19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3345 í B-deild Alþingistíðinda. (2366)

196. mál, þjóðaratkvæði um prestskosningar

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það stendur nú þannig á, að ég er sá eini af flm. að annarri till., sem varðar þessi málefni, sem er staddur hér í þingsalnum í kvöld, og ég vil ekki alveg láta þetta mál fram hjá mér fara. Ég skal játa það, að ég er nú kannske ekki ákafastur stuðningsmaður þeirrar till. sem ég er sjálfur flm. að ásamt fleirum, en hef þó gerst flm. till. nú tvívegis um skipun n. til þess að endurskoða lög um veitingu prestakalla. Ég geri það af einlægum áhuga mínum á því, að það sé kominn tími til þess að endurskoða þessi lög frá 1915 um veitingu prestakalla og það sé mjög nauðsynlegt að við förum að gera okkur grein fyrir því, hvort þessi lög verka á þann veg sem til var ætlast í upphafi. Það er að vísu rétt, sem menn hafa bent á, að þessi lög hafa lengi staðið og áttu sér áreiðanlega á ýmsan hátt eðlilegan aðdraganda þá. En hitt er annað mál, að það er nú svo með suma löggjöf, að hún á það til að úreldast og ekki víst að hún eigi alltaf jafnvel við. Ég er þeirrar skoðunar að lög um veitingu prestakalla og um kosningu presta hafi ekki gefist nægilega vel og þess vegna sé ástæða til þess að endurskoða lögin, og vel gæti ég hugsað mér að þau lög yrðu endurskoðuð allrótækt eða þeim verði breytt allverulega. Og þess vegna hef ég gerst flm.till. á þskj. 352, sem hv. 1. flm. þessa máls hefur gert hér að umræðuefni.

Ég get líka sagt það einmitt í tilefni af þeirri till., sem hér er til umr. um þjóðaratkvgr. íslendinga um prestskosningar, að ég er einnig og hef lengi verið mikill áhugamaður um það, að þjóðaratkvgr. sé beitt meira en gert er, og ég sé ýmislegt gott við það. Ég held að þetta sé nú aðferð sem er lýðræðisleg og getur átt sinn þátt í því að auka áhuga manna á þjóðmálum. Hins vegar er það jafnljóst, að það er nokkuð vandasamt oft að velja mál til að bera undir þjóðaratkv. og það er engan veginn sama hvernig það fer fram. Vel má nú vera að það sé hugsanlegt, að þjóðin sé látin skera úr í þessu efni í almennri þjóðaratkvgr. Það má vel vera. Ég vil alls ekki hafna þeirri hugmynd fyrir fram að svo kunni að vera. Ég get ekki látið hjá líða að minnast þess í sambandi við þjóðaratkv, almennt, að það var einmitt till. frá mér og hæstv. núv. dómsmrh., þáltill. sem hér var samþykkt fyrir einum 10 árum eða svo, sem einmitt fól í sér að kanna það, hvort ekki ætti að gera meira að því að hafa þjóðaratkv. um mál, þannig að það kemur mér ekkert á óvart og það stríðir ekki gegn skoðunum mínum þó að slík till. komi fram. Og vil ég alls ekki gera neitt lítið úr því að slík till. sem þessi komi fram, og ég efa ekki að þeir hv. flm., sem að henni standa, gera það af mjög góðum hug, og ég tek það ekki á nokkurn hátt illa upp þó að þeir flytji þetta mál, sem þó fer auðvitað nokkuð í aðra átt en sú till. sem ég stend að.

