19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3341 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

109. mál, skipan raforkumála

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Í fjarveru 1. flm. þeirrar till., sem hér er á dagskrá, Magnúsar Kjartanssonar, mun ég segja hér nokkur orð um þessa tillögu.

Flm. að þessari till. eru, auk Magnúsar Kjartans­sonar, þm. Halldór Ásgrímsson, Benedikt Gröndal og Magnús T. Ólafsson, en till. fjallar um skipan raforkumála.

Aðalefni þessarar þáltill. fjallar um skipan raforkumála. Þar er lögð áhersla í fyrsta lagi á að slá því föstu sem einu meginverkefni í skipan raforkumála, að allt raforkukerfi landsins skuli samtengt og aðalorkuflutningskerfið lúti einni heildarstjórn.

Í öðru lagi er svo á það lögð áhersla, að komið verði upp einu virkjunarfyrirtæki fyrir allt land­ið, svonefndri Íslandsvirkjun, sem taki að sér orkuframleiðslu og rekstur á aðalorkuflutningsfyrirtækjum, og að þessi Íslandsvirkjun verði í eigu ríkissjóðs og sveitarfélaganna.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í þessari till., að þetta orkufyrirtæki, Íslandsvirkjun, fái einkarétt til þess að reisa og reka raforkuver og aðalorkuflutningslínur í landinu, en þó er gert ráð fyrir að þau orkufyrirtæki, sem þegar hafa rekstur með höndum í landinu, geti haldið áfram sínum rekstri ef þau kjósa það. En sem sagt, það er gert ráð fyrir því að þau haldi ekki áfram að bæta við sig virkjunum eða auka sína starfsemi.

Þá er gert ráð fyrir því í till., að Íslandsvirkj­un verði rekin í sérstökum deildum, landfræði­lega afmörkuðum deildum, til þess að reyna að koma þar á nokkurri heimastjórn viðkomandi aðila.

Í till. er síðan gert ráð fyrir því, að á þessum megingrundvelli taki ríkisstj. að sér að undirbúa löggjöf um skipan raforkumála og frv. að slíkri löggjöf verði lagt fyrir Alþ. svo fljótt sem kost­ur er á.

Í till. er einnig vikið nokkuð að dreifingar­kerfinu sjálfu og gert m. a. ráð fyrir því, að Rafmagnsveitur ríkisins, sem hafi þá með hönd­um nokkurn hluta af dreifingu raforkunnar, verði reknar sem sérstök landshlutadreifiveita, þannig að það sé tryggt að heimaaðilar í hverju héraði eða á hinum afmörkuðu landssvæðum geti haft með að gera almennan rekstur og haft áhrif á það, hvernig er staðið að málum.

Þetta eru svona nokkur meginatriðin sem till. byggist á.

Ég vil taka það fram, að þessi till., eins og kemur fram í grg. sem fylgir með till., hefur verið unnin á alllöngum tíma og var m. a. leitað til ýmissa þekktra forustumanna í sambandi við raforkumál landsins. Er þar sérstaklega getið fyrrv. raforkumálastjóra og orkumálastjóra, Jakobs Gíslasonar.

Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum, að það er mikil þörf á því, ég held að allra dómi, að koma sér sem fyrst niður á fastara og betra form en nú er ríkjandi varðandi skipan raforku­málanna í landinu. Það er mikil nauðsyn á því að nálgast ráð stig sem fyrst, að landið sem heild verði samtengt, þannig að hægt sé með eðlilegum hætti að velja fyrir landsmenn alla hvern þann virkjunarkost sem telst vera hag­stæðastur á hverjum tíma og út frá heildar­sjónarmiðum séð, og það mundi auðvelda mjög marga hluti og gera t. d. miklum mun auðveld­ara að koma á fullkominni jöfnun á raforkuverði og öðru því, sem mjög er umtalað í þess­um efnum, auk þess sem það mundi að sjálfsögðu auðvelda stórkostlega að tryggja öllum landsmönnum nokkurn veginn svipað öryggi til þess að hafa næga raforku á hverjum tíma.

Því miður gat hv. 1. flm. þessarar till., sem hafði lagt mikla vinnu í hana, fyrst sem ráðh. að reyna að koma saman samkomulagi um þessi mál, — hann hefur ekki haft aðstöðu til þess að tala hér fyrir henni. Hann hefði gert það í miklu ítarlegra máli en ég sé ástæðu til að gera nú.

Mér er ljóst að ef samkomulag gæti tekist um skipan raforkumála í meginatriðum á þeim grundvelli, sem þessi till. gerir ráð fyrir, þá væri stórum áfanga nað varðandi þetta þýðingar­mikla mál. Með þessum grundvelli, sem hér er hent á, er gert t. d. ráð fyrir því að það mikla fyrirtæki á þessu sviði, sem nú er rekið í land­inu, þ. e. a. s. Landsvirkjun, garti haldið áfram sínum rekstri, en hins vegar ekki ætlast til þess að hún í því formi, sem hún er nú, stækkaði frá því sem orðið er, heldur tæki hér við svonefnd Íslandsvirkjun og Landsvirkjun gæti að sjálf­sögðu gengið inn í það fyrirtæki þegar henni þætti það henta, og það mundi sennilega verða með tímanum.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, af því að ég veit að hér er um knappan tíma að ræða, tel ekki þörf á því. En ég legg til að að loknum fyrri hluta umr. verði till. vísað til allshn. til athugunar.