamms, og það er að Skógrækt ríkisins flytjist á þann eðlilega stað sem alltaf hefði átt að vera höfuðstaður og um leið aðalbækistöðv­ar fyrir þá stofnun, sem sé austur á Hallorms­stað. Kannske verður það líka gert. Það hefur ekki a. m. k. fengið andbyr nema í mjög þröngum hópi þröngsýnustu embættismanna.

Ég vil sem sagt til þess að stytta mál mitt nú vísa í álit og ýmislegt það sem kom fram í stofnananefnd á sínum tíma, að ekki skyldi þar að neinu rasað, en líka gert það sem unnt væri til þess að koma hér á hreyfingu. Einstakar ríkisstofnanir hafa stígið umtalsverð skref í attina. En betur þarf að gera og fleiri inn í myndina að koma. Með þessari till. er hreyft við einum þætti sem mjög hefur á ýmsan veg til umr. verið.

Hvaða örlög till. þessi fær í endurflutningi á næsta þingi, því við gerum okkur ljóst að hún fær enga afgreiðslu nú á þessu þingi, skal ég ekki um segja. Eflaust kemur þá upp spurningin um Skipaútgerð ríkisins í heild, hvaða rétt hún eigi á sér og hvort hún eigi að vera til. Margir af þeim, sem hafa haldið því fram að það ætti að leggja Skipaútgerð ríkisins niður — því erum við flm. algerlega andvígir, — þeir hafa sagt, að skiparekstur almennt væri betur kominn í hönd­um einstaklinga. Við vitum að það eru traust skipafélög hér á landi, eins og Eimskip og Skipadeild SÍS. En hitt er einnig til og nýleg dæmi eru þar um, að það er ekki allt fengið með frjálsræðinu og einkarekstrinum í þeim efnum frekar en í öðru.

Ég hef líka séð langa útreikninga frá fyrrv. forstjóra þessa fyrirtækis um hina miklu óhagkvæmni sem yrði af þessari tillögugerð. Ég virði þar vissulega margt, en ég tek það ekki algilt. N. kannaði á sínum tíma eða lét kanna möguleika hér á, það var glöggur aðili sem vann að þessu fyrir n., og ég ætla ekki að fara að rekja það frekar hér, en hann sá þar fleiri kosti en ókosti, m. a. vegna snertingar við þjónustusvæðið.

Það er talað um að rekstrarmöguleikarnir séu minni, eins og ég hef vikið að áður. Við sjáum engu meiri vandkvæði á því að reka á þessum stöðum þessi skip heldur en hér í Reykjavík, allra síst þegar um það hefur verið jafnmikið kvartað af forsvarsmönnum þess fyrirtækis og raun ber vitni, hvað erfitt væri um rekstur þeirra hér á þessu svæði.

Þetta skapar vissulega ýmis vandamál sem ég skal ekki heldur fara náið út í hér, vegna þess að ég er nú þegar kominn fram yfir þann tíma sem ég lofaði að hafa til þessarar fram­sögu. Vandkvæðin eru t. d. í sambandi við skip­verja, sem nú eru þegar á þessum skipum, og ýmsa menn, sem að þessu starfa. En hér er ekki um óyfirstíganlega erfiðleika að ræða. Ég veit a. m. k. ef ætti að flytja sömu stofnun frá landsbyggðinni og til Reykjavíkur, þá væri þetta ekki talið vandamál, síður en svo, og þar mundi enginn gera neinar athugasemdir. Sem betur fer, þá fer þjónustuaðstaðan úti á landsbyggð­inni ört batnandi og atvinnuástand þar hefur farið batnandi einnig, og vonandi á ekki eftir að koma afturkippur í það. Það er þess vegna ekki hægt að vorkenna mönnum — það að flytjast frá þó þessu gósenlandi hér á höfuð­borgarsvæðinu út á land, ekki í neinu tilliti í raun og veru, ef sú þróun fær að halda áfram sem við höfum verið að fá örlítinn forsmekk af núna á allra síðustu árum.

Ég veit ekki til hvaða nefndar eiginlega á að vísa þessu máli. Það hefur sennilega í för með sér kostnað, svo að réttast væri e. t. v. að vísa því til fjvn. Hér er um atvinnumál að ræða og mætti þess vegna vel flokkast undir atvmn. Og svo mætti vísa því til þeirrar n. sem virðist nú vera að verða ein allsherjarruslakista hér í Sþ., þ. e. a. s, allshn., sbr. það að þangað er mörgu vísað, en fátt sem þaðan hemur aftur, svo að ég hygg að ég leggi út í það að treysta þeirri n. þó best til þess, sem ég sjálfur er í, og legg til að þessari till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.