Það er auðvitað alveg rétt, sem hv. 1. flm. till. sagði, að á ýmsan hátt er þetta mál í sjálfheldu. Kirkjuþing, sem er sérstök stofnun á vegum kirkjunnar þar sem sæti eiga þó leikmenn og prestar saman og fjalla um kirkjuleg málefni, þetta þing hefur fjallað mjög oft um þessi mál og sent sínar ályktanir til Alþ. með beiðni um að gera mál Kirkjuþings að sínum. En það hefur ekki mátt verða af einhverjum ástæðum, og er út af fyrir sig hugleiðingarefni hvernig á því stendur, að Alþ. skuli forsóma svo mjög margítrekaðar ályktanir Kirkjuþings. Þegar við aftur hyggjum að öðrum þingum, sem hér eru haldin, við skulum nefna bæði Fiskiþing og Búnaðar­þing, þá þykir það vera mikið keppikefli og metnaðarmál þm. að gera ályktanir þessara þinga að sínum. Það er nokkurt hugleiðingarefni hvern­ig á því stendur að Alþ. er þannig sinnað, að það hefur ekki áhuga á því að gera málefni Kirkjuþings að sínum. Þetta er nokkurt hugleið­ingarefni, og í rauninni er það hugleiðingarefni, hvernig á því stendur hvað er erfitt að fá umr. hér á Alþ., svo að gagn sé að, um kirkjumálefni, um málefni kirkjunnar, sem er svo langsamlega elsta menningarstofnun þjóðarinnar fyrir utan Alþ. að varla kemst annað í samjöfnuð nema Alþ. eitt. Það er dálítið einkennilegt hvað menn hafa lítinn áhuga á málefnum kirkjunnar og er eiginlega leitt til að vita, því að það er sú stofnun, vil ég meina, sem ekki einasta helst, heldur vinnur hér í landinu einna merkast og best starf í menningarlegum efnum og félagsmálefnum og andlegum mál um, eins og henni ber. En svona er nú þetta, að Alþ. hefur lítinn áhuga á málefnum Kirkjuþings, og þykir mér það undarlegt í sjálfu sér að svo skuli þurfa að vera.

Ég hef dálitla tilhneigingu til þess eins og fleiri þm. að líta stórt á þau málefni sem um hefur verið fjallað á Fiskiþingi og Búnaðarþingi, og yfirleitt held ég að það hafi verið mjög til gagns fyrir löggjafarstarf að hafa við að styðjast ályktanir þess háttar stéttarþinga, ef svo má segja. Þess vegna þykir mér undarlegt hvað áhugi þm. er lítill á málefnum Kirkjuþings og hvað mönnum hættir til að gera lítið úr starfsemi Kirkjuþings. En þetta er ekki bara hvað varðar kirkjuna og þau andlegu málefni, sem hún fjallar um. Eins og ég segi, þá er kirkjan einhver elsta og merkasta stofnun sem við eigum með þjóðinni og þurfum að rækja. Þetta er raunar svo um miklu fleiri mál efni sem snerta menningar- og félagsmál. Þau fást naumast rædd hér á Alþ. nema á hlaupum á milli þess sem við erum eitthvað að jagast um kröfugerð, fjármál og efnahagsmál. Og oft finnst mér að þetta setji heldur leiðinlegan blæ á Alþ. og umr. þar.

Ég skal ekki fara ítarlega út í þessi mál eða ræða um prestskosningarnar sérstaklega mikið. Ég hef lýst því og það hefur komið fram áður hjá mér, að ég hef ekki trú á því, að prests­kosningar séu þess háttar fyrirbæri að ástæða sé til að setja það á vetur öllu lengur. Það er mesti misskilningur að prestskosningar séu lýðræðislegar. Ég sagði hér í þingræðu fyrir nokkr­um árum, þegar þetta var til umr., að það minnti mig miklu frekar á fasistalýðræði heldur en lýð­ræði, því að þarna er verið að kjósa menn nánast til lífstíðar, en ekki til ákveðins tíma, eins og er eðli allra lýðræðislegra kosninga. Hins vegar mun það tíðkast í fasistaríkjum, að menn eru kosnir til lífstíðar og geta svo sagt upp starfi sínu þegar þeim sýnist. En mér skilst að prest­arnir geti setið svo lengi sem þá lystir, þannig að lýðræði er þetta náttúrlega ekki. Það yrði þá, ef þetta á að vera lýðræðislegt, að taka upp ein­hverjar nýjar reglur og kjósa prestana til ákveð­ins tíma, þannig að ég held að það sé ekki rétt að nota það orð yfir þetta. En þegar ég ber þessar till. hér saman, þá auðvitað er mér það ljóst, að þær fara sín í hvora áttina og er ekkert við því að segja. Hins vegar fjalla þær um sama málefni, og ég gleðst yfir þeim áhuga sem fram kemur hjá þessum hv. þm. um að reyna að finna leið til þess að fá þetta mál úr sjálfheldu, eins og 1. flm. orðar það. Ég tel hins vegar eðlilegt að bæði þessi mál verði rædd í sömu þn. og um þau fjallað nokkurn veginn samtímis